Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 346. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 382  —  346. mál.




Frumvarp til laga



um félagamerki.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Félög eða samtök geta öðlast einkarétt fyrir félagsmenn sína til að nota í atvinnustarfsemi sameiginlegt auðkenni fyrir vörur eða þjónustu.
    Stjórnvöld, stofnanir, félög eða samtök, sem hafa eftirlit með eða ákveða staðla fyrir vörur eða þjónustu, geta öðlast einkarétt til að nota eða heimila notkun auðkennis fyrir þær vörur eða þjónustu sem eftirlitið eða staðlarnir taka til.
    Auðkenni þau sem lög þessi taka til nefnast félagamerki.
    

2. gr.

    Að svo miklu leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum laga þessara gilda ákvæði laga um vörumerki, nr. 45/1997, m.a. refsiákvæði, um félagamerki eftir því sem við á.

3. gr.

    Auðkenni eða upplýsingar, sem í viðskiptum gefa til kynna landfræðilegan uppruna vöru eða þjónustu, geta talist félagamerki þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga um vörumerki. Slíkt merki veitir eiganda þess ekki rétt til að banna þriðja aðila að nota auðkennið eða upplýsingarnar í atvinnustarfsemi svo framarlega sem notkunin er í samræmi við góða viðskiptahætti.

4. gr.

    Félagamerki eru skráð í vörumerkjaskrá.
    Umsókn um skráningu félagamerkis skal skila skriflega til Einkaleyfastofunnar sem annast skráningu félagamerkja. Umsókn skal fylgja tilskilið gjald.
    Í umsókn skal tilgreina hvert merkið er, með mynd ef við á, og fyrir hvaða vöru eða þjónustu merkið óskast skráð. Einnig skal greina frá nafni eða heiti umsækjanda. Umsókn skal enn fremur vera í samræmi við reglugerðarákvæði um vörumerki eftir því sem við á. Reglur, sem gilda um notkun merkisins, skulu fylgja umsókn.
    Í reglum þeim sem gilda um notkun merkisins skal m.a. koma fram:
     a.      hverjum sé heimilt að nota merkið og hvaða skilyrði séu fyrir slíkri heimild,
     b.      hvaða afleiðingar óréttmæt notkun merkisins hefur í för með sér og
     c.      hvaða réttindi og skyldur eigandi merkisins hefur gagnvart þeim sem notar merkið á óheimilan hátt.

5. gr.

    Verði breytingar á reglum um notkun merkisins skal eigandi tilkynna breytingarnar til Einkaleyfastofunnar eigi síðar en þremur mánuðum eftir að breytingarnar voru samþykktar.
    

6. gr.

    Ákvæði 25. gr. laga um vörumerki gilda um notkunarskyldu félagamerkis.
    Notkun félagamerkis af hálfu eins eða fleiri aðila, sem hafa heimild til að nota merkið, telst til notkunar í skilningi 1. mgr. 25. gr. laga um vörumerki.
    

7. gr.

    Mál vegna brota gegn félagamerki getur aðeins sá höfðað sem er eigandi merkisins. Sá sem brýtur gegn félagamerki og er skaðabótaskyldur samkvæmt lögum um vörumerki skal bæta það tjón sem eigandi merkis, eða sá sem hefur rétt til að nota það, verður fyrir.
    

8. gr.

    Endanlegum ákvörðunum Einkaleyfastofunnar samkvæmt lögum þessum geta aðilar máls áfrýjað til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Áfrýjun skal berast iðnaðarráðuneyti innan tveggja mánaða frá þeim degi er ákvörðun var tekin. Innan sama frests skal greiða ráðuneytinu tilskilið áfrýjunargjald. Sé áfrýjunargjald ekki greitt innan frestsins skal vísa áfrýjun frá.
    Úrskurðir áfrýjunarnefndar verða ekki bornir undir annað stjórnvald.
    Ef aðilar máls óska að bera ákvörðun Einkaleyfastofunnar eða úrskurð áfrýjunarnefndar undir dómstóla ber þeim að höfða mál innan þriggja mánaða frá þeim degi sem Einkaleyfastofan tók ákvörðun sína eða áfrýjunarnefnd úrskurðaði í málinu.

9. gr.

