Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 605. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 966  —  605. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2002.

1.     Inngangur.
    Þrennt einkenndi einkum starf Norðurlandaráðs árið 2002: Í upphafi árs var nýtt nefndaskipulag innleitt þar sem horfið var frá þremur svæðisnefndum og þess í stað tekið upp skipulag með fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar. Á árinu fagnaði Norðurlandaráð 50 ára afmæli sínu m.a. með veglegri þemaráðstefnu í Reykjavík og sérstöku hátíðarþingi í Helsinki. Þá voru vandamál er varða landamærahindranir á Norðurlöndum í brennidepli á starfsárinu.
    Forsaga breytinganna á nefndaskipulagi Norðurlandaráðs er að á þingi ráðsins í Reykjavík árið 1995 var norrænu samstarfi beint að þremur meginsviðum; samvinnu innan Norðurlanda, samvinnu Norðurlanda og Evrópu (ESB/EES), og samvinnu Norðurlanda og nærsvæða þeirra. Stofnaðar voru þrjár stórar nefndir um þessi meginsvið, þ.e. Norðurlandanefnd, Evrópunefnd og nærsvæðanefnd. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs var stækkuð og auk þess stofnuð sérstök eftirlitsnefnd. Ákveðið var að halda eitt árlegt þing að hausti í stað tveggja áður, auk þemaráðstefnu um afmörkuð mál sem snerta meginviðfangsefni norrænnar samvinnu. Vaxandi áhersla var lögð á flokkahópa og hafa þeir hlotið aukið vægi í frumkvæði, undirbúningi og meðferð mála í ráðinu. Nefndaskipulagið frá 1995 þótti reynast sérlega vel í sambandi við samstarf við grannsvæði Norðurlanda í Eystrasaltslöndunum og norðvesturhluta Rússlands en var síður árangursríkt varðandi Evrópusamstarfið. Megingagnrýnin á skipulagið frá 1995 fólst hins vegar í því sjónarmiði, að án málefnanefnda næðist hvorki æskileg samræming við fagsvið Norrænu ráðherranefndarinnar né nefndir hinna norrænu þjóðþinga og alþjóðastofnana.
    Árið 1999 setti Norræna ráðherranefndin á fót hina svokölluðu aldamótanefnd til að fara ofan í saumana á skipulagi norræns samstarfs og framtíð þess. Skýrsla nefndarinnar, „Norðurlönd 2000 – umleikin vindum veraldar“, var tekin til umræðu á 52. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í byrjun nóvember árið 2000. Á grundvelli skýrslunnar unnu Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin að mótun nýrrar stefnu um framtíðardagskrá og fyrirkomulag norræns samstarfs. Niðurstöðurnar voru birtar í sameiginlegri skýrslu þessara aðila, „Ný norræn dagskrá – svar við skýrslu aldamótanefndar“, sem lögð var fyrir 53. þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í lok október 2001. Á þinginu var samþykkt að hverfa frá þremur svæðisnefndum og taka þess í stað upp skipulag með fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar. Markmið hins nýja nefndakerfis er að tryggja betra samspil við Norrænu ráðherranefndina, þjóðþingin og alþjóðastofnanir. Þetta gerist með því að vista einstök málefnasvið með þeim hætti, að samskiptin við t.d. nefndir þjóðþinga verði gagnsærri. Þrátt fyrir að vikið sé frá svæðisbundnum nefndum er lögð áhersla á að svæðisbundnu stoðirnar verði áfram þáttur í starfi hinna nýju fagnefnda en þeim ber að fjalla um mál frá sjónarhóli Norðurlanda, Evrópu og nærsvæða.


2.         Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
2.1.     Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Í upphafi árs skipuðu Íslandsdeildina þau Ísólfur Gylfi Pálmason formaður, Sigríður Jóhannesdóttir varaformaður, Sigríður A. Þórðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Drífa Hjartardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Varamenn voru Ásta Möller, Ásta R. Jóhannesdóttir, Hjálmar Árnason, Kjartan Ólafsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Katrín Fjeldsted og Þuríður Backman. Hinn 1. október 2002 voru þingmennirnir endurkjörnir til setu í Norðurlandaráði. Á fyrsta fundi Íslandsdeildar hinn 4. október var Ísólfur Gylfi Pálmason endurkjörinn formaður og Sigríður Jóhannesdóttir varaformaður.
    Á 53. þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn 29.–31. október 2001 var kosið í fyrsta skipti samkvæmt nýju nefndaskipulagi ráðsins en eins og fyrr sagði tók hin nýja skipan gildi 1. janúar 2002. Rannveig Guðmundsdóttir var kjörin til setu í forsætisnefnd, Sigríður Jóhannesdóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason í menningar- og menntamálanefnd en Ísólfur Gylfi var jafnframt kjörinn varaformaður nefndarinnar. Sigríður A. Þórðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon voru kjörin formaður og varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar. Drífa Hjartardóttir var kjörin í velferðarnefnd og Arnbjörg Sveinsdóttir í borgara- og neytendanefnd. Í lok janúar 2002 flutti Arnbjörg sig um set yfir í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd. Arnbjörg tók jafnframt sæti í eftirlitsnefnd og Sigríður A. Þórðardóttir sæti í kjörnefnd.
    Auk nefndarsetu sátu meðlimir Íslandsdeildar í vinnuhópum á vegum Norðurlandaráðs, auk þess sem þeir sátu í stjórnum stofnana og ráða tilnefndir af Norðurlandaráði. Ísólfur Gylfi Pálmason var formaður vinnuhóps menningar- og menntamálanefndar um Vestur- Norðurlönd og Arnbjörg Sveinsdóttir sat í vinnuhópi um hvalamál á vegum umhverfis- og náttúruauðlindanefndar Steingrímur J. Sigfússon gegndi stöðu áheyrnarfulltrúa Norðurlandaráðs hjá þingmannanefnd um norðurskautsmál í upphafi starfsársins en Rannveig Guðmundsdóttir tók við því starfi í lok janúar. Steingrímur J. Sigfússon sat í stjórn norrænnar samstarfsmiðstöðvar um málefni fatlaðra, Ísólfur Gylfi Pálmason átti sæti í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans og Rannveig Guðmundsdóttir í stjórn Norræna menningarsjóðsins.

2.2.     Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs kom saman til fundar fjórum sinnum á árinu. Að venju var þátttaka í fundum, þemaráðstefnu og þingi Norðurlandaráðs undirbúin en þar að auki voru fjöldamörg mál á dagskrá. Ítarlega var rætt um skipulag þemaráðstefnu Norðurlandaráðs um lýðræði sem fram fór í Reykjavík dagana 14.–16. apríl 2002 (sjá nánar umfjöllun í kafla 5 um þemaráðstefna Norðurlandaráðs).
    Í tilefni afmælisárs Norðurlandaráðs stóð Íslandsdeildin hinn 8. nóvember fyrir hátíðardagskrá, í samvinnu við Norræna húsið. Kynnt var nýútkomið afmælisrit Norðurlandaráðs en það lýsir sögu norræns samstarfs undanfarin aldarfjórðung, þótt þar sé einnig vitnað til fyrsta aldarfjórðungs Norðurlandasamstarfsins. Í ritinu er að finna langt meginmál um sögu norræns samstarfs og tíu persónuleg minningarbrot þingmanna, ráðherra og embættismanna sem komið hafa að starfinu. Lögð er áhersla á að það eru manneskjur af holdi og blóði sem taka ákvarðanir á norrænum samstarfsvettvangi en ekki sjálfvirkar, ópersónulegar stofnanir. Fundarstjóri í Norræna húsinu var Ísólfur Gylfi Pálmason en framsögumenn voru Knud Enggaard, fyrrum forseti Norðurlandaráðs og ráðherra í dönsku ríkisstjórninni, sem ritstýrði bókinni, og Eiður Guðnason, sendiherra og fyrrum ráðherra, sem skrifaði kafla um þátttöku sína í ráðinu.
    Tveir blaðamannafundir voru haldnir á árinu, sá fyrri í aðdraganda þemaráðstefnunnar í Reykjavík en sá síðari skömmu fyrir hátíðarþing Norðurlandaráðs í Helsinki. Fundirnir voru haldnir til að vekja athygli á þessum viðburðum en mikið var um þá fjallað í fjölmiðlum. Þá skrifuðu nokkrir meðlimir Íslandsdeildar blaða- og tímaritsgreinar í tilefni þemaráðstefnu og 50 ára afmælis Norðurlandaráðs.
    Fréttamannastyrkir Norðurlandaráðs voru veittir á fundi Íslandsdeildar 25. júní en samanlagt var styrkupphæðin sem kom í hlut Íslendinga 90 þúsund danskar krónur. Alls bárust níu umsóknir og ákvað Íslandsdeildin að veita fimm umsækjendum, Bergþóru Jónsdóttur, Guðrúnu Hálfdánardóttur, Kára Jónassyni, Kristjáni Róberti Kristjánssyni og Pétri Gunnarssyni, styrki að upphæð 18.000 danskar krónur hverjum.
    Stígur Stefánsson alþjóðaritari gegndi starfi ritara Íslandsdeildar Norðurlandaráðs á starfsárinu 2002. Belinda Theriault, forstöðumaður alþjóðasviðs, sinnti málefnum forsætisnefndar að hluta.

