Breyting á IX. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 11:50:53 (2759)

2002-12-13 11:50:53# 128. lþ. 57.20 fundur 443. mál: #A breyting á IX. viðauka við EES-samninginn# (rekstrarfélög o.fl.) þál., Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[11:50]

Frsm. utanrmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanrmn. um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 103/2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Í nefndarálitinu kemur fram um hvaða breytingar er að ræða en meginatriði tilskipunar 2001/107/EB er að bæta við heimild verðbréfasjóða til fjárfestinga í nokkrum öðrum eignum en framseljanlegum verðbréfum og verður þeim þannig m.a. heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða, bankainnstæðum, stöðluðum framvirkum samningum og valréttarsamningum. Meginatriði tilskipunar 2001/108/EB varða hins vegar skipulag rekstrar verðbréfasjóða.

Innleiðing tilskipananna kallar á lagabreytingar hér á landi og er frestur til að gera nauðsynlegar breytingar á lögum til 13. ágúst 2003. Samkvæmt upplýsingum viðskiptaráðuneytisins hefur löggjöf um verðbréfasjóði verið í endurskoðun undanfarið og mun frumvarp þess efnis verða lagt fram á yfirstandandi þingi.

Nefndin leggur einróma til að tillagan verði samþykkt.