Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 15:03:42 (2789)

2002-12-13 15:03:42# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, KLM
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[15:03]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Hér erum við að ræða um frv. sem er ekkert mjög stórt í sniðum, frv. um að heimila Akureyrarbæ að breyta Norðurorku í hlutafélag sem er út af fyrir sig ekki mjög stórt eða mikið mál en hefur orðið tilefni mikillar umræðu á hinu háa Alþingi, sérstaklega frá einum stjórnmálaflokki, Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, sem virðist umsnúast um leið og orðið breyting kemur einhvers staðar fyrir. Ef það á að breyta einhverju frá því sem var fyrir 10, 20 eða 30 árum til nútímans þá virðist allt um koll ætla að keyra, allt vera ómögulegt. Eins og hér hefur komið fram er eins að menn séu frekar hræddir við breytingar. Menn eru fælnir gagnvart hlutafélagi. Ef það kemur fram þá virðist allt snúast á verri veg.

Þó svo ég geri mér grein fyrir því, herra forseti, að til stendur að slíta þinginu á næstu mínútum og að við bíðum eftir því þá get ég ekki látið hjá líða að koma hér upp og ræða þetta mál lítils háttar. Fyrir það fyrsta vil ég segja að ég er hjartanlega sammála þessu máli. Eins og kemur fram hjá fulltrúum Samfylkingarinnar í iðnn. þá skrifa þeir upp á nefndarálit og mæla með samþykkt frv. Það er mjög eðlilegt. Þingmenn Samfylkingarinnar er ekki hræddir við svona breytingar og telja þetta skref í rétta átt, í takt við nýja tíma og að menn verða að vera þannig að þeir geti starfað með nútímanum og látið það sem eldra er eiga sig. Ef það er þannig núna að betra sé að reka orkufyrirtæki sveitarfélaga í hlutafélagaformi eins og margir eru að gera þá eigum við auðvitað að virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga eins og Akureyrarbæjar í þessu tilfelli og heimila það. Við þingmenn eigum ekki að koma fram og segja: Nei, bíðið þið nú við í bæjarstjórn Akureyringa. Þið eruð á vitlausri braut, eins og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs eru hér að segja.

Herra forseti. Það er með öðrum orðum alveg með ólíkindum hvernig Vinstri hreyfingin -- grænt framboð --- sem sumir eru farnir að kalla Vinstri hreyfinguna -- mosagrænt framboð vegna þess að hún er að verða hálfmosagróin --- hamast hér gegn sérhverju framfaramáli þjóðarinnar. Jafnvel þó að menn langi til að hætta í dag og komið sé að þeim tímapunkti sem þeir voru að tala um þá er ekki hægt að láta (Gripið fram í.) það gerast að menn geti komið hér og talað gegn þessu máli eins og þingmenn Vinstri hreyfingar -- græns framboðs hafa gert. Því verða hér aðrir sem eru ekki á sömu skoðun að hafa skoðanaskipti við þingmenn Vinstri grænna um þetta og rifja upp fortíð hv. formanns Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, Steingríms J. Sigfússonar, hvernig hún virðist breytast. Það kemur alltaf upp í huga manns sem verður væntanlega sýnt annað kvöld í sjónvarpinu --- vonandi kemur þá sá ágæti maður í Spaugstofunni, Ragnar Reykás --- maður hefur það stundum á tilfinningunni þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talar að Ragnar Reykás sé kominn í ræðustól.

Þetta rifja ég hér upp nú, herra forseti, vegna þess, eins og áður hefur komið fram, að hv. þm. sat í ríkisstjórn í eitt eða tvö ár --- þau voru sem betur fer ekki fleiri --- árið 1991 og tók þá þátt í því í ríkisstjórn Íslands að veita Rarik heimild í lánsfjárlögum til að kaupa Rafveitu og Hitaveitu Siglufjarðar ásamt Skeiðsfossvirkjun, með öðrum orðum stuðlaði að því að sveitarfélagið, samfélagsþjónustan, seldi þessar góðu eigur okkar sem við sem betur fer áttum til Rariks. Ég fullyrði það, herra forseti, að við höfum ekki fundið fyrir því einn einasta dag síðan þó að Rarik hafi keypt þessar eigur og rekið þær. (ÖJ: Hverjir voru í bæjarstjórn?) Þá voru í bæjarstjórn m.a. sá sem hér stendur og þá voru í bæjarstjórn nokkrir bæjarfulltrúar Alþb. (ÖJ: Seldir þú allar eignirnar?) Ég seldi allar eigurnar já. (Gripið fram í.) Ég gerði það --- og er stoltur af því --- með aðstoð Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri hreyfingar -- græns framboðs. (ÖJ: Og þið gerðuð þetta saman?) Við gerðum þetta saman. Það er hárrétt. Þess vegna skil ég ekki nú hvers vegna hv. þm. með sinn þingflokk kemur hér og djöflast svo gegn því framfaramáli sem hér er verið að tala um, þessari beiðni Akureyrarbæjar. Það er ekki svo að Alþingi sé að troða þessu upp í Akureyringa. Það er ekki svo. Við erum að uppfylla beiðni bæjarstjórnar Akureyringa um að breyta þessu hér. (ÖJ: Eins og Siglfirðinga á sínum tíma?) Já, eins og Siglfirðinga á sínum tíma. Þetta er hárrétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Þetta er alveg hárrétt. Þetta er skarplega athugað og þetta er alveg hárrétt. Þannig gerðist þetta. Í bæjarstjórn Siglufjarðar á þessum tíma voru mjög góðir bæjarfulltrúar m.a. frá Alþb. sem voru þá samflokksmenn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Ég held að sem betur fer séu fáir af þeim samflokksmenn hans í dag.