3.         Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
3.1.     Forsætisnefnd.
         Af hálfu Íslandsdeildar sat Rannveig Guðmundsdóttir í forsætisnefnd. Í lok árs 2001 tók finnski þingmaðurinn Outi Ojala við embætti forseta Norðurlandaráðs af Dananum Svend Erik Hovmand og gegndi hún starfinu allt árið 2002. Ojala er fyrsti forseti Norðurlandaráðs úr flokkahópi vinstrisósíalista og grænna.
    Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem kosnir eru af þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir Norðurlandanna og allir flokkahópar skulu eiga fulltrúa í forsætisnefnd. Forsætisnefnd annast víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni, og hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við þing Norðurlandaráðs. Forsætisnefnd fjallar um norrænu fjárlögin en sérstakur vinnuhópur á vegum nefndarinnar tók þá fjárlagavinnu sérstaklega að sér árið 2002, líkt og áður hafði verið gert. Eftir breytingarnar á nefndakerfi Norðurlandaráðs er aukin áhersla lögð á utanríkis- og öryggismál í starfi forsætisnefndar, þar á meðal friðargæslu og málefni hinnar norðlægu víddar ESB. Þá sér forsætisnefnd um tengsl við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og á í samstarfi við ESB/EES, ÖSE, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri stofnanir. Forsætisnefnd fjallar einnig um þær tillögur sem til hennar er beint og vísar öðrum tillögum sem lagðar eru fyrir ráðið til viðeigandi málefnanefnda. Hún hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Forsætisnefnd hélt átta fundi á árinu en auk þess fóru fram sameiginlegir fundir forsætisnefndar og ýmissa aðila. Af helstu málum sem forsætisnefnd fjallaði um, fyrir utan hefðbundin störf, má nefna landamæralaus Norðurlönd en málefni þeirra voru í brennidepli í starfi Norðurlandaráðs á afmælisárinu. Landamæralaus Norðurlönd komust á dagskrá með rannsókn Ole Norrbacks á réttarstöðu Norðurlandabúa þegar þeir flytjast á milli Norðurlanda en rannsóknin var pöntuð af Norrænu ráðherranefndinni. Alls búa um 300.000 Norðurlandabúar annars staðar á Norðurlöndum en í heimalandi sínu. Áfangaskýrsla Norrbacks var lögð fram á janúarfundum Norðurlandaráðs í Ósló 28. janúar og lokaskýrslan á þemaráðstefnu Norðurlandaráðs í Reykjavík 16. apríl. Rannsókn Norrbacks sýndi að stórum landamærahindrunum hefur enn ekki verið rutt úr vegi. Í henni kom fram að víða er pottur brotinn varðandi það að farið sé eftir norrænum samningum um réttindi Norðurlandabúa og að hluti vandans er vanþekking embættismannakerfisins. Dæmi um þetta eru skattavandamál fólks sem sækir vinnu sína yfir landamæri, sköttun lífeyrisgreiðslna sem greiddar eru yfir landamæri, tregða við að viðurkenna gagnkvæm starfsréttindi o.fl. Norræna ráðherranefndin boðaði snemma árs að hún mundi leggja úrbótatillögur fyrir Norðurlandaráðsþing í Helsinki í lok október en jafnframt tóku nefndir Norðurlandaráðs til við að skoða hvernig málefni landamæralausra Norðurlanda snerti þeirra málefnasvið. Til þess að samræma aðgerðir og tillöguvinnslu nefnda Norðurlandaráðs á þessu sviði kom forsætisnefnd á fót sérstökum stýrihópi. Stýrihópurinn var undir forustu Ole Stavad en auk hans áttu sæti í honum Arne Lyngstad, Kristen Touborg og Ola Karlsson. Einstakar nefndir skiluðu inn greinargerðum sínum til stýrihópsins sem á grunni þeirra samdi nefndarálit um úrbótatillögu ráðherranefndarinnar þegar hún kom fram. Var tillagan m.a. gagnrýnd fyrir að vera ekki nógu markviss og að í hana skorti að setja ákveðin tímamörk til þess að afnema landamærahindranir á ákveðnum sviðum (sjá nánar kafla 6 í þessari skýrslu um 54. Norðurlandaráðsþing).
    Af öðrum málum sem komu til kasta forsætisnefndar má nefna friðargæslu, málefni hinnar norrænu víddar og norðurskautsmál. Rannveig Guðmundsdóttir var áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs í þingmannanefnd um norðurskautsmál og skilaði skýrslum og tillögum til forsætisnefndar um aukna aðkomu að þeim málaflokki.
         Forsætisnefnd fór í fræðslu- og fundaferð til Strassborgar í maí. Markmið ferðarinnar var að styrkja tengsl Norðurlandaráðs og Evrópuþingsins. Sótti nefndin Evrópuþingið heim og tók Charlotte Cederschiöld, varaforseti þingsins, á móti henni og kynnti starfsemina. Í þinginu hélt nefndin m.a. fundi með Cecilia Malmström og Per Gahrton, sem sitja í utanríkis-, varnarmála- og mannréttindanefnd þingsins, þar sem annars vegar var rætt um stækkunarferli ESB og hins vegar borgaralega hættuástandsstjórnun. Þá var haldinn fundur um byggðastefnu með Ewa Hedkvist Petersen sem situr í byggða-, samgöngu- og ferðamálanefnd þingsins. Þá var haldinn fundur með Margot Wallström sem fer með umhverfismál í framkvæmdastjórn ESB.

