Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 3  —  3. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um athugun á orsökum fyrir háu matvælaverði á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd og ríki Evrópusambandsins.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita orsaka fyrir mismunandi matvælaverði á Norðurlöndum og í ríkjum Evrópusambandsins. Í þessu skyni fari fram nákvæmur samanburður á matvöruframleiðslu og verslunarháttum á Norðurlöndum og í ríkjum Evrópusambandsins og þeim skilyrðum sem matvælaframleiðslu og matvöruverslun eru búin í hverju landi fyrir sig. Jafnframt verði sérstaklega leitt í ljós hvort ólík tenging Norðurlanda við Evrópusambandið hafi áhrif á mismunandi þróun matvælaverðs í löndunum.
    Niðurstöðum þessarar athugunar skal skila til Alþingis innan sex mánaða frá samþykkt þessarar tillögu.

Greinargerð.


    Tvennt vegur þyngst í fjárhagslegri afkomu heimilanna í landinu, annars vegar kostnaður við íbúðarhúsnæði og hins vegar matarkostnaður sem hér er gerður að umtalsefni. Þetta tvennt ræður í raun úrslitum um þau lífsgæði sem almenningi í landinu eru búin.
    Hátt matvælaverð hér á landi er staðreynd. Það sýna fyrirliggjandi tölfræðigögn svo að ekki verður um villst. Samanburðurinn er verulega óhagstæður hvort sem litið er til annarra Norðurlanda eða Evrópusambandsins í heild. Nákvæm greining á orsökum þessa liggur ekki fyrir en slíkt er forsenda þess að málefnaleg umræða geti farið fram um leiðir til að draga úr þessum mun eða eyða honum, en slíkt er stórkostlegt hagsmunamál fyrir almenning.

Þróun vísitalna neysluverðs á Norðurlöndum.
    Með fyrirspurn til ráðherra Hagstofu Íslands á síðasta þingi óskaði fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu upplýsinga um þróun matvöruverðs á Norðurlöndum. Spurt var hvernig verðlagsvísitala matvæla, í fyrsta lagi grænmetis, í öðru lagi landbúnaðarafurða og þriðja lagi allra matvæla, hefði þróast á Norðurlöndunum á árunum 1990–2000 sundurliðað eftir árum og á tímabilinu í heild. Í svari ráðherra voru eftirfarandi töflur settar fram en þær sýna þróun vísitalnanna á umræddu tímabili en upplýsingum fyrir árið 2001 hefur verið bætt við:

Tafla 1. Vísitölur fyrir matvæli á Norðurlöndum, 1990–2001 (1996=100).
1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001
Danmörk 90,7 91,3 92,8 92,6 95,3 98,2 100,0 103,4 104,8 104,8 106,4 110,6
Finnland 103,0 107,1 108,0 107,8 107,9 101,9 100,0 101,5 103,2 102,8 103,9 108,4
Svíþjóð 103,3 108,0 102,5 103,2 105,0 106,5 100,0 101,0 102,4 103,8 104,0 107,4
Noregur 93,8 96,0 97,1 96,0 98,2 99,3 100,0 103,1 108,0 111,1 113,3 111,3
Ísland 90,4 92,9 94,2 96,3 94,1 96,8 100,0 102,9 105,7 109,2 113,7 121,5
Tafla 2. Vísitölur fyrir grænmeti á Norðurlöndum, 1990–2001 (1996=100).
1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001
Danmörk 87,1 90,6 91,5 91,8 96,2 100,9 100,0 97,2 96,3 93,8 87,6 86,4
Finnland 112,9 116,2 116,0 121,1 112,9 101,1 100,0 99,9 106,5 106,3 105,4 109,6
Svíþjóð 96,8 103,1 95,2 99,1 106,7 111,1 100,0 98,0 101,2 108,5 103,3 111,7
Noregur 85,1 85,6 87,0 85,2 93,9 100,2 100,0 99,9 108,7 112,3 116,8 111,8
Ísland 78,9 75,6 72,4 89,1 82,9 91,2 100,0 103,7 108,1 111,2 115,0 117,1


