Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 634. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1018  —  634. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2002.

1.     Inngangur.
    Evrópuráðsþingið er þingræðislegur vettvangur 44 aðildarríkja Evrópuráðsins og gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi þess, enda hugmyndabanki stofnunarinnar. Á þinginu sitja 612 fulltrúar sem skiptast til helminga, í aðalmenn og varamenn. Ólíkt ráðherranefndinni þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Þingið starfar í tíu málefnanefndum. Þá sitja formenn landsdeilda í stjórnarnefnd og í sameiginlegri nefnd með ráðherranefndinni, auk þess sem tuttugu þingmenn sitja í forsætisnefnd þingsins. Loks starfa á þinginu fimm flokkahópar. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, í lok janúar, apríl, júní og september. Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
          eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
          hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir og
          vera samráðsvettvangur þingmanna aðildarríkjanna og efla þannig tengsl þjóðþinga.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum í öllum aðildarríkjum. Til þess beitir ráðið sér fyrir samningu og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála. Ályktanir Evrópuráðsins og fjölþjóðasáttmálar sem þar eru samþykktir hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og -samtök. Þar ber að sjálfsögðu hæst mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
    Á þingfundum eru skýrslur málefnanefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Ályktunum, tilmælum eða áliti er því næst vísað til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þær og framkvæmir til samræmis við þær ef þurfa þykir, annaðhvort með beinum aðgerðum eða lagasetningu í þjóðþingum. Evrópuráðsþingið á því oft frumkvæði að samningu fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Þá er Evrópuráðsþingið umræðuvettvangur fyrir stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál, menningar- og menntamál, og eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem þingmenn Vestur-, Mið- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Ólíkt Evrópuþinginu eru fulltrúar á Evrópuráðsþinginu þjóðkjörnir þingmenn og hafa störf þingsins því beina skírskotun til starfa þjóðþinganna sjálfra. Þingfundir Evrópuráðsþingsins, þar sem menn starfa saman á jafnræðisgrundvelli, bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum, eru því afar mikilvægir. Hefur þetta farsæla samstarf hraðað mjög þeirri öru lýðræðisþróun sem átt hefur sér stað í Mið- og Austur-Evrópu á undangengnum árum. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta við að ná þeim geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi, og ekki síður möguleika, Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni, ekki síst í ljósi þess að Evrópuráðið og þingmannasamkunda þess er eina samevrópska fjölþjóðastofnunin þar sem Ísland nýtur fullrar aðildar.
2.    Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildarinnar á árinu voru Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Kjartan Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar.
    Ritari Íslandsdeildarinnar var Andri Lúthersson.

3.    Helstu málefni Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins árið 2002.
    Um þessar mundir gegnir Evrópuráðið m.a. því veigamikla hlutverki að styðja lýðræðis- og efnahagsuppbyggingu í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, meðal annars með efnahags-, laga- og tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört og urðu þau alls fjörutíu og fjögur talsins árinu með formlegri aðild Bosníu og Hersegóvínu. Óhætt er því að segja að pólitískt vægi ráðsins hefur því aukist verulega undanfarin ár. Á vettvangi ráðherranefndar Evrópuráðsins var nokkuð rætt um hugmyndir þess efnis að efna til þriðja leiðtogafundar ráðsins. Þá beindust umræður og störf ráðherranefndarinnar og Evrópuráðsþingsins að endurskipulagningu Mannréttindadómstóls Evrópu og samningsins um afnám dauðarefsinga í Evrópu. Þá var nokkuð rætt um samskipti Evrópusambandsins og Evrópuráðsins með tilliti til stækkunar ESB, Framtíðarráðstefnu ESB og vinnu við svokallaða réttindaskrá Evrópusambandsins. Af öðrum pólitískum málum má nefna inngöngu Serbíu og Svartfjallalands í Evrópuráðið og ástandið í Hvíta-Rússlandi.
    Átökin í Tsjetsjeníu bar hátt á dagskrá Evrópuráðsþingsins árið 2002 líkt og undangengin ár. Evrópuráðsþingið er nær eina alþjóðastofnunin sem hafði aðgang að Tsjetsjeníu á árinu og voru kraftar Evrópuráðsins því nýttir til hins ýtrasta til að ná fram friðsamlegri lausn á deilum og átökum Tsjetsjena og Rússlandsstjórnar. Skipaður var sérlegur, fámennur starfshópur Evrópuráðsþingsins og rússnesku Dúmunnar á fyrra ári, undir formennsku Judds lávarðar og Dimítrý Rogosíns, formanns rússnesku sendinefndarinnar við Evrópuráðsþingið, og starfaði sá hópur ötullega að lausn mála og ferðaðist til Tsjetsjeníu í þrígang í þeim tilgangi. Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, á sæti í starfshópnum. Í lok ársins harðnaði deilan til muna í kjölfar gíslatökunnar í Moskvu. Þá beitti Evrópuráðsþingið sér fyrir lausn mála í deilum Evrópusambandsins og Rússlandsstjórnar vegna málefna Kalíníngrad-héraðs. Þess má geta að Lára Margrét Ragnarsdóttir var sérlega útnefnd af stjórnmálanefnd þingsins til að fjalla um málið. Af lýðræðis- og réttarfarsmálum má nefna að staðan í Moldavíu, Georgíu, Aserbaídsjan og Armeníu var ofarlega á baugi í þinginu og samkundan hvatti ráðherraráð Evrópuráðsins til að nýta allar færar leiðir til að leysa úr þeim vanda sem skapast hefði í þessum ríkjum á undanförnum árum.
    Fyrri hluta árs bar mikið á umfjöllun um stöðu átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs á Evrópuráðsþinginu sem og á öðrum þingmannasamkundum. Þingheimur Evrópuráðsins hlýddi á ávörp Palestínumanna og Ísraela og ályktaði um ástandið. Þegar leið á árið beindust sjónir að ástandi mála í Írak. Framhald varð á umfjöllun Evrópuráðsþingsins um afleiðingar hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin í septembermánuði og framlag Evrópuráðsins til hinnar alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi.
    Hér á eftir fara ítarlegri upplýsingar um starfsemi Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins á árinu 2002.

