Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 258. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 269  —  258. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um vitamál, nr. 132/1999.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    2. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Vitagjald, 78,20 kr. af hverju brúttótonni skips, skal greiða af skipum sem taka höfn hér á landi og skal hálft tonn eða þar yfir teljast heilt tonn, en minna broti sleppt. Þó skal þetta gjald aldrei vera lægra en 3.500 kr.

2. gr.

    Við 10. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Til að tryggja öryggi siglinga skal áður en sæstrengir eða neðansjávarleiðslur eru lagðar afla samþykkis Siglingastofnunar Íslands fyrir legu þeirra.
    Jafnframt skal leita umsagnar Siglingastofnunar um legu og merkingu hvers kyns fljótandi mannvirkja á sjó, svo sem fiskeldiskvía, mælitækja í sjó og veðurdufla.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu og Siglingastofnun Íslands.
    Tilgangur þess er að kveða á um hækkun vitagjalds í samræmi við verðlagsbreytingar frá því að upphæð gjaldsins var sett í lög í desember 1999 með lögum um vitamál, nr. 132/1999. Þá var ákveðið að vitagjald skyldi vera 68,60 kr. af hverju brúttótonni skips og lágmarksgjald 3.000 kr. Með frumvarpi þessu er lagt til að vitagjald verði kr. 78,20 kr. á hvert brúttótonn, sem er 14% hækkun og að lágmarksgjald hækki í 3.500 kr. Frá desember 1999 til september 2002 hefur neysluverðsvísitalan hækkað um 14,7%.
    Auk þessa er tilgangur frumvarpsins að kveða á um að Siglingastofnun Íslands veiti umsögn, og þegar við á samþykki, fyrir legu og merkingu sæstrengja, neðansjávarleiðslna og hvers kyns fljótandi mannvirkja á sjó.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Samkvæmt 6. gr. laga um vitamál er vitagjald notað til verkefna Siglingastofnunar skv. 2. gr. laganna, þ.e. að sjá sjófarendum fyrir nauðsynlegum leiðbeiningum til öryggis í siglingum við Íslandsstrendur og á fiskimiðum í kringum landið. Til þessara verkefna teljast m.a. vitar og önnur föst merki á landi, fljótandi leiðarmerki, radíómerki til staðarákvörðunar, upplýsingar um veður og sjólag, útgáfa upplýsinga um leiðbeiningarkerfi, útgáfa korta, eftirlit með uppsetningu og rekstri leiðarmerkja sem sveitarfélög eða einstaklingar setja upp og leiðsögumál samkvæmt lögum um leiðsögu skipa, nr. 34/1993.
    Rekstur og eignarhald vitakerfisins er tvískipt. Landsvitar eru til leiðbeiningar á almennum siglingaleiðum en hafnarvitar vísa leið inn á hafnir. Landsvitar eru í eigu og umsjón ríkisins en hafnarvitar í eigu og umsjón sveitarfélaganna. Siglingastofnun fer með framkvæmd vitamála á Íslandi, þ.e. annast uppbyggingu og rekstur landsvitakerfisins og hefur umsjón og eftirlit með uppbyggingu og rekstri hafnarvita og innsiglingarmerkja.
    Vita- og leiðsögubúnaður stofnunarinnar er margþættur. Tækniframfarir hafa breytt samsetningu og sjálfvirkni búnaðarins verulega undanfarna áratugi. Uppbyggingu ljósvitakerfisins lauk að mestu á sjötta áratugnum með byggingu Hrollaugseyjavita árið 1954 en þá var ljósvitahringnum um landið lokað. Alls eru 104 ljósvitar í umsjá stofnunarinnar. Flestir fá orku sína frá rafmagni, samveitum eða geymum, en einnig eru margir knúnir með sólarorku. Aðeins einn, Hvaleyrarviti í Hvalfirði, er enn með gasljósi. Starfsmenn stofnunarinnar sinna viðhaldi vitanna og þarf að leigja skip annað hvert ár til að sinna viðhaldi bauja og þeirra vita sem ekki er hægt að nálgast frá landi.
    Annar leiðsögubúnaður er baujur (ljósdufl), radarsvarar, öldumælingadufl og sjálfvirkar veðurstöðvar. Öldumælingaduflum og veðurstöðvum hefur fjölgað undanfarin ár í tengslum við uppbyggingu á upplýsingakerfi Siglingastofnunar um veður og sjólag. Baujum og radarsvörum hefur hins vegar farið fækkandi með tilkomu nýrrar tækni. Um 20 ljósvitar eru í hafnarvitakerfinu auk innsiglingarljósa á garðsendum og bryggjum, leiðarljósalínum og baujum er vísa leið í innsiglingum að höfnum.
    Radíóvitar í notkun eru sex, Reykjanesviti, Bjargtangaviti, Skagatáarviti, Raufarhafnarviti, Djúpavogsviti og Skarðsfjöruviti. Þeir eru fyrst og fremst notaðir til að senda út leiðréttingarmerki með GPS-staðsetningarkerfinu en sú aðferð nefnist DGPS. Leiðréttingarmerkin nást í allt að 200 sjómílna fjarlægð og gera kleift að auka nákvæmni staðsetningar niður fyrir 10 metra.

