Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 429. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 632  —  429. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um útflutningsaðstoð.

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Grétar Má Sigurðsson og Benedikt Höskuldsson frá utanríkisráðuneyti, Jón Ásbergsson og Pál Sigurjónsson frá Útflutningsráði og Ara Edwald frá Samtökum atvinnulífsins.
    Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að höfuðtekjustofn Útflutningsráðs, markaðsgjaldið, verði framlengdur um fimm ár, til 1. janúar 2008 en lagaheimild fyrir gjaldtökunni rennur út um næstu áramót. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að sett verði á fót sjálfstæð samráðsnefnd um útflutningsaðstoð og utanríkisviðskipti þar sem þær atvinnugreinar sem á einhvern hátt koma að útflutningsstarfsemi og gjaldeyrissköpun eiga sinn fulltrúa auk þeirra ráðuneyta sem fara með þá málaflokka. Er nefndinni ætlað að fjalla um áhersluatriði í útflutningsaðstoð, svo sem að sinna stefnumótun og skilgreina samvinnu- og átaksverkefni í útflutningsaðstoð og markaðssetningu íslensks útflutnings á erlendum vettvangi sem og að vera vettvangur samráðs og skoðanaskipta. Í þriðja lagi er kveðið skýrt á um að stjórn Útflutningsráðs sé ætlað að vera ráðgefandi fyrir utanríkisráðherra um málefni viðskiptaþjónustunnar, útflutningsaðstoð og um utanríkisviðskipti en að öðru leyti er lögbundið hlutverk ráðsins óbreytt. Loks eru sett skýr ákvæði um þau verkefni sem Útflutningsráði er heimilt að veita fé til og er það gert í samræmi við breyttar áherslur í meðferð opinbers fjár.
    Frumvarpið er niðurstaða af endurskipulagningu utanríkisráðuneytisins á fyrirkomulagi aðstoðar við útflutningsviðskipti og er ætlað að koma í stað laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er verið að auka formlegt samráð stjórnvalda og hagsmunasamtaka atvinnulífsins um útflutningsaðstoð og framkalla þannig samstillt átak allra þeirra aðila sem fara með þessi mál og leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jóhanna Sigurðardóttir, Hjálmar Árnason, Árni R. Árnason og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. des. 2002.



Vilhjálmur Egilsson,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Gunnar Birgisson.



Jóhann Ársælsson.


Ögmundur Jónasson.