4.    Þingfundur Evrópuráðsþingsins 2002.
a.    Fyrsti hluti þingsins.
    Dagana 21.–25. janúar var fyrsti hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2002 haldinn í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður og Margrét Frímannsdóttir, auk Andra Lútherssonar ritara. Á fundinum beindist athyglin í miklum mæli að málefnum Miðausturlanda en Evrópuráðsþingið bauð tveimur framámönnum úr röðum Palestínumanna og Ísraela, þeim Shimon Peres, utanríkisráðherra Ísraels, og Saeb Erekat, ráðherra í heimastjórn Palestínu, til að ávarpa þingfundinn. Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs bar hátt í heimsfréttum í byrjun janúarmánaðar og degi áður en gestirnir fluttu erindi sín höfðu herskáir Palestínumenn staðið fyrir mannskæðum sjálfsvígsárásum og hafði ísraelski herinn svarað fyrir sig með árásum á eignir heimastjórnar Palestínumanna. Athygli vakti hve mikill samhljómur var í málflutningi þeirra Peres og Erekats á þingfundinum en báðir lögðu þeir ofuráherslu á að stríðandi aðilar yrðu að setjast aftur að samningaborði. Sögðu þeir báðir að atburðir undangenginna missira hefðu grafið undan trausti milli ráðamanna í Palestínu og Ísrael og að ekki mætti draga lengur að efla það traust. Í málflutningi beggja komu fram sterk hvatningarorð í garð Evrópubúa, Rússa og Bandaríkjamanna um að sameinast í afstöðu sinni til átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs þar eð slíkt væri eina leiðin til varanlegs friðar.
    Á upphafsdegi þingsins var tekin fyrir skýrsla jafnréttisnefndarinnar um baráttuna gegn mansali. Á undanförnum árum hefur skipuleg glæpastarfsemi aukist gífurlega í álfunni og er nú svo komið að fjárhagslegt umfang mansals er litlu minna en eiturlyfjasmygl og vopnasmygl að mati sérfræðinga. Í skýrslu jafnréttisnefndarinnar var hvatt til þess að Evrópuráðið yrði í fararbroddi baráttunnar gegn mansali og mæltist nefndin til þess að ráðherraráðið beitti sér fyrir aukinni samvinnu milli stofnana til að sporna við þessum vanda og auknum úrbótum í aðildarríkjum Evrópuráðsins, t.a.m. með ákvæðum sem vernduðu þolendur mansals og tryggðu þeim tímabundið landvistarleyfi af mannúðarástæðum. Þá hvatti þingheimur ráðherraráðið til að beita sér fyrir stofnun evrópskrar stofnunar sem hefði eftirlit með þessum málaflokki og jafnframt að gerð yrðu drög að Evrópusáttmála þar sem lagst yrði gegn mansali. Á fundinum var mælt með því að Bosníu og Hersegóvínu yrði veitt aðild að Evrópuráðinu í ljósi þess að þar væru mannréttindi virt, forsendum réttarríkisins væri fullnægt og að stjórnvöld hefðu sýnt ríkan vilja til að ráðast í umfangsmiklar lýðræðisumbætur með það að markmiði að færa löggjöf landsins fram til samræmis við alþjóðlega staðla. Stjórnmálanefnd þingsins lagði fram skýrslu um stöðu mála á Kýpur. Í umræðum um skýrsluna kom fram einarður stuðningur þingmanna við friðarvilja leiðtoga þjóðarbrotanna sem eyjuna byggja en í sömu viku og efnt var til janúarfundar Evrópuráðsþingsins áttu sér stað viðræður milli ráðamanna Kýpur-Tyrkja og Kýpur-Grikkja. Í ályktun þingheims voru báðir aðilar hvattir til að leysa úr pólitískum ágreiningsefnum sínum áður en kæmi til aðildar Kýpur að Evrópusambandinu, þ.m.t. að varpa ljósi á örlög fólks sem varð viðskilja við fjölskyldur sínar í Kýpurstríðinu og að losa um hömlur á ferðafrelsi fólks og búseturétti þess svo unnt yrði að sameina fjölskyldur og ástvini. Þá var á þingfundinum vikið að afleiðingum hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum þegar skýrsla laga- og mannréttindanefndarinnar var tekin til umræðu. Í ályktun nefndarinnar var lýst yfir áhyggjum af stöðu mannréttindamála eftir atburðina 11. september á síðasta ári og voru stjórnvöld hlutaðeigandi ríkja hvött til að kasta ekki mannréttindum fyrir róða og gæta þess að aðgerðir gegn hugsanlegum hryðjuverkamönnum brytu ekki í bága við innlend og alþjóðleg mannréttindaákvæði. Þá hvatti þingheimur aðildarríki Evrópuráðsins til að hafna framsalsbeiðni fanga ef hugsanlegt væri að þeir ættu yfir höfði sér dauðadóm. Þá var staða mála í Tsjetsjeníu tekin til umræðu á þinginu. Í umræðum kom fram var samdóma álit að enn væri langt í land með að ástand mála í hinu stríðshrjáða héraði væri ásættanlegt og væri neyð íbúanna slík að alþjóðasamfélagið gæti ekki staðið aðgerðarlaust hjá. Þá væru enn afar róttæk öfl á kreiki meðal tjsetsjenskra skæruliða og notfærðu þau sér ástandið til eigin framdráttar. Hvatti þingið jafnframt rússneska herinn til að virða mannréttindi íbúa Tsjetsjeníu. Í umræðum var vikið að hinum sérlega starfshópi Evrópuráðsþingsins í málefnum héraðsins og hvatt til þess að hann héldi áfram störfum sínum á árinu enda hefði mikill árangur náðst að undanförnu við að leiða fulltrúa ólíkra hópa saman til viðræðna fyrir tilstuðlan starfshópsins.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Nino Burdjanadze, forseti georgíska þingsins, Arturas Paulauskas, forseti litháíska þingsins, Antanas Valionis, utanríkisráðherra Litháen og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, Walter Schwimmer, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Adrian Severin, forseti þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), Shimon Peres, utanríkisráðherra Ísraels, Mike Moore, framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), og Saeb Erekat, ráðherra sveitarstjórnarmála í heimastjórn Palestínu.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir tók þátt í umræðum um stöðu mála í Tsjetsjeníu og hvatti í ræðu sinni Vesturlönd til að gera sitt ýtrasta til að leysa strax úr neyð þeirra þúsunda íbúa héraðsins sem enn byggju við mikið harðræði. Sagði hún að að mörgu leyti hefðu Vesturlönd þegar misst af lestinni enda örðugt að snúa við þróun sem markaði djúp spor á ríkjandi og komandi kynslóðir í héraðinu. Vék hún máli sínu að fulltrúum þeirra hópa í Tsjetsjeníu sem enn hefðu ekki nýtt tækifærið til að ávarpa þær fjölmörgu ráðstefnur sem hinn sérlegi starfshópur Evrópuráðsþingsins hefði efnt til á undanförnum missirum. Sagði hún í ræðu sinni að augljóst væri að hluti af afleiðingum hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 11. september væru þær að kastljós fjölmiðla hefðu færst frá átökunum í Tsjetsjeníu og væri það miður. Þá gagnrýndi hún harðlega þau skæruliðaöfl í Tsjetsjeníu sem ættu ekkert skylt við frelsisbaráttu heldur mun fremur skipulega glæpastarfsemi. Nýttu þessir aðilar sér frelsisbaráttu annarra afla sem skálkaskjól og áréttaði að slíkt yrði ekki liðið.
    Á þinginu var skýrsla félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar Evrópuráðsþingsins, sem Lára Margrét veitir forstöðu, um eiturlyfjavandann og félagslegar afleiðingar hans tekin til umfjöllunar. Skýrsla þessi hefur vakið mikla athygli í ljósi þess að þar eru boðaðar nýjar leiðir til að takast á við þennan afar útbreidda vanda. Í skýrslunni var bent á að engin tengsl hefðu komið í ljós á milli tíðni eiturlyfjaneyslu í ákveðnu landi og þess hversu hörð viðurlög eru þar við fíkniefnabrotum. Því væri æskilegt að aðildarríkin endurskoðuðu stefnu sína í fíkniefnamálum. Þegar kom að atkvæðagreiðslu um skýrsluna var ljóst að mikill ágreiningur var uppi um innihald hennar og höfðu þar fulltrúar sænsku og ítölsku landsdeildanna sig einna mest í frammi. Tuttugu breytingartillögur höfðu verið lagðar fram af andstæðingum tilmælanna fyrir þingfundinn og svo fór að flestar þeirra voru samþykktar á fundinum. Fóru mál á þann veg að eftir að breytingartillögurnar voru samþykktar fór skýrsluhöfundurinn, Bretinn Paul Flynn, ásamt meðlimum nefndarinnar, fram á að skýrslunni yrði hafnað, þar sem ekki væri lengur um að ræða sömu skýrslu og nefndin hefði samþykkt. Var það samþykkt af þingheimi.

