Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 445. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 740  —  445. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2002, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Halldór Þorgeirsson frá umhverfisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 90/2002 frá 25. júní 2002, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/42/EB frá 27. júní 2001, um mat á áhrifum tiltekinna skipulags- og framkvæmdaáætlana á umhverfið.
    Meginmarkmið tilskipunar 2001/42/EB er að tryggja að umhverfisáhrif skipulags- og framkvæmdaáætlana séu metin áður en áætlanirnar hljóta endanlega afgreiðslu en samkvæmt efni sínu tekur tilskipunin til skipulagsáætlana og framkvæmdaáætlana sem fjalla um landbúnað, skógrækt, fiskeldi, orku, iðnað, samgöngur, förgun úrgangs, vatnsnýtingu, fjarskipti, ferðaþjónustu og landnotkunarskipulag. Samkvæmt tilskipuninni skal umhverfismat fela í sér gerð umhverfisskýrslu sem síðan er kynnt fyrir stofnunum og almenningi. Síðan er kostur gefinn á athugasemdum en ekki er um eiginlegt úrskurðarferli að ræða líkt og gildir um framkvæmdir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum.
    Talið er að áætlanir sem falli undir tilskipunina hér á landi, aðrar en skipulagsáætlanir, séu fyrst og fremst samgönguáætlanir, áætlanir um orkuöflun og skógræktar- og landgræðsluáætlanir.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi en efni hennar hefur þegar verið innleitt að hluta til með skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, og skipulags- reglugerð nr. 400/1998. Frestur til að gera nauðsynlegar lagabreytingar er til 21. júlí 2004.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Rannveig Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. des. 2002.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Árni R. Árnason.


Magnús Stefánsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Björn Bjarnason.


Steingrímur J. Sigfússon.



Einar K. Guðfinnsson.


Jónína Bjartmarz.