Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 424. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 734  —  424. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2002, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES- samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og Hörð Lárusson frá menntamálaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 84/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á VII. viðauka (Gagnkvæm viðurkenning á starfsmenntun og hæfi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/19/EB frá 14. maí 2001 um breytingu á tilskipunum ráðsins 89/48/EBE og 92/51/EBE um almennt kerfi til viðurkenningar á prófskírteinum og tilskipunum ráðsins 77/452/EBE, 77/453/EBE, 78/686/EBE, 78/687/EBE, 78/1026/EBE, 78/1027/EBE, 80/154/EBE, 80/155/EBE, 85/384/EBE, 85/432/EBE, 85/433/EBE og 93/16/EBE varðandi starfsgreinar hjúkrunarfræðinga í almennri hjúkrun, tannlækna, dýralækna, ljósmæðra, arkitekta, lyfjafræðinga og lækna.
    Megintilgangur tilskipunarinnar er að einfalda, samræma og gera skýrari gildandi ákvæði um þetta efni. Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og hafa þær þegar verið gerðar. Þau atriði sem snúa að málefnasviði iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis voru innleidd með lögum nr. 69/2002, um breytingu á lögum nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum. Þá voru hinn 28. nóvember sl. samþykkt lög á Alþingi (þskj. 502, 248. mál) um breytingu á lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, sem innleiða þann hluta tilskipunarinnar sem snýr að menntamálaráðuneyti.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Rannveig Guðmundsdóttir og Björn Bjarnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. des. 2002.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Árni R. Árnason.


Magnús Stefánsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.


Einar K. Guðfinnsson.



    Jónína Bjartmarz.