Herra forseti. Það er ákaflega mikilvægt að rifja þetta upp vegna þess að hv. þm. skuldar okkur skilgreiningu á því hvað hefur breyst í þessu ferli. Er það kannski bara það að hv. þm. sat í ríkisstjórn þegar þetta var? Breytist þetta bara eftir því? Geta menn svo komið hérna í stjórnarandstöðu og lagst gegn öllu eins og í þessu tilfelli hér?

Ég ætla ekki að ræða meira um stutt andsvar hv. þm. áðan. En eins og ég segi þá er ágætt að fara stundum í upprifjun og rifja upp skemmtilega fundi. Ég rifjaði upp áðan skemmtilegan fund í Hrísey frá þeim tíma er ég var að byrja í landsmálapólitík. Það rifjaðist upp fyrir mér hve mönnum var illa við að menn úr öðrum sóknum væru að koma í Hrísey til að ræða atvinnumál Hríseyinga og ég rifjaði upp hvernig hv. þm. brást þar við. Nákvæmlega eins gerði hann hér áðan. Hann getur haft alveg sína skoðun á þessum hlutum og vafalaust hefur það verið þannig að hv. þm. hefur þekkt marga góða krata á Siglufirði í gamla daga eins og hann sagði áðan þó að þeir hafi ekki verið eins og það eintak sem hér stendur og eftirlæt ég nú hv. þm. að vega og meta það og allt í lagi með það. En þennan fund í Hrísey rifjaði ég upp þar sem svo virtist vera að menn úr öðrum sóknum mundu eitthvað rugga svona sálarró þeirra þingmanna sem þar voru.

Herra forseti. Þetta vildi ég láta koma fram vegna þess að það virðist vera árlegur viðburður að farið sé svona gegn þessum málum sem hér er verið að ræða, sama hvort það er sala á Orkubúi Vestfjarða sem var líka ósk frá sveitarfélögunum eða ósk frá bæjarstjórn Sauðárkróks um að selja Rafveitu Sauðárkróks. Sjálfsákvörðunarrétt viðkomandi sveitarstjórnar ber að virða. Ef bæjarstjórnir taka þessar ákvarðanir þá eigum við ekki að koma hér og segja: Nei, takk. Þið skuluð endurskoða afstöðu ykkar. Við teljum að þið séuð að gera rangt. Við eigum að fallast á þetta atriði, fallast á þetta eins og hér kemur fram hjá miklum meiri hluta þingmanna, enda sé ég ekki neina hættu í þessu frv. Nefndarálitið hnykkir á nokkrum atriðum hvað varðar starfsfólk Norðurorku og ég hygg að ekki neitt sé gengið á hlut þeirra.

Herra forseti. Það kom líka fram hér áðan sem er auðvitað alveg hárrétt og ber að virða og taka tillit til eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan í andsvari, þ.e. að menn skulu virða skoðanir þeirra sem eru á móti og það geri ég auðvitað. Það er svo. (ÁSJ: Það heyrist nú ...) Jú, en ég er að kalla eftir því hvað hafi breyst á þessum tíma. Hvað hefur breyst? Það kom fram hjá hv. þm. áðan að kjósendur gætu ákveðið hvað þeir mundu gera þegar fram líða stundir og að kjósendur mundu vega og meta flokka eftir því hvernig þeir hafa tekið á málum á Alþingi og það er alveg hárrétt. Ég hygg að í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri sl. vor hafi Akureyringar verið að vega og meta flokkana þar og það sýndi okkur gott gengi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í skoðanakönnunum sem var í byrjun yfir 30% en endaði sem betur fer ekki nema í 8,5%. Ég hygg að kjósendur hafi þar fylgst með málflutningi og tekið ákvörðun í framhaldi af því sem þeir fylgdust með. Það verður að segja alveg eins og er, herra forseti, að það er ákaflega dapurlegt að hlusta stundum á það hvernig menn leggjast gegn hverju einasta máli, hverju einasta framfaramáli. Það er alveg með ólíkindum og ætla ég þó ekki að lengja umræðuna nú og ræða um það sem var komið hálfpartinn til umræðu hér áðan, þ.e. nýgerðan samning Landsvirkjunar við Alcoa, orkusamning sem var verið að ræða lítils háttar áðan. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara yfir í það. En ég vil þó segja að ég hygg að málflutningur á hinu háa Alþingi og annars staðar hafi stórskaðað samningsaðstöðu okkar á síðustu dögum hvað varðar að landa því máli sem ég ætla svo að segja hér að lokum að ég fagna að skuli vera komið í höfn.