Tafla 3. Vísitölur fyrir landbúnaðarvörur á Norðurlöndum, 1990–2001 (1996=100).
1990 1991 1992 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001
Danmörk 95,1 94,0 95,0 94,5 95,7 98,2 100,0 103,2 102,8 102,3 103,3 107,1
Finnland 114,1 117,4 116,7 115,9 114,9 102,7 100,0 100,0 101,1 100,3 101,4 107,3
Svíþjóð 107,8 112,2 105,8 106,3 107,9 107,0 100,0 100,0 100,5 102,2 102,2 107,4
Noregur 98,3 99,9 101,1 99,1 99,2 99,2 100,0 103,1 107,6 110,1 111,7 108,4
Ísland 95,4 127,7 101,0 99,5 95,7 96,6 100,0 101,8 105,7 108,5 112,3 117,1

    Úr framangreindum töflum má lesa að matvælaverð hefur stigið mun hraðar hér á landi síðustu fimm árin – frá árinu 1996 þegar vísitölur landanna voru settar á hundrað – en á öðrum Norðurlöndum. Noregur fylgir okkur þó fast á eftir framan af en á árinu 2001 virðist skilja verulega á milli.
    Samanburður á vísitölum landanna segir þó aðeins hálfa söguna þar sem þær sýna aðeins verðbreytingar innan lands í hverju ríki fyrir sig og af þeim verður því ekkert ráðið um mun á verðlagi milli ríkjanna.

Samanburður matvælaverðs á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu.
    Í júní á síðasta ári gaf norska hagstofan (Statistisk sentralbyrå) út athyglisverða skýrslu um verðlag á matvælum á Norðurlöndum og í Þýskalandi og Evrópusambandinu á árunum 1994–2000 (Rapporter 2001/20). Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi þegar matvælaverð á Íslandi er borið saman við matvælaverð á Norðurlöndum og í Þýskalandi annars vegar og hins vegar við meðaltalsverð matvæla í Evrópusambandsríkjunum.
    Í skýrslunni er að finna verðsamanburð á milli ýmissa matvælaflokka. Við samanburðinn er farin sú leið að fundið er út meðaltalsverð hvers matvælaflokks í Evrópusambandsríkjunum og því gefið gildið 100. Ef verð matvæla í tilteknum flokki hér á landi mælist t.d. 120 þýðir það að verðið hér er 20% hærra en meðaltalið í Evrópusambandsríkjunum. Verður nú gerð grein fyrir helstu niðurstöðum skýrslunnar.

Hæsta matvælaverðið á Íslandi og í Noregi.
    Samkvæmt niðurstöðum norsku hagstofunnar var matvælaverð hér á landi á árinu 2000 69% hærra en í umræddum Evrópusambandsríkjum. Í Noregi var matvælaverð 62% hærra en í Evrópusambandsríkjunum. Önnur Norðurlönd eru einnig með nokkru hærra verð en lægsta matvælaverð á Norðurlöndum reyndist vera í Finnlandi. Í Þýskalandi var matvælaverð rétt yfir meðaltalsverði í Evrópusambandslöndunum fimmtán, sbr. töflur hér á eftir. Tafla 4.
Verðlagsvísitölur fyrir matvörur á Norðurlöndunum og Þýskalandi 1994–2000 1. ESB15=100.
Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð Þýskaland
1994 136 132 136 137 125 110
1995 136 120 129 139 121 110
1996 134 112 126 139 119 105
1997 138 110 129 148 115 103
1998 129 110 145 151 118 106
1999 129 110 154 157 121 105
2000 129 110 169 162 125 10
1 Tölurnar fyrir árin 1999 og 2000 eru framreiknaðar af norsku hagstofunni út frá tölum ársins 1998.
    