3.2.     Menningar- og menntamálanefnd.
    Ísland átti tvo fulltrúa í menningar- og menntamálanefnd á árinu 2002 en það voru Sigríður Jóhannesdóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason sem jafnframt var varaformaður nefndarinnar. Nefndin hélt fimm fundi á árinu. Auk þess hittust vinnuhópur nefndarinnar og formenn nokkrum sinnum.
    Menningar- og menntamálanefnd annast málefni sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti.
         Á starfsárinu beindi nefndin m.a. sjónum sínum að málstefnu á Norðurlöndum og málefnum Vestur-Norðurlanda og voru málþing um þessi efni haldin í tengslum við fundi nefndarinnar. Íslandsdeild Norðurlandaráðs skipulagði málþing um Vestur-Norðurlönd þegar nefndin kom saman í Reykjavík 15. apríl. Þar hélt Jógvan Djurhus, varaformaður Vestnorræna ráðsins, erindi um vestnorrænt samstarf og sérstaklega hvað þar væri gert á menningar- og menntamálasviðinu. Sölvi Sveinsson, rektor og fulltrúi í Norrænni málnefnd, hélt fyrirlestur um stöðu vestnorrænu tungumálanna á tímum hnattvæðingar og gerði m.a. grein fyrir málstefnu stjórnvalda á Vestur-Norðurlöndum og í hvaða mæli önnur norræn tungumál væru kennd á svæðinu. Jón Yngvi Jóhannsson, bókmenntafræðingur og meðlimur í ritstjórn tímaritsins Nordisk Litteratur, hélt erindi um vestnorrænar bókmenntir og velti því m.a. fyrir sér hvað þær ættu sameiginlegt og hvernig þær stæðu gagnvart bókmenntum annars staðar á Norðurlöndum. Benedikte Þorsteinsson, forstöðumaður vestnorræna menningarhússins í Hafnarfirði, ræddi um vestnorrænt menningarsamstarf á grasrótarstigi.
         Í kjölfar málþingsins kom menningar- og menntamálanefnd á fót sérstökum starfshópi til að taka saman áherslur nefndarinnar varðandi þingmannatillögu um Vestur-Norðurlönd. Tillagan var lögð fram af flokkahópi miðjumanna í september 2001 en í henni fólust margvísleg tilmæli er varða menningu, tungumál, umhverfi, ferðaþjónustu og samgöngur á Vestur-Norðurlöndum. Vegna umfangs tillögunnar var hún tekin fyrir í forsætisnefnd sem bað einstakar nefndir ráðsins að skila inn áliti um efnisatriði á málefnasviði sínu. Ísólfur Gylfi Pálmason veitti starfshópnum forstöðu en hópurinn skilað af sér nefndaráliti um tillöguna þar sem m.a. var hvatt til þess að ríkisstjórnir Norðurlanda staðfestu þegar þá breytingu á norræna tungumálasáttmálanum að láta hann einnig ná til færeysku, grænlensku og samísku, auk ríkismálanna fimm. Einnig var lögð áhersla á tungumálaskilning og hvatt til aukinnar kynningar á vestnorrænu málunum í skólakerfum Norðurlanda. Auk þess varaði starfshópurinn við því að stöðum sérstakra háskólalektora í norrænum málum yrði fækkað og hvatti til þess að tilteknar stöður yrðu helgaðar vestnorrænu málunum.

3.3.     Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Fulltrúar Íslandsdeildar í efnahags- og viðskiptanefnd voru Sigríður A. Þórðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon sem jafnframt gegndu störfum formanns og varaformanns nefndarinnar.
    Efnahags- og viðskiptanefnd annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, innra skipulag, samgöngur og upplýsingatækni.
    Á árinu 2002 voru málefni varðandi landamærahindranir á Norðurlöndum ofarlega á baugi í starfi nefndarinnar líkt og í forsætisnefnd, en mörg vandamál varðandi landamærahindranir liggja á málefnasviði efnahags- og viðskiptanefndar. Í formennskuræðu sinni á fyrsta fundi nefndarinnar lagði Sigríður A. Þórðardóttir áherslu á að hindranir þrengdu enn að atvinnulífi á Norðurlöndum og þróun þess. Norðurlandaráð ynni að því að afnema hindranir gegn frjálsu flæði vinnuafls, fjármagns, vöru og þjónustu á milli Norðurlanda enda væri markmiðið að Norðurlönd yrðu eitt sameiginlegt efnahagssvæði. Landamæralaus Norðurlönd í efnahagslegu tilliti tryggði stærri og sveigjanlegri heimamarkaði fyrir norræn fyrirtæki og það mundi auka vöxt þeirra innan Norðurlanda og auka samkeppnishæfni þeirra gagnvart umheiminum.
    Efnahags- og viðskiptanefnd skilaði nefndaráliti varðandi úrbótatillögu Norrænu ráðherranefndarinnar um afnám landamærahindrana. Gagnrýndi nefndin það að þó að úrbótaáætlunin tæki til margra sviða væri á fæstum þeirra skilgreind nákvæm markmið til að vinna að, og að ekki væri lögð fram tímaáætlun fyrir afnám hindrananna. Án nákvæmrar áætlunar væri hætta á að lausn þessara mála drægist á langinn. Af þessum sökum lagði efnahags- og viðskiptanefnd fram tillögu að tímaáætlun fyrir afnám hindrana á vinnumarkaðs- og skattasviðinu í nefndaráliti sínu.
    Önnur mál á dagskrá nefndarinnar voru t.d. vinnumarkaðssamstarf við Eystrasaltsríkin. Þau mál eru ofarlega á baugi nú því að ríkin þrjú munu ganga í ESB árið 2004 og þar með eykst flæði á milli vinnumarkaða landanna og Norðurlanda verulega. Nefndin átti fundi með aðilum vinnumarkaðarins og kynnti sér hvernig samningamálum er háttað í Eistlandi og hvaða áhrif talið er að ESB-aðildin hafi á vinnumarkaðsmál.
    Þá skilaði vinnuhópur nefndarinnar um neikvæða skattasamkeppni af sér skýrslu á starfsárinu. Skýrslan var lögð fyrir Norðurlandaráðsþing auk tillögu um aukið samráð og samræmingu á milli Norðurlanda við vinnslu löggjafar á sviði skattheimtu til að koma í veg fyrir neikvæða samkeppni á þessu sviði.

3.4.     Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Fulltrúi Íslands í nefndinni var Arnbjörg Sveinsdóttir. Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd annast málefni sem varða umhverfismál, landbúnað og skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál.
    Af málum umhverfis- og náttúruauðlindanefndar má nefna Sellafield-kjarnorkuverið á austurströnd Englands en nefndin hefur lýst áhyggjum af mengunarhættu og átt í viðræðum við Bresk-írsku þingmannasamkunduna um kjarnorkuverið. Þá var eftirlit og stjórn á rándýrastofnum á dagskrá nefndarinnar, málþing var haldið um díoxín í matvörum og var tillaga lögð fram um aukið eftirlit til að tryggja öryggi matvæla. Þá sóttu fulltrúar nefndarinnar þingmannaráðstefnu í Vilníus um orkuframleiðslu og framboð á Eystrasaltssvæðinu.
    Á starfsárinu lagði nefndin m.a. áherslu á stjórn fiskveiða og hélt málþing með fulltrúum vísindasamfélagsins, stjórnvalda og sjómanna um fiskveiðikerfi og hvernig hægt er að tryggja sjálfbærar veiðar. Meðal annars var rætt um að styrkja þyrfti alþjóðahafrannsóknastofnunina í Kaupmannahöfn og hafrannsóknastofnanir Norðurlandanna. Enn fremur var rætt um að vinna bæri að því að skapa fiskveiðikerfi þar sem eftirlit og efnahagslegur ávinningur mundi vinna á móti brottkasti.
    Arnbjörg Sveinsdóttir tók hvalamálin upp á fundi umhverfis- og náttúruauðlindanefndar í september og lagði áherslu á að þótt Norðurlöndin væru deildrar meiningar þá væri þetta svo hápólitískt mál að nefndinni væri ekki stætt á öðru en að taka það á dagskrá. Lagði Arnbjörg til að haldið yrði málþing þar sem reynt yrði að greina orsakir þess að umræður um hvalamál hafa orðið svo tilfinningaþrungnar sem raun ber vitni og fengið jafnhápólitískt gildi í alþjóðastjórnmálum. Var vinnuhópur skipaður til að skipuleggja dagskrá og efnistök málþingsins. Arnbjörg tók sæti í vinnuhópnum og var málþingið haldið í febrúar 2003.

