Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 12:53:29 (2766)

2002-12-13 12:53:29# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[12:53]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Norðurorku frá meiri hluta iðnn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Norðurorku og Starfsmannafélagi Akureyrarbæjar, þ.e. þeim aðilum sem málið snertir.

Í rauninni er þetta einfalt frv. sem lýtur að því að veita heimild til Akureyrarbæjar, sveitarfélagsins, um að stofna hlutafélag um rekstur Norðurorku. Tilefni frv. má liggja ljóst fyrir, það er að beiðni bæjarstjórnar Akureyrar.

Sambærilegar formbreytingar hafa áður átt sér stað innan orkugeirans. Á ég þar við Hitaveitu Suðurnesja og Orkubú Vestfjarða þegar þeim var breytt með lögum og veitt heimild til að breyta þeim í hlutafélög.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að við þessa formbreytingu haldist áunnin réttindi starfsmanna Norðurorku og jafnframt svokölluð ávinnsla réttinda samkvæmt gildandi kjarasamningum en þeir munu gilda til ársins 2005. Enn fremur kemur fram í nál. frá meiri hluta iðnn. að nefndin telji það mikilvægt að nýir starfsmenn sem ráðnir verða til fyrirtækisins í framtíðinni fái sjálfir að ráða því í hvaða stéttarfélag þeir kjósa að ganga við nýráðninguna eftir umrædda formbreytingu.

Nefndin mælir með samþykkt frv. eftir vandlega athugun, þ.e. að Akureyrarbær fái heimild til þess að stofna hlutafélag um rekstur Norðurorku og leggur jafnframt áherslu á þau réttindi starfsmanna sem ég hef þegar nefnt.

Meiri hluti nefndarinnar leggur þó fram þrjár breytingar á fram lögðu frv. Það er í fyrsta lagi að 4. gr. frv. falli brott en í henni er kveðið á um að stjórn Norðurorku hf. skuli skipuð fimm aðalmönnum og jafnmörgum til vara. Nefndin telur að óþarfi sé að hafa þetta í sérlögum um hlutafélag um Norðurorku þar sem við breytinguna hljóti hlutafélagalög að taka gildi og því er eðlilegt að í stað þess að binda fjölda stjórnarmanna í lögum á grundvelli hlutafélagalaga sé það eigandi sjálfur, hluthafafundur, sem ákveði fjölda stjórnarmanna og hverjir sitji þar, þannig að meiri hlutinn leggur til að þessi grein falli brott.

Í öðru lagi er gerð smávægileg orðalagsbreyting í 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. sem felur ekki í sér efnislega breytingu. Það er einungis um orðalagsbreytingu að ræða og í þriðja lagi, herra forseti, er gerð breyting á 7. gr. þar sem eru tekin upp sambærileg ákvæði og alveg samhljóma þeim er lúta að réttindum starfsmanna eins og var gert við breytingu á Orkubúi Vestfjarða og Hitaveitu Suðurnesja. Meiri hlutinn taldi eðlilegt að það ákvæði væri eins í þessum þremur lagabálkum um þrjú skyld fyrirtæki og ekki ástæða til að greina þar á milli, en þetta lýtur að réttindum starfsmanna, m.a. biðlaunaréttindum og því um líku.

Undir nál. rita allir nefndarmenn í meiri hluta hv. iðnn., hv. þm. Hjálmar Árnason, Guðjón Guðmundsson, Pétur H. Blöndal, Ísólfur Gylfi Pálmason, Árni Ragnar Árnason, Kjartan Ólafsson, Bryndís Hlöðversdóttir og Svanfríður Jónasdóttir en fulltrúi Vinstri grænna skilar séráliti.