Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 14:28:27 (2776)

2002-12-13 14:28:27# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[14:28]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlustað með athygli á þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs andmæla því frv. sem hér er verið að tala um, um stofnun hlutafélags um Norðurorku, og upp í huga minn koma aðrar álíka ræður hv. þingmanna hvort sem þær voru um Orkubú Vestfjarða eða sölu á Rafveitu Sauðárkróks, og það kom eitt augnablik upp í huga minn, núna þegar hv. þm. Steingrímur Sigfússon var að ræða um þetta mál, þegar hann sat í ríkisstjórn árið 1991 í eitt eða tvö ár --- sem betur fer var það ekki lengri tími --- sem samgrh. og tók þátt í því í ríkisstjórn að veita Rarik heimild í lánsfjárlögum til að kaupa Rafveitu og Hitaveitu Siglufjarðar. Þá studdi þessi hv. þm., Steingrímur J. Sigfússon, sölu á Rafveitu og Hitaveitu Siglufjarðar ásamt Skeiðsfossvirkjun til Rariks. Ég held að Siglfirðingar hafi ekki tapað á þeirri sölu og það sé ekkert verra núna að kaupa rafmagn af Rarik en Rafveitu Siglufjarðar eða heitt vatn frá Rarik en Hitaveitu Siglufjarðar. Þess vegna kemur upp í huga minn nú: Hvað hefur breyst á þessum 10 árum hjá hv. þingmanni þar sem hann leggst nú gegn öllum breytingum hjá orkuveitum sveitarfélaga eins og hér er verið að ræða um, að stofna hlutafélag um Norðurorku samkvæmt beiðni bæjarstjórnar Akureyrar? Hvað hefur breyst á þessum 10 árum í huga hv. þingmanns? Hvers vegna var hann samþykkur sölunni á þessum árum --- eða er þetta bara enn eitt dæmi um hentistefnu hv. þingmanns?