3.5.     Velferðarnefnd.
    Fulltrúi Íslands í velferðarnefnd var Drífa Hjartardóttir. Velferðarnefnd sinnir velferðar- og tryggingamálum, félagsþjónustu og heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, bygginga- og húsnæðismálum, fjölskyldumálum, börnum og unglingum, og baráttu gegn misnotkun vímuefna.
    Umfjöllun um landamæralaus Norðurlönd var ofarlega á baugi hjá velferðarnefnd og fjallaði nefndin einkum um vandamál á sviði félags- og heilbrigðismála við flutninga á milli Norðurlanda. Í athugasemdum nefndarinnar við úrbótatillögu Norrænu ráðherranefndarinnar var m.a. lagt til að reglur um lífeyrisgreiðslur yfir landamæri yrðu samræmdar og að endurskoða yrði norrænan sáttmála um félagslegt öryggi með það fyrir augum að ryðja hindrunum úr vegi.
    Á starfsárinu fjallaði velferðarnefnd m.a. um tillögur um samræmingu reglna á Norðurlöndum um fjarlækningar til þess að gera þær mögulegar á milli Norðurlanda. Fjarlækningar fara einkum fram símleiðis og eru mikilvægur hluti heilbrigðisþjónustu í nyrstu og strjálbýlustu byggðum Norðurlandanna. Þá afgreiddi nefndin tillögu um hjálp til barna og ungmenna sem alist hafa upp í einangruðum trúfélögum. Kjarni tillögunnar voru tilmæli til Norrænu ráðherranefndarinnar um að kortleggja umfang einangraðra trúfélaga á Norðurlöndum og samræma og dreifa upplýsingum um hjálparþörf barna og ungmenna sem alist hafa upp innan þeirra.
    Velferðarnefnd kom á fót vinnuhópi um málefni barna og ungmenna sem fylgjast á með norrænu samstarfi á þessu sviði. Nánar tiltekið á hópurinn að fylgjast með stöðu barna og ungmenna á Norðurlöndum, í Eystrasaltslöndunum og í Norðvestur-Rússlandi, gefa velferðarnefnd mynd af aðgerðum norrænna stjórnvalda og þjóðþinga á þessu sviði, og koma með tillögur að því hvernig Norðurlandaráð getur unnið að því að ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verði virk og virt í Eystrasaltslöndunum og Norðvestur-Rússlandi.
         
3.6.     Borgara- og neytendanefnd.
    Borgara- og neytendanefnd annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum.
    Enginn fulltrúi Íslandsdeildar sat í nefndinni starfsárið 2002. Helstu áhersluatriði í starfi nefndarinnar voru norrænt samstarf á sviði löggjafar, barátta gegn skipulagðri glæpastarfsemi og öryggi matvæla. Nefndin hélt málþing um löggjöf Norðurlanda á hryðjuverkasviðinu, og fundi um stefnu í málefnum flóttamanna í Evrópu og áherslur Dana í þessum efnum í formennskuáætlun sinni í ESB. Þá var barátta gegn mansali og kynlífsþrælkun á dagskrá nefndarinnar.

3.7.     Eftirlitsnefnd.
    Arnbjörg Sveinsdóttir var fulltrúi Íslands í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs árið 2002. Eftirlitsnefndin fylgist fyrir hönd Norðurlandaráðsþings með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Hluti af fastri starfsemi nefndarinnar er að fara yfir skýrslur dönsku ríkisendurskoðunarinnar um ársreikninga Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins.
    Eftirlitsnefnd lauk á árinu við úttekt á norrænum styrkjum til rannsókna sem veittir eru í gegnum fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar. Meðal niðurstaðna var að um 80% styrkjanna eru bundin stofnunum, Norðurlandaráð hefur ekki frumkvæði að rannsóknarverkefnum og kemur seint inn í ákvarðanatökuferlið um rannsóknarstyrkina, ráðið hefur litlar upplýsingar til þess að taka afstöðu til þeirra. Af þessu tilefni lagði eftirlitsnefnd fram tillögu að tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um úrbætur á þessu sviði, m.a. um aukið hlutverk menningar- og menntamálanefndar Norðurlandaráðs við ákvarðanir um áherslusvið rannsóknarstyrkja.
    Eftirlitsnefnd tók tvö málefni til sérstakrar skoðunar á árinu. Annars vegar úttekt á því hvernig hið nýja skipulag Norðurlandaráðs virkar og hins vegar heildarúttekt á upplýsingastarfi Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Báðum verkefnum verður lokið á árinu 2003.

4.     Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru þrenn, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun og náttúru- og umhverfisverðlaun. Auk þess voru sérstök kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs veitt í fyrsta skipti á árinu. Vegna afmælis Norðurlandaráðs var brugðið út af þeirri venju að dreifa afhendingu verðlaunanna yfir árið og ákveðið að veita þau öll við eina verðlaunaafhendingu á 54. þingi Norðurlandaráðs. Athöfnin fór fram á sérstakri hátíðarsýningu í finnsku þjóðaróperunni að kvöldi þingsetningardags.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962 og eru þau veitt fyrir bókmenntaverk á norrænu tungumáli. Markmið verðlaunanna er að auka áhuga á norrænum bókmenntum. Norski rithöfundurinn Lars Sabyee Christensen hlaut bókmenntaverðlaun ráðsins 2002 fyrir skáldsöguna Hálfbróðirinn.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau einungis afhent annað hvert ár. Frá 1990 hafa þau hins vegar verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálda og hitt árið til tónlistarflytjenda. Færeyingurinn Sunleif Rasmussen hlaut tónlistarverðlaunin 2002 fyrir sinfóníu sína nr. 1 – Dagar hafsins og er það jafnframt í fyrsta skipti sem tónlistarverðlaunin fara til Færeyja.
    Á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík árið 1995 voru samþykkt tilmæli um að Norðurlandaráð veitti árlega náttúru- og umhverfisverðlaun. Verðlaunin á að veita einstaklingi sem hefur sett mark sitt á náttúru- og umhverfisvernd á Norðurlöndum eða hópi fólks, samtökum, fjölmiðlum, fyrirtækjum eða stofnunum sem hefur í störfum sínum tekist að sýna náttúrunni tillitssemi. Norðmaðurinn Arne Näss hlaut náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2002 fyrir viðhorf sín til náttúruverndar sem vakið hafa marga til vitundar um viðkvæmt samspil manns og náttúru.
    Auk þessara þriggja föstu verðlauna Norðurlandaráðs voru sérstök kvikmyndaverðlaun ráðsins veitt í tilefni afmælisins og hlaut finnski leikstjórinn Aki Kaurismäki þau fyrir kvikmyndina Minnislausi maðurinn. Ekki hefur verið ákveðið hvort framhald verður á veitingu kvikmyndaverðlaunanna en forsætisnefnd Norðurlandaráðs mun gera úttekt á stöðu norrænna verðlauna á starfsárinu 2003 og ákveða því næst hvernig framtíðarskipan þeirra verður háttað.
    Framangreind verðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund dönskum krónum.

