Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 543  —  1. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 2003.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur haldið áfram umfjöllun sinni um frumvarpið frá því að 2. umræða fór fram 27. nóvember sl. Til viðræðna við nefndina komu forsvarsmenn Ríkisútvarpsins. Fulltrúar frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins og horfur í þjóðarbúskapnum.
    Í nefndarálitinu er fyrst gerð grein fyrir meginbreytingum sem varða tekjuhlið frumvarpsins. Þá er gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagt er til að verði gerðar á sundurliðunum 2–4. Að lokum er gerð grein fyrir breytingum sem lagt er til að verði gerðar á 5. gr. frumvarpsins, um lántökur, endurlán og ríkisábyrgðir.
    Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 271,6 milljarðar kr. sem er 7,6 milljarða kr. hækkun frá frumvarpinu.
    Tillögur meiri hlutans er varða útgjöld A-hluta ríkissjóðs leiða til hækkunar útgjalda um 2.468,1 m.kr.
    Hér á eftir fylgja skýringar á breytingartillögum meiri hlutans.


SKÝRINGAR VIÐ EINSTAKAR BREYTINGARTILLÖGUR


01 Forsætisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild forsætisráðuneytis verði aukin um 10 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.19
Efnahagsrannsóknir. Lagt er til að veitt verði 10 m.kr. framlag til samtaka launþega í því skyni að efla rannsóknir á almennum efnahagsmálum. Framlagið er ætlað til nokkurra stærstu samtaka launafólks fyrir utan ASÍ, þ.e. til BSRB, BHM, KÍ og Sambands bankamanna.

02 Menntamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild menntamálaráðuneytis verði aukin um 86,7 m.kr.
319     Framhaldsskólar, almennt.
        1.35
Myndlistarskólinn í Kópavogi. Gerð er tillaga um 1 m.kr. hækkun fjárveitinga til reksturs Myndlistarskólans í Kópavogi.
        1.90
Framhaldsskólar, óskipt. Lagt er til að framlag til framhaldsskóla hækki um 70 m.kr. vegna áætlaðrar nemendafjölgunar, en það jafngildir framlagi fyrir u.þ.b. 140 árs-


Prentað upp.

        nemendur samkvæmt reiknilíkani framhaldsskóla. Er þá í heildina reiknað með framlagi vegna u.þ.b. 15.700 ársnemenda í skólunum árið 2003. Stefnt er að því að auka sveigjanleika í starfsemi skólanna svo að þeir geti brugðist fyrr við frávikum og tryggja með því að útgjöld fari ekki umfram heimild í fjárlögum. Einnig er stefnt að því að yfirfara reiknilíkan framhaldsskóla til að samræma betur framlag fyrir ársnemanda og kostnað við viðbótarnemanda umfram áætlun.
902     Þjóðminjasafn Íslands.
        1.01
Þjóðminjasafn Íslands. Gerð er tillaga um 15 m.kr. tímabundið framlag til faglegs undirbúnings opnunar Þjóðminjasafns Íslands.
        1.10
Byggða- og minjasöfn. Lagt er til að 7 m.kr. framlag til endurbóta á Vatneyrarbúð á Patreksfirði og 7 m.kr. framlag til endurbóta á Norska húsinu í Stykkishólmi verði millifærð af þessum lið á lið húsafriðunarnefndar, 02-979-6.10.
        6.41
Samgöngusafn Íslands í Skógum undir Eyjafjöllum. Lagt er til að 7 m.kr. fjárheimild Samgöngusafnsins verði millifærð á lið 02-919-6.90.
919     Söfn, ýmis framlög.
        1.90
Söfn, ýmis framlög. Gerð er tillaga um 0,2 m.kr. tímabundna hækkun á safnliðnum og er fjárveitingin ætluð Sjóminjasafni Íslands til viðgerða á árabátnum Þór.
        6.90
Söfn, ýmis stofnkostnaður. Lagt er til að 7 m.kr. fjárheimild Samgöngusafnsins verði millifærð af lið 02-902-6.41.
969    Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður.
         6.21 Endurbótasjóður menningarstofnana. Gerð er tillaga um að heiti viðfangsefnisins breytist og verði Endurbætur menningarstofnana.
979     Húsafriðunarnefnd.
        6.10
Húsafriðunarnefnd. Lagt er til að 7 m.kr. framlag til endurbóta á Vatneyrarbúð á Patreksfirði og 7 m.kr. framlag til endurbóta á Norska húsinu í Stykkishólmi verði millifærð af lið Þjóðminjasafnsins 02-902-1.10.
982     Listir, framlög.
        1.90 Listir. Gerð er tillaga um 3 m.kr. hækkun safnliðarins og er fjárveitingin ætluð til undirbúnings stofnunar Leikminjasafns Íslands.
983     Ýmis fræðistörf.
        1.51
Fræða- og þekkingarsetur. Gerð er tillaga um að lækka 5 m.kr. fjárveitingu til Fræðaseturs Þingeyinga, sem samþykkt var við 2. umræðu, um 2,5 m.kr. og veita þess í stað 2,5 m.kr. framlag á liðnum 14-190-1.90 til undirbúnings að stofnun náttúrustofu á Norðausturlandi.

03 Utanríkisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild utanríkisráðuneytis verði aukin um 80,6 m.kr.
211     Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli.
        1.10
Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli, ríkistekjur. Lagt er til að framlag sem rennur til stofnunarinnar í B-hluta fjárlaga hækki um 80,6 m.kr. Skýringar á breytingunni eru af tvennum toga. Annars vegar bendir endurskoðuð áætlun um tekjur af lendingargjaldi til þess að þær lækki um 46 m.kr. frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Hins vegar er ekki lengur gert ráð fyrir að 25% af tekjum af lendingargjöldum verði eftir í ríkissjóði til afborgana af lánum Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. við Ríkisábyrgðasjóð vegna flughlaða, eldsneytiskerfa og flugumsjónarkerfa, eins og gengið er út frá í frumvarpinu. Nú hefur verið ákveðið að stofnunin taki yfir lánin og greiði af þeim og felur tillagan því í sér að tekjur af lendingargjaldi renni að fullu til stofnunarinnar til að standa undir þeim lánum, eða samtals 126,6 m.kr. Að samanlögðu nemur hækkunin á tekjustreymi til stofnunarinnar því 80,6 m.kr.

04 Landbúnaðarráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild landbúnaðarráðuneytis verði óbreytt.
271     Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal.
        1.01
Hólaskóli á Hólum í Hjaltadal. Lagt er til að 10 m.kr. fjárheimild verði færð af viðfangsefni 6.20 fyrir stofnkostnað á viðfangsefni 1.01 fyrir rekstur. Um er að ræða tímabundið framlag til ársins 2004 sem veitt er í frumvarpinu til Hólaskóla vegna stækkunar reiðskemmu. Nú er fyrirhugað að reiðskemma verði tekin á leigu og færast þau útgjöld þá til rekstrar fremur en sem stofnkostnaður. Framlagið er hluti af söluandvirði hlutabréfa í Stofnfiski hf. en ekki af söluandvirði jarðarinnar Straums eins og misritaðist í athugasemdum með frumvarpinu.
        6.20
Fasteignir og lóðir. Framangreind millifærsla lækkar liðinn um 10 m.kr.