    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja nánari reglur, m.a. um frágang umsókna og meðferð þeirra hjá Einkaleyfastofunni, um form skrárinnar og færslu, útgáfu skráningarskírteina og efni þeirra og meðferð andmælamála, svo og um gjöld fyrir umsóknir, endurnýjanir, afgreiðslur, endurrit, áfrýjanir o.fl.
    Gjöld skulu standa straum af kostnaði við rekstur Einkaleyfastofunnar vegna málefna, sem tengjast félagamerkjum, og við þjónustu sem veitt er, m.a. í tengslum við umsóknir og skráningu félagamerkja, útskriftir úr skrám, afgreiðslur og endurrit.
    

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla þá úr gildi lög nr. 89/1935, um almenn gæðamerki, með síðari breytingum.
    Með umsóknir sem berast Einkaleyfastofunni fyrir gildistöku laga þessara skal farið eftir eldri lögum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Núgildandi lög um almenn gæðamerki, nr. 89/1935, hafa staðið efnislega óbreytt frá árinu 1935 og eru því komin til ára sinna. Þótti nauðsynlegt að endurskoða lögin í heild sinni. Við samningu frumvarpsins voru m.a. lög annarra Norðurlandaþjóða um félagamerki höfð til hliðsjónar. Einnig var litið til fyrstu tilskipunar ráðs EBE frá 21. desember 1988 um samræmingu á lögum aðildarríkja um vörumerki (89/104/EBE).
    Með frumvarpi þessu er stefnt að því að breyta heiti laganna, þ.e. að nota hugtakið félagamerki í stað þess að tala um almenn gæðamerki. Hugtakið félagamerki þykir henta betur þeim málaflokki sem lögunum er ætlað að taka til.
    Með félagamerki er átt við tvenns konar auðkenni. Annars vegar er um að ræða að félög eða samtök geta öðlast einkarétt fyrir félagsmenn sína til að nota í atvinnustarfsemi sameiginlegt auðkenni fyrir vörur eða þjónustu. Hins vegar geta stjórnvöld, stofnanir, félög eða samtök, sem hafa eftirlit með eða ákveða staðla fyrir vörur eða þjónustu, öðlast einkarétt til að nota eða heimila notkun auðkennis fyrir þær vörur eða þjónustu sem eftirlitið eða staðlarnir taka til.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er fjallað um hvers konar auðkenni falla undir hugtakið félagamerki. Með hugtakinu félagamerki er átt við tvenns konar auðkenni, sbr. 1. og 2. mgr. Annars vegar getur verið um að ræða merki í eigu einkaaðila og hins vega merki í eigu opinberra yfirvalda. Merki hins opinbera lúta ákvæðum laga eða reglugerða en reglur um notkun merkja einkaaðila, svo sem félaga, eru ákveðnar af félagsmönnum sjálfum. Sömu reglur gilda um meðferð þessara auðkenna hjá skráningaryfirvöldum.
    Í dönsku lögunum um félagamerki, nr. 342/1991, eru umrædd merki hins vegar flokkuð í tvo flokka undir mismunandi heitum, þ.e. annars vegar „kollektivmærke“ og hins vegar „garantimærke“. Þá er hugtakið „fællesmærke“ notað sem yfirheiti yfir hvort tveggja. Sambærilega hugtakanotkun er einnig að finna í norsku frumvarpi til laga um vörumerki. Í frumvarpi þessu þykir hagkvæmara að nota einungis eitt hugtak yfir þau auðkenni sem frumvarp þetta tekur til, þ.e. félagamerki, í stað þess að nota þrjú mismunandi hugtök.
    

Um 2. gr.

    Í greininni er kveðið á um að ákvæði laga um vörumerki gildi um félagamerki eftir því sem við á og að svo miklu leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum frumvarpsins.
    Félagamerki eru í eðli sínu náskyld vörumerkjum. Hvor tveggja eru auðkenni fyrir vörur eða þjónustu. Meðferð umsókna og skráðra félaga- og vörumerkja er að mörgu leyti sambærileg. Því er eðlilegt að ákvæði vörumerkjalaga geti gilt um félagamerki eftir því sem við á. Framkvæmdin er þó ekki að öllu leyti sambærileg og því eru þessi lög sett.
    Að svo miklu leyti sem ákvæði vörumerkjalaga gilda um félagamerki vísast til athugasemda við einstakar greinar í frumvarpi til laga um vörumerki sem varð að lögum nr. 45/1997.