5.     Þemaráðstefna Norðurlandaráðs: Norrænt lýðræði 2020.
    Þemaráðstefna Norðurlandaráðs, Norrænt lýðræði 2020, var haldin í Reykjavík dagana 14.–15. apríl 2002 og markaði hún upphaf hátíðarhaldanna vegna 50 ára afmælis ráðsins. Þemaráðstefnur eru haldnar einu sinni á ári og fjalla um afmarkað svið norrænnar samvinnu. Þetta var í fyrsta skipti sem þemaráðstefna Norðurlandaráðs er haldin hérlendis.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs og alþjóðasvið Alþingis höfðu veg og vanda af skipulagningu ráðstefnunnar í samvinnu við starfsfólk skrifstofu Norðurlandaráðs og fleiri aðila. Hófst undirbúningur að fullu kappi í desember 2001 og stóð óslitið fram að setningu þemaráðstefnunnar á Grand Hótel hinn 14. apríl 2002. Verkaskipting milli Íslandsdeildar og skrifstofu Norðurlandaráðs við skipulagningu ráðstefnunnar var í grófum dráttum sú að Íslandsdeild sá um allan ytri ramma ráðstefnunnar og yfirbragð, fundaraðstöðu, tæknilega útfærslu og verklega framkvæmd en skrifstofa Norðurlandaráðs sá um efnislega dagskrá og stjórnun ráðstefnunnar. Í tengslum við nefndarfund efnahags- og viðskiptanefndar skipulagði Íslandsdeild heimsókn í höfuðstöðvar Íslenskrar erfðagreiningar, auk þess sem deildin hafði umsjón með málþingi um málstefnu og menningu á Vestur-Norðurlöndum fyrir hönd menningar- og menntamálanefndar. Skemmst er frá því að segja að allt skipulag og framkvæmd þemaráðstefnunnar var með ágætum.
    Ráðstefnan fór fram á Grand Hótel, en þar var að jafnframt fréttamannaaðstaða og fundarherbergi nefnda auk skrifstofa landsdeilda og Norðurlandaráðs. Að auki var fundaraðstaða fyrir eina nefnd á Hótel Íslandi. Um 350 þátttakendur sóttu ráðstefnuna, þar af 130 þingmenn frá Norðurlöndum auk fjölda annarra erlendra gesta. Þar ber fyrst að telja fulltrúa frá alþjóðlegum þingmannasamtökum eins og Evrópuráðinu, Eystrasaltsþinginu, Bresk-írsku þingmannasamkundunni og Vestnorræna ráðinu, auk þingmanna frá rússneska þinginu, Dúmunni.
    Yfirskrift þemaráðstefnunnar var Norrænt lýðræði 2020 og var á ráðstefnunni einkum reynt að varpa ljósi á framtíð norrænnar lýðræðisþróunar. Meðal þeirra málefna sem fjallað var um á ráðstefnunni voru norræna velferðarríkið og lýðræði, norræn lýðræðisgildi í hnattvæddum heimi, áhrif fjölmenningar á lýðræðið og hvernig aðkomu nýbúa að stjórnkerfi og stjórnsýslu á Norðurlöndum er háttað.
    Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hélt opnunarerindi ráðstefnunnar og fjallaði um framtíð norrænnar lýðræðisþróunar í ljósi hnattvæðingar og örrar tækniþróunar. Taldi Ólafur Ragnar að þróun síðustu áratuga hefði þrengt að þeirri lýðræðisskipan sem við búum við. Nefndi hann m.a. hvernig æ fleiri svið hins daglega lífs ráðast af alþjóðlegum straumum frekar en lýðræðislegum ákvörðunum innan landamæra þjóðríkjanna. Hluti af valdi þjóðríkjanna hefði auk þess verið framseldur alþjóðastofnunum eins og ESB/EES sem ekki hefðu beint lýðræðislegt umboð frá almennum borgurum. Hnattvæðingin hefði enn fremur grafið undan þríhliða samstarfi ríkisvalds, atvinnurekenda og launþega. Hin hefðbundnu flokkakerfi lýðræðisríkjanna væru á undanhaldi vegna þess að önnur frístundaiðja freistar borgaranna meira en flokkspólitískt starf og stórfyrirtæki, hagsmunasamtök og embættismannakerfið hefðu yfirhöndina yfir stjórnmálin í samkeppninni um hæfustu einstaklingana. Ýmis jákvæð teikn væru þó á lofti, með aukinni hnattvæðingu kæmi aukin útbreiðsla lýðræðislegra hugmynda og framfarir í upplýsingatækni tryggðu aðgengi borgaranna að upplýsingum um þau mál sem þá varða og veitir möguleika á milliliðalausu rafrænu lýðræði í formi beinna atkvæðagreiðslna um einstök mál. Ólafur Ragnar sagði að þrýsting á núverandi lýðræðiskerfi yrði að taka alvarlega, viðurkenna þyrfti þau vandamál sem eru fyrir hendi og leita lausna til að aðlaga lýðræðisfyrirkomulagið nýjum tímum og aðstæðum.
    Meðal annarra sérlegra gesta sem héldu erindi á þemaráðstefnunni voru Gudmund Hernes, yfirmaður menntamálastofnunar UNESCO og fyrrum ráðherra í ríkisstjórn Noregs, sem ræddi um lýðræði og þróun velferðarríkisins. Benti hann á að minnkandi kosningaþátttaka og áhugaleysi almennings um stjórnmál mætti rekja til þess að velferðarríkið hefði á síðari hluta 20. aldar dregið úr vægi þeirra þátta sem áður skipuðu mönnum í flokka, t.d. búsetu, stéttarstöðu og trúarbrögðum. Auk þessa stæðu stjórnmálamennirnir frammi fyrir því að hafa æ minni áhrif á markaðsskipulagið og virkni þess í gegnum pólitískar stofnanir þjóðríkjanna, og stjórnmálastarfið fælist í auknum mæli í því að búa íbúum og fyrirtækjum almenn skilyrði í stað þess að vera vettvangur til að leysa ágreiningsmál. Auglýsti Hernes eftir nýrri hugsun og framtíðarsýn stjórnmálamannanna og taldi að hugmyndafræðilega umræðu yrði að endurlífga í stjórnmálalífinu. Áherslan á nýja hugsun í pólitík var áberandi hjá ýmsum öðrum ræðumönnum og lýstu Marianne Jelved, fyrrum efnahagsmálaráðherra Danmerkur, og Carl Bildt, fyrrum forsætisráðherra Svía, m.a. eftir forustu og frumkvæði stjórnmálamannanna um að móta stefnu til framtíðar í stað þess að vera í vörn og eltast við almenningsálitið hverju sinni. Mikið var rætt um vanda lýðræðiskerfanna á Norðurlöndum og margir ræðumenn nefndu minnkandi kosningaþátttöku, fækkun félaga í stjórnmálaflokkum, óöryggi varðandi framtíðarhlutverk þjóðríkisins o.s.frv. Suvi-Anne Siimes, ráðherra í ríkisstjórn Finnlands, ræddi m.a. um þá þverstæðu að minnkandi kosningaþátttaka gerist samfara aukinni þátttöku almennings í pólitískum samtökum utan hins hefðbundna flokkakerfis sem einkum fjalla um alþjóðavæðingu. Finna yrði farveg fyrir slík grasrótarsamtök inn í hið lýðræðislega ferli.
Þjóðaratkvæðagreiðslur voru oft nefndar til sögunnar á ráðstefnunni og nefndu áhangendur þeirra hugmynda að útbreiðsla netsins á Norðurlöndum væri slík að nýir möguleikar væru á að halda slíkar atkvæðagreiðslur með rafrænum hætti. Aðrir vöruðu við þeirri hugmynd að notkun á netinu gæti komið í stað hins hefðbundna lýðræðisferlis. Lord Russell-Johnston, frá Alþjóðastofnuninni um lýðræði, lýsti ásamt Gudmund Hernes yfir áhyggjum af því að beint lýðræði fæli í sér brotthvarf frá þeirri yfirvegun og yfirlegu sem einkenndi ákvarðanatöku í fulltrúalýðræðiskerfunum. Carl Bildt taldi að nota mætti þjóðaratkvæðagreiðslur í takmörkuðum mæli, fyrst og fremst sem vítamínssprautu fyrir stjórnmálalífið til þess að koma á umræðu milli stjórnmálakerfisins og kjósenda.
    Í lok þemaráðstefnunnar fóru fram pallborðsumræður þar sem einn fulltrúi hvers flokkahóps í Norðurlandaráði hélt framsöguerindi. Steingrímur J. Sigfússon var talsmaður flokkahóps vinstrisósíalista og grænna og lagði áherslu á þá skoðun hópsins að lýðræði ætti að vera víðtækt og djúpt, og í því fælist m.a. jafnrétti, jöfnuður, friður og tillit til komandi kynslóða. Lýðræði væri allt í senn lífsmáti, stjórnarform og efnahagslegt samfélagsform. Óheft markaðshyggja og óheft rányrkja á náttúrunni væru óvinir lýðræðisins sem halda yrði í skefjum. Steingrímur sagði að hnattvæðing fæli í sér þætti sem bæri að berjast gegn og koma undir lýðræðislega stjórn og nefndi alþjóðlega gjaldeyrismarkaði og samþjöppun valds hjá alþjóðlegum stórfyrirtækjum og hernaðarlegum stórveldum sem dæmi um skuggahliðar hnattvæðingar. Hluti af lausn vandans gæti í fyrsta lagi falist í vinnustaðalýðræði sem næði til alþjóðafyrirtækjanna og í öðru lagi í því að þjóðríkin næðu valdi til að hemja þær sveiflur og áhrif sem alþjóðlegir fjármagnsmarkaðir geta haft á hagkerfi þeirra. Í þriðja lagi væri mikilvægt að útvíkka lýðræðið þannig að það næði út fyrir landamæri þjóðríkjanna, hemja óheft gjaldeyrisflæði, auka gagnsæi í alþjóðlegum efnahagsstofnunum eins og Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og vernda staðbundna framleiðslu og náttúruauðlindir með grænum gjöldum sem nýtt yrðu til umhverfis- og þróunarmála.
    
