Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 12:03:05 (2762)

2002-12-13 12:03:05# 128. lþ. 57.21 fundur 445. mál: #A breyting á XX. viðauka við EES-samninginn# (mat á umhverfisáhrifum) þál., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 128. lþ.

[12:03]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ekki fer á milli mála að innleiðing þessarar tilskipunar er til mikilla bóta í skipulags- og umhverfismálum á Íslandi. Það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að það er með þetta mál eins og mörg önnur framfaramál í umhverfismálum að þau hafa komið utan að og þó að menn hafi sagst hafa ríkan vilja til þess að bæta úr hér á landi, þá hefur frumkvæðið svo sannarlega ekki verið hjá íslenskum stjórnvöldum heldur í Brussel. Það er kannski hollt að hugleiða það þegar við afgreiðum heila dembu af þáltill. þar sem innleiddar eru tilskipanir í gegnum EES-samninginn.

Hvað efni þessarar ályktunar varðar get ég tekið undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem talaði á undan mér. Hér eru á ferðinni mjög góð vinnubrögð, fyrirmyndarvinnubrögð sem við reyndar höfum oft í hv. umhvn. rætt okkar í milli að hefði mátt innleiða fyrr hér á landi, ég tala nú ekki um þegar rætt var um landshlutabundnar skógræktaráætlanir og aðrar stórar áætlanir sem hafa verið á borði þessarar stjórnar og á borðum hv. þm. á undanförnum missirum. Það sama má auðvitað segja um fiskeldið eins og hér hefur verið nefnt og ég vil benda hv. þm. á að áætlanir um orkuöflun eru líka hér undir og það hlýtur þá líka að vera rammaáætlunin um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sem við bíðum öll mjög spennt eftir, herra forseti.

Einnig ber að nefna að landnotkun þarf auðvitað að skilgreinast mun ákveðnar en hefur verið og okkur vantar ramma utan um það hér á landi eins og svo margt annað. Ég hygg að þessi tilskipun og það sem henni fylgir gæti bætt mjög þá skipulagsvinnu líka, hæstv. forseti.