05 Sjávarútvegsráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild sjávarútvegsráðuneytis verði aukin um 187 m.kr.
204     Fiskistofa.
        1.01
Fiskistofa. Gerð er tillaga um 50 m.kr. hækkun á fjárheimild stofnunarinnar vegna endurmats á ríkistekjum af veiðieftirlitsgjaldi sem renna til fjármögnunar á útgjöldum stofnunarinnar. Um er að ræða leiðréttingu á útgjöldum og tekjum sem láðist að gera ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2002 í kjölfar lagasetningar um aukna þátttöku útgerðarinnar í kostnaði við eftirlitsstarfsemi Fiskistofu. Sams konar tillaga er gerð um breytingu á frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2002.
             Þá er gerð tillaga um 32 m.kr. hækkun á fjárheimild Fiskistofu í ljósi áætlunar um aukna innheimtu ríkistekna sem renna til stofnunarinnar. Annars vegar hækkar veiðieftirlitsgjald á aflamark um 29,5 m.kr. og verður alls 312 m.kr. Hins vegar hækka tekjur af leyfum til veiða í atvinnuskyni um 2,5 m.kr. og verða 39,7 m.kr. Sama hækkun er gerð á tekjuhlið frumvarpsins og hefur breytingin því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.
        1.11
Eftirlit með úthafsveiðum. Lagt er til að fjárheimild þessa viðfangsefnis lækki um 16 m.kr. Vegna minna úthalds á Flæmska hattinum minnkar umfang eftirlitis með veiðunum en það er fjármagnað með sérstöku gjaldi á útgerðaraðila. Sama lækkun er gerð á tekjuhlið frumvarpsins og hefur breytingin því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.
811     Þróunarsjóður sjávarútvegsins.
        6.41
Þróunarsjóður sjávarútvegsins. Gerð er tillaga um að framlag sem veitt er til sjóðsins í C-hluta fjárlaga hækki um 121 m.kr. í ljósi áætlunar um hærri innheimtu ríkistekna af þróunarsjóðsgjöldum. Annars vegar hækkar þróunarsjóðsgjald á aflamark um 131 m.kr. og verður alls 650 m.kr. Hins vegar lækkar þróunarsjóðsgjald á skip um 10 m.kr. og verður 92 m.kr. Sama hækkun er gerð á tekjuhlið frumvarpsins og hefur breytingin því ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild dóms- og kirkjumálaráðuneytis verði aukin um 4 m.kr.
419     Sýslumaðurinn á Hólmavík.
        1.20
Löggæsla. Gerð er tillaga um 4 m.kr. framlag til reksturs vegna fjölgunar lögreglumanna.

07 Félagsmálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild félagsmálaráðuneytis verði aukin um 254,7 m.kr.
704     Málefni fatlaðra, Vestfjörðum.
        1.01
Almennur rekstur. Gerð er tillaga um 4 m.kr. framlag til uppbyggingar á þjónustu við fatlaða í Strandasýslu.
706     Málefni fatlaðra, Norðurlandi eystra.
        1.85
Samningur við héraðsnefnd Þingeyinga um þjónustu við fatlaða. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til þróunarverkefnis sem felst í að endurhæfa fólk sem býr við skerta vinnugetu og er á örorku- og endurhæfingarörorkubótum til þess að það komist á ný út í atvinnulífið. Verkefnið er á vegum Félags- og skólaþjónustu Þingeyinga, Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga og Framhaldsskólans á Húsavík.
801     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga.
        1.10
Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. Gerð er tillaga um 675 m.kr. hækkun á liðnum. Í fyrsta lagi er lagt til að framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga hækki alls um 380 m.kr. í samræmi við samkomulag milli ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar af eru 160 m.kr. sérstakt framlag í kjölfar endurmats á reiknuðu framlagi vegna breytinga á álagningarstofni fasteignagjalda á landsbyggðinni. Í annan stað er 220 m.kr. framlag til að mæta kostnaði við húsaleigubótakerfið sem er verkefni sveitarfélaga. Fram til þessa hefur ríkissjóður fjármagnað hluta húsaleigubóta með föstu framlagi. Með samkomulagi því sem gert hefur verið verður húsaleigubótakerfið áfram verkefni sveitarfélaga og fjármagnað af þeim og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga en fjárveitingar til þess færast inn í almennt lögbundið framlag úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðsins.
             Í öðru lagi er lagt til að 335 m.kr. fjárheimild verði flutt af viðfangsefninu 1.12 Jöfnun húsaleigubóta á viðfangsefnið 1.10 Jöfnunarsjóður sveitarfélaga í samræmi við samkomulag sem gert hefur verið við samtök sveitarfélaga.
             Þá er í ljósi endurskoðunar á áætluðum skatttekjum ríkissjóðs árið 2003 gerð tillaga um að lögbundið framlag í sjóðinn verði hækkað um 60 m.kr. Framlagið tekur mið af innheimtum skatttekjum ríkisins innan ársins og útsvarsstofni næstliðins árs.
             Loks er lagt til að framlag í sjóðinn lækki um 100 m.kr. í samræmi við samkomulag milli ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að ríkissjóður yfirtaki 15% hlutdeild sveitarfélaga í stofnkostnaði og meiri háttar viðhaldi og tækjakaupum heilsugæslustöðva, svæðissjúkrahúsa, deildarsjúkrahúsa og almennra sjúkrahúsa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990.
        1.12 Jöfnun húsaleigubóta. Lagt er til að 335 m.kr. fjárheimild verði flutt á viðfangsefnið 1.10 Jöfnunarsjóður sveitarfélaga í samræmi við samkomulag sem gert hefur verið við samtök sveitarfélaga.
980     Vinnumálastofnun.
        1.11
Starfsþjálfun ungs fólks í atvinnuleit. Gerð er tillaga um 5 m.kr. framlag til Vinnumálastofnunar til þess að efla starfsemi Fjölsmiðjunnar sem er samstarfsverkefni Vinnumálastofnunar, Rauða krossins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og sinnir því hlutverki að þjálfa og endurhæfa ungt fólk til að fara aftur í skóla eða á vinnumarkaðinn.
984     Atvinnuleysistryggingasjóður.
        1.31
Kjararannsóknarnefnd. Við 2. umræðu var samþykkt 5 m.kr. framlag til aukinna verkefna kjararannsóknarnefndar sem felast m.a. í samstarfi við Hagstofu Íslands um gerð launakannana. Í tillögunni var fyrir misgáning gert ráð fyrir að fjármögnun útgjaldaheimildarinnar væri með beinni greiðslu úr ríkissjóði en ekki með aukinni ráðstöfun á mörkuðum tekjum sjóðsins eins og áformað var. Með þessari tillögu er þetta leiðrétt.
989     Fæðingarorlof.
        1.13
Foreldrar utan vinnumarkaðar. Lagt er til að fjárheimild vegna fæðingarorlofsgreiðslna til foreldra utan vinnumarkaðar lækki um 100 m.kr. í ljósi endurskoðaðrar áætlunar um þróun útgjaldanna á næsta ári.
999     Félagsmál, ýmis starfsemi.
        1.31
Félagasamtök, styrkir. Gerð er tillaga um 0,7 m.kr. tímabundið framlag til Listasmiðjunnar Hugur og hönd á Akranesi.