b.    Annar hluti þingsins.
    Dagana 22.–26. apríl var annar hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2002 haldinn í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður og Kristján L. Möller, auk Andra Lútherssonar ritara.
    Miðvikudaginn 24. apríl gerðist Bosnía og Hersegóvína 44. aðildarríki Evrópuráðsins við hátíðlega athöfn þegar fáni ríkisins var dreginn að húni fyrir utan Evrópuráðshöllina í Strassborg. Með aðild Bosníu og Hersegóvínu má segja að mikilvægum áfanga í sameiningu Evrópu hafi verið náð en utan Júgóslavíu var Bosnía og Hersegóvína eina Mið- og Austur- Evrópuríkið sem enn stóð utan ráðsins. Framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, Walter Schwimmer, sagði í ræðu sem hann hélt í tilefni tímamótanna að aðildin markaði ekki aðeins miklar breytingar í þróun Bosníu og Hersegóvínu frá hörmungum Balkanstríðanna í átt að stöðugu evrópsku fjölmenningarsamfélagi heldur einnig í sameiningu álfunnar allrar.
    Staða mála í Miðausturlöndum var rædd á þingfundi fimmtudaginn 25. apríl og í ályktun þingsins voru ísraelsk stjórnvöld og heimastjórn Palestínu vöruð eindregið við afleiðingum óbreyttrar stefnu sinnar og voru minnt á skuldbindingar sínar gagnvart alþjóðalögum. Gagnrýndi þingheimur sjálfsmorðsárásir palestínskra einstaklinga og afstöðuleysi heimastjórnar Palestínu til þeirra. Þá var herför ísraelska hersins gegn palestínskum almenningi harðlega gagnrýnd sem og kerfisbundin eyðilegging hersins á innviðum heimastjórnarsvæðanna og aðgerðir hersins í Jenín-flóttamannabúðunum. Í umræðunum sem fram fóru tóku þátt þeir Haim Ramon, fulltrúi forseta ísraelska þingsins, og Ziad Abu Zayyad, fulltrúi forseta palestínska löggjafarþingsins. Málefni Rússlands bar einnig hátt í þingstörfunum að þessu sinni. Tvær skýrslur um Rússland voru teknar fyrir, annars vegar skýrsla eftirlitsnefndar þingsins um skuldbindingar Rússlands á vettvangi Evrópuráðsins og hins vegar skýrsla laga- og mannréttindanefndarinnar um trúfrelsi í Rússlandi. Í fyrri skýrslunni voru rússnesk stjórnvöld m.a. harðlega gagnrýnd fyrir að hrinda banni við dauðadómum ekki í framkvæmd og gagnrýndi jafnframt rússneska þingið fyrir fyrirætlanir sínar að aflétta forsetaúrskurði um bann við fullnustu dauðadóma. Höfundar skýrslu laga- og mannréttindanefndarinnar sögðu að mikið hefði áunnist í seinni tíð hvað varðaði trúfrelsi í Rússlandi en þó væri alvarlega vegið að frelsi ýmissa lítilla trúarhópa, svo sem Votta Jehóva, til þess að iðka trú sína.
    Carla del Ponte, aðalsaksóknari Alþjóðastríðsglæpadómstólsins í málefnum Júgóslavíu fyrrverandi, ávarpaði þingheim miðvikudaginn 24. apríl og sagði hún í ræðu sinni að stríðsglæpadómstóllinn væri á afar mikilvægum tímamótum. Alls væru sex réttarhöld í gangi í Haag, þ.m.t. réttarhöldin yfir Slobodan Milosevic, fyrrverandi Júgóslavíuforseta, og taldi hún þetta til marks um hve langt alþjóðasamfélagið hefði náð að ganga á skömmum tíma. Taldi hún þetta afar farsæla þróun sem væri þó háð því að ríkisstjórnir sýndu dómstólnum fullan samstarfsvilja. Átaldi hún stjórnvöld í Belgrad og í serbneska lýðveldinu fyrir að draga lappirnar við að handtaka þá sem ákæra hefði verið gefin út á. Þá fagnaði hún hve hratt og vel það hefði gengið að staðfesta Rómarsáttmálann sem kveður á um stofnun alþjóðlegs sakamannadómstóls sem hún taldi vera einhvern mikilvægasta áfanga í alþjóðlegri réttarsögu.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Jakob Kellenberger, formaður Alþjóðaráðs Rauða krossins, Ion Iliescu, forseti Rúmeníu, Serguei Mironov, forseti sambandsþings rússneska þingsins, Antanas Valionis, utanríkisráðherra Litháen og formaður ráðherranefndar Evrópuráðsins, og Carla del Ponte, aðalsaksóknari Alþjóðastríðsglæpadómstólsins í málefnum Júgóslavíu fyrrverandi.
    Í umræðum um stöðu mála í Miðausturlöndum sagði Lára Margrét Ragnarsdóttir að alþjóðasamfélaginu stæði mikil hætta af stigmagnandi átökum Ísraelsmanna og Palestínumanna og að hatrið sem birtist í þeim átökum hefði náð því marki að Evrópuráðið yrði að leggja sín lóð á vogarskálar þeirra sem ljá friði röddu sína. Sagði hún að Ísraelsmenn lifðu við viðvarandi ótta við sjálfsmorðsárásir sem engu eirðu og að hjálparstofnunum væri gert ókleift að koma nauðstöddum til aðstoðar. Að sama skapi gagnrýndi hún Ísraelsmenn fyrir að beita her sínum á svo óvæginn hátt gegn saklausum palestínskum borgurum. Lára Margrét sagði að Ísland hefði ávallt stutt Ísraelsríki með ráðum og dáð og að milli ríkjanna hefði ávallt verið gott samband. Þess vegna væri það skylda sín að segja að nóg væri komið, staða mála ætti fremur skylt við fáránleikann og að valdhafar beggja vegna borðs yrðu að semja um frið. Slík væri ábyrgð þeirra. Gagnrýndi hún sérstaklega að hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkastarfsemi væri notuð sem skálkaskjól í aðgerðum Ísraelshers gegn Palestínumönnum og sagði að á tímum breiðrar, alþjóðlegrar samstöðu gegn hryðjuverkum væri rík þörf á að skapa samsvarandi samstöðu með friði. Lára Margrét mælti jafnframt fyrir nokkrum breytingartillögum við ályktun þingsins um stöðu mála í Miðausturlöndum.
    Lára Margrét tók einnig til máls í umræðum um stjórn og vernd fiskstofna og sagði að skýrsludrög drægju upp afar slæma mynd af ástandi fiskstofna. Taldi Lára Margrét rétt að nefna að á sama tíma og ástandið væri svo bágborið sökum mikillar ofveiði þá hefðu sumar Evrópuráðsþjóðir gert grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnunarkerfum sínum og stunduðu nú afar ábyrgar fiskveiðar. Rakti hún stuttlega sögu fiskveiða við Ísland og tilurð fiskveiðistjórnarkerfisins og sagði að menn yrðu að gera skýran greinarmun á þeim þjóðum Evrópu sem ættu allt undir fiskveiðum og öðrum þjóðum. Þá sagði Lára Margrét að þar eð Ísland ætti ekki aðild að ESB gæti hún ekki tjáð sig beint um sameiginlega fiskveiðistefnu sambandsins, en þó vildi hún gagnrýna niðurgreiðslur ESB til fiskveiða. Sagðist hún vera algerlega á móti markaðshamlandi aðgerðum sem tæki til fiskveiðistjórnar.