    Inni í þessum útreikningum er verð allra flokka matvæla. Áberandi er hversu mjög munurinn eykst á árunum 1997–2000. Þetta endurspeglast jafnframt þegar þróun verðlags í einstökum vöruflokkum er skoðað.

Einstakir matvælaflokkar.
    Fróðlegt er að skoða verðmun milli landanna eftir einstökum matvælaflokkum. Það sama virðist vera upp á teningnum þegar einstakir flokkar eru skoðaðir, þá sést að verulega byrjar að halla á Ísland á árabilinu 1997–2000.

Brauð, kornvörur o.fl.
Tafla 5.
Verðlagsvísitölur fyrir brauð, kornvörur o.fl. á Norðurlöndunum og í Þýskalandi 1994–20001. ESB15=100.
Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð Þýskaland
1994 138 152 122 128 124 116
1995 136 137 127 135 131 112
1996 135 129 124 133 131 109
1997 132 127 135 134 125 106
1998 138 125 157 154 130 110
1999 141 125 167 160 134 110
2000 142 126 180 165 141 109
1 Tölurnar fyrir árin 1999 og 2000 eru framreiknaðar af norsku hagstofunni út frá tölum ársins 1998.
    
    Þessum flokki matvæla tilheyrir ekki aðeins brauð og þess háttar heldur jafnframt grjón, pastavörur, frosnar pitsur, morgunkorn o.fl. Í ljós kemur að í þessum flokki matvæla var verð hér á landi 80% hærra en að meðaltali í Evrópusambandsríkjunum árið 2000. Athyglisvert er að hér er um vörur að ræða sem að langmestu leyti er fluttar inn til landsins og sérstakar innflutningshömlur eru engar og er m.a. af þeim sökum erfitt að átta sig á gífurlegum verðmun sem hér er þótt vafalaust megi skýra hluta hans með vísan til flutningskostnaðar, óhagkvæmni stærðarinnar í magninnkaupum og þess háttar.

Kjötvörur.
Tafla 6.
Verðlagsvísitölur fyrir kjötvörur á Norðurlöndunum og í Þýskalandi 1994–20001. ESB15=100.
Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð Þýskaland
1994 130 133 144 141 132 114
1995 138 119 156 144 125 116
1996 140 106 149 152 120 109
1997 149 98 147 161 111 108
1998 132 100 154 160 112 117
1999 133 99 165 169 113 116
2000 136 99 174 171 118 114
1 Tölurnar fyrir árin 1999 og 2000 eru framreiknaðar af norsku hagstofunni út frá tölum ársins 1998.

    Kjötvörur voru 74% dýrari á Íslandi árið 2000 en í Evrópusambandsríkjunum fimmtán. Noregur fylgir okkur fast á eftir og þá Danmörk með 36% hærra verð. Ætla má að ástæður þessa liggi fyrst og fremst í háum framleiðslukostnaði á kjöti hér á landi og innflutningshömlum.

Sjávarafurðir.
Tafla 7.
Verðlagsvísitölur fyrir sjávarafurðir á Norðurlöndunum og í Þýskalandi 1994–20001. ESB15=100.
Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð Þýskaland
1994 123 93 80 109 103 112
1995 134 93 87 111 101 127
1996 131 84 83 109 100 121
1997 132 78 84 110 97 118
1998 110 83 87 109 107 114
1999 111 85 97 115 109 114
2000 112 84 112 119 111 112
1 Tölurnar fyrir árin 1999 og 2000 eru framreiknaðar af norsku hagstofunni út frá tölum ársins 1998.

