2002-12-13 14:55:10# 128. lþ. 59.95 fundur 347#B horfur í væntanlegum samningaviðræðum EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið í tengslum við stækkun sambandsins# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[14:55]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Þau mikilvægu mál sem hér eru til umræðu voru rædd mjög ítarlega á fundi utanrmn. með utanrrh. þann 2. desember sl. Þá fórum við mjög vandlega í gegnum stöðu mála. Mér finnst nauðsynlegt í þessu sambandi að rifja upp reynslu okkar Íslendinga t.d. af greiðslum í þróunarsjóðinn því að eins og við öll munum áttum við að greiða í hann í fimm ár og þá áttu greiðslurnar að falla niður að þeim tíma liðnum. En það sem gerðist hins vegar var að ekki var staðið við þessi ákvæði EES-samningsins og enn erum við Íslendingar að greiða í þróunarsjóðinn. Þetta held ég að sé hollt fyrir okkur að hafa í huga þegar við ræðum þessi mál.

Það er auðvitað alveg ljóst að fríverslunarsamningar við nýju ESB-ríkin falla úr gildi við inngöngu þeirra í ESB og við Íslendingar viljum auðvitað tryggja við þá stækkun að markaðsaðgangur okkar versni ekki og það er bara mjög eðlilegt að bætur komi fyrir ef um slíkt verður að ræða. Ég tek undir með þeim sem hafa lýst áhyggjum sínum af óraunhæfum kröfum framkvæmdastjórnarinnar til EFTA-landanna. Það snertir þá bæði framlög EFTA-ríkjanna og markaðsaðgang fyrir fisk og það er vissulega svo að mjög reynir á samningamenn okkar Íslendinga að ná ásættanlegri niðurstöðu um þessi mál við stækkun EES-svæðisins. Það er deginum ljósara að þar eru mjög mikilvægir viðskiptahagsmunir okkar í húfi þegar til framtíðar er litið því að auðvitað gerum við ráð fyrir því að stækkun ESB þýði það að þau níu lönd sem koma inn verði í framtíðinni miklu mikilvægari markaður fyrir okkur en þau eru í dag.