c.    Þriðji hluti þingsins.
    Dagana 24.–28. júní fór þriðji hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2002 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður og Margrét Frímannsdóttir, auk Andra Lútherssonar ritara. Af þeim málum sem hæst bar á júnífundi Evrópuráðsþingsins má nefna málefni þingræðislegs eftirlits með alþjóðastofnunum, samstarf samevrópskra stofnana og stöðu flóttamanna í Sambandsríkinu Júgóslavíu. Á júnífundinum var kosið til embættis aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópuráðsins og voru þrír í framboði, Maud de Boer-Buquicchio frá Hollandi, Guy De Vel frá Belgíu og Len Davies frá Bretlandi. Maud de Boer-Buquicchio var kjörinn af þingheimi í stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra Evrópuráðsins til fimm ára með 147 atkvæðum. De Vel hlaut 81 atkvæði og Bretinn Davis hlaut alls 9 atkvæði. Tók Boer- Buquicchio við starfinu af Hans Christian Krüger sem gegnt hafði stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra frá 1997.
    Í upphafsræðu sinni vék Peter Schieder, forseti Evrópuráðsþingsins, að niðurstöðum leiðtogafundar Evrópusambandsins í Sevilla sem haldinn hafði verið stuttu áður. Gagnrýndi Schieder aðildarríki Evrópusambandsins fyrir að hafa náð afar litlum árangri með fundi sínum og sagði það bagalegt í ljósi þess að stærsta stækkun ESB væri á næsta leiti án þess að aðildarríkin hefðu komist að niðurstöðu um jafnveigamikil mál og niðurgreiðslur til landbúnaðar. Þá sagði hann að fundurinn hefði í öllum aðalatriðum snúist um hvernig stemma mætti stigu við auknum fjölda ólöglegra innflytjenda í Evrópu og að niðurstaðan hefði verið lítt vönduð málamiðlun milli þeirra sem grípa vilja til harðari aðgerða og þeirra sem hallast að mannúðlegri aðgerðum. Sagði forsetinn að að nokkru leyti mætti fagna niðurstöðunni þar sem ESB hefði ákveðið að beita ekki heimaríki ólöglegra innflytjenda refsiaðgerðum. Samhæfð framkvæmdaáætlun Evrópusambandsríkja væri af hinu góða, t.a.m. samræming á meðhöndlun hælisumsókna. En þegar öllu væri á botninn hvolft fælist vandinn ekki í innihaldi ákvarðana sem teknar væru á þessum vettvangi heldur miklu fremur því hvernig leiðtogar Evrópusambandsríkja miðla málefnum innflytjenda til almennings og sagði Schieder að á Sevilla-fundinum hefðu þjóðarleiðtogarnir misst af góðu tækifæri til að hafa slík áhrif á almenningsálitið. Lagði Schieder áherslu á það að þótt samhæfð stefna Evrópusambandsins í þessum málaflokki væri vissulega fagnaðarefni þá væri þörf að samhæfa stefnu allra ríkja álfunnar, ekki aðeins ESB-ríkja, því að hættan væri sú að vandinn sem stafar af ólöglegum innflytjendum mundi þá færast til annarra ríkja álfunnar. Þá sagði forsetinn að sem fulltrúi Evrópuráðsins, sem stæði vörð um mannréttindi, yrði hann að vekja athygli á því að stefna Evrópuríkja í þessum málaflokki virtist vera að harðna mjög um þessar mundir og að grundvallarmannréttindi væri oftar en ekki hunsuð. Sagði Schieder að Evrópuríki hefðu ekki efni á að varpa Genfarsáttmálunum fyrir róða í skiptum fyrir skjótfengin atkvæði. Sagði forsetinn að viðfangsefni Sevilla-fundarins væri einkennandi fyrir þróunina í Evrópu þar sem borið hefði mikið á baráttunni gegn ólöglegum innflytjendum og óöryggi yfirleitt í aðdraganda kosninga í mörgum Evrópuríkjum að undanförnu. Minnti hann þingmenn á að þeir yrðu að spyrja sig áleitinna spurninga hvað þetta varðar.
    Fimmtudaginn 27. júní samþykkti Evrópuráðsþingið ályktun um stöðu flóttamanna í Sambandsríkinu Júgóslavíu þar sem lögð var áhersla á að leysa yrði hið snarasta úr vanda þessa fólks en talið er að um hálf milljón flóttamanna búi í Serbíu, Svartfjallalandi og Kosovo-héraði eftir stríðsátök undangenginna ára á svæðinu. Býr fólk þetta við afar þröngan kost enda stjórnvöld oft illa búin til að leysa úr brýnasta vandanum. Átaldi þingið alþjóðasamfélagið fyrir að draga úr fjárframlögum sínum til alþjóðlegs hjálparstarfs á Balkanskaga. Mæltist Evrópuráðsþingið m.a. til þess við ráðherranefndina að hún hvetti til erlendra fjárfestinga í Sambandsríkinu Júgóslavíu og styddi við efnahagsþróun í landinu í samræmi við stöðugleikasáttmálann fyrir suðausturhluta Evrópu.
    Evrópuráðsþingið fjallaði um þingræðislegt eftirlit með alþjóðastofnunum á fundi sínum þriðjudaginn 25. júní og mæltist til þess við ráðherraráðið að það leyfði aukinn aðgang þingsins að fjárlagaferli Evrópuráðsins, einkum hvað snerti heildarfjárlög þess. Þá mæltist þingið enn fremur til þess að það fengi aukið hlutverk í ákvarðanatöku í aðdraganda sáttmála Evrópuráðsins og að forseti þingsins fengi sæti á fundum ráðherraráðsins. Þá var mælst til þess að ráðherraráðið beitti sér fyrir auknu gagnsæi hvað varðar framkvæmd ályktana og tilmæla þingsins.
    Á fundi þingsins fimmtudaginn 27. júní var efnt til brýnnar umræðu um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Í ályktun stjórnmálanefndar Evrópuráðsþingsins sem samþykkt var á fundinum kom fram að grundvallarmannréttindi bæði Ísraela og Palestínumanna væru brotin með kerfisbundnum hætti og að ástandið hefði afgerandi áhrif á daglegt líf almennra borgara af báðum þjóðernum. Í ályktuninni var landtaka Ísraela á sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna fordæmd og minnt á ólögmæti slíkra aðgerða samkvæmt alþjóðalögum, þar á meðal ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Voru stjórnvöld í Ísrael hvött til þess að koma í veg fyrir frekari landtöku. Þá var heimastjórn Palestínu hvött til þess að fordæma hvers kyns hryðjuverkastarfsemi og beita áhrifum sínum til að koma í veg fyrir frekari hryðjuverk. Í ályktuninni var Evrópusambandið enn fremur hvatt til þess að hafa skilvirkt eftirlit með fjármunum þeim sem heimastjórn Palestínumanna væru látnir í té og koma þannig í veg fyrir að þeir nýttust í þágu hryðjuverkaafla.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Beatrix Hollandsdrottning, Jean Lemierre, yfirmaður Evrópska uppbyggingar- og framþróunarbankans (EBRD), Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar sem fer með formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins, og Borís Traíkovskí, forseti fyrrverandi Júgóslavíulýðveldisins Makedóníu.
    Í umræðum um áfangaskýrslu Evrópuráðsþingsins, sem fram fóru á fyrsta fundi þingsins mánudaginn 23. júní, ræddi Lára Margrét Ragnarsdóttir um nýútkomna skýrslu félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar Evrópuráðsþingsins um skaðsemi reykinga. Fagnaði Lára Margrét því að ráðist hefði verið í gerð skýrslunnar enda hefðu rannsóknir sýnt fram á að beinar og óbeinar reykingar væru einar og sér eitt mesta heilsuböl í álfunni um þessar mundir. Hvatti hún aðildarríki Evrópuráðsins til að beita sér fyrir hertum lögum og reglugerðum til að sporna við beinum og óbeinum reykingum.
    Lára Margrét hélt ræðu um þingræðislegt eftirlit með alþjóðastofnunum og lagði til grundvallar umræðuna um lýðræðishallann innan Evrópusambandsins sem svo hátt hefur borið á undangengnum árum. Taldi Lára Margrét það vera hryggilegt að svo virtist vera sem flestar hinna samevrópsku stofnana einkenndust af lýðræðishallanum svonefnda og því væri afar mikilvægt að það væri í verkahring þjóðkjörinna fulltrúa, eins og þeirra sem sæti ættu á Evrópuráðsþinginu, að koma að ákvarðanatökuferlinu. Sagði hún að alþjóðastofnanir fjölluðu í sífellt meira mæli um málefni er snertu hagsmuni borgaranna og eðli málsins samkvæmt yrðu þjóðkjörnir þingmenn að koma þar nærri. Sagði Lára Margrét að Evrópuráðið væri þó í sérflokki hvað þetta varðaði því að á þingi þess væri saman kominn mikill fjöldi atorkumikilla þjóðkjörinna þingmanna sem hefðu skilvirkt eftirlit með ákvörðunum ráðherraráðsins og framkvæmdum á þess vegum. Lagði hún jafnframt á það áherslu í ræðu sinni að alþjóðastofnunum bæri að forðast að starfa að sömu málefnum án samráðs eins og nokkur brögð hefðu verið að á undanförnum árum.
    Þá hélt Lára Margrét ræðu á þingfundi miðvikudaginn 25. júní um framtíðarsamstarf evrópskra stofnana. Þar ræddi hún í meginatriðum um fyrirhugaða réttindaskrá Evrópusambandsins og hættuna af því að sú réttindaskrá og mannréttindasáttmáli Evrópu sköruðust. Varaði Lára Margrét við því að öllu mannréttindastarfi Evrópuráðsins yrði teflt í tvísýnu með þessu og sagði mikla hættu af því ef til væru tveir evrópskir sáttmálar er tækju til grunnréttinda þegna Evrópuríkja. Fordæmi þessa væri ekki farsælt. Þá hvatti hún þingmenn Evrópuráðsríkja sem jafnframt væru aðildarríki Evrópusambandsins að slá skjaldborg um mannréttindasáttmála Evrópu.