    Á árinu 2000 voru sjávarafurðir 12% dýrari hér á landi en í Evrópusambandslöndunum fimmtán. Í þessum flokki kemur Ísland einna skást út. Á hitt er þó að líta að Íslendingar eru fiskveiðiþjóð og sjávarafurðir langmesta útflutningsafurð þjóðarinnar. Spyrja má hvort eðlilegt sé að fiskur sem veiddur er hér við land og fluttur til Evrópulanda sé ódýrari út úr búð þar en ef hann væri seldur beint til neytenda hér á landi. Eiga íslenskir neytendur í svo harðri samkeppni við útflutninginn að smásöluverð á sjávarafurðum hækki langt fram yfir það sem getur talist eðlilegt, að teknu tilliti til kostnaðar við veiðarnar o.fl.? Mjólkurvörur og egg.
Tafla 8.
Verðlagsvísitölur fyrir mjólkurvörur og egg á Norðurlöndunum og í Þýskalandi 1994–20001. ESB15=100.
Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð Þýskaland
1994 115 111 135 143 112 94
1995 121 107 126 147 109 94
1996 117 101 122 145 111 89
1997 123 102 131 162 111 85
1998 104 104 144 155 108 87
1999 106 105 154 160 111 86
2000 107 106 172 164 116 85
1 Tölurnar fyrir árin 1999 og 2000 eru framreiknaðar af norsku hagstofunni út frá tölum ársins 1998.

    Í þessum flokki eiga heima allar mjólkurafurðir, að frátöldu smjöri, og jafnframt egg. Verð matvæla í þessum flokki var 72% hærra hér á landi en í Evrópusambandsríkjunum fimmtán á árinu 2000. Eflaust má rekja þennan mikla mun til mikils framleiðslukostnaðar hér á landi og innflutningshamla.

Smjör og matarolía.
Tafla 9.
Verðlagsvísitölur fyrir smjör og matarolíu á Norðurlöndunum og í Þýskalandi 1994– 20001. ESB15=100.
Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð Þýskaland
1994 113 173 123 128 134 106
1995 116 129 105 131 122 104
1996 112 113 93 124 117 96
1997 125 121 104 145 124 99
1998 133 121 131 145 125 110
1999 133 123 144 151 129 106
2000 135 124 158 158 134 104
1 Tölurnar fyrir árin 1999 og 2000 eru framreiknaðar af norsku hagstofunni út frá tölum ársins 1998.

    Í þessum flokki matvæla deilir Ísland hæsta verðinu með Noregi en í þessum tveimur löndum var verðið 58% hærra en í Evrópusambandslöndunum fimmtán. Ávextir og grænmeti.
Tafla 10.
Verðlagsvísitölur fyrir ávexti og grænmeti á Norðurlöndunum og í Þýskalandi 1994– 20001. ESB15=100.
Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð Þýskaland
1994 163 131 138 135 130 122
1995 155 124 130 144 131 114
1996 154 119 133 144 126 112
1997 149 118 134 150 118 110
1998 134 114 160 150 124 107
1999 131 112 168 156 131 105
2000 123 111 187 164 131 104
1 Tölurnar fyrir árin 1999 og 2000 eru framreiknaðar af norsku hagstofunni út frá tölum ársins 1998.

    Undir þennan flokk falla einnig kartöflur o.fl. Verðlag reyndist 87% hærra hér á landi en í Evrópusambandslöndunum og er þetta mesti munur sem mældist. Ýmislegt hefur gerst í þessum málum síðan þessar tölur voru fengnar og má gera ráð fyrir að munurinn hafi minnkað eitthvað. Hér má gera ráð fyrir að sömu þættir og áður hafa verið tilgreindir hafi mest áhrif, þ.e. mikill framleiðslukostnaður hér á landi og háir verndartollar.

Aðrar matvörur.
Tafla 11.
Verðlagsvísitölur fyrir „aðrar matvörur“ á Norðurlöndunum og í Þýskalandi 1994– 20001. ESB15=100.
Danmörk Finnland Ísland Noregur Svíþjóð Þýskaland
1994 153 144 164 146 133 105
1995 138 125 120 134 117 105
1996 132 118 117 134 117 102
1997 135 123 121 143 117 98
1998 139 126 136 151 125 95
1999 139 123 143 157 124 95
2000 140 124 157 165 129 93
1 Tölurnar fyrir árin 1999 og 2000 eru framreiknaðar af norsku hagstofunni út frá tölum ársins 1998.

