Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 14:30:43 (2778)

2002-12-13 14:30:43# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir málefnalegt andsvar. Það var náttúrlega eins og hans var von og vísa, með skætingi og skítkasti (Gripið fram í.) sem er þannig og það rifjar upp fyrir mér þegar við ræddum um Orkubú Vestfjarða. Þá kom upp í huga minn fundurinn góði í Hrísey sem við áttum þar með sveitarstjórn þar sem þessi þm. sem hér stendur, hv. 3. þm. Norðurl. v., mætti á fund hjá sveitarstjórn Hríseyjar sem var boðað til. Ég minnist þess hvað það fór í skapofsann á hv. þingmanni, eins og hann orðaði það sjálfur á svo smekklegan hátt, skildi ekkert í hvað þingmenn úr öðrum sóknum væru að ybba þarna gogg. Það er ákaflega gaman að fá þessa upprifjun núna rétt fyrir jólin, þennan skapofsa sem kemur upp í hv. þingmanni ef rifjuð eru upp einhver óþægileg mál eins og þetta. Ég vil eiginlega nota tækifærið nú, herra forseti, og þakka hv. þingmanni. Ég held að ég hafi aldrei getað gert það úr ræðustóli Alþingis, þakkað hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir þá aðstoð sem hann veitti okkur Siglfirðingum þegar við vorum að selja rafveitu og hitaveitu árið 1991 með setu sinni í ríkisstjórn og með því að heimila á lánsfjárlögum að Rarik mætti kaupa þetta. Ég er alveg sannfærður um að þessi sala og þessi breyting var Siglfirðingum til góðs. Ég hygg að það verði eins með það að stofna hlutafélag um Norðurorku, það verði svipað, en það besta við þetta núna á síðustu mínútum þingsins er kannski að fá upprifjun á bæði fundinum í Hrísey og svo 2. umr. og skítkasti sem kemur þegar hv. þm. lendir í vandræðum með að rökstyðja málflutninginn sinn.