Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 405. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 697  —  405. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breytingar á ýmsum lögum vegna verkefna Umhverfisstofnunar.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigrúnu Ágústsdóttur og Ingimar Sigurðsson frá umhverfisráðuneyti, Kristin Skarphéðinsson, sem kom sem fulltrúi Náttúrufræðistofnunar og ráðgjafarnefndar um villt dýr, Sigurborgu Daðadóttur, Arnór Sigfússon, Elínu Jóhannsdóttir, Maríu Harðardóttur, Ólaf R. Dýrmundsson og Magnús Skarphéðinsson frá dýraverndarráði og Friðjón Þórðarson frá Breiðafjarðarnefnd.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna nýrrar stofnunar, Umhverfisstofnunar, sem hefur starfsemi 1. janúar nk., sbr. lög um Umhverfisstofnun, nr. 90/ 2002. Frá því að þau lög voru samþykkt í vor hefur starfshópur unnið að undirbúningi þess að Umhverfisstofnun verði sett á laggirnar og þar á meðal útfært frekar starfssvið stofnunarinnar. Nefndin hitti fulltrúa starfshópsins á fundi fyrr í haust og kynnti sér vinnu hans. Eins og kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu hefur verið unnið eftir því í meginatriðum að stjórnsýsla á sviði umhverfismála verði hjá Umhverfisstofnun og rannsóknarverkefni verði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Talin hefur verið þörf á því að einfalda stjórnsýslu á þessu sviði. Í samræmi við það er lagt til í frumvarpinu að stjórnsýsluvald verði fært frá fjölskipuðum nefndum, þ.e. Breiðafjarðarnefnd og ráðgjafarnefnd um villt dýr, til Umhverfisstofnunar auk þess sem lagt er til að sú síðarnefnda verði lögð niður. Hins vegar er lagt til að hreindýraráð, sem lagt var niður með lögum nr. 90/2002, starfi áfram að sömu verkefnum og áður að því undanskildu að stjórnsýsla málaflokksins færist til Umhverfisstofnunar. Telur meiri hlutinn það farsæla lausn enda æskilegt að málaflokkurinn njóti góðs af þeirri staðbundnu þekkingu sem til staðar er í hreindýraráði.
    Meiri hlutinn leggur til að hætt verði við að leggja niður dýraverndarráð en það var lagt niður með lögum um Umhverfisstofnun. Leggur meiri hlutinn til að það starfi áfram en í breyttri mynd. Stjórnsýsla á sviðinu og framkvæmd laga um dýravernd verði hjá Umhverfisstofnun en ráðið sinni ráðgjafarhlutverki fyrir stofnunina og umhverfisráðherra. Leggur meiri hlutinn til að sömu aðilar tilnefni menn í ráðið en ráðsmönnum verði fækkað úr fimm í fjóra þannig að umhverfisráðherra skipi ekki lengur mann án tilnefningar í ráðið. Er það gert að tillögu fulltrúa umhverfisráðuneytisins sem telja ekki þörf á því.
    Meiri hlutinn leggur einnig til að Skotveiðifélag Íslands tilnefni ekki fulltrúa í hreindýraráð. Við umfjöllun málsins var bent á að verkefni hreindýraráðs væru þess eðlis að ekki væru efni til að félagið tæki þátt í eða hefði áhrif á umfjöllun um þau. Fellst meiri hlutinn á þau sjónarmið.
    Aðrar breytingar sem lagðar eru til eru í aðalatriðum leiðréttingar. Má nefna að Búnaðarfélagi Íslands er ætlað hlutverk í 4. gr. frumvarpsins en það hefur hins vegar verið lagt niður. Þá er XVI. kafli frumvarpsins felldur niður þar sem frumvarp til laga um úrvinnslugjald, sem leysir af hólmi lög um spilliefnagjald, nr. 56/1996, verður væntanlega afgreitt á sama tíma og þetta frumvarp.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Jóhann Ársælsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Gunnar Birgisson og Katrín Fjeldsted voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. des. 2002.



Magnús Stefánsson,


form., frsm.


Ásta Möller.


Ísólfur Gylfi Pálmason.



Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Kristján Pálsson.


Þórunn Sveinbjarnardóttir,


með fyrirvara.