08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis verði aukin um 2.235,4 m.kr.
203     Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
        1.41
Heimilisuppbót. Lögð er til 50 m.kr. hækkun á fjárheimild vegna heimilisuppbótar í samræmi við samkomulag ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara. Þar af eru 40 m.kr. vegna ellilífeyrisþega og 10 m.kr. vegna örorkulífeyrisþega. Hækkunin stafar af tengingu heimilisuppbótar við tekjutryggingu sem hækkar sérstaklega í samræmi við samkomulagið.
204     Lífeyristryggingar.
        1.21
Tekjutrygging ellilífeyrisþega. Lögð er til 680 m.kr. hækkun á fjárheimild vegna tekjutryggingar ellilífeyrisþega í samræmi við samkomulag ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara. Samkvæmt samkomulaginu hækkar tekjutryggingin um 3.028 kr. frá 1. janúar næstkomandi og verður samtals 38.500 kr. á mánuði þegar einnig hefur verið tekið tillit til 3,2% almennrar hækkunar lífeyrisgreiðslna í frumvarpinu.
        1.25
Tekjutrygging örorkulífeyrisþega. Lögð er til 290 m.kr. hækkun á fjárheimild vegna tekjutryggingar örorkulífeyrisþega í samræmi við samkomulag ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara. Samkvæmt samkomulaginu hækkar tekjutryggingin um 3.028 kr. frá 1. janúar næstkomandi og verður samtals 39.493 kr. á mánuði þegar einnig hefur verið tekið tillit til 3,2% almennrar hækkunar lífeyrisgreiðslna í frumvarpinu.
        1.26
Tekjutryggingarauki. Lögð er til 580 m.kr. hækkun tekjutryggingarauka í samræmi við samkomulag ríkisstjórnar og Landssambands eldri borgara. Þar af eru 400 m.kr. vegna ellilífeyrisþega og 180 m.kr. vegna örorkulífeyrisþega. Samkvæmt samkomulaginu hækkar tekjutryggingarauki um 2.255 kr. frá 1. janúar næstkomandi og tenging við tekjur lækkar úr 67% í 45%.
379     Sjúkrahús, óskipt.
        1.01
Óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa. Gerð er tillaga um 10 m.kr. framlag til að koma á fót gagnagrunni um mænuskaða. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst stuðningi sínum við að komið verði á fót á Íslandi sérstakri samstarfsmiðstöð (WHO Collaborating Centre) til stuðnings aðgerðum stofnunarinnar á heimsvísu á sviði mænuskaða.
             Þá er gerð tillaga um 10 m.kr. framlag til að koma upp hreyfanlegu fagteymi tveggja hjúkrunarfræðinga og tveggja annarra starfsmanna, auk geðlæknisvaktar. Fagteyminu er ætlað það verkefni að fylgja eftir alvarlega geðsjúkum einstaklingum í samráði við Geðhjálp á heimilum þeirra eftir útskrift af sjúkrahúsi.
381     Sjúkrahús og læknisbústaðir.
        6.90
Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Gerð er tillaga um 5 m.kr. tímabundið framlag til að ráða bót á húsnæðismálum heilsugæslustöðvarinnar á Raufarhöfn.
399     Heilbrigðismál, ýmis starfsemi.
        1.90
Ýmis framlög. Lögð er til tímabundin 3,2 m.kr. hækkun á safnliðnum til að leysa ýmis brýn verkefni á sviði heilbrigðismála og hækkar þá óskipt fé liðarins.
401     Hjúkrunarheimili, almennt.
        1.01
Hjúkrunarheimili, almennt. Lagt er til að veitt verði 310 m.kr. fjárheimild til að hefja rekstur hjúkrunarheimilis á Vífilsstöðum. Gert er ráð fyrir rekstri 50 hjúkrunarrýma á Vífilsstöðum og 19 rýma í húsinu á „Hólnum“. Lagt er til að í fjáraukalögum fyrir árið 2002 verði veitt 130 m.kr. framlag til endurbóta á húsnæðinu og til kaupa á búnaði. Er það í samræmi við tillögur samráðsnefndar stjórnvalda og Landssambands eldri borgara um að efla þjónustu við aldraða og draga úr biðlistum.
             Þá er lagt til að framlag hækki um 90 m.kr. til að fjölga hvíldarinnlögnum árið 2003. Er tillagan í samræmi við tillögur samráðsnefndar stjórnvalda og Landssambands eldri borgara um að fjölga hvíldarinnlagnarrýmum um 20 á næsta ári.
             Loks er lagt til að 40 m.kr. verði varið til að fjölga dagvistarrýmum á næsta ári í samræmi við niðurstöður samráðsnefndarinnar. Samkvæmt tillögunum er áformað að fjölga dagvistarrýmum um 100 á næstu árum og er framlagið miðað við að unnt verði að opna allt að 50 rými á næsta ári.
             Hækkun á þessum lið nemur því alls 440 m.kr.
402     Framkvæmdasjóður aldraðra.
        6.21
Stofnkostnaður og endurbætur. Lagt er til að framlag til þessa viðfangsefnis hækki um 98,1 m.kr. Á yfirstandandi þingi hefur verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra þar sem gert er ráð fyrir að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækki úr 4.826 kr. í 5.440 kr. Áætlað er að vegna þessarar hækkunar aukist innheimtar tekjur sjóðsins um 98,1 m.kr. frá því sem reiknað hafði verið með í frumvarpinu. Lagt er til að þessum auknu tekjum verði öllum ráðstafað til stofnkostnaðar og endurbóta.
500     Heilsugæslustöðvar, almennt.
        1.10
Heilsugæslustöðvar, almennt. Lagt er til að veitt verði 50 m.kr. framlag til að bæta úrræði í heimahjúkrun og þjónustu. Er tillagan í samræmi við álit samráðsnefndar stjórnvalda og Landssambands eldri borgara um að framlög til málefnisins hækki um 150 m.kr. á næstu þremur árum og að unnið verði að betri samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu.
715     St. Franciskusspítali, Stykkishólmi.
        1.11
Sjúkrasvið. Gerð er tillaga um 4 m.kr. hækkun á framlagi til sjúkraþjálfunar.
785     Heilbrigðisstofnunin Selfossi.
        1.11
Sjúkrasvið. Gerð er tillaga um 15,1 m.kr. hækkun á fjárheimild stofnunarinnar vegna endurmats á launahækkun samkvæmt kjarasamningi sjúkraliða umfram forsendur frumvarpsins. Fjárheimildin kemur til viðbótar 5,5 m.kr. hækkun sem gerð var við 3. umræðu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2002. Skýrist það af því að vægi sjúkraliða í launagögnum frá stofnuninni sem stuðst var við í launa- og verðlagsreikningum fjárlaga var rangt skráð og átti að vera mun hærra. Gert er ráð fyrir að sams konar fjárheimild verði færð til stofnunarinnar á árinu 2002 af launa- og verðlagsmálalið fjármálaráðuneytis.

09 Fjármálaráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild fjármálaráðuneytis verði óbreytt.
381     Lífeyrisskuldbindingar, eftirlaun.
        1.01
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins. Lagt er til að fjárheimild þessa liðar lækki um 200 m.kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um gjaldfærðar lífeyrisskuldbindingar á árinu 2003. Fyrirhugað er að fyrirframgreiðslur úr ríkissjóði til lífeyrissjóðsins verði auknar úr 6 milljörðum kr. í 8 milljarða kr.
721     Fjármagnstekjuskattur.
        1.11
Fjármagnstekjuskattur. Gerð er tillaga um 200 m.kr. hækkun á fjárheimild vegna fjármagnstekjuskatts sem ríkissjóður greiðir af vaxtatekjum og söluhagnaði. Hækkunin skýrist af meiri eignasölu á þessu ári en gert var ráð fyrir í fjárlögum vegna sölu á hlut ríkisins í viðskiptabönkunum. Útgjöldin hafa ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem sama fjárhæð færist á tekjuhlið frumvarpsins.

14 Umhverfisráðuneyti

        Lagt er til að fjárheimild umhverfisráðuneytis verði aukin um 9,7 m.kr.
190     Ýmis verkefni.
        1.90
Ýmis verkefni. Gerð er tillaga um að lækka 5 m.kr. fjárveitingu til Fræðaseturs Þingeyinga á liðnum 02-983-1.51, sem samþykkt var við 2. umræðu, um 2,5 m.kr. og veita þess í stað 2,5 m.kr. framlag á þessum lið til undirbúnings að stofnun náttúrustofu á Norðausturlandi.
410     Veðurstofa Íslands.
        1.01
Almenn starfsemi. Lögð er til 7,2 m.kr. hækkun fjárveitingar í framhaldi af endurskoðun á mati á launahækkun veðurathugunarmanna samkvæmt kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands. Um er að ræða leiðréttingu á fyrra mati á samningnum.

19 Vaxtagjöld ríkissjóðs

        Lagt er til að vaxtagjöld ríkissjóðs verði lækkuð um 400 m.kr.
801     Vaxtagjöld ríkissjóðs.
        1.10
Vaxtagjöld ríkissjóðs. Lagt er til að fjárheimild þessa liðar lækki um 400 m.kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um vaxtagjöld ríkissjóðs á næsta ári. Í ljósi áætlana um sjóðstreymi ríkissjóðs árið 2003 verður meira svigrúm til greiðslu lána en áður var talið.

