Stofnun hlutafélags um Norðurorku

Föstudaginn 13. desember 2002, kl. 15:27:22 (2797)

2002-12-13 15:27:22# 128. lþ. 59.2 fundur 457. mál: #A stofnun hlutafélags um Norðurorku# frv. 159/2002, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur, 128. lþ.

[15:27]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mig ekki vera að sverta mannorð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þótt ég rifji upp ákvörðun og stuðning hans árið 1991 sem þáv. ráðherra í ríkisstjórn við það að virða sjálfsákvörðunarrétt bæjarstjórnar Siglufjarðar um að selja Rafveitu og Hitaveitu Siglufjarðar með Skeiðsfossvirkjun. Ég tel mig ekki vera að sverta mannorð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar með því eins og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson hefur sagt hér. Það er bara alrangt. Ég spyr einfaldlega: Hvað hefur breyst við þá ákvörðun núna að virða sjálfsákvörðunarrétt bæjarstjórnar Akureyrar sem vill breyta orkufyrirtæki sínu í hlutafélag frá því að bæjarstjórn Siglufjarðar með sjálfsákvörðunarrétti ákvað að selja orkuveitur sínar 1991 þegar hann var í ríkisstjórn? Það eru bara þessi tvö atriði sem mig langar að spyrja um. Ég er ekki að spyrja um breytingu eða óskir sveitarfélaga á Vestfjörðum um að selja Orkubú Vestfjarða. Og ég er ekki að spyrja um ákvörðun bæjarstjórnar Sauðárkróks um að selja Rafveitu Sauðárkróks. Ég er bara að spyrja um tímann þegar hv. þm. var í ríkisstjórn og nú þegar hann er í stjórnarandstöðu. Hver er munurinn?