Tekjur af vitagjaldi.
    Innheimt vitagjald árið 2001 nam 90,1 millj. kr. Þar af greiddu erlend skip 71,9 millj. kr. Sama ár nam stofnkostnaður og kostnaður við rekstur öryggiskerfis fyrir sjófarendur hjá Siglingastofnun Íslands um 103,3 millj. kr.

Innheimt vitagjald 1994–2003, millj. kr.


1994

1995

1996

1997

1998

1999

2000

2001
Áætlun
2002
Áætlun 2003
Innheimt, innlend og erlend skip 58,1 61,7 62,7 64,5 72,0 68,8 85,1 90,1 90,1 103,6
    þar af innlend skip 13,6 13,9 13,8 13,2 12,7 12,6 17,4 18,2 18,2 20,9
Samtals 58,1 61,7 62,7 64,5 72,0 68,8 85,1 90,1 90,1 103,6
Innheimt vitagjald á verðlagi
desember 2001

74,7

77,7

77,4

78,0

86,1

77,8

92,4

90,1


Kostnaður vegna vitasviðs Siglingastofnunar Íslands 1994–2003, millj. kr.

1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 Áætlun 2002 Áætlun 2003
Almennur rekstur 85,3 83,1 81,8 82,2 90,9 95,2 104,9 94,4 103,0 103,0
Stofnkostnaður 30,3 22,7 17,1 17,2 18,8 19,3 8,5 8,9 15,0 15,0
Samtals 115,6 105,8 98,9 99,4 109,7 114,5 113,4 103,3 118,0 118,0
Kostnaður á verðlagi
desember 2001

148,6

133,3

122,1

120,3

131,1

129,6

123,2

103,3

118,0

118,0

    Vitagjald af skipum á íslensku skipaskránni var um 18,2 millj. kr. árið 2001 og 71,9 millj. kr. af erlendum skipum, samtals 90,1 millj. kr. Þetta er skiljanlegt í ljósi þess að nánast öll flutningaskip sem koma til landsins í eigu íslenskra eða erlendra kaupskipaútgerða eru á erlendum skipaskrám. Flutningaskip og skemmtiferðaskip eru nær undantekningarlaust stærri en fiskiskip mælt í brúttótonnum og greiða því hærra vitagjald. Auk þess eru skip minni en 10 brúttótonn undanþegin vitagjaldi samkvæmt gildandi reglum.

Um 2. gr.

