Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 215. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 640  —  215. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um fjármálafyrirtæki.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur og Guðmundi Árna Stefánssyni.



     1.      Við 19. gr. Greinin orðist svo:
             Fjármálafyrirtæki skal starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Sömuleiðis skal fjármálafyrirtæki starfa í samræmi við leiðbeiningarreglur Fjármálaeftirlitsins um hvað teljist góðir viðskiptahættir fjármálafyrirtækis á hverjum tíma.
     2.      Við 21. gr. 2. mgr. orðist svo:
             Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er heimilt, að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins, að stunda hliðarstarfsemi auk þjónustu skv. 20. gr., enda sé hún í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækisins. Ákvæði 1. málsl. þessarar málsgreinar tekur einnig til þess þegar fjármálafyrirtæki á eignarhlut í eða er þátttakandi í annarri atvinnustarfsemi. Í umsókn til Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja upplýsingar um hina fyrirhuguðu starfsemi sem Fjármálaeftirlitið metur fullnægjandi. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal berast umsækjanda innan eins mánaðar frá því að fullnægjandi umsókn berst því. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að starfsemin sé stunduð í sérstöku félagi, en skal þá tilkynna viðkomandi aðila um þá ákvörðun sína innan fyrrgreinds frests.
     3.      Við 40. gr. 2. mgr. orðist svo:
             Með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild í fjármálafyrirtæki öðru en sparisjóði sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi fyrirtækis. Sama skilgreining á virkum eignarhlut gildir um sparisjóði en miða skal við hlutfallstöluna 5% eða meira af stofnfé.
     4.      Við 66. gr. Við 1. mgr. bætist við nýr málsliður, svohljóðandi: Við aukningu stofnfjár skal öllum aðilum með lögheimili á starfssvæði sparisjóðsins boðin þátttaka.
     5.      Við 70. gr. Í stað orðanna „heildaratkvæðamagni í sparisjóði“ í 2. málsl. 3. mgr. komi: heildaratkvæðamagni sem farið er með atkvæði fyrir á fundi stofnfjáreigenda.
     6.      Við 73. gr. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Áður en sparisjóði er breytt í hlutafélag skal eiga sér stað aukning stofnfjár skv. 66. gr.