Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 14:13:51 (2774)

2002-12-13 14:13:51# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti vel trúað að þetta með hestagleraugun komist í fjölmiðla. Það er svona álíka frumlegt og málefnalegt og hundasúrur hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar (Gripið fram í: Og stalínisminn.) og framlag hv. þm. Björns Bjarnasonar er náttúrlega alltaf ómetanlegt þegar kemur að stalínismanum. Nú brosir hann út að eyrum þegar farið er að tala um Sovétríkin og Jósef Stalín. Þetta er mjög skemmtilegt.

Ótrúlegt málþóf, málefnaleg fátækt, framfarafælni o.s.frv. Þetta er uppistaðan í gagnrýni hv. þingmanns. Þetta er það sama og menn sögðu þegar við ræddum um gagnagrunninn og 20 milljarðana. Þá hlupu menn á dyr, enginn nennti að hlusta á rök sem sett voru fram eða svara þeim og þá var þetta sama haft uppi.

Hins vegar komu einnig fram málefnalegir þættir í ræðu hv. þingmanns því hann segir: Við eigum ekkert að vera að ræða þetta. Það er hans framlag. Við eigum ekkert að vera að ræða þetta í þinginu, það kemur okkur ekkert við. Það á bara að ákveða þetta í sveitarstjórnunum og þar ganga menn enn lengra og segja: Okkur kemur þetta ekkert við, við eigum bara að láta fyrirtækin gera þetta. En samfélaginu kemur það við hvernig við skipum þessum málum, hvernig við skipuleggjum velferðarþjónustuna í landinu og stoðkerfi á borð við orkuveiturnar, það kemur okkur við. Og hvort sem hv. þingmanni líkar það betur eða verr er Alþingi ætluð sú ábyrgð núna að taka ákvarðanir sem geta reynst örlagaríkar. Við erum að setja lagarammann og það er á okkar ábyrgð að búa hann þannig úr garði að hann þjóni samfélaginu sem allra best. Hins vegar viðurkenni ég að það er sjónarmið sem menn geta haldið fram að þetta eigi að vera utan verksviðs þingsins. Ég er einfaldlega mjög andsnúinn því sjónarmiði.