Um 3. gr.

    Greinin tekur mið af 2. mgr. 15. gr. fyrstu tilskipunar ráðs EBE frá 21. desember 1988 um samræmingu á lögum aðildarríkja um vörumerki (89/104/EBE). Samkvæmt greininni er heimilt að víkja frá kröfu 1. mgr. 13. gr. laga um vörumerki varðandi landfræðilegar tilvísanir að því er varðar félagamerki. Slíkt þarf að meta í hverju tilviki fyrir sig. Við matið er einkum litið til þess að skráning félagamerkis, sem hefur að geyma landfræðilega tilvísun, takmarki ekki rétt annarra. Þannig má t.d. ekki krefjast verndar slíks merkis gagnvart þriðja aðila sem á rétt til að nota landfræðilegt heiti. Vörur og þjónusta frá tilteknum landsvæðum hafa oft sérstöðu og getur því verið hagkvæmt fyrir framleiðendur að eiga þess kost að markaðssetja vörur og þjónustu með vísan til landfræðilegs uppruna. Þau landfræðilegu svæði verða þó að vera mjög afmörkuð, t.d. væri ekki unnt að öðlast einkarétt á heitinu „íslensk matvæli“ sem félagamerki. Þá eru heiti stórra landsvæða ekki til þess fallin í viðskiptum að greina vörur og þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annars. Af þeirri ástæðu mundu merki með slíkum heitum ekki teljast hafa næg sérkenni. Við matið á þeirri heimild, sem felst í grein þessari, ber enn fremur að hafa hliðsjón af ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um vörumerki, þ.e. ef merkið er til þess fallið að villa um fyrir mönnum um uppruna.

Um 4. gr.

    Í greininni er kveðið á um að umsókn um skráningu félagamerkis skuli skila skriflega til Einkaleyfastofunnar. Þá er tekið fram að félagamerki séu skráð í vörumerkjaskrá. Einkaleyfastofan, sem sér um meðferð og skráningu vörumerkja og félagamerkja, heldur vörumerkjaskrá fyrir landið allt. Með vísan til þess sem fyrr segir um tengsl félagamerkja og vörumerkja og þess að í framkvæmd er unnt að auðkenna félagamerki sérstaklega í vörumerkjaskrá er ekki talið nauðsynlegt að halda sérstaka skrá fyrir félagamerki.
    Greinin er sniðin eftir 12. gr. vörumerkjalaga. Í því sambandi vísast til viðeigandi athugasemda við 12. gr. frumvarps til laganna um vörumerki.
    Í 3. mgr. kemur m.a. fram að umsókninni skuli fylgja þær reglur sem gilda um notkun merkisins, auk annarra upplýsinga Það er því eitt af skilyrðum fyrir skráningarhæfi félagamerkis að um notkun merkisins gildi ákveðnar reglur.
    Í 4. mgr. eru talin upp þau atriði sem þurfa að koma fram í reglum þeim sem gilda um notkun merkisins. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða heldur er einungis fjallað um þau atriði sem talið er nauðsynlegt að kveðið sé á um í reglunum.

Um 5. gr.

    Í greininni er kveðið á um að eigandi skuli tilkynna breytingar á reglum um notkun félagamerkis til Einkaleyfastofunnar eigi síðar en þremur mánuðum eftir að breytingarnar voru samþykktar.
    Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins er þess krafist að umsókn um skráningu félagamerkis skuli fylgja þær reglur sem gilda um notkun merkisins. Því verður að teljast eðlilegt að þess sé krafist að réttar upplýsingar liggi fyrir hjá Einkaleyfastofunni á hverjum tíma um það hvaða reglur gildi um notkun félagamerkis sem óskað hefur verið skráningar á eða skráð hefur verið hjá Einkaleyfastofunni. Þá er hagkvæmt að gildandi reglur um notkun félagamerkis séu aðgengilegar á þeim stað þar sem merkið er skráð. Á það getur m.a. reynt að réttar upplýsingar liggi fyrir hjá Einkaleyfastofunni vegna hugsanlegra brota gegn félagamerki.
    

Um 6. gr.