    Nefndinni hafa verið kynntar hugmyndir um að eftirstöðvum fjárheimildar sem samgönguráðuneytið fékk árið 2000 á lið 10-190-1.46 Uppbygging ferðamála í Scoresbysundi á Grænlandi verði ráðstafað til að styrkja flug á milli Reykjavíkur og Narsarsuaq á árinu 2003. Upphafleg fjárveiting nam 15 m.kr. og eftirstöðvar eru 14.416 þús. kr. Fjárveitingin var á sínum tíma ætluð til lengingar á flugbraut með það að markmiði að fjölga ferðamönnum til Grænlands. Áformað er að nota 8,5 m.kr. af fjárheimildinni til samnings um flugið árið 2003. Meiri hlutinn gerir ekki athugasemdir við það.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR
VIÐ SUNDURLIÐUN 3 (B-HLUTA)


22 Menntamálaráðuneyti

201    Happdrætti Háskóla Íslands.
        Við 2. umræðu var útgjaldaheimild Háskóla Íslands aukin um 310 m.kr. vegna framkvæmda við Náttúrufræðihús. Framkvæmdin verður fjármögnuð með lántöku Happdrættis Háskóla Íslands. Af þessum sökum er lagt til að áætlað verði fyrir 700 m.kr. lántöku í stað 414 m.kr. samkvæmt frumvarpinu. Í 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2002 er heimild fyrir 650 m.kr. lántöku og er lagt til í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2002 að hún falli niður en þess í stað fengin 700 m.kr. lántökuheimild í fjárlögum fyrir árið 2003.

23 Utanríkisráðuneyti

111    Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli.
        Gerðar hafa verið breytingar á fjárreiðum stofnunarinnar frá frumvarpinu. Tekjur af lendingargjaldi hafa verið endurskoðaðar og eru nú áætlaðar 589,5 m.kr. og vaxtatekjur 25,2 m.kr. Áætlað er að rekstrargjöld nemi 689,8 m.kr. auk 98,2 m.kr. afskrifta rekstrarfjármuna. Þá er gerð sú breyting að stofnunin yfirtekur 780 m.kr. skuld Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. við Ríkisábyrgðasjóð vegna flughlaða, eldsneytiskerfa og flugumsjónarkerfis. Að auki er miðað við að ráðast í byggingu fraktflughlaðs og er byggingarkostnaður þess talinn nema alls 190 m.kr. Samtals eru varanlegir rekstrarfjármunir því áætlaðir 970 m.kr. Byggingarkostnaður verður fjármagnaður með lántöku hjá Ríkisábyrgðasjóði.
121    Umsýslustofnun varnarmála.
        Stofnunin var lögð niður 1. desember sl. og verkefni hennar flutt til sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli.

29 Fjármálaráðuneyti

101    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
        Í endurskoðaðri áætlun hefur verið tekið tillit til breytinga á lögum um gjald af áfengi og tóbaki sem tóku gildi 29. nóvember sl. Þær breytingar fela í sér að gjald á sterkt áfengi hækkar um 15% og gjald á tóbak um 27,7%. Reiknað er með að smásöluverð á sterku áfengi hækki um 10% í kjölfarið og um 12% á tóbaki að jafnaði. Þessar breytingar koma fram í fjárreiðum fyrirtækisins með þeim hætti að áætlaðar sölutekjur hækka um tæplega 1.100 m.kr., en þar af eru um 800 m.kr. vegna hækkunar á tóbaksgjaldi og um 300 m.kr. vegna hækkunar á áfengisgjaldi. Rekstrargjöld aukast á móti um nærri 300 m.kr. eða sem nemur hækkuninni á áfengisgjaldinu sem fyrirtækið greiðir vegna innkaupa á áfengi. Þá aukast skil á tóbaksgjaldi í ríkissjóð sem fyrirtækið leggur á um 800 m.kr. Að öðru leyti er áætlunin óbreytt frá frumvarpinu.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR
VIÐ SUNDURLIÐUN 4 (C-HLUTA)

42 Menntamálaráðuneyti

872    Lánasjóður íslenskra námsmanna.
        Áætlanir Lánasjóðs íslenskra námsmanna hafa verið endurskoðaðar frá því að frumvarpið var lagt fram. Ný áætlun gerir ráð fyrir fjölgun lánþega og var af þeim sökum samþykkt við 2. umræðu að hækka framlag ríkisins um 130 m.kr. Framlagið er áætlað 3.028 m.kr. á árinu 2003, en að auki er gert ráð fyrir að sjóðurinn hafi til ráðstöfunar u.þ.b. 160 m.kr. ónotað framlag frá árinu 2002. Er tekið tillit til þeirrar yfirfærslu í sjóðstöðu í ársbyrjun. Aðrar helstu breytingar frá frumvarpinu eru þær að fjármunatekjur minnka um 280 m.kr., fjármagnsgjöld um 180 m.kr. og reiknuð gjöld vegna verðbreytinga um 240 m.kr. Framlög í afskriftasjóð útlána aukast um 52 m.kr. og er það í takt við áætlaða útlánaaukningu. Rekstrargjöld eru áætluð 299 m.kr. sem er 17 m.kr. hækkun frá frumvarpinu og kaup á varanlegum rekstrarfjármunum aukast um 8 m.kr. og nema 48 m.kr. Gert er ráð fyrir að rekstrarliðir sem hafa ekki áhrif á sjóðstreymi lækki um 206 m.kr. og nemi 250 m.kr. Útlán eru nú áætluð 5.930 m.kr. sem er 603 m.kr. aukning frá frumvarpinu en 985 m.kr. hækkun frá fjárlögum fyrir árið 2002 eða 27,7%. Markaðskjaralán eru áætluð 100 m.kr. eins og í frumvarpinu. Áætlað er að sjóðurinn innheimti 3.300 m.kr. afborganir af námslánum og greiði 3.000 m.kr. af langtímalánum sínum. Gangi framangreindar forsendur eftir er gert ráð fyrir að sjóðurinn taki 4.300 m.kr. að láni á árinu, sem er 200 m.kr. hækkun frá frumvarpinu.

45 Sjávarútvegsráðuneyti

811    Þróunarsjóður sjávarútvegsins.
        Gert er ráð fyrir 121 m.kr. meiri innheimtu ríkistekna af þróunarsjóðsgjöldum í endurskoðaðri áætlun um sjóðinn, að teknu tilliti til verðlags og gjaldstofna í samræmi við frumvarp til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem lagt hefur verið fram. Annars vegar hækkar þróunarsjóðsgjald á aflamark um 131 m.kr. og verður alls 650 m.kr. Hins vegar lækkar þróunarsjóðsgjald á skip um 10 m.kr. og verður 92 m.kr. Breytingar frá frumvarpinu eru þær að framlög til rekstrar úr ríkissjóði hækka úr 621 m.kr. í 742 m.kr. Hagnaður frá rekstri eykst úr 541 m.kr. í 662 m.kr. og handbært fé í árslok fer úr 639 m.kr. í 760 m.kr.

47 Félagsmálaráðuneyti

201–215 Íbúðalánasjóður.
        Nokkrar breytingar verða á lánsfjárheimildum Íbúðalánasjóðs frá því sem áætlað er fyrir í frumvarpinu. Þar vega þyngst heimildir til að auka útgáfu húsbréfa um 4.800 m.kr. Þá hækka lánsfjárheimildir til leiguíbúða um 1.200 m.kr. og viðbótarlána um 1.500 m.kr. Gert er ráð fyrir að 655 m.kr. meiri rekstrarhagnaði sjóðsins og að handbært fé frá rekstri aukist um rúmlega 1.200 m.kr. Umsóknum hefur fjölgað mikið og samþykkt skuldabréfaviðskipti nema mun hærri fjárhæðum en á fyrra ári. Er þessi þróun þvert á fyrri spár Íbúðalánasjóðs þar sem gert var ráð fyrir nokkrum samdrætti.

201    Íbúðalánasjóður, húsbréfadeild.
        Í endurskoðaðri áætlun er gert ráð fyrir að veittar verði samtals 34.690 m.kr. í löng lán í stað 29.856 m.kr. samkvæmt frumvarpinu. Þá er gert ráð fyrir að afborganir af veittum löngum lánum minnki úr 6.605 m.kr. í 5.932 m.kr. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að sjóðurinn taki 34.350 m.kr. löng lán en þau voru áætluð 29.557 m.kr. í frumvarpinu. Afborganir af teknum löngum lánum eru áætlaðar 18.736 m.kr. sem er 2.539 m.kr. lækkun.