6.     54. þing Norðurlandaráðs.
    Dagana 29.–31. október sl. var 54. þing Norðurlandaráðs haldið í Helsinki. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu þingið Ísólfur Gylfi Pálmason formaður, Sigríður A. Þórðardóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, auk Belindu Theriault, forstöðumanns alþjóðasviðs, og Stígs Stefánssonar, ritara Íslandsdeildar.
    Þing Norðurlandaráðs í Helsinki var jafnframt 50 ára afmælisþing ráðsins og settu hátíðarhöld vegna þessara tímamóta mark sitt á þingið. Hátíðleg setning þingsins fór fram í finnska þinghúsinu að viðstöddum öllum þjóðhöfðingjum og þingforsetum Norðurlanda. Hátíðarávörp fluttu m.a. Outi Ojala, forseti Norðurlandaráðs, Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, sem jafnframt var í forsæti fyrir Norrænu ráðherranefndinni, Margot Wallström, sem fer með umhverfismál í framkvæmdastjórn ESB, og Vigdís Finnbogadóttir, sem farið hefur fyrir ráðstefnu á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um lýðræði í skólastarfi sem haldin hefur verið á Norðurlöndum í tilefni afmælisársins. Í hátíðarávörpunum var m.a. lögð áhersla á hinn mikla árangur norræns samstarf, sameiginlega sögu, menningararf, gildi og lýðræðishefð. Hver þjóð væri sérstök og færi sína eigin leið en ræturnar sem binda þjóðirnar saman væru þó sameiginlegar. Að kvöldi þingsetningardags var sérstök hátíðarsýning í finnsku þjóðaróperunni þar sem listamenn frá öllum Norðurlöndum komu fram.
    Málefni er varða landamæralaus Norðurlönd voru sérstaklega í brennidepli á þinginu en þau hafa verið helsta áhersluefnið í starfi Norðurlandaráðs á yfirstandandi afmælisári. Afnám landamærahindrana komst á dagskrá í vetur sem leið með Norrback-rannsókninni á réttarstöðu Norðurlandabúa þegar þeir flytjast milli Norðurlanda. Um 300.000 Norðurlandabúar búa annars staðar á Norðurlöndum en í heimalandi sínu. Lokaskýrsla Norrbacks, sem lögð var fram á þemaráðstefnu Norðurlandaráðs í Reykjavík 16. apríl sl., sýndi að stórum landamærahindrunum hefur enn hefur ekki verið rutt úr vegi. Í henni kom fram að víða er pottur brotinn varðandi það að farið sé eftir norrænum samningum um réttindi Norðurlandabúa og að hluti vandans er vanþekking embættismannakerfisins. Norræna ráðherranefndin lagði úrbótatillögur fyrir þingið en sérstakur stýrihópur á vegum forsætisnefndar Norðurlandaráðs samræmdi aðgerðir einstakra nefnda ráðsins í þessu sambandi. Sigríður A. Þórðardóttir, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, mælti fyrir nefndaráliti um tillögu ráðherranna en landamærahindranir eru á málefnasviði nefndarinnar. Í ræðu sinni lagði Sigríður áherslu á að vinna yrði skjótt og markvisst að afnámi landamærahindrana. Taldi hún að þótt tillaga ráðherranna væri skref í rétta átt þá yrði að sýna enn meiri metnað og nákvæmni í úrbótaáætlun þeirra. Benti Sigríður á að þó að úrbótaáætlunin tæki til margra sviða væri á fæstum þeirra skilgreind nákvæm markmið til að vinna að né væri lögð fram tímaáætlun fyrir afnám hindrananna. Án nákvæmrar áætlunar væri sú hætta fyrir hendi að menn stæðu enn og ræddu þessi vandamál á Norðurlandaráðsþingum á komandi árum í stað þess að leysa þau í eitt skipti fyrir öll. Í þessu sambandi vakti Sigríður athygli á því að efnahags- og viðskiptanefnd hefði í nefndaráliti sínu lagt fram tillögu að tímaáætlun fyrir afnám hindrana á vinnumarkaðs- og skattasviðinu.
    Steingrímur J. Sigfússon var talsmaður flokkahóps vinstrisósíalista og grænna í upphafi almennra umræðna á þinginu. Í ræðu sinni sagði Steingrímur m.a. að norrænt samstarf hefði verið mikilvægt fyrir öll Norðurlönd en ef til vill mikilvægast fyrir Ísland vegna smæðarinnar. Á sama hátt yrði norrænt samstarf afar mikilvægt fyrir sjálfstjórnarsvæðin sem væru að fá aukið sjálfræði og yrðu ef til vill sjálfstæð í náinni framtíð. Þá lýsti Steingrímur framtíðarsýn flokkahópsins um norrænt samstarf lýðræðislegra velferðarríkja þar sem jöfnuður ríkti, og menntastig væri hátt. Hið norræna velferðarsamfélag framtíðarinnar yrði sterkt því að það byggðist á réttlæti og jafnvægi í samspili manns og náttúru en ekki útlendingaandúð og misskiptingu. Liður í þessari þróun og mikilvægt verkefni fyrir Norðurlandaráð væri að beita sér fyrir víðtækum norrænum velferðarsáttmála þar sem félagsleg grunnréttindi væru tryggð. Slíkur sáttmáli gæti orðið umheiminum fyrirmynd.
    Í almennum umræðum á þinginu þakkaði Rannveig Guðmundsdóttir Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni, fyrir hönd stjórnar Norræna menningarsjóðsins, það starf sem unnið hafði verið frá síðasta þingi til að skýra réttarstöðu sjóðsins. Benti Rannveig á að breytingartillögur stjórnar sjóðsins hefðu verið samþykktar samhljóða í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og lýsti hún þeirri von sinni að norrænu samstarfsráðherrarnir staðfestu nýja samninginn um réttarstöðu sjóðsins sem fyrst og rækju þar með endahnútinn á ferlið. Að auki greindi Rannveig almennt frá starfi sjóðsins á árinu, m.a. þeirri breytingu að fjölga umsóknarfrestum og auka þannig sveigjanleika gagnvart umsækjendum.
    Arnbjörg Sveinsdóttir tók einnig til máls í almennum umræðum á þinginu og greindi frá því að umhverfis- og náttúruauðlindanefnd Norðurlanda hefur sett hvalamálin á dagskrá og áætlar að halda málstofu um nýtingu sjávarspendýra í tengslum við fund nefndarinnar í febrúar næstkomandi. Arnbjörg sagði vandamálin varðandi hvalveiðar flókin en ef reynt væri að einfalda málið eins og frekast er unnt þá stæði eftir spurningin um það hvort ekki ættu að gilda sömu reglur um nýtingu auðlinda sjávar og um nýtingu annarra auðlinda. Fyrir þjóðir sem eru háðar nýtingu sjávarauðlinda er það óþolandi að aðrar kröfur séu gerðar til veiða í hafi en veiða á landi. Í báðum tilfellum hlýtur grundvallarreglan að vera sú að maðurinn hefur rétt til nýtingar á villtum dýrastofnum svo lengi sem það er gert á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Þetta hlýtur að vera grunnkrafa gagnvart öllum veiðum hvort sem um er að ræða hvalveiðar í Norður-Atlantshafi eða veiðar á elg og dádýrum á landi í Skandinavíu.
    Í umræðum um byggðastefnu ESB var Steingrímur J. Sigfússon framsögumaður efnahags- og viðskiptanefndar og kynnti skýrslu um þetta efni. Steingrímur tiltók tvær gildar ástæður fyrir því að ræða byggðastefnu á vettvangi Norðurlandaráðs. Í fyrsta lagi væru byggðavandamál um margt lík á Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Þessi lönd ættu sameiginlegt kalt loftslag, tilhneigingu til búferlaflutninga frá sveitum til bæja og víðlent strjálbýli þar sem samgöngur væru erfiðar og þjónusta og tengsl við velferðarkerfið léleg. Í öðru lagi eiga löndin, sem annaðhvort eru aðilar að ESB eða EES, það sameiginlegt að reglur ESB, sér í lagi samkeppnislöggjöfin, hefur takmarkað mjög það svigrúm sem ríkisstjórnirnar hafa til að móta byggðastefnu. Niðurstaða skýrslunnar, sem Norðurlandaráð samþykkti sem tilmæli til norrænu ríkisstjórnanna, er að þær beiti sér fyrir því að sérstaða landsvæða á norðurslóðum verði viðurkennd og að samkeppnisreglum ESB verði breytt þannig að einstökum löndum gefist svigrúm til að móta markvissa og frjálsa byggðastefnu á jaðarsvæðum sínum.