    Í 1. mgr. er vísað til þess að 25. gr. laga um vörumerki gildi um notkunarskyldu félagamerkis. Hér er í raun um tvítekningu að ræða, sbr. 2. gr. frumvarpsins, sem talin er nauðsynleg vegna efnis 2. mgr. þessarar greinar.
    Í 2. mgr. er sérákvæði um notkun félagamerkja. Þar er gerð er grein fyrir því hvaða notkun félagamerkis teljist til notkunar í skilningi 1. mgr. 25. gr. laga um vörumerki. Um er að ræða áréttingu á 3. mgr. 25. gr. vörumerkjalaga að því er varðar félagamerki. Í því ákvæði kemur fram að notkun vörumerkis af öðrum en eiganda, en með samþykki hans, skuli leggja að jöfnu við notkun eiganda.

Um 7. gr.

    Í greininni er kveðið á um að mál vegna brota gegn félagamerki geti aðeins sá höfðað sem sé eigandi merkis. Ekki er gert ráð fyrir því að einstakir notendur höfði mál vegna brota á félagamerki. Það er því félagið, samtökin, stjórnvaldið eða stofnunin sem er í forsvari ef til málshöfðunar kemur. Brot gegn félagamerki getur varðað einn eða fleiri notendur þess. Það er óhagkvæmt ef einn eða fleiri notendur höfða mál vegna slíkra brota og getur leitt til óvissu. Eðlilegt er að eigandi merkis standi vörð um þau réttindi sem tengjast félagamerkinu. Ákvæðið er í samræmi við þær reglur sem gilda um þetta atriði í Danmörku og Noregi.
    Í greininni er einnig kveðið á um að sá sem brýtur gegn félagamerki og er skaðabótaskyldur samkvæmt vörumerkjalögum skuli bæta það tjón sem eigandi merkis, eða sá sem hefur rétt til að nota merkið, verður fyrir. Eigandi merkis getur því einnig krafist skaðabóta fyrir tjón sem sá verður fyrir sem heimild hefur til að nota merkið. Þegar um brot gegn félagamerki er að ræða er ekki ólíklegt að einmitt sá sem hefur rétt til að nota merkið verði fyrir tjóni. Því er eðlilegt að slíkur aðili eigi einnig rétt til skaðabóta verði hann fyrir tjóni.

Um 8. gr.

    Í greininni er að finna almennt ákvæði um heimild til að áfrýja endanlegum ákvörðunum Einkaleyfastofunnar til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Ákvæðið er í samræmi við ákvæði annarra laga er varða hugverkaréttindi á sviði iðnaðar.
    Sett hefur verið reglugerð um áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar, nr. 41/ 2000, sem fjallar m.a. um meðferð mála fyrir nefndinni.
    Áfrýjunarfrestur er tveir mánuðir og er það í samræmi við ákvæði laga um einkaleyfi, nr. 17/1991, laga um vörumerki, nr. 45/1997, og hönnunarlaga, nr. 46/2001. Tilkynning um áfrýjun, auk tilskilins gjalds, þarf að berast iðnaðarráðuneytinu innan frestsins en ráðuneytið tekur við áfrýjunum fyrir hönd áfrýjunarnefndarinnar.
    Samkvæmt frumvarpinu verða úrskurðir áfrýjunarnefndar ekki bornir undir annað stjórnvald. Niðurstöður nefndarinnar eru endanlegar hvað varðar meðferð málsins á stjórnsýslustigi og verða til að mynda ekki kærðar til ráðherra.

Um 9. gr.


    Ákvæðið hefur að geyma heimild fyrir iðnaðarráðherra til að setja nánari reglur um þau atriði sem m.a. eru talin upp í greininni. Athuga ber að ekki er um tæmandi upptalningu að ræða.

Um 10. gr.

    Í 1. mgr. er m.a. mælt fyrir um gildistöku laganna.
    Í 2. mgr. er skýrt kveðið á um að með umsóknir, sem berast Einkaleyfastofunni fyrir gildistöku laganna, skuli farið eftir eldri lögum. Engin undantekning er gerð frá þessu og skal því öll meðferð umsókna, sem berast fyrir gildistöku laganna, vera í samræmi við ákvæði eldri laga.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um félagamerki.


    Frumvarpið fjallar um réttindi til að nota félagamerki. Með félagamerkjum er átt við auðkenni félaga fyrir vöru þeirra og þjónustu og auðkenni staðla sem stjórnvöld, stofnanir, félög eða samtök ákveða eða hafa eftirlit með.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að þau hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.