    Í 1. mgr. er lagt til að afla þurfi samþykkis Siglingastofnunar Íslands fyrir legu sæstrengja og neðansjávarleiðslna. Miðað er við að einnig þurfi að leita samþykkis Siglingastofnunar fyrir merkingu slíkra hluta óháð eðli þeirra og staðsetningu. Ekki eru skýr ákvæði í vitalögum um að leita skuli samþykkis Siglingastofnunar áður en sæstrengir eða neðansjávarleiðslur eru lagðar í sjó eða aðrir fljótandi hlutir settir upp sem ógnað geta öryggi siglinga. Hins vegar er ákvæði í 5. mgr. 3. gr. laganna sem segir að ef hafnarstjórn eða einstaklingur vill setja upp leiðarmerki fyrir sjófarendur skal gerð þess og staðsetning ákveðin í samráði við Siglingastofnun Íslands sem leitar umsagnar siglingaráðs um málið. Leiðarmerki má ekki taka í notkun fyrr en úttekt hefur farið fram af hálfu Siglingastofnunar Íslands sem þá sér um að merkið verði auglýst svo sem nánar er greint í vitalögum. Nauðsynlegt er að bæta hér úr þannig að sæstrengir og neðansjávarleiðslur séu ekki á mikilvægum siglingaleiðum, nauðsynlegar upplýsingar séu aðgengilegar sjófarendum í sjókortum og tilkynningum til sjófarenda og að nauðsynleg leiðarmerki og aðrar merkingar sem Siglingastofnun telur nauðsynlegar séu til staðar.
    Til upplýsingar má benda á að sæstrengir til flutnings á raforku með 132 kV spennu eða hærri og eru 20 km eða lengri eru háðir mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.
    Í 52. gr. laga um fjarskipti, nr. 107/1999, eru eftirfarandi ákvæði um vernd sæstrengja:
    „Þar sem fjarskiptastrengir liggja í sjó skulu sjófarendur sýna aðgæslu og gæta varúðar. Nú er tjóni valdið á fjarskiptastreng af ásetningi eða gáleysi, og skal þá sá sem tjóni hefur valdið bæta beint og óbeint fjártjón sem af því hlýst nema hann sýni fram á að hann hafi gert allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til þess að komast hjá tjóni.
    Þegar skip er innan eða utan landhelgi við lagningu eða viðgerð fjarskiptastrengja og ber til sýnis alþjóðamerki eða önnur merki er gefa þetta til kynna skulu önnur skip sem sjá eða eiga að geta séð þessi merki halda sig eigi skemmra en mílufjórðung frá sæsímaskipinu. Net og önnur veiðarfæri skal hafa í sömu fjarlægð. Fiskiskip skulu þó hafa 12 stunda frest til þess að fjarlægja veiðarfæri sem í sjó liggja.
    Nú hefur dufl verið lagt út vegna lagningar eða viðgerðar á sæstreng, og skulu skip þá halda sér og veiðarfærum sínum eigi skemmra en mílufjórðung frá duflinu.“
    Í 2. mgr. er kveðið á um að leitað skuli umsagnar Siglingastofnunar Íslands fyrir legu og merkingu hvers kyns fljótandi mannvirkja á sjó, óháð eðli þeirra og staðsetningu. Fyrir þessu eru sömu rök og talin eru upp hér að framan, þ.e. tryggja þarf að nauðsynlegar upplýsingar séu aðgengilegar fyrir sjófarendur í sjókortum og tilkynningum til sjófarenda og að nauðsynleg leiðarmerki og aðrar merkingar sem Siglingastofnun telur nauðsynlegar séu til staðar.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vitamál, nr. 132/1999.

    Tilgangur frumvarpsins er tvískiptur, annars vegar að kveða á um hækkun vitagjalds og hins vegar að setja í lög að áður en sæstrengir eða neðansjávarleiðslur eru lagðar skuli afla samþykkis Siglingastofnunar fyrir legu þeirra. Með frumvarpinu er lagt til að vitagjaldið hækki úr 68,60 kr. á hvert brúttótonn skips í 78,20 kr. á brúttótonn. Samkvæmt fjárlögum 2002 er gert ráð fyrir að vitagjaldið skili 85 m.kr. í tekjur, en verði af hækkuninni er gert ráð fyrir að gjaldið skili u.þ.b. 103 m.kr. í tekjur á ári. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist.