Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 443. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 739  —  443. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 103/2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Benedikt Árnason frá viðskiptaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 103/2002 frá 12. júlí 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/107/EB frá 21. janúar 2002, um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), með það í huga að setja reglur um rekstrarfélög og einfaldaðar útboðslýsingar, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/108/EB frá 21. janúar 2002, um breytingu á tilskipun ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (verðbréfasjóði), að því er varðar fjárfestingar slíkra fyrirtækja.
    Meginatriði tilskipunar 2001/107/EB er að bæta við heimild verðbréfasjóða til fjárfestinga í nokkrum öðrum eignum en framseljanlegum verðbréfum og verður þeim þannig m.a. heimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða, bankainnstæðum, stöðluðum framvirkum samningum og valréttarsamningum. Meginatriði tilskipunar 2001/108/EB varða hins vegar skipulag rekstrar verðbréfasjóða.
    Innleiðing tilskipananna kallar á lagabreytingar hér á landi og er frestur til að gera nauðsynlegar breytingar á lögum til 13. ágúst 2003. Samkvæmt upplýsingum viðskiptaráðuneytisins hefur löggjöf um verðbréfasjóði verið í endurskoðun undanfarið og mun frumvarp þess efnis verða lagt fram á yfirstandandi þingi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Rannveig Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. des. 2002.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Árni R. Árnason.


Magnús Stefánsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Björn Bjarnason.


Steingrímur J. Sigfússon.



Einar K. Guðfinnsson.


Jónína Bjartmarz.