2002-12-13 14:52:52# 128. lþ. 59.95 fundur 347#B horfur í væntanlegum samningaviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið í tengslum við stækkun sambandsins# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[14:52]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Samfylkingin hafnar kröfum um að greiða í þróunarsjóð ESB eins og um aðildarríki væri að ræða. Samfylkingin hafnar kröfum um að útlendingar fjárfesti í íslenskum sjávarútvegi. Þetta voru kröfur embættismanna ESB á fyrri stigum en þau samningsmarkmið hafa nú verið lækkuð. Samfylkingin vill sækja um aðild að ESB og bera væntanlegan samning undir þjóðaratkvæði. Þessi ákvörðun var tekin af miklum meiri hluta flokksmanna eftir ítarlega umræðu.

Fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegi koma vel til greina en það verður þá okkar ákvörðun eftir skoðanaskipti innan lands en ekki eftir kröfum að utan. Fullveldi okkar er ekki mikils virði með því að taka um 90% af löggjöf ESB án áhrifa upp í íslenskan rétt. Þeir sem vilja ekki aðild að ESB ættu að leggja til að EES-samningnum verði sagt upp eða að hann yrði óumbreytanlegur tvíhliða samningur. Við erum miklir eftirbátar annarra í aðstoð við þróunarlönd og auðvitað er það skylda okkar að greiða fé til vanmáttugri þjóða, líka gagnvart hinum nýju aðildarríkjum ESB sem eru miklu fátækari en við. Þær 100 milljónir sem við höfum greitt í þróunarsjóðinn eru ekki mikið.

Við erum ein ríkasta þjóð í heimi og okkur væri hollt að hugsa til boðskapar frelsarans á þessum tíma í desember og deila með öðrum. Auðvitað munum við semja við ESB um eitthvað hærri greiðslur í þróunarsjóðinn. En við sjáum á þessu að ESB gætir hagsmuna ríkja sinna af alefli. Kemur það á óvart? Við viljum að það verði gert þegar við verðum orðnir aðilar. Nær allar þjóðir í Evrópu vilja aðild að ESB og Tyrkland verður hugsanlega orðinn aðili áður en við verðum það og Norðmenn eru að hugsa málið upp á nýtt eina ferðina enn. En við tökum vitaskuld ákvörðun á okkar forsendum. Til langs tíma er vitaskuld farsælast fyrir okkur að vera í liðssveit Evrópuþjóða. Við erum Evrópuþjóð og eigum að vera stolt og virk í samstarfi meðal jafningja.