Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 11:36:35 (2755)

2002-12-13 11:36:35# 128. lþ. 57.18 fundur 438. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn# (aðild starfsmanna að málum Evrópufélaga) þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[11:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta mál er nokkuð athyglisvert, fróðlegt fyrir hv. þingmenn að gefa því gaum, því að það felur í sér kannski tvenns konar skírskotun. Annars vegar eru þessi svonefndu Evrópufélög, hin merkustu fyrirbæri, því í reynd er þetta liður í algerri samræmingu löggjafar í hinu verðandi evrópska stórríki, að menn geti stofnað einhvers konar Evrópufyrirtæki sem óháð ríkisfangi starfi á öllu svæðinu á grundvelli tiltekinna lagaákvæða þannig að að þessu leyti eru löndin að renna saman og rétturinn.

Hitt sem málið felur í sér og er aðalefni tilskipunarinnar sem hér er á ferðinni er að tryggja aðild starfsmanna í þessum fyrirtækjum eða þátttökufélögum um stofnun Evrópufélags að þessi réttur eða aðild starfsmanna eins og hann er tryggður í landslögum hvers lands haldi sér, hann skerðist á engan hátt. Og hvað er hér verið að tala um, herra forseti? Jú, það er verið að tala um atvinnulýðræði. Það er verið að tala um þann lögvarða rétt sem starfsmenn í mörgum Evrópulöndum eiga til þess að hafa áhrif, sitja í stjórnum fyrirtækja, koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Það er hollt fyrir Alþingi Íslendinga að velta þessu fyrir sér og fá þessa áminningu vegna þess að óvíða, ef nokkurs staðar í Evrópu, er réttur launamanna lakari að þessu leyti en einmitt hér á Íslandi. Hann er nánast ekki til staðar. Það eru engin pósitíf ákvæði sem tryggja áhrif starfsmanna á stjórnun fyrirtækja, jafnvel ekki stórfyrirtækja eða stórra stofnana sambærileg við þau t.d. sem gilda í Þýskalandi eða Svíþjóð. Það er helst að við náum samanburði við Suður-Evrópulönd, Spán eða Portúgal, þar sem þessi réttur er hvað veikastur og nánast á sama grunni og hér.

Það er líka hollt fyrir Alþingi vegna þess að á borðum þingmanna liggur annað frv. um að henda einmitt út úr stjórnum heilbrigðisstofnana fulltrúum starfsmanna en þar hefur þó verið kannski einhver merkasti vísir að atvinnulýðræði sem íslensk löggjöf hefur geymt, að starfsfólk allra stærstu heilbrigðisstofnana í landinu, sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og fleiri slíkra stofnana, hefur átt lögvarinn rétt á fulltrúa sínum í stjórnum þessara stofnana. Og það er eins og við manninn mælt, herra forseti, að vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri gjörir. Hér leggur hæstv. ríkisstjórn fyrir tillögu um að tryggja þennan rétt í gegnum þessa Evróputilskipun, að tilurð Evrópufélaga verði í engum tilvikum til þess að réttur starfsmanna að þessu leyti tapist. Þetta mun að vísu því miður hafa hverfandi ef nokkur áhrif hér á landi vegna þess að þessi réttur er ekki til staðar en okkur ber, eins og kunnugt er, að fullgilda tilskipunina engu að síður. En á nákvæmlega sama tíma er ríkisstjórnin á ferðinni með frv. sem gengur algerlega í gagnstæða átt, að draga úr atvinnulýðræði og slá af einhvern merkasta vísi þess sem fundist hefur hingað til í íslenskri löggjöf, þ.e. fulltrúa starfsmanna heilbrigðisstofnana í stjórnum þeirra stofnana.

Svona er þetta nú, herra forseti, og ég taldi ástæðu til þess að vekja athygli hv. þingmanna á þessu. Ég tel að sjálfsögðu að rétt sé að samþykkja þessa tillögu og, ef eitthvað væri, láta þetta verða sér áminning um að það þarf að taka betur á í þessum efnum hér á landi. Við erum verulegir eftirbátar þeirra landa, t.d. hinna Norðurlandanna sem við miðum okkur gjarnan við og trúum því á hátíðisstundum að við séum jafnokar hvað varðar ýmis réttindamál af þessu tagi. Að sjálfsögðu á þetta líka að vera hæstv. ríkisstjórn og okkur öllum hvatning til þess að falla frá þeirri fráleitu hugmynd að slá af stjórnir heilbrigðisstofnana með þeim hætti sem frv. um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu gerir ráð fyrir. Í því fælist m.a. að fulltrúum starfsmanna í þessum stofnunum yrði hent út úr stjórnunum eða þeir töpuðu þeim áhrifum á stjórn stofnananna vegna þess að stjórnirnar yrðu hreinlega lagðar niður.