Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 15:18:38 (2793)

2002-12-13 15:18:38# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[15:18]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ekki var hægt fyrir nýja þingmenn að læra af þessari ræðu sem hér var flutt um þroskuð vinnubrögð og að hætta skætingi. Það er ekki svo. En hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldór Blöndal, svaraði ekki þeirri spurningu hvort loforð þessa fundar frá hv. 1. þm. Norðurl. e. um að skipa nefnd til að fara að vinna í atvinnumálum Hríseyinga hafi verið efnt. Og það dugar ekki til, herra forseti, þó að hv. þm. --- ég geri ráð fyrir því að allir séu að reyna að vinna í atvinnumálum Hríseyinga --- það dugar ekki til að hv. þingmaður hafi verið að gera það einn og yfirgefinn og ég efast ekki um að hann sé að gera það. Hins vegar var eyjarskeggjum lofað því að skipaður yrði tveggja manna þingmannahópur úr þessu sex manna þingmannaliði til að vinna að þessum málum. Mig langar að spyrja hv. þingmann aftur: Hefur sá vinnuhópur verið skipaður?