    Í þennan flokk fara þau matvæli sem ekki falla undir aðra flokka, svo sem sykur, sælgæti, kaffi, te o.fl. Hæsta verðið reyndist vera í Noregi árið 2000. Þar var það 65% hærra en í Evrópusambandslöndunum fimmtán. Næst kemur Ísland með 57% hærra verð og þá Danmörk með 40% hærra verð. Sama gildir um þennan flokk og flokkinn sem nefndur var „brauð, kornvörur o.fl.“, sbr. töflu 5, að engar sérstakar innflutningshömlur eru lagðar á til að vernda innlenda framleiðslu enda er hún lítil og engin í mörgum tilvikum. Því er erfitt að skilja hinn gífurlega verðmun.

Hverjar eru orsakir mismunandi matvælaverðs á Norðurlöndum?
    Í áðurgreindri fyrirspurn til ráðherra Hagstofu Íslands var þess jafnframt óskað að ef í ljós kæmu veruleg frávik í þróun vísitalna matvælaverðs milli landanna yrði tilgreint hverjar ástæður væru helst taldar liggja þar að baki. Sérstaklega var óskað eftir mati á því hvort skýringa væri að leita í mismunandi tengslum landanna við Evrópusambandið, mismunandi framleiðslu- og verslunarháttum eða sérstökum verndaraðgerðum í þágu innlendrar framleiðslu.
    Eins og reifað hefur verið hér að framan kom fram í svari ráðherra að vísitölur fyrir matvæli höfðu hækkað langmest á Íslandi og í Noregi á tímabilinu, þ.e. í löndunum tveimur sem standa utan Evrópusambandsins. Ekki var talið unnt samkvæmt svarinu að ráðast í nákvæman samanburð á matvöruframleiðslu og verslunarháttum á Norðurlöndum né þeim skilyrðum sem þessum greinum er búin í hverju landi fyrir sig. Ekki þótti heldur gerlegt að leggja mat á það hvort skýringa væri að leita í mismunandi tengslum ríkjanna við Evrópusambandið. Taldi ráðherra að ekki lægi fyrir greining á handbærum tölfræðigögnum um verðlagsþróun sem skýrt gæti mismunandi þróun þeirra vísitalna sem vísað er til í svarinu. Ráðuneytið benti þó á að mismunandi hlutfall virðisaukaskatts hefði áhrif á verðmælingar í löndunum.
    Samfylkingin telur það eitt brýnasta hagsmunamál heimilanna í landinu að þau búi við áþekkt matvælaverð og gerist í nágrannalöndunum og því leggja flutningsmenn til að bætt verði úr þeim þekkingarskorti sem fyrrgreint svar ráðherra afhjúpar og fengnar verði upplýsingar um orsakir mismunandi matvælaverðs í löndunum. Í þessu skyni er nauðsynlegt að fram fari nákvæmur samanburður á matvöruframleiðslu og verslunarháttum á Norðurlöndum og þeim skilyrðum sem matvælaframleiðslu og matvöruverslun eru búin í hverju landi fyrir sig. Jafnframt verður ekki undan því vikist að kanna sérstaklega hvort ólík tenging Norðurlanda við Evrópusambandið hafi áhrif á mismunandi þróun matvælaverðs í löndunum. Sú staðreynd að matvælaverð er hæst á Íslandi og í Noregi svo tugum prósenta skiptir bendir til að svo sé.
    Ljóst er að tillaga þessi felur í sér mikla vinnu. Hins vegar er brýnt að henni verði lokið sem allra fyrst og því er lagt til að niðurstöður skuli liggja fyrir innan sex mánaða frá því að tillagan verður samþykkt af Alþingi. Það er jafnframt trú flutningsmanna þessarar tillögu að málið fái skjóta meðferð á Alþingi enda um að ræða eitt mikilvægasta hagsmunamál íslenskra neytenda og almennings alls.