2002-12-13 14:33:36# 128. lþ. 59.95 fundur 347#B horfur í væntanlegum samningaviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið í tengslum við stækkun sambandsins# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[14:33]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að það er skapað svigrúm til að koma þessari umræðu að. Ég held að það sé mikilvægt að Alþingi geti aðeins farið yfir stöðuna í þessu máli í ljósi þess að nú liggur fyrir endanlegt samningsumboð eða samningskröfur Evrópusambandsins gagnvart þeim EFTA-ríkjum sem aðild eiga að EES-svæðinu og í ljósi þess að vænta má þess að viðræður um málin hefjist í janúarmánuði nk., þ.e. áður en þing kemur saman að nýju.

Það er hv. þingmönnum kunnugt að stækkun Evrópusambandsins þýðir jafnframt stækkun Evrópska efnahagssvæðisins þar sem hin nýju aðildarríki verða sjálfkrafa hluti af því en sá böggull fylgir skammrifi að milliríkjasamningar sem hin nýju aðildarríki tilvonandi hafa gert falla sjálfkrafa niður og við taka viðskiptaákvæði Evrópusambandsins. Austur-Evrópuríkin eins og Pólland og Eystrasaltsríkin færast með öðrum orðum inn fyrir tollmúra Evrópusambandsins og þeir fríverslunarsamningar sem þau hafa sem fullvalda ríki gert við önnur ríki falla niður. Þetta leiðir til þess að óbreyttu því miður að viðskiptakjör Íslands versna í ákveðnum tilvikum. Til koma tollar á t.d. unnar síldarafurðir og nokkra fleiri vöruflokka að óbreyttu. Það hefur því af eðlilegum ástæðum verið farið fram á lagfæringar á þessum þáttum og ætti ekki að þurfa að vera stórmál svo fremi sem menn gangi út frá því að ekki sé ætlunin að breytingar af þessu tagi leiði sjálfkrafa til versnandi viðskiptakjara í nútímanum en það er að sjálfsögðu ekki markmið alþjóðasamskipta á þessu sviði, samanber reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar o.fl.

Hér eru í sjálfu sér ekki hvað Ísland varðar mjög viðamiklir viðskiptahagsmunir í húfi ef skoðuð eru viðskiptin eins og þau hafa verið á undanförnum árum. Því miður, hlýtur maður að segja, hafa Íslendingar ekki verið sérstaklega duglegir við að byggja upp stöðu sína á þessum mörkuðum, ekki í sama mæli og t.d. Noregur sem hefur stóraukið útflutning sinn á sjávarafurðum, sérstaklega frystum síldarafurðum, t.d. til Póllands. Þó tóku þessi viðskipti hvað Ísland snertir talsvert stökk á árinu 2001 og þá fór útflutningur okkar til Póllands í fyrsta skipti yfir 1 milljarð kr. um mjög langt árabil. Þessi viðskipti voru á árabilinu 1996--1999 af stærðargráðunni 250--300 millj. kr. í útflutningi hvert ár. Árið 2000 fór útflutningurinn í 400 millj. og síðan fór hann yfir milljarð á árinu 2001 og verður allmikill væntanlega á þessu ári, þó mögulega eitthvað minni vegna erfiðari stöðu á síldarmörkuðum. Sem sagt, viðskiptahagsmunirnir mældir á þennan mælikvarða eru kannski ekki ýkja umfangsmiklir en það langalvarlegasta í málinu er að fáum við ekki lagfæringar á þessari stöðu getur þetta þýtt að það þrengi að möguleikum okkar til að sækja fram á þessum mikilvægu mörkuðum á komandi árum á grundvelli tollfrjálsra viðskipta. Viðskiptakjörin, t.d. við Pólland í þessu tilviki, mundu versna og það kæmi væntanlega niður á báðum þjóðum, Íslendingum í formi skertra eða lakari útflutningsmöguleika og pólskum almenningi í formi hærra vöruverðs á þeim innflutningi sem til kæmi. Þar af leiðandi, herra forseti, er mikilvægt mál að vel leysist úr þessu.

Það sem hins vegar er alvarlegt sömuleiðis er að Evrópusambandið hefur svarað óskum Íslands og annarra EFTA-ríkja sem aðild eiga að EES um viðræður til að leysa úr þessum málum með kröfugerð um gríðarlega auknar greiðslur í þróunar- og uppbyggingarsjóði Evrópusambandsins. Í fyrstu var talað um 27-földun á þeim upphæðum og jafnframt að verði þessi viðskiptakjör lagfærð verði sett fram krafa á móti um að Íslendingar og Norðmenn slaki á þeim fyrirvörum á fjárfestingum erlendra aðila í sjávarútvegi sem við gengum frá í samningum okkar um Evrópska efnahagssvæðið. Þessi kröfugerð stendur eftir og þó að einhverjar minni háttar breytingar hafi orðið á samningsumboði eða samningsmarkmiðum Evrópusambandsins er ljóst að það má vænta snúinna viðræðna í þessum efnum og mikillar kröfuhörku af hálfu Evrópusambandsins sem er á höttum eftir peningum í þessa sjóði og hikar ekki við að beita stöðu sinni í þessum samskiptum þótt óskir EFTA-ríkjanna séu eingöngu um þessa sjálfsögðu lagfæringu til að koma í veg fyrir að viðskiptakjör versni. Ég spyr því hæstv. utanrrh. hvernig hann meti þessa stöðu og bið hann að tjá sig um hana.