d.    Fjórði hluti þingsins.
    Dagana 23.–27. september fór fjórði hluti þingfundar Evrópuráðsþingsins árið 2002 fram í Strassborg. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Lára Margrét Ragnarsdóttir formaður, Ólafur Örn Haraldsson varaformaður og Margrét Frímannsdóttir, auk Andra Lútherssonar ritara. Af þeim málum sem hæst bar á þinginu má nefna aðildarumsókn Sambandsríkisins Júgóslavíu að Evrópuráðinu, ástand mála í Tsjetsjeníu-héraði, framtíðarhorfur Kalíníngrad-héraðs og utandagskrárumræðu um hugsanleg stríðsátök í Írak. Þingfundur Evrópuráðsþingsins var í sömu viku og Evrópuþingið kom saman í Strassborg. Var þetta í fyrsta sinn sem þingmannasamkundurnar tvær funduðu á sama tíma í borginni og af því tilefni var efnt til sérstaks hátíðarfundar Evrópuráðsþingsins og Evrópuþingsins í Evrópuráðshöllinni þriðjudaginn 24. september. Var fundinum stjórnað sameiginlega af Peter Schieder, forseta Evrópuráðsþingsins, og Pat Cox, forseta Evrópuþingsins, og var umræðunni beint að þróunarferlinu innan Evrópu á sviði mannréttinda, öryggismála og réttarríkisins.
    Peter Schieder, forseti Evrópuráðsþingsins, vék í upphafsávarpi sínu fyrsta þingdag Evrópuráðsþingsins að náttúruhörmungunum sem riðu yfir Mið-Evrópu í ágústmánuði er mikil vatnsflóð ollu gríðarlegri eyðileggingu í Tékklandi, Slóvakíu, Austurríki og Ungverjalandi auk Þýskalands. Sagði Schieder að hamfarirnar væru okkur áminning um að mannshöndin mætti sín lítils þegar náttúruöflin væru annars vegar og minnti jafnframt á að þegar slíkar hörmungar ríða yfir hefðu manngerð landamæri milli ríkja litla þýðingu. Sagði hann að Evrópusambandið hefði brugðist skjótt og vel við ákalli þessara ríkja um neyðarhjálp og veitt stjórnvöldum þar ríkulega fjárhagsaðstoð til að bregðast við mestu neyðinni. Evrópuráðið hefði hins vegar ekki úr miklum fjármunum að moða en á hinn bóginn taldi Schieder það vera farsælt ef Evrópuráðið, sem nánast öll Evrópuríki ættu aðild að, gegndi því hlutverki að efla evrópskt samstarf á sviði umhverfisverndar sem hugsanlega gæti komið í veg fyrir náttúruhamfarir á borð við þær sem nýlega hefðu leikið íbúa álfunnar grátt. Mæltist forseti þingsins til þess að þingmenn beittu sér fyrir því að umhverfismálin nytu meiri athygli ráðherraráðsins á næstu missirum. Aðildarumsókn Sambandsríkisins Júgóslavíu að Evrópuráðinu hafði verið allmikið í deiglunni í aðdraganda fjórða þingfundar Evrópuráðsþingsins, ekki síst í ljósi óvæginnar kosningabaráttu fyrir forsetakosningarnar í Serbíu í september. Evrópuráðið hafði lagt hart að stjórnvöldum í Júgóslavíu, og þ.m.t. yfirvöldum í sambandsríkjunum Serbíu og Svartfjallalandi, að leysa úr ágreiningsefnum sínum hvað varðar nýja stjórnarskrá landsins, þ.e. stjórnskipulega stöðu sambandsríkjanna innan nýs sameiginlegs sambandsríkis Serbíu og Svartfjallalands. Þá hafði Evrópuráðið mælst til þess að júgóslavnesk stjórnvöld bættu úr samskiptum sínum við Alþjóðastríðsglæpadómstólinn í málefnum Júgóslavíu fyrrverandi í Haag og framseldu þá sem ákærðir hefðu verið fyrir stríðsglæpi eða glæpi gegn mannkyninu og enn hefðust við í Júgóslavíu. Í áliti Evrópuráðsþingsins um aðildarumsókn Júgóslavíu var því fagnað að ríkur vilji væri til þess bæði innan Serbíu og Svartfjallalands að endurskilgreina ríkjasamband sitt og varpa fyrir róða þeim stofnunum og stjórnskipunarákvæðum er tækju enn mið af stjórnskipun hinnar gömlu Júgóslavíu. Þá var því fagnað að stjórnvöld Sambandsríkisins Júgóslavíu hefðu hrint í framkvæmd viðamiklum lýðræðisumbótum og umbótum á réttarkerfi. Eftir líflegar umræður mæltust þingmenn Evrópuráðsþingsins til þess við ráðherranefndina að bjóða Sambandsríkinu Júgóslavíu aðild að Evrópuráðinu, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, og að þingi sambandsríkisins yrðu veitt sjö þingsæti á Evrópuráðsþinginu.
    Málefni Kalíníngrad-héraðs voru ofarlega á baugi í dagskrá þinghaldsins en Rússlandsstjórn og Evrópusambandið höfðu, undangengin missiri, leitað leiða til að leysa úr ágreiningsefnum er varða frjálsa för rússneskra þegna til og frá Kalíníngrad-héraði, sem í raun er landlukt eyja með strandlengju að Eystrasalti, þegar grannríkin Litháen og Pólland gerast fullir aðilar að Evrópusambandinu og Schengen-vegabréfasamstarfinu. Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður Íslandsdeildarinnar, hafði verið skipuð sem skýrsluhöfundur stjórnmálanefndar Evrópuráðsþingsins í málefnum Kalíníngrad-héraðs stuttu áður en þinghald hófst og ferðaðist gagngert til Kalíníngrad, Póllands, Litháen og Brussel til fundar við ráðamenn um málefni héraðsins. Skýrsla Láru Margrétar, sem samþykkt hafði verið á aukaþingi sem efnt var til í september, var tekin fyrir á þingfundi miðvikudaginn 25. september og urðu miklar umræður um efni hennar. Í ræðu sem Lára Margrét flutti til að fylgja skýrslunni úr hlaði kom fram að þegar af aðild Póllands og Litháen í ESB yrði mundu öll landamæri héraðsins liggja að ESB og þar með umráðasvæði Schengen-samstarfsins. Með aðild yrðu ríkin tvö að sýna fram á að þau gætu tryggt ytri landamæri Schengen-svæðisins gagnvart ólöglegum flóttamönnum og alþjóðlegri skipulegri glæpastarfsemi. Í annan stað yrðu ríkin að samhæfa vegabréfaáritunarkerfi til samræmis við Schengen-samstarfið. Því lægi fyrir að litháensk og pólsk stjórnvöld mundu taka upp nýtt áritunarkerfi gagnvart rússneskum þegnum. Vegna sérstakrar legu Kalíníngrad væri fyrirséð að ferðafrelsi rússneskra þegna til og frá héraðinu væru þröngar skorður settar ef ekki kæmi til vilji til samninga milli ESB og Rússlands. Nefndi Lára Margrét í ræðu sinni að samkvæmt Schengen- sáttmálanum væri unnt að efna til tvíhliða vegabréfasamstarfs ríkja í milli. Ræddi Lára Margrét um að Rússlandsstjórn vildi hefja samningaviðræður um tvö atriði, annars vegar hefur hún farið fram á að efnt yrði til áritunarfrelsis milli Rússlands og ESB og hins vegar að komið yrði á beinum hraðlestarsamgöngum milli Rússlands og Kalíníngrad þar sem rússneskir þegnar gætu ferðast hindrunarlaust í innsigluðum vögnum. Sagði Lára Margrét að hún styddi fyrra atriðið en hið síðara mundi vekja upp spurningar um umráðarétt Litháens sem og mannréttindi þeirra sem ætlað er að ferðast í vögnum þessum. Lagt var til í skýrslunni að deiluaðilar kæmu sér saman um sérlegt ferðafrelsi milli Kalíníngrad og Rússlands, með útgáfu ferðaskilríkja til handa íbúum Kalíníngrad og að rússnesk stjórnvöld beittu sér fyrir því að leysa úr ýmsum tæknilegum örðugleikum sem á slíku samstarfi yrðu, að öllu óbreyttu. Tilmæli stjórnmálanefndarinnar voru samþykkt eftir miklar umræður.
    Fimmtudaginn 26. september var efnt til brýnnar umræðu um hugsanleg stríðsátök í Írak. Í ályktun Evrópuráðsþingsins sem samþykkt var á þingfundi kom fram að samstarfsvilja Íraksstjórnar vegna vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna væri fagnað og sagt að áhrifaríkt eftirlit með hugsanlegri framleiðslu Íraka á gereyðingarvopnum væri grundvöllur fyrir friðsamlegri lausn mála. Þá ályktaði þingið í þá veru að Íraksstjórn bæri að fordæma öll hryðjuverk og hætta allri þeirri starfsemi sem túlka mætti sem stuðning hennar við hryðjuverk. Í ályktuninni kom jafnframt fram að Evrópuráðsþingið gyldi varhug við þeirri viðleitni Bandaríkjastjórnar að ráðast á Írak án umboðs öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þá var mælst til þess að Evrópuríki stæðu hjá ef efnt yrði til stríðsaðgerða án umboðs öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
    Fundinn ávörpuðu eftirtaldir: Antonio Lazzaro Volpinari, forsætisráðherra San Marínó, Lydie Polfer, aðstoðarforsætisráðherra og utanríkisráðherra Lúxemborgar sem fer með formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins, Outi Ojala, forseti Norðurlandaráðs, og Richard E. Hecklinger, aðstoðarframkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD).
Á þinginu var efnt til umræðna um stöðu mála í Tsjetsjeníu-héraði. Lára Margrét Ragnarsdóttir, sem sæti á í sérlegri samstarfsnefnd Evrópuráðsþingsins og rússnesku Dúmunnar í málefnum héraðsins, hélt ræðu þar sem hún lagði áherslu á að umheimurinn mætti ekki gleyma ástandinu í hinu stríðshrjáða héraði, þrátt fyrir að kastljós fjölmiðlanna hefðu á undanförnum missirum einkum beinst að eftirleik hinna hörmulegu atburða sem áttu sér stað í Bandaríkjunum 11. september 2001. Minnti hún og á að spennan milli Georgíu og Rússlands tengdist mjög ástandi mála í Tsjetsjeníu og gagnrýndi að þau málefni væru ekki rædd samtímis því sem áfangaskýrsla samstarfsnefndar Evrópuráðsþingsins og rússnesku Dúmunnar væri tekin til umræðu. Í ræðunni ræddi Lára Margrét um ferð þá sem hún hafði farið í ásamt öðrum fulltrúum hinnar sérlegu sendinefndar Evrópuráðsþingsins til Tsjetsjeníu fyrr í septembermánuði og sagði að þrátt fyrir öflugt starf Evrópuráðsins væru enn allt of mörg pólitísk álitaefni óleyst. Sagði hún að aðbúnaður venjulegra borgara væri oft hrikalegur og oftlega væri lagt hart að flóttamönnum að snúa til baka til héraðsins þrátt fyrir öryggisástandið þar. Þá sagðist Lára Margrét bera kvíðboga fyrir afleiðingum stríðsátakanna á kynslóð ungra Tsjetsjena sem byggja eigi héraðið upp þegar pólitískri lausn mála væri náð.
    Í umræðum um áfangaskýrslu Evrópuráðsþingsins tók Lára Margrét til máls sem formaður félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar Evrópuráðsins og ræddi um flóðin miklu sem riðu yfir Mið-Evrópu, og þá sérstaklega Tékkland, í ágústmánuði 2002. Í ræðu sinni hvatti Lára Margrét Evrópuráðsríkin til að láta fé af hendi rakna til uppbyggingar flóðasvæðanna og vísaði til neyðarkalls formanns tékknesku landsdeildarinnar við Evrópuráðsþingið frá því fyrr um haustið. Hvatti hún jafnframt til þess að Evrópuráðið, í samstarfi við önnur alþjóðasamtök, hefði með höndum skipulag fjármögnunar hjálparstarfs og lagði áherslu á að þótt mikið væri gert til að aðstoða þá sem misst hefðu sitt, væri unnt að gera mun meira. Í framhaldi af umræðunum innti Lára Margrét formann ráðherraráðsins eftir því til hvaða ráða Evrópuráðið hefði gripið í þessu tilliti.