205    Íbúðalánasjóður, leiguíbúðir.
        Heildarlánveitingar eru áætlaðar 9.250 m.kr. og aukast um 1.200 m.kr. frá því sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þar af eru 1.000 m.kr. til leiguíbúða sem verða 8.500 m.kr. og 200 m.kr. til greiðsluörðugleikalána sem verða 600 m.kr. Gert er ráð fyrir að nokkur innbyrðis breyting geti orðið á lánsfjárheimildum til leiguíbúða sem byggðar eru í samræmi við sérstakt fjögurra ára átak til að fjölga leiguíbúðum. Lán til leiguíbúða sem bera 3,5% vexti lækka úr 4.000 m.kr. í 3.000 m.kr., lán til íbúða sem bera 4,5% vexti eru óbreytt 1.500 m.kr. en lán til íbúða sem Íbúðalánasjóður fjármagnar á almennum markaði hækka um 2.000 m.kr. og verða 4.000 m.kr. Þá hækka tekin löng lán í 12.300 m.kr. en voru 10.706 m.kr. í frumvarpinu.

211    Íbúðalánasjóður, viðbótarlán.
        Umsóknum um viðbótarlán hefur fjölgað mikið og er ekki að sjá nein merki þess að tekið sé að draga úr þeirri eftirspurn. Samsetning umsækjenda eftir viðbótarlánum er nokkuð önnur en eftir húsbréfalánum en viðbótarlán eru veitt að beiðni húsnæðisnefnda sveitarfélaga og á ábyrgð sveitarfélaga. Áætlað er að veitt löng lán verði 6.000 m.kr. á árinu 2002 sem er 1.500 m.kr. hækkun frá frumvarpinu. Gert er ráð fyrir að tekin löng lán hækki um 1.372 m.kr. og verði 8.320 m.kr.

215    Íbúðalánasjóður, byggingarsjóðir ríkisins og verkamanna.
        Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að selja húsbréf að fjárhæð 8.961 m.kr. til að fjármagna byggingarsjóði ríkisins og verkamanna. Í ljósi endurmats er hins vegar talið nauðsynlegt að endurfjármagna þurfi þessa sjóði með sölu húsbréfa að fjárhæð 9.740 m.kr. og að afborganir af teknum löngum lánum aukist úr 11.143 m.kr. í 11.641 m.kr.

50 Samgönguráðuneyti

651    Ferðamálasjóður.
        Lagt verður til að sjóðurinn verði lagður niður með væntanlegu frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, og að ríkissjóður yfirtaki eignir og skuldir sjóðsins.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR VIÐ 5. GR.

    Lagt er til í a-lið að ríkissjóður taki 8.400 m.kr. minna að láni en áætlað var í frumvarpinu og heildarlántökur A-hluta verði 20.000 m.kr. Lækkunin stafar af hærri lánsfjárafgangi en áður var áætlað þar sem gert er ráð fyrir að söluandvirði viðskiptabankanna komi til greiðslu árið 2003.
    Í c-lið er lagt til að ríkissjóði verði heimilað að auka endurlán sín til Lánasjóðs íslenskra námsmanna um 200 m.kr. og að heildarlánveitingar til sjóðsins verði 4.300 m.kr. Skýringin á því að farið er fram á aukna lánsfjárheimild er fjölgun nemenda innan lands og breytingar á tekjum lánþega.
    Í d-lið er lagt til að endurlán ríkissjóðs til Happdrættis Háskóla Íslands verði 700 m.kr. árið 2003 í stað 414 m.kr. og jafnframt verður lagt til að í fjáraukalögum fyrir árið 2002 verði felld niður 650 m.kr. lánsfjárheimild til sama aðila. Farið er fram á heimildina til að ljúka á næsta ári byggingu á Náttúrufræðihúsi í Vatnsmýrinni.
    Þá er í e-lið lagt til að veitt verði ný heimild til að endurlána Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli, sem er í B-hluta frumvarpsins, allt að 190 m.kr. Fyrirhugað er að ráðast í stækkun flughlaða til að mæta sívaxandi fraktflugi. Framkvæmdin mun auðvelda alla afgreiðslu flugvéla og tengist nýlegum fraktskemmum á staðnum.
    Í b-lið breytist samtala heimilda til endurlána vegna framangreindra breytinga á 2. tölul. 5. gr.
    Gerð er tillaga um nokkrar breytingar á lánsfjárheimildum Íbúðalánasjóðs í ljósi endurskoðunar á útlánum á þessu og næsta ári og endurskoðunar á sjóðstreymi einstakra lánaflokka. Í f-lið er gerð tillaga um að lántökuheimild húsbréfadeildar verði aukin um tæplega 4,8 milljarða kr. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir að drægi úr lánveitingum á þessu og næsta ári. Raunin hefur orðið önnur, m.a. vegna hækkunar á hámarksfjárhæðum árið 2001 og að fallið var frá kaupskyldu sveitarfélaga á félagslegu húsnæði. Þá hafa umsvif á fasteignamarkaði verið meiri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.
    Í g-lið er gerð tillaga um að lántökur til að fjármagna lán til leiguíbúða hækki um tæplega 1,6 milljarða kr. og er það til að mæta auknum umsóknum um lán til leiguíbúða sem bera almenn breytileg vaxtakjör, nú 4,9%.
    Í h-lið er gerð tillaga um að lántökur til að fjármagna útlán sem veitt eru á ábyrgð sveitarfélaganna til viðbótarlána verði auknar um rúma 1,4 milljarða kr. Mikil aukning hefur verið á viðbótarlánum undanfarin ár og hefur Íbúðalánasjóður af því tilefni óskað eftir því við félagsmálaráðuneyti og sveitarfélögin að fyrirkomulag viðbótarlána verði tekið til endurskoðunar í ljósi reynslunnar.
    Lagt er til í i-lið að heimild Íbúðalánasjóðs til endurfjármögnunar á byggingarsjóðum ríkisins og verkamanna hækki um tæplega 800 m.kr.
    Gerð er tillaga í j-lið um að heimild Ferðamálasjóðs til 100 m.kr. lántöku falli niður en til stendur að leggja fram frumvarp um að sjóðurinn verði lagður niður. Af því leiðir að liður 3.9 verður 3.8.
    Loks er lagt til að við bætist nýr liður sem verði 5. tölul. og er þar sótt um heimild til að veita nýju hlutafélagi, Farice hf., allt að 800 m.kr. ríkisábyrgð til að leggja ljósleiðara frá Íslandi um Færeyjar til Skotlands. Jafnframt er farið fram á heimild í 7. gr. fyrir ríkissjóð til að kaupa hlutafé fyrir allt að 560 m.kr. í hinu nýja félagi.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum. Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. des. 2002.



Ólafur Örn Haraldsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.     


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Drífa Hjartardóttir.


Ásta Möller.





Fylgiskjal I.

