Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 11:43:40 (2757)

2002-12-13 11:43:40# 128. lþ. 57.18 fundur 438. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn# (aðild starfsmanna að málum Evrópufélaga) þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[11:43]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Ágústi Einarssyni um mikilvægi þess að tryggja áhrif starfsmanna innan fyrirtækja og stofnana. Hins vegar er það ekki alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Ágústs Einarssonar að verkalýðshreyfingin hafi verið sofandi á verðinum í þessu efni. Þetta hafa verið kröfur hennar um langt árabil og ég minni á að í kjarasamningum sem opinberir starfsmenn gerðu við ríkið upp úr 1980, ég hygg að það hafi verið 1981, voru sett ákvæði um að tryggja áhrif starfsmanna í stofnunum. Þetta samningsákvæði var aldrei framkvæmt að fullu en þó gerðist það í ýmsum stofnunum. Ég held að það sé frá þessum tíma sem starfsmenn fengu aukin áhrif í heilbrigðisstofnunum og í útvarpinu t.d. fengu starfsmenn fulltrúa í framkvæmdastjórn stofnunarinnar vegna þessara samningsákvæða.

En aðeins í tengslum við þessa umræðu er mjög mikilvægt að fram fari rækileg umræða um þessar þáltill. um EES-samninginn. Ég gat um það í fyrri umr. um þessi ákvæði fyrir fáeinum dögum, þar sem skírskotað er í lög um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum, að fyrir þinginu hefur legið frv. sem miklar deilur risu um milli verkalýðshreyfingar og ríkisstjórnar og hér innan þings einnig og menn fóru rækilega í saumana á einstökum ákvæðum lagafrv. Þegar kemur hins vegar að tilskipunum Evrópusambandsins láta menn þetta fram hjá sér fara án nánari skoðunar. Engu að síður er þarna vísað í réttindi, reglugerðir og lög sem við erum að skuldbinda okkur til að hlíta. Það er mjög mikilvægt að um þetta fari fram umræða. Þetta eru í flestum tilvikum þáltill. sem við erum að samþykkja en engu að síður eru þær skuldbindandi. Ég minni t.d. á að þegar fyrir vorþing kom á sínum tíma bunki af slíkum tillögum var þar að finna eina sem vék að raforkulögum. Þar með var íslenska þingið búið að skuldbinda okkur til að fallast á tilskipanir Evrópusambandsins á því sviði án þess að um það hefði farið fram lýðræðisleg umræða. Ég fagna því að hér virðist vera að vakna aukinn skilningur á þessu og áhugi á að taka tilskipanir Evrópusambandsins til miklu rækilegri umfjöllunar en áður var gert.