5.    Nefndastörf.
a.    Skipting Íslandsdeildarinnar í nefndir.
Sameiginleg nefnd
með ráðherranefnd:
Lára Margrét Ragnarsdóttir.
    Til vara: Ólafur Örn Haraldsson.
Stjórnarnefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir.
    Til vara: Ólafur Örn Haraldsson.
Stjórnmálanefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir.
    Til vara: Kjartan Ólafsson.
Laga- og
mannréttindanefnd:
Margrét Frímannsdóttir.
    Til vara: Kristján L. Möller.
Jafnréttisnefnd: Margrét Frímannsdóttir.
    Til vara: Kristján L. Möller.
Efnahagsnefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir.
    Til vara: Kjartan Ólafsson.
Umhverfis- og
landbúnaðarnefnd:
Ólafur Örn Haraldsson.
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson.
Þingskapanefnd: Lára Margrét Ragnarsdóttir.
    Til vara: Kjartan Ólafsson.
Mennta- og vísindanefnd: Ólafur Örn Haraldsson.
    Til vara: Kristinn H. Gunnarsson.
Félags- og
heilbrigðismálanefnd:
Lára Margrét Ragnarsdóttir.
    Til vara: Kjartan Ólafsson.
Nefnd um fólksflutninga
og málefni flóttamanna:
Margrét Frímannsdóttir.
    Til vara: Kristján L. Möller.

