Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 243. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 307 —  243. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um aðild að alþjóðasamningi um verndun túnfiska í Atlantshafi.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti og Droplaugu Ólafsdóttur frá Hafrannsóknastofnuninni.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að alþjóðasamningi um verndun túnfiska í Atlantshafi sem gerður var í Ríó de Janeiró 14. maí 1966.
    Samningurinn tekur til verndunar um þrjátíu tegunda túnfisks og annarra áþekkra fisktegunda í Atlantshafi og aðliggjandi innhöfum en markmið samningsins er m.a. sjálfbær hámarksnýting fiskstofnanna.
    Samkvæmt 3. gr. samningsins fela samningsaðilar sérstöku ráði, Alþjóðaráði um verndun túnfiska í Atlantshafi, að vinna að þeim markmiðum sem samningurinn stefnir að en verkefni ráðsins eru m.a. athuganir á stofnstærð tegundanna, vistfræði þeirra og haffræðilegar rannsóknir á umhverfi þeirra auk annarra atriða sem geta haft áhrif á stærð stofnanna. Ráðið getur einnig sett reglur um nýtingu fiskstofna og fiskveiðistjórn án þess þó að fara með yfirþjóðlegt vald.
    Ísland hefur frá árinu 1995 haft áheyrnaraðild að ráðinu en hefur ekki notið veiðiréttar. Nefndin leggur áherslu á að tekið verði tillit til réttar strandríkja við úthlutun veiðiheimilda. Á ársfundi ráðsins sem nú stendur yfir og lýkur 4. nóvember nk. munu eiga sér stað viðræður um endurúthlutun aflaheimilda og er mjög mikilvægt að Ísland geti komið að viðræðunum sem fullgildur aðili að ráðinu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 29. okt. 2002.



Magnús Stefánsson,


varaform., frsm.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Björn Bjarnason.


Ögmundur Jónasson.


Vilhjálmur Egilsson.



Kristinn H. Gunnarsson.


Jóhann Ársælsson.


Kristján Pálsson.