Sigríður Jóhannesdóttir var annar tveggja talsmanna menningar- og menntamálanefndar um tillögu um að upplýsingaherferð verði hleypt af stokkunum til þess að kynna þá möguleika á nemendaskiptum á framhaldsskólastigi sem tryggðir eru í norrænum samningi um menntamál frá árinu 1992. Þessir möguleikar eru að mestu ónýttir vegna þess að nemendur og skólar þekkja ekki til þessarar hliðar menntasamningsins. Úr því þyrfti að bæta með kröftugri upplýsingaherferð. Norræn ungmenni gætu styrkt og bætt menntun sína með þessu móti auk þess að takast á við lærdómsrík verkefni sem því fylgja að flytjast tímabundið búferlum til annars lands. Sagði Sigríður að með því að láta þessa hlið menntasamningsins liggja í gleymsku væru Norðurlönd að fara á mis við að ala upp nýja kynslóð „nordista“. Ungt fólk sem dveldist í öðru norrænu landi en heimalandinu og lærði blæbrigðamuninn á tungumálum, menningu og þjóðfélagsgerð væru bestu sendiherrar sem norrænt samstarf gæti fengið.
    Í utanríkismálaumræðu þingsins var Rannveig Guðmundsdóttir framsögumaður forsætisnefndar um friðargæslu og aðgerðir til að fyrirbyggja átök. Hún minnti á skýrslu ráðsins um þessi mál sem lögð var fram á síðasta þingi og tilmæli sem samþykkt voru til ráðherranna um að auka norrænt samstarf á þessu sviði. Rannveig sagði að ráðherrarnir hefðu að ýmsu leyti komið til móts við ráðið en þó hefðu þeir því miður ekki stofnað fastan samráðshóp um þessi mál né viljað kanna möguleika á að setja sameiginlegt norrænt hraðlið á stofn. Á átakasvæðum kæmist varanlegur friður ekki á nema með öflugri borgaralegri uppbyggingarstarfsemi og í því starfi gætu Norðurlönd verið öðrum fyrirmynd. Hvatti Rannveig varnarmálaráðherranna til þess að auka formlegt samstarf á þessum vettvangi.
    Steingrímur J. Sigfússon var talsmaður flokkahóps vinstrisósíalista og grænna í utanríkismálaumræðunni. Hann gerði grein fyrir áherslu flokkahópsins á að Norðurlandaþjóðirnar beittu sér fyrir fyrirbyggjandi aðgerðum áður en átök brjótast út á óróasvæðum, friðargæslu og borgaralegu uppbyggingarstarfi. Steingrímur lýsti áhyggjum af ástandinu í Afganistan og taldi að alþjóðasamfélagið hefði gengið á bak orða sinna um myndarlega styrki til uppbyggingarstarfs þegar stjórn Talibana væri farin frá völdum. Varðandi baráttuna gegn hryðjuverkum sagði Steingrímur að tvenns bæri að gæta. Í fyrsta lagi mætti baráttan ekki fara fram á kostnað mannréttinda og verndar viðkvæmra persónuupplýsinga. Í öðru lagi væri fátækt, óréttlæti og misskipting sá óvinur sem gæti af sér hryðjuverk og að þessi óvinur yrði ekki lagður að velli með vopnavaldi. Einungis með því að taka á vanda misskiptingar og óréttlætis yrði komist fyrir rót hryðjuverkavandans.
    Sigríður A. Þórðardóttir tók einnig þátt í utanríkisumræðunni og gerði hún stækkun ESB og NATO að umræðuefni. Í þessu sambandi væri það sérstakt að þrátt fyrir að sum Norðurlanda væri í NATO og önnur ekki, sum landanna væru í ESB og önnur aðilar að EES, þá hefði það ekki varpað skugga á norræna samvinnu. Þrátt fyrir þennan mun ynnu Norðurlönd ágætlega saman jafnt á sviði Evrópu- og öryggismála. Sigríður sagði að ekki væri á dagskrá að Ísland sækti um aðild að ESB en gat þess jafnframt að Íslendingar treystu á samstarf norrænna frændþjóða í Evrópumálum þó að þjóðirnar sætu ekki alltaf sömu megin borðsins. Sigríður greindi einnig frá starfi Norðurskautsráðsins þar sem Ísland er með formennsku og starfinu við yfirgripsmikla samanburðarskýrslu um lífsskilyrði á norðurskautsslóðum sem nú er unnið að á vegum ráðsins.
    Í umræðu um tillögu forsætisnefndar um úttekt á hlut Vestur-Norðurlanda innan norræns samstarfs tók Ísólfur Gylfi Pálmason til máls og gerði grein fyrir áherslum menningar- og menntamálanefndar í þessu sambandi. Fagnaði Ísólfur því að aukinn skilningur virtist vera á sérstöðu Vestur-Norðurlanda innan norræns samstarfs og tiltók sérstaklega þá breytingu á norræna tungumálasáttmálanum að láta hann einnig ná til færeysku, grænlensku og samísku auk ríkismálanna fimm. Lýsti Ísólfur þeirri von sinni að þessi breyting yrði staðfest skjótt af ríkisstjórnunum. Menningar- og menntamálanefnd leggur áherslu á tungumálaskilning og hvetur til þess að þekking á vestnorrænu málunum verði aukin í almenna skólakerfinu. Auk þess varar nefndin við því að stöðum sérstakra háskólalektora í norrænum málum verði fækkað og hvetur til þess að tilteknar stöður verði helgaðar vestnorrænu málunum. Enn fremur leggur nefndin áherslu á að auka þekkingu á vestnorrænni menningu á Norðurlöndum svo og alþjóðlega auk þess sem skiptiáætlanir ungmenna eins og Nordjobb, Nordplus o.s.frv. verði styrktar.
    Drífa Hjartardóttir tók þátt í umræðum þingsins um glæpastarfsemi og vímuefnavandann og sagði það gleðilegt að velferðarnefnd Norðurlandaráðs mun setja baráttu gegn vímuefnum á oddinn í starfi sínu á næsta ári. Það væru greinilegir kostir við að vinna sameiginlega gegn þessum vágesti og deila t.d. upplýsingum á milli landanna um hvaða aðferðir virka best í baráttunni við vímuefnavandann. Þegar fíkniefni eru annars vegar væri enn fremur mjög mikilvægt að einblína ekki um of á borgir og stærri byggðakjarna eins og fjölmiðlar hafa tilhneigingu til, væntanlega vegna fleiri sýnilegra misnotenda og alvarlegri ofbeldisverka. Mikilvægt væri að muna eftir landsbyggðinni og skiptast ekki síður á upplýsingum um tilraunaverkefni sem gefa góða raun í smærri bæjum. Nefndi Drífa sem dæmi tilraunaverkefni í Vestmannaeyjum þar sem saman hefðu farið forvarnaaðgerðir og aukin löggæsla sem hefðu gefið góða raun.
    Fimmtudaginn 31. október fóru fram kosningar í nefndir og kjör forseta Norðurlandaráðs. Forseti var kjörinn norski þingmaðurinn Inge Lønning sem er í flokkahópi hægrimanna. Eftir kosningarnar er nefndarseta Íslandsdeildar sem hér segir: Rannveig Guðmundsdóttir heldur sæti sínu í forsætisnefnd en auk þess taka Ísólfur Gylfi Pálmason og Sigríður A. Þórðardóttir sæti í nefndinni að nýju eftir tveggja ára hlé. Í efnahags- og viðskiptanefnd situr Steingrímur J. Sigfússon sem varaformaður. Drífa Hjartardóttir situr í velferðarnefnd og Sigríður Jóhannesdóttir í menningar- og menntamálanefnd. Arnbjörg Sveinsdóttir situr í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd sem varaformaður og var jafnframt kosin varaformaður eftirlitsnefndar. Auk setu í fastanefndum Norðurlandaráðs voru eftirtaldir þingmenn kosnir sem fulltrúar ráðsins á öðrum vettvangi: Rannveig Guðmundsdóttir var kosin í stjórn Norræna menningarsjóðsins og er jafnframt áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs hjá þingmannanefnd um norðurskautsmál. Ísólfur Gylfi Pálmason var kosinn í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans og Þuríður Backman, varamaður í Íslandsdeild Norðurlandaráðs, var valin í stjórn Norrænnar samstarfsmiðstöðvar um málefni fatlaðra.
    Næsta þing Norðurlandaráðs verður haldið í Ósló 27.–29. október 2003.