b.    Þátttaka í nefndafundum utan þinga.
    Utan reglulegra þinga halda nefndir Evrópuráðsþingsins nokkra fundi árlega, ýmist í Strassborg eða París eða einhverju aðildarríkja ráðsins. Alls tók Íslandsdeildin þátt í nær tveimur tugum slíkra funda á árinu 2002 og var það einungis lítið brot af þeim fundum sem haldnir voru. Alls stjórnaði Lára Margrét Ragnarsdóttir sex fundum félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndarinnar á árinu. Þrír fundanna voru haldnir í salarkynnum Evrópuráðsins í París. Utan Parísar var einn fundur haldinn í Ottawa í febrúar, einn fundur var haldinn í Búkarest í maí og að lokum var efnt til sameiginlegs fundar félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumálanefndar Evrópuráðsþingsins og embættismanna Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) í Genf í desember. Þá sótti Lára Margrét tvo fundi stjórnmálanefndarinnar, annar var haldinn í París í september en hinn í Luzern samhliða fundi stjórnarnefndar í maí. Lára Margrét hélt í tvígang til Moskvu og Tsjetsjeníu á vegum sérlegs starfshóps Evrópuráðsþingsins og rússnesku Dúmunnar, í mars og september. Þá sótti hún ráðstefnu um hryðjuverkastarfsemi sem efnt var til í Pétursborg í mars. Á fundi stjórnmálanefndarinnar í París í september var Lára Margrét skipuð skýrsluhöfundur nefndarinnar í málefnum Kalíníngrad-héraðs og ferðaðist því í þeim mánuði til Litháen, Kalíníngrad, Póllands og Brussel til að afla gagna fyrir skýrsluna sem lögð var fyrir á þriðja fundi þingsins í september. Þá sótti Lára Margrét ráðstefnu í Bratislava fyrir hönd forseta Evrópuráðsþingsins þar sem hún ávarpaði nær alla félagsmálaráðherra aðildarríkja Evrópuráðsins. Auk þess sótti hún undirbúningsfund fyrir loftslagsráðstefnuna í Jóhannesarborg, fyrir hönd Evrópuráðsþingsins.
    Ólafur Örn Haraldsson sótti þrjá fundi í eftirlitsnefnd Evrópuráðsþingsins á árinu. Tveir þeirra voru í París, í apríl og september, en einn var haldinn í Búdapest í mars. Þá sótti Ólafur Örn fund umhverfis- og landbúnaðarnefndarinnar sem haldinn var í París í febrúar.
    Margrét Frímannsdóttir sótti einn fund í laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins sem fram fór í París í marsmánuði. Þá tók hún þátt í fundi jafnréttisnefndarinnar sem haldinn var í Lúxemborg í septembermánuði.

Alþingi, 3. febr. 2003.



Lára Margrét Ragnarsdóttir,


form.


Ólafur Örn Haraldsson,


varaform.


Margrét Frímannsdóttir.




Fylgiskjal.


Ályktanir, álit og tilmæli Evrópuráðsþingsins árið 2002.

    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum Evrópuráðsþingsins árið 2002.

Fyrsti hluti þingfundar 21.–25. janúar:
     1.      álit nr. 233, um viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um afnám dauðadóma hvort sem er á friðar- eða stríðstímum,
     2.      tilmæli nr. 1545, um baráttuna gegn mansali,
     3.      ályktun nr. 1268, um fullnustu dóma Mannréttindadómstóls Evrópu,
     4.      álit nr. 234, um aðildarumsókn Bosníu og Hersegóvínu til Evrópuráðsins,
     5.      ályktun nr. 1267, um stöðu mála á Kýpur,
     6.      tilskipun nr. 579, um framkvæmd brottvísunar úr landi og ákvæði í mannréttindasáttmálum,
     7.      tilmæli nr. 1546, um fullnustu dóma Mannréttindadómstóls Evrópu,
     8.      tilmæli nr. 1547, um framkvæmd brottvísunar úr landi og ákvæði í mannréttindasáttmálum,
     9.      ályktun nr. 1270, um stöðu mála í Tsjetsjeníu,
     10.      tilmæli nr. 1549, um öryggiskröfur og loftferðir,
     11.      ályktun nr. 1269, um hnattvæðinguna og hlutverk Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO),
     12.      tilmæli nr. 1548, um stöðu mála í Tsjetsjeníu,
     13.      tilmæli nr. 1550, um baráttuna gegn hryðjuverkum og mannréttindi,
     14.      ályktun nr. 1271, um baráttuna gegn hryðjuverkum og mannréttindi,
     15.      ályktun nr. 1272, um pólitíska fanga í Aserbaídsjan, og
     16.      ályktun nr. 1273, um vísindasamfélagið.
Stjórnarnefndarfundur í mars:
     1.      álit nr. 235, um drög að Evrópusáttmála um stöðu barna,
     2.      tilskipun nr. 580, um starfsþjálfun ungra hælisleitenda,
     3.      tilmæli nr. 1551, um þróun 21. aldar samfélags með og fyrir börn,
     4.      tilmæli nr. 1552, um starfsþjálfun ungra hælisleitenda,
     5.      ályktun nr. 1274, um foreldraorlof, og
     6.      ályktun nr. 1275, um drög að sáttmálum um skuldbindingar og breytingartillögur við þá.

