Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 7. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 7  —  7. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um samanburð á matvælaverði hérlendis og á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu.

Flm.: Rannveig Guðmundsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir, Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela ráðherra Hagstofu Íslands að láta bera saman reglulega matvælaverð á Íslandi við matvælaverð á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu. Samanburðinn skal birta opinberlega ársfjórðungslega.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er lögð fram samhliða tillögu til þingsályktunar um athugun á orsökum fyrir háu matvælaverði á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd og ríki Evrópusambandsins. Eins og ítarlega er gerð grein fyrir í greinargerð með þeirri tillögu er matvælaverð á Íslandi mun hærra en annars staðar á Norðurlöndum og miklu mun hærra en meðaltalsverð í Evrópusambandinu.
    Afar brýnt er að fram fari nákvæm úttekt á matvöruframleiðslu og verslunarháttum milli Íslands og nágrannalandanna til að leiða í ljós orsakir hins háa matvælaverðs hérlendis eins og framangreind þingsályktunartillaga gerir ráð fyrir en jafnnauðsynlegt er að reglulega sé gerður samanburður á matvælaverði í löndunum og hann birtur til upplýsinga og aðhalds.
    Í þessari tillögu er lagt til að settur verði saman staðlaður listi yfir helstu matvæli og verð þeirra borið saman við verðið annars staðar á Norðurlöndum ársfjórðungslega og niðurstöður birtar. Mikilvægt er að fá meðaltalsverð í Evrópusambandslöndunum inn í þennan samanburð og því er æskilegt að bera saman sömu vörutegundir og þar mynda meðaltalsverð svo að samanburður fáist jafnframt milli Norðurlandanna og Evrópusambandsins.
    Í fréttum hefur komið fram að forsvarsmenn Bónuss hyggist kanna reglulega verð í Bónuss og öðrum lágvöruverðsverslunum á Norðurlöndum. Slíkt framtak einkaaðila er góðra gjalda vert og ber að fagna því. Það kemur þó ekki í stað kannana sem eru framkvæmdar af hlutlausum opinberum aðilum.
    Ályktun þessari er beint til ráðherra Hagstofu Íslands enda er Hagstofan sá aðili sem lögum samkvæmt ber að fylgjast með og rannsaka verslun í landinu. Þá er jafnframt ljóst að þar á bæ búa menn yfir þekkingu sem til þarf til að skila af sér raunhæfum samanburði í þessum efnum.