Álit


um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2003, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í samræmi við 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, hefur nefndin fjallað um 1. gr. fjárlagafrumvarps fyrir árið 2003, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.
    Nefndin fékk á sinn fund Bolla Þór Bollason, Fjólu Agnarsdóttur, Maríönnu Jónasdóttur og Benedikt Valsson frá fjármálaráðuneyti.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2003 voru heildartekjur ríkissjóðs áætlaðar 264 milljarðar kr. Þessi áætlun hefur nú verið endurskoðuð. Þá hefur þjóðhagsspá sem birt var fyrr í haust verið endurskoðuð en þjóðhagsforsendur fyrir árin 2002 og 2003 eru í meginatriðum samhljóða haustspánni. Í nýrri spá fjármálaráðuneytisins er ekki gert ráð fyrir álvers- eða virkjunarframkvæmdum.
    Að öllu samanlögðu er nú talið að tekjur ríkissjóðs á árinu 2003 muni nema 271,6 milljörðum kr. sem er hækkun um 7,6 milljarða kr. miðað við það sem upphaflega var gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Má rekja þá hækkun fyrst og fremst til eftirfarandi þátta. Áætlaðar tekjur af tekjuskatti lögaðila hækka um 3 milljarða kr. Áætlaðar tekjur vegna hækkunar á áfengis- og tóbaksgjaldi hækka um 1,1 milljarð kr. Áætlaðar tekjur af dráttarvöxtum af sköttum á tekjur og hagnað hækka um tæplega 1 milljarð kr. Áætlaðar tekjur af söluhagnaði eigna ríkisins hækka um 1,8 milljarða kr. Þá mun frestun á fyrirhugaðri lækkun á stimpilgjaldi fela í sér 900 millj. kr. tekjuhækkun og hækkun á framlagi Happdrættis Háskóla Íslands til Háskólans skilar 310 millj. kr. Á móti kemur að áætlaðar tekjur af tekjuskatti einstaklinga lækka um tæplega 1 milljarð kr. þar sem gert er ráð fyrir minni launahækkun og meira atvinnuleysi en í forsendum fjárlagafrumvarpsins auk áhrifa 0,4% hækkunar á persónuafslætti.
    Í meðfylgjandi töflu má sjá þær skattalagabreytingar sem fyrirhugaðar eru samkvæmt lögum settum á árunum 2001 og 2002 og koma til framkvæmda á árinu 2003:

Áætluð áhrif skattbreytinganna á tekjur ríkissjóðs árið 2003*

Millj. kr.
Tekjuskattur fyrirtækja lækkar úr 30% í 18% 1. janúar 2002 ** -1.700
Sérstakur eignarskattur fyrirtækja fellur niður m.v. árslok 2002 -300
Eignarskattur fyrirtækja lækkar úr 1,2% í 0,6% m.v. árslok 2002 -700
Sérstakur eignarskattur einstaklinga fellur niður m.v. árslok 2002 -300
Eignarskattur einstaklinga lækkar úr 1,2% í 0,6% m.v. árslok 2002 -1.300
Tryggingagjald hækkar um 0,5% frá 1. janúar 2003 *** 1.800
Persónuafsláttur hækkar um 0,4% frá 1. janúar 2003 -230
Sérstakur tekjuskattur lækkar úr 7% í 5% frá 1. janúar 2003 -300
Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækkar 100
Áfengisgjald hækkar 300
Tóbaksgjald hækkar 800
Samtals -1.830
*    Hér er um nettóáhrif að ræða, þ.e. að teknu tilliti til áætlaðra veltubreytinga o.fl.
**    Tekjuskattur samlagsfélaga og sameignarfélaga lækkar úr 38% í 26% 1. janúar 2002.
***    Ríkissjóður undanskilinn.

    Helstu breytingar efnahagsforsendna sem varða tekjuáætlun fyrir árið 2003 eru að gert er ráð fyrir að einkaneysla dragist saman um 1,25% í stað 1% árið 2002 en verðbólguspáin er óbreytt, þ.e. að verðbólgan fari úr 4,75% árið 2002 í 2,25% árið 2003. Þá er reiknað með 2,25% raunaukningu samneyslu en upphaflega var aðeins reiknað með 1% vexti í fjárlagafrumvarpinu en það er afleiðing af auknum ríkisútgjöldum.
    Reiknað er með lítils háttar hagvexti sem einkum kemur til af auknum útflutningi, minni samdrætti í innflutningi og meiri samneyslu. Breyttar forsendur í utanríkisviðskiptum, m.a. vegna lakari viðskiptakjara, leiða til þess að í stað hallalausra viðskipta við útlönd samkvæmt fyrri spá er nú gert ráð fyrir viðskiptahalla sem nemur tæplega 0,25% af landsframleiðslu.

Alþingi 4. des. 2002.

Vilhjálmur Egilsson, form.,
Einar K. Guðfinnson,
Árni R. Árnason,
Gunnar Birgisson,
Jónas Hallgrímsson.



Fylgiskjal II.

Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2003, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Mikla veikleika er að finna í tekjuhlið fjárlaga. Afar ótraustar stoðir eru undir þeim tekjuauka sem fjármálaráðherra byggir breytingar á tekjuáætlun á nú við 3. umræðu fjárlaga. Tölurnar virðast tíndar upp úr hatti með það að markmiði að láta þær ganga upp í aukin útgjöld sem stofnað hefur verið til við meðferð fjárlagafrumvarpsins á Alþingi. Tekjuafgangur fjárlaga fyrir næsta ár er því afar ótraustur og ekki til þess fallinn að veita öflugt viðnám við verðbólgu eða efla stöðugleika efnahagslífsins. Fjárlögin í heild, bæði á tekju- og gjaldahlið, endurspegla því veika hagstjórn og lausatök á efnahagsmálunum þar sem reynt er að sníða tekjur að útgjöldum.

Mismunandi forsendur Seðlabanka og fjármálaráðuneytis.
    Fjármálaráðuneytinu og Seðlabanka ber ekki saman um veigamiklar stærðir í þjóðhagsspám fyrir næsta ár. Þannig gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir 1,75% hagvexti en Seðlabankinn 1,5%. Launabreytingar sem fjármálaráðuneyti áætlar eru 4,25% en Seðlabankinn áætlar 4% og ráðuneytið gerir ráð fyrir 2% breytingu á raunlaunum en Seðlabanki Íslands 1,5%. Seðlabankinn spáir svo 0,25% hærri verðbólgu en fjármálaráðuneytið. Veigamestur munur er svo á atvinnuleysisspá Seðlabanka og fjármálaráðuneytisins, en Seðlabankinn gerir ráð fyrir 3,25% atvinnuleysi en ráðuneytið 2,75%. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja um atvinnuástandið og að gefnum öðrum stæðrum í þjóðhagsspám er nokkuð víst að atvinnuleysið verði mun meira en fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir og gæti þar munað um 500 millj. kr. sem vanáætlaðar eru í útgjöldum ráðuneytisins.

Óvissa í verðlagsforsendum frumvarpsins.
    Að mati 1. minni hluta ríkir nokkur óvissa um verðlagsforsendur frumvarpsins, m.a. vegna áforma tryggingafélaga um hækkun iðgjalda og áhrifa af boðuðum hækkunum sveitarfélaga, t.d. leikskólagjöldum. ASÍ hefur líka lýst áhyggjum af því að verðhækkunarskriða geti verið fram undan. M.a. hefur komið fram að ýmsir óttast skriðu verðhækkana í kjölfar hækkana á mjólkurvörum um 3% frá og með áramótum. Jafnframt er ekki enn komin fram 12% meðaltalshækkun á húsaleigu í leiguíbúðum sem gæta mun strax í næstu vísitölumælingu. Allt þetta stefnir í hættu verðbólguforsendum fyrir næsta ár og verðlagsmarkmiðum fjárlagafrumvarpsins.
    Benda má einnig á að í forsendum fjárlaga eða öðrum þjóðhagsstærðum er ekki gert ráð fyrir áhrifum af áformum um stóriðjuframkvæmdir sem þó er viðurkennt af fulltrúum fjármálaráðuneytisins að gæti farið að gæta þegar á haustmánuðum á næsta ári. Áhrifin af stóriðjuframkvæmdunum gætu því raskað nokkuð þeim þjóðhagsstærðum sem nú er byggt á.
    Gert er ráð fyrir aukningu í samneyslu, að hún verði 2,25% en upphaflega var gert ráð fyrir 1% aukningu, en að einkaneysla dragist saman um 1,25% í stað 1% árið 2002. Athyglisvert er að í hagspá Búnaðarbankans er gert ráð fyrir 15 milljarða kr. viðskiptahalla á næsta ári, en í forsendum fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir 4 milljarða kr. viðskiptahalla árið 2003.

