Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 405. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 703  —  405. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breytingar á ýmsum lögum vegna verkefna Umhverfisstofnunar.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Með frumvarpi þessu er gerð tillaga um að breytingar verði gerðar á 24 lögum til að fella gildandi löggjöf að lögum um Umhverfisstofnun sem samþykkt voru undir mikilli tímapressu á Alþingi sl. vor. Til marks um flumbruganginn í afgreiðslunni má nefna að einungis átta dagar liðu frá því að frumvarpið var tekið á dagskrá með afbrigðum þar til það var afgreitt úr umhverfisnefnd. 1. minni hluti gagnrýndi þau vinnubrögð harðlega og taldi málið alls ekki hafa fengið þá umfjöllun í nefndinni sem eðlileg hefði verið. Meðal gagnrýnisatriða þá var sú staðreynd að ekki fylgdi frumvarpi um Umhverfisstofnun bandormur sem ætlað væri það hlutverk að laga gildandi löggjöf að breytingunum. Nú er hann kominn fram og þá er tímapressan á afgreiðslu málsins nákvæmlega sú sama og í vor er leið. Mælt var fyrir málinu 3. desember og það var afgreitt frá nefndinni á aukafundi 11. desember eða átta dögum eftir að því var vísað til hennar. Þannig var þetta mál ekki sent út til umsagnar á eðlilegan hátt til þeirra aðila er málið varðar og einkenndist öll umfjöllun nefndarinnar af asa og stressi. Með afgreiðslu þessara tveggja mála, frumvarps um Umhverfisstofnun og frumvarpsins sem hér er til umfjöllunar hafa gífurlega umfangsmiklar breytingar á stofnanaflóru umhverfisráðuneytisins verið afgreiddar án þess að t.d. frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum hafi fengið tækifæri til að tjá sig um þær. Stofnanir þær sem komið hafa við sögu hafa fengið að gefa málamyndaumsagnir, sem þeim hefur verið ætlað að vinna á mettíma. Minni hlutinn ítrekar því alla gagnrýnina sem fram kom í nefndaráliti á þskj. 1355 í máli 711 á 127. löggjafarþingi.
    Nokkrar breytingartillögur meiri hlutans í þessu máli eru þó til bóta, t.d. sú ákvörðun að leyfa dýraverndarráði að lifa áfram, en í ljósi þeirrar ákvörðunar hefði að mati minni hlutans einnig mátt skoða hvort villidýranefndin hefði ekki líka átt áframhaldandi tilverurétt með sömu rökum. Nefndin hefur mikilvægu hlutverki að gegna sem vettvangur fyrir hagsmunaaðila og er það mat minni hlutans að nauðsynlegt sé að skilgreina samráðsvettvang á þessu sviði með lögum og tryggja aðkomu frjálsra félagasamtaka á sviði náttúru- og dýraverndar.
    Áréttuð skal sú skoðun minni hlutans að með flausturslegum vinnubrögðum við stofnun Umhverfisstofnunar sé verið að setja í uppnám umsýslu alþjóðlegra samninga á borð við Bernarsamninginn, samninginn um líffræðilega fjölbreytni og OSPAR-samninginn. Það er ekki leiðrétt með þessu frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.
    Þá telur minni hlutinn að taka hefði átt tillit til ábendingar Náttúrufræðistofnunar Íslands varðandi 34. og 42. gr., þ.e. að fella niður orðskýringuna Ágangssvæði. Orðið er ógagnsætt enda þýðir ágengd eða ágengni samkvæmt orðabók það að vera ágengur eða ásókn (búfjár). Þá má einnig taka undir ábendingar Náttúrufræðistofnunar varðandi 38., 39. og 43. gr. (sjá minnisblað Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna fundar um verkefni Umhverfisstofnunar dags. 9. desember 2002).
    Varðandi XX. kafla frumvarpsins, sem lýtur að lögum um vernd Breiðafjarðar, bendir minni hlutinn á þá staðreynd að með 33. gr. er verið að taka vald úr höndum Breiðafjarðarnefndar og færa það til Umhverfisstofnunar. Þannig gerir greinin ráð fyrir að ekki þurfi lengur samþykki Breiðafjarðarnefndar fyrir jarðraski á landsvæði sem ekki hefur verið formlega skipulagt, heldur nægi samþykki Umhverfisstofnunar. Og sömuleiðis nægi mat Umhverfisstofnunar varðandi spjöll á menningarsögulegum minjum, náttúruminjum eða lífríki sem hingað til hefur verið háð dómi Breiðafjarðarnefndar.
    Í ljósi ágreinings um grundvallaratriði við stofnun Umhverfisstofnunar getur minni hlutinn ekki stutt frumvarpið þó að það sé viðurkennt að nokkrar breytingartillögur meiri hlutans séu til bóta.

Alþingi, 12. des. 2002.



Kolbrún Halldórsdóttir.