Annar hluti þingfundar 22.–26. apríl:
     1.      tilmæli nr. 1559, um starfsþjálfun og nýja tækni,
     2.      tilmæli nr. 1560, um meðferð og lækningu mænuskaðaðra,
     3.      ályktun nr. 1281, um stöðu mála í Miðausturlöndum,
     4.      tilmæli nr. 1557, um lagalega stöðu Róma í Evrópu,
     5.      tilmæli nr. 1558, um fiskveiðar í innsjó,
     6.      ályktun nr. 1282, um skógarhögg í Kanada og samstarf við Evrópu,
     7.      ályktun nr. 1283, um stjórnun og vernd fiskstofna,
     8.      tilmæli nr. 1554, um lýðræðislegar stofnanir í Moldavíu,
     9.      ályktun nr. 1280, um lýðræðislegar stofnanir í Moldavíu,
     10.      tilmæli nr. 1555, um ímynd kvenna í fjölmiðlum,
     11.      tilmæli nr. 1556, um trú og þjóðfélagsbreytingar í Mið- og Austur-Evrópu,
     12.      tilmæli nr. 1553, um skuldbindingar Rússlands á vettvangi Evrópuráðsins,
     13.      ályktun nr. 1277, um skuldbindingar Rússlands á vettvangi Evrópuráðsins,
     14.      ályktun nr. 1278, um trúarlög í Rússlandi,
     15.      ályktun nr. 1279, um „nýja hagkerfið“ og Evrópu,
     16.      álit nr. 236, um fjárlög Evrópuráðsins fyrir fjárhagsárið 2003,
     17.      álit nr. 237, um útgjöld Evrópuráðsins fyrir fjárhagsárið 2003, og
     18.      ályktun nr. 1276, um starfsemi Alþjóðaráðs Rauða krossins.

Stjórnarnefndarfundur í maí:
     1.      álit nr. 238, um drög að viðbótarsáttmála um varnir gegn eiturlyfjaneyslu,
     2.      tilmæli nr. 1561, um félagslegar aðgerðir til aðstoðar stríðshrjáðum börnum í suðausturhluta Evrópu,
     3.      tilmæli nr. 1562, um stjórnun greiningar og meðferðar á ofvirkum börnum í Evrópu,
     4.      tilmæli nr. 1563, um aðstæður kúrdíska minni hlutans í Tyrklandi,
     5.      tilmæli nr. 1564, um mannfjölgun,
     6.      tilmæli nr. 1565, um Evrópusamstarf á sviði íþróttamála,
     7.      tilskipun nr. 581, um mannfjölgun,
     8.      ályktun nr. 1284, um aðild að Evrópuráðsþinginu, og
     9.      ályktun nr. 1285, um evrópska ferðamannaiðnaðinn.

Þriðji hluti þingfundar 24.–28. júní:
     1.      tilmæli nr. 1571, um að draga úr umhverfisvá með því að eyða efnavopnum,
     2.      ályktun nr. 1295, um ástand umhverfismála í Eystrasalti,
     3.      tilmæli nr. 1570, um stöðu flóttamanna í Armeníu, Aserbaídsjan og Georgíu,
     4.      tilmæli nr. 1569, um stöðu flóttamanna í Sambandsríkinu Júgóslavíu,
     5.      ályktun nr. 1294, um ástand mála í Miðausturlöndum,
     6.      ályktun nr. 1293, um stöðu kvenna í ríkjum Norður-Afríku,
     7.      ályktun nr. 1292, um leiðtogafundinn í Jóhannesarborg,
     8.      tilmæli nr. 1568, um framtíð samvinnu milli samevrópskra stofnana,
     9.      ályktun nr. 1291, um brottnám barna,
     10.      ályktun nr. 1290, um framtíð samvinnu milli samevrópskra stofnana,
     11.      tilskipun nr. 582, um þingræðislegt eftirlit með alþjóðastofnunum,
     12.      ályktun nr. 1288, um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann,
     13.      ályktun nr. 1289, um þingræðislegt eftirlit með alþjóðastofnunum,
     14.      tilmæli nr. 1567, um þingræðislegt eftirlit með alþjóðastofnunum,
     15.      ályktun nr. 1287, um framlag Evrópska uppbyggingar- og framþróunarbankans (EBRD) til efnahagsuppbyggingar í Mið- og Austur-Evrópu,
     16.      tilmæli nr. 1566, um evrópskt menningarsamstarf og framtíðarhlutverk Evrópuráðsþingsins, og
     17.      ályktun nr. 1286, um baráttu gegn beinum og óbeinum reykingum.

Fjórði hluti þingfundar 23.–27. september:
     1.      tilmæli nr. 1582, um heimilisofbeldi gegn konum,
     2.      ályktun nr. 1307, um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum,
     3.      ályktun nr. 1306, um stöðu mála í Hvíta-Rússlandi,
     4.      álit nr. 240, um drög að viðauka Evrópusáttmála um tölvutengda glæpi,
     5.      ályktun nr. 1302, um hugsanlegar hernaðaraðgerðir í Írak,
     6.      ályktun nr. 1305, um skuldbindingar Aserbaídsjan á vettvangi Evrópuráðsins,
     7.      ályktun nr. 1304, um skuldbindingar Armeníu á vettvangi Evrópuráðsins,
     8.      ályktun nr. 1303, um skilvirkni lýðræðislegra stofnana í Moldavíu,
     9.      tilskipun nr. 583, um vernd minnihlutahópa í Belgíu,
     10.      ályktun nr. 1301, um vernd minnihlutahópa í Belgíu,
     11.      tilmæli nr. 1579, um stækkun Evrópusambandsins og Kalíníngrad-héraðs,
     12.      ályktun nr. 1298, um framtíðarhorfur í Kalíníngrad-héraði og þörfina á evrópskri samheldni,
     13.      tilmæli nr. 1580, um stöðu mála í Georgíu og stöðugleika í Norður-Kákasus,
     14.      ályktun nr. 1299, um Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) og hið hnattræna hagkerfi,
     15.      tilmæli nr. 1581, um Alþjóðasakamannadómstólinn,
     16.      ályktun nr. 1300, um Alþjóðasakamannadómstólinn,
     17.      tilmæli nr. 1578, um Evrópuráðið og ný viðfangsefni í þróunarstarfi álfunnar,
     18.      álit nr. 239, um aðildarumsókn Sambandsríkisins Júgóslavíu að Evrópuráðinu,
     19.      tilmæli nr. 1576, um fullnustu dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í Tyrklandi,
     20.      ályktun nr. 1297, um fullnustu dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í Tyrklandi, og
     21.      tilmæli nr. 1577, um sáttmála um leynda fólksflutninga.

Stjórnarnefndarfundur í nóvember:
     1.      álit nr. 241, um drög að viðbótarsáttmála um spillingu,
     2.      tilmæli nr. 1583, um varnir gegn glæpum gegn ungmennum,
     3.      tilmæli nr. 1584, um þörf á aukinni alþjóðlegri samvinnu til að uppræta sjóði sem nýttir eru til hryðjuverka,
     4.      tilmæli nr. 1585, um stefnu í málefnum ungmenna í ríkjum Evrópuráðsins,
     5.      tilmæli nr. 1586, um menntun og tækninýjungar,
     6.      tilmæli nr. 1587, um búsetuskilyrði, flutningsfrelsi og tilfærslu vinnuafls í Evrópu: lærdómar frá Portúgal,
     7.      ályktun nr. 1308, um skorður við starfsemi stjórnmálaflokka í Evrópuráðsríkjum,
     8.      ályktun nr. 1309, um trúfrelsi og trúarhópa í Frakklandi,
     9.      ályktun nr. 1310, um úrbætur í félagslegum aðstæðum og heilsufari mæðra, og
     10.      ályktun nr. 1311, um matvælamarkaðinn og neytendur.