63% vanáætlun á tekjuskatti lögaðila.
    Tekjuafgangur fjárlaga fyrir næsta ár er nú áætlaður 11,5 milljarðar kr., en útgjaldaaukning frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram er 6,8 milljarðar kr. Tekjuauki við 3. umræðu fjárlaga er áætlaður 7,6 milljarðar kr. Furðulegt er að allt í einu hoppi upp úr hatti fjármálaráðuneytisins 3 milljarðar kr. með endurmati á tekjuskatti lögaðila upp á 3 milljarða kr., þannig að tekjuskattur lögaðila hækkar frá fjárlagafrumvarpi úr 5.250 millj. kr. í 8.250 millj. kr. eða um 63%.
    Ástæður þessarar hækkunar er sögð vera endurmat ársins 2002 í kjölfar álagningar sem birt var í október. Þetta vanmat í fjárlagafrumvarpinu er með ólíkindum og ekki til þess fallið að vekja traust á forsendum frumvarpsins þegar áætlanir vegna tekjuskatts lögaðila sveiflast til um 63% á þremur mánuðum.
    Á undanförnum fjórum árum hefur álagning á lögaðila verið um 9–10 milljarðar kr. á ári. Með 30% skatthlutfalli svarar það til þess að skattskyldur rekstrarhagnaður að frádregnu yfirfæranlegu tapi hafi verið um 30–33 milljarðar kr. á ári. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila verði 5.250 millj. kr. sem með 18% skatthlutfalli á lögaðila svarar til um 29 milljarða kr. skattstofns. Hækkun skatttekna um 3 milljarða kr. svarar til um 16,7 milljarða kr. hækkunar á stofni sem yrði þá alls um 45 milljarðar kr. Athyglisvert er að vegna lækkunar á skatthlutfalli úr 30% í 18% verða tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti lögaðila miðað við breyttar forsendur nú við 3. umræðu fjárlaga um 8.250 millj. kr. Miðað við 30% skatthlutfall hefðu tekjurnar orðið 13.800 millj. kr. og miðað við 25% skatthlutfall, sem var tillaga Samfylkingarinnar við skattalagabreytinguna á síðasta ári, hefðu tekjur af tekjuskatti lögaðila orðið á næsta ári 11.500 milljarðar kr. Þetta staðfestir enn einu sinni ranga skattastefnu ríkisstjórnarinnar því lækkun skatthlutfalls á fyrirtæki úr 30% í 18% gagnast fyrst og fremst stórfyrirtækjum, ekki síst tryggingafélögum og fjármálafyrirtækjum. Svigrúm til þessarar miklu lækkunar á skatthlutfallinu var m.a. fengið með lækkun á tryggingagjaldi sem kemur sér afar illa fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, en hækkun tryggingagjalds milli áranna 2002 og 2003 er áætluð tæpir 3,8 milljarðar kr. Ástæða er til að ítreka að 25% skatthlutfall í tekjuskatti hefði dugað til að Ísland héldi skattalegu forskoti sínu á aðrar þjóðir. Það hefði þýtt 3,8 milljörðum kr. meiri tekjur í ríkissjóð á næsta ári sem gefið hefði svigrúm til verulegrar lækkunar á tryggingagjaldi sem gagnast vel litlum og meðalstórum fyrirtækjum og lækkana tekjuskatts á einstaklinga og lífeyrisþega.

Verulegar skattahækkanir á einstaklinga og minni fyrirtæki.
    Af 3,8 milljarða kr. hækkun á tryggingagjaldi á næsta ári má rekja 1,8 milljarða kr. hækkun beint til lagabreytinga sem stjórnarflokkarnir hafa staðið fyrir. Tekjuauki til að mæta auknum útgjöldum sem meiri hluti fjárlaganefndar stendur fyrir er einnig fenginn með því að hætta við þriðjungs lækkun stimpilgjalds sem áformað var að tæki gildi á næsta ári. Þessi skattalækkun sem nú er tekin til baka hækkar stimpilgjöld frá því sem frumvarpið gerði ráð fyrir um 900 millj. kr. Samfylkingin er þeirrar skoðunar að stimpilgjöld séu ranglátur skattur og leggist þyngra á fólk í fjárhagsþröng en aðra í samfélaginu og þyngra á lítil fyrirtæki en stór. Samfylkingin lagði til að þegar á þessu ári yrði stigið skref í að afnema stimpilgjöld þannig að stimpilgjöld yrðu lækkuð um þriðjung 1. janúar 2003. Skattheimta á borð við innheimtu stimpilgjalda hefur verið á hröðu undanhaldi í OECD-ríkjunum síðustu áratugi. Slík skattheimta hefur í för með sér neikvæð áhrif, svo sem að mismuna aðilum innan lands og veikja samkeppnisstöðu fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum. Eins og íslenskt viðskiptaumhverfi hefur þróast er óhætt að halda því fram að stimpilgjöldin séu bein samkeppnishindrun fyrir íslensk fjármálafyrirtæki, sem og íslenska útgefendur verðbréfa sem hyggjast skrá þau á erlendum mörkuðum. Stimpilgjöld eru líka mjög ósanngjarn skattur gagnvart einstaklingum, einkum þeim sem eru að koma sér upp húsnæði. Fyrsti áfangi í afnámi stimpilgjalda, sem taka átti gildi nú um áramót en ríkisstjórnin hefur nú fallið frá, hefði því komið sér sérlega vel fyrir fyrirtæki og heimili. Ljóst er að afnám stimpilgjalda mundi sérstaklega gagnast litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem geta síður en stærri fyrirtæki leitað eftir lánsfé erlendis. Tekjur af stimpilgjaldi eru áætlaðar 3,3 milljarðar kr. á næsta ári. Samkvæmt lauslega áætluðu mati greiða einstaklingar 35–40% af stimpilgjaldinu eða 1,2–1,3 milljarða kr. en fyrirtæki 60–65% eða um 2–2,1 milljarð kr.
    Skattahækkanir ríkisstjórnarinnar nú við lokaafgreiðslu fjárlaga upp á 2 milljarða kr. birtast því einkum í 900 millj. kr. hækkun á stimpilgjaldi sem áður var áformað að lækka og í 1.100 millj. kr. hækkun á áfengi og tóbaki sem hefur veruleg verðlagsáhrif og eykur skuldir heimilanna. Auk þess hækkar tryggingagjald milli ára um 3,7 milljarða kr. sem kemur sér afar illa fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.
    Í breyttri tekjuáætlun er einnig gert ráð fyrir að tekjuskattur einstaklinga lækki um 1 milljarð kr. Sú skýring sem gefin er á þeirri lækkun er aukið atvinnuleysi og minna launaskrið, jafnframt því sem persónuafsláttur er hækkaður um 0,4% (230 millj. kr.) til samræmis við samkomulag við aðila vinnumarkaðarins í tengslum við kjarasamninga. Það vekur líka athygli að gert er ráð fyrir auknum tekjum vegna dráttarvaxta af sköttum á tekjur og hagnað sem færa á ríkissjóði um 1 milljarð kr. til viðbótar 6 milljörðum kr. sem ráð er fyrir gert í fjárlagafrumvarpinu. Tekjur af dráttarvöxtum milli áranna 2001 og 2002 eru því áætlaðar 7 milljarðar kr. Reikna má með að þessa aukningu á dráttarvöxtum megi rekja til aukinna vanskila fyrirtækja og einstaklinga við ríkissjóð, en ekki fengust á því fullnægjandi skýringar ráðuneytisins í efnahags- og viðskiptanefnd. Vera má líka að þetta sé ein af þeim reikningskúnstum sem nú er beitt til að mæta nærri 7 milljarða kr. auknum útgjaldaáformum stjórnarflokkanna frá því sem fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir.