Alþingi, 11. febr. 2003.



Ísólfur Gylfi Pálmason,


form.


Sigríður Jóhannesdóttir,


varaform.

Rannveig Guðmundsdóttir.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Drífa Hjartardóttir.



Steingrímur J. Sigfússon.



Fylgiskjal.


Tilmæli, ummæli og ákvarðanir um innri málefni
samþykkt á 54. þingi Norðurlandaráðs.

(Helsinki, 29.–31. október 2002.)


     1.      Tilmæli nr. 3/2002, um réttindi Norðurlandabúa (B 215/p).
     2.      Tilmæli nr. 4/2002, um upplýsingagjöf til landsdeilda Norðurlandaráðs um framkvæmd tilmæla ráðsins (B 215/p).
     3.      Tilmæli nr. 5/2002, um frelsi til hreyfingar fyrir alla (B 214/v).
     4.      Tilmæli nr. 6/2002, um flutning hunda og katta á milli Norðurlanda (A 1265/m).
     5.      Tilmæli nr. 7/2002, um baráttu gegn kynþáttahatri og útlendingaandúð og stuðning við aðlögun á sviði vinnumarkaðar og menntamála (A 1299/m).
     6.      Tilmæli nr. 8/2002, um áætlun til að berjast gegn kynþáttahatri og útlendingaandúð og styðja aðlögun (A 1299/m).
     7.      Tilmæli nr. 9/2002, um skaðlega skattasamkeppni (A 1300/n).
     8.      Tilmæli nr. 10/2002, um aðgerðir gegn skaðlegri skattasamkeppni (A 1300/n).
     9.      Tilmæli nr. 11/2002, um aukið öryggi matvæla á Norðurlöndum (B 216/m).
     10.      Tilmæli nr. 12/2002, um ákvörðun ESB um díoxín (A 1287/miljö).
     11.      Tilmæli nr. 13/2002, um stuðning við lýðræðisþróun í Kalíningrad (A 1307/p).
     12.      Tilmæli nr. 14/2002, um vatnsból og heilsu í Karelíska lýðveldi Rússlands (A 1293/ miljö).
     13.      Tilmæli nr. 15/2002, um finnsk verkefni í Karelíska lýðveldi Rússlands (A 1293/miljö).
     14.      Tilmæli nr. 16/2002, um Vestur-Norðurlönd innan norrænnar samvinnu (A 1275/p).
     15.      Tilmæli nr. 17/2002, um norrænt samstarf á sviði löggjafar (B 217/m).
     16.      Tilmæli nr. 18/2002, um upplýsingar og tilvísanir til löggjafar norrænu landanna í löggjafarstarfi einstakra Norðurlanda (B 217/m).
     17.      Tilmæli nr. 19/2002, um mansal (A 1302/m).
     18.      Tilmæli nr. 20/2002, um dvalarrétt fyrir fórnarlömb mansals (A 1302/m).
     19.      Tilmæli nr. 21/2002, um baráttu gegn spillingu og peningaþvætti (A 1310/m).
     20.      Tilmæli nr. 22/2002, um hlutverk lögreglu og sérmenntun lögreglunnar (A 1311/m).
     21.      Tilmæli nr. 23/2002, um sjúklingafélög sjaldgæfra sjúkdóma (A 1278/v).
     22.      Tilmæli nr. 24/2002, um fjarskiptalækningar á milli Norðurlanda (A 1283/v).
     23.      Tilmæli nr. 25/2002, um heilbrigðiskerfin á Norðurlöndum (A 1308/v).
     24.      Tilmæli nr. 26/2002, um hjálp til barna og ungmenna sem hafa alist upp innan einangraðra trúfélaga (A 1285/v).
     25.      Tilmæli nr. 27/2002, um norræna menningarstefnu og menningartölfræði (A 1304/k).
     26.      Tilmæli nr. 28/2002, um alþjóðlega aðlögun að samningsgjalda-módelinu á menningarsviðinu (A 1304/k).
     27.      Tilmæli nr. 29/2002, um úttekt á stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf við frjáls félagasamtök (A 1306/k).
     28.      Tilmæli nr. 30/2002, um norræna hönnun (A 1280/k).
     29.      Tilmæli nr. 31/2002, um stefnu og áætlun fyrir ráðherranefnd á sviði upplýsingatækni (MR-IT) 2002-2004 (B 218/n).
     30.      Tilmæli nr. 32/2002, um almannaþjónustusjónvarp og stafræna væðingu (A 1244/k).
     31.      Tilmæli nr. 33/2002, um norrænt málsamfélag (A 1279/k).
     32.      Tilmæli nr. 34/2002, um þekkingu á norrænu málsamfélagi (A 1279/k).
     33.      Tilmæli nr. 35/2002, um rafræn fræðirit fyrir sjóndapra (A 1292/v).
     34.      Tilmæli nr. 36/2002, um skipti- og styrktaráætlanir á menntamálasviðinu (B 211/k).
     35.      Tilmæli nr. 37/2002, um menntun fyrir ungmenni á Norðurlöndum (A 1289/k).
     36.      Tilmæli nr. 38/2002, um stúdenta skipti og gildi prófa á háskólastigi (A 1305/k).
     37.      Tilmæli nr. 39/2002, um hvítbók um þróun Norðurlanda sem forustusvæðis á sviði rannsókna og nýsköpunar (B 212/k).
     38.      Tilmæli nr. 40/2002, um fjárlög fyrir norrænt samstarf árið 2003 (C 2; B 213/p).
     39.      Tilmæli nr. 41/2002, um norræna rannsóknarstyrki og innri fjárlagagerð Norðurlandaráðs (A 1303/kk).
     40.      Ummæli nr. 1/2002, um skýrslu ríkisendurskoðunar til Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar um endurskoðun starfsemi Norræna menningarsjóðsins 2001 (C 5/kk).
     41.      Ákvörðun nr. 1/2002, um hnattræna gerendur (A 1248/euro).
     42.      Ákvörðun nr. 2/2002, um þema fyrir fréttamannastyrki Norðurlandaráðs 2003 (A 1299/m).
     43.      Ákvörðun nr. 3/2002, um lýðræðisþróun í Kalíningrad (A 1307/p).
     44.      Ákvörðun nr. 4/2002, um fjárlagagerð (A 1303/kk).