Ámælisverð vinnubrögð.
    Af hálfu fjármálaráðherra og ríkisstjórnar eru viðhöfð mjög sérkennileg og ámælisverð vinnubrögð við afgreiðslu á tekjuskattsfrumvarpi sem nú er til meðferðar og getur haft veruleg áhrif á tekjuhlið fjárlaga. Eftir að efnahags- og viðskiptanefnd hafði lokið umfjöllun sinni um tekjuhlið fjárlaga boðaði fjármálaráðuneytið gjörbreytingu á veigamiklu ákvæði í tekjuskattsfrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem nú er til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd. Lagðar eru til veigamiklar breytingar á meðferð ónýtts yfirfæranlegs rekstrartaps fyrirtækja sem ekki var gert ráð fyrir í upphafilegu frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar er gert ráð fyrir að teknar verði upp stiglækkandi fyrningar, en með þeirri aðferð eru eignir fyrndar af eftirstöðvum bókfærðs verð í stað stofnverðs hverju sinni þannig að fjárhæð fyrninga er hæst fyrstu árin og fer síðan lækkandi. Einnig er lögð til veruleg hækkun á fyrningarhlutföllum. Ekkert kostnaðarmat fylgdi þessari breytingu sem getur falið í sér verulega aukið tekjutap fyrir ríkissjóð á næstu árum. Þessi breyting kemur til viðbótar þeirri rýmkun sem felst í frumvarpinu, að fjölga árum sem heimilt er að nýta yfirfæranleg rekstrartöp úr átta í tíu ár. Vegna þeirrar breytingar einnar áætlar fjármálaráðuneytið að hægt sé að reikna með að niðurfellt tap eftir átta ár sé að jafnaði um 1–3 milljarðar kr. Nýting þess á móti hagnaði á níunda og tíunda ári er allt að 1 milljarður kr. sem ætla má að þýði um 200 millj. kr. tekjutap ríkissjóðs á næsta ári sem ekki er hægt að sjá að gert sé ráð fyrir á tekjuhlið fjárlaga fyrir næsta ár. Heimild til að nýta yfirfæranleg rekstrartöp hefur rýrt skatttekjur ríkissjóðs um hátt í 7 milljarða kr. á ári á undanförnum árum.

Niðurstaða.
    Fyrsti minni hluti telur að endurmeta þurfi málsmeðferð og alla vinnu efnahags- og viðskiptanefndar við umfjöllun á tekjuhlið fjárlaga. Lítill tími gefst til að fjalla um málið eða leita nauðsynlegra gagna og umsagna um einstaka þætti í endurskoðaðri þjóðhagsspá sem áhrif hafa á tekjuhlið fjárlaga. Vinnubrögðin eru því til vansa þar sem stutt og yfirborðsleg umfjöllun nefndarinnar um málið gefur ekki færi á að fjalla um einstaka þætti efnahagsmála eða þjóðhagsstærða eins og nauðsynlegt væri. Á þeim stutta tíma sem nefndin hafði til að fjalla um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins er ljóst að hún er öll í skötulíki, tekjuaukinn byggður á veikum grunni og ýmsar forsendur þjóðhagsstærða hæpnar.
    Í hnotskurn endurspeglar tekjuhliðin veikleika við hagstjórnina.

Alþingi 4. des. 2002.

Jóhanna Sigurðardóttir.
Össur Skarphéðinsson.


Fskj. 1.

Fjármálaráðuneyti,
efnahagsskrifstofa:



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fskj. 2.

Fjármálaráðuneyti,
efnahagsskrifstofa:


Skipting tekna ríkissjóðs.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.

Álit



um 1. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 2003, sbr. sundurliðun 1, og áhrif skattalagabreytinga á tekjur ríkissjóðs.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Allar götur frá því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk lyklavöld í Stjórnarráðinu, fyrst með stuðningi Alþýðuflokks frá 1991 til 1995 og síðan Framsóknarflokks frá árinu 1995 og fram á þennan dag, hefur verið fylgt þeirri stefnu í skattamálum að flytja skattbyrðar af stöndugum fyrirtækjum og efnafólki yfir á launafólk. Jafnframt hafa margvísleg þjónustugjöld verið aukin og eru þar alvarlegastar álögur á sjúklinga, bæði vegna stóraukins lyfjakostnaðar og beinnar þátttöku þeirra við læknisverk.
    Tekjuhlið fjárlagafumvarps ríkisstjórnarinnar að þessu sinni er mjög í anda þessarar stefnu, tekjuskattar fyrirtækja lækka en þær skattaívilnanir sem fram koma í þágu launafólks hafa verið knúnar fram með félagslegum þrýstingi.
    Samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins má búast við því að áhrif skattkerfisbreytinga ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár verði eins og fram kemur í eftirfarandi töflu:*

M.kr.
Tekjuskattur fyrirtækja lækkar úr 30% í 18% 1. janúar 2002 ** -1.700
Sérstakur eignarskattur fyrirtækja fellur niður m.v. árslok 2002 -300
Eignarskattur fyrirtækja lækkar úr 1,2% í 0,6% m.v. árslok 2002 -700
Sérstakur eignarskattur einstaklinga fellur niður m.v. árslok 2002 -300
Eignarskattur einstaklinga lækkar úr 1,2% í 0,6% m.v. árslok 2002 -1.300
Tryggingagjald hækkar um 0,5% frá 1. janúar 2003 *** 1.800
Persónuafsláttur hækkar um 0,4% frá 1. janúar 2003 -230
Sérstakur tekjuskattur lækkar úr 7% í 5% frá 1. janúar 2003 -300
Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækkar 100
Áfengisgjald hækkar 300
Tóbaksgjald hækkar 800
Samtals -1.830
Athugasemdir:
* Hér er um nettóáhrif að ræða, þ.e. að teknu tilliti til áætlaðra veltubreytinga o.fl.
** Tekjuskattur samlagsfélaga og sameignarfélaga lækki úr 38% í 26% 1. janúar 2002.
*** Ríkissjóður undanskilinn.     





    Til glöggvunar á þeim miklu tilfærslum sem átt hafa sér stað í gegnum skattkerfið frá árinu 1991 og fram á þennan dag er birt hér tafla sem sýnir hvernig tekjuskattur fyrirtækja hefur þróast á þessu árabili í samanburði við tekjuskatta einstaklinga og skattleysismörk.

Skattur lag ð ur á Vegna tekna ársins Hf., % Sf., % Einstak- lingur, % Þ ar af r íki, % Þ ar af útsvar, % Pers ónu-
afsl áttur, kr.
Skattleysis-
m örk ellil íf eyr is-
þ ega, kr.
Skattleysis- m örk launa manns kr. H á tekju-
skattur,
%
H átekju-
m örk á m ánu ð i, kr.
1990 1989 50 50 37,74 30,8 6,94 18.631 49.367 49.367
1991 1990 45 45 39,79 32,8 6,99 21.482 53.988 53.988
1992 1991 45 45 39,79 32,8 6,99 23.377 58.751 58.751
1993 1992 39 41 39,85 32,8 7,05 23.968 60.144 60.144
1994 1993 33 41 41,34 34,3 7,04 23.761 57.477 57.477 5 203.340
1995 1994 33 41 41,84 33,15 8,69 23.930 57.193 57.193 5 207.840
1996 1995 33 41 41,00 33,15 8,78 24.494 58.419 59.310 5 233.820
1997 1996 33 41 41,94 33,15 8,79 24.544 58.522 60.332 5 233.820
1998 1997 33 41 41,98 30,41 11,57 24.544 58.466 60.902 5 233.820
1998 1997 33 41 40,00 29,31 11,57 23.901 58.466 60.902 5 233.820
1999 1998 30 38 39,02 27,41 11,61 23.360 59.867 62.361 7 266.500
2000 1999 30 38 38,00 26,41 11,93 23.329 60.848 63.386 7 273.063
2000 2000 30 38 38,37 26,00 11,96 23.912 62.320 64.916 7 273.063
2001 2000 30 38 38,37 26,00 11,00 24.510 63.878 66.540 7 273.063
2002 2001 30 38 38,76 26,08 12,00 25.245 65.132 67.845 7 273.063
2003 2002 18 26 38,54 25,75 12,79 26.002 67.468 70.279 5 340.787
Heimild: Emb æ tti r íkisskattstj óra, a ð undanskildum útreikningi á skattleysism örkum.

    Allir gestir efnahags- og viðskiptanefndar sem voru í forsvari fyrir samtök launafólks, öryrkja og eldri borgara mótmæltu skattastefnu ríkisstjórnarinnar harðlega og sögðu að um hana mundi ekki ríkja neinn friður í samfélaginu. 2. minni hluti lýsir andstöðu við áherslur ríkisstjórnarinnar í skattamálum en þær eru í anda þeirrar skattastefnu sem rekin hefir verið í landinu í rúman áratug.


Alþingi, 4. des. 2002.



Ögmundur Jónasson