Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 635. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1029  —  635. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2002.

I.     Inngangur.
    Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) var stofnuð árið 1977 og hafði það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss og sitja þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja í þingmannanefndinni. Umsvif og starfsemi nefndarinnar jukust til muna þegar viðræður hófust um Evrópska efnahagssvæðið (EES) árið 1989 og mikilvægi hennar jókst enn þegar EES- samningurinn tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku samningsins varð nefndin að formi til tvískipt þar eð Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þrjú aðildarríki EFTA sem heyra undir EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða eingöngu EES-hluta nefndarinnar eru tekin fyrir. Í frásögnum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær hliðar þingmannanefndar EFTA sem eina heild.
    Eins og önnur aðildarríki á Alþingi fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi þrisvar til fimm sinnum á ári auk þess sem hún á fund tvisvar á ári með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar um starfsemi EFTA, málefni EES og Evrópusambandsins (ESB), gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og efnahags- og viðskiptamál almennt. Nefndin á einnig samstarf við ríki sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar hittist fyrir hvern fund og undirbýr starf nefndarinnar, hefur umsjón með verkefnum og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.
    Í samvinnu við Evrópuþingið vann þingmannanefnd EFTA ötullega að því á sínum tíma að í EES-samningnum væri gert ráð fyrir sameiginlegri þingmannanefnd EES (95. gr. samningsins). Í sameiginlegu þingmannanefnd EES eru nú 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá hinum þremur EES-aðildarríkjum EFTA (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin á að fylgjast með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefa álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Sameiginlega þingmannanefnd EES hefur frumkvæði að því að semja skýrslur um málefni sem hún vill skoða sérstaklega. Fyrir hverja skýrslugerð eru tilnefndir tveir framsögumenn, einn úr hópi EFTA-þingmanna og einn úr hópi Evrópuþingsmanna. Á grundvelli þessara skýrslna leggja þingmennirnir jafnframt fram drög að ályktunum sem bornar eru undir atkvæði. Ályktanirnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Bæði ráðherraráðið og sameiginlega EES-nefndin gera athugasemdir við ályktanir þingmannanefndarinnar. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Við gagnaöflun og undirbúningsvinnu leitar þingmannanefndin upplýsinga hjá ráðherraráði EFTA og embættismönnum stofnana EFTA og ESB og koma skoðunum og áherslum þingmanna á framfæri við þessa aðila.

II.     Skipan Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.
    Árið 2002 skipuðu Íslandsdeildina Vilhjálmur Egilsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Össur Skarphéðinsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Ögmundur Jónasson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Varamenn voru Gunnar Birgisson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Bryndís Hlöðversdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Katrín Fjeldsted, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Magnús Stefánsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Kolbrún Halldórsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Fulltrúar Íslandsdeildarinnar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA voru Vilhjálmur Egilsson og Össur Skarphéðinsson. Fulltrúi Íslandsdeildar í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EES var Vilhjálmur Egilsson. Ritari Íslandsdeildar var Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþjóðaritari.

III. Starfsemi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES árið 2002.
    Starfsemi nefndanna var með reglulegum hætti á árinu 2002. Þingmannanefnd EES hélt tvo fundi og þingmannanefnd EFTA þrjá auk tveggja funda með ráðherraráði og ráðgjafarnefnd EFTA. Í heild var Íslandsdeildin virk í störfum beggja nefnda, fulltrúar Íslandsdeildar báru upp margar fyrirspurnir innan nefndanna og knúðu á um ítarlega umræðu um ýmis mál.
    Fjórar skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra. Skýrslurnar fjölluðu um framkvæmd EES-samningsins á árinu 2001, einkavæðingu á orkumarkaði EES, fjármálaþjónustu og mótun ákvarðana innan EES. Össur Skarphéðinsson var annar framsögumanna skýrslu um framkvæmd EES-samningsins og hélt erindi um þau mál auk þess að svara fyrirspurnum.
    Venja er að Íslandsdeildin haldi fund með Evrópunefnd þjóðþings þess ríkis sem næst tekur við forustu innan ESB, en nýtt forusturíki tekur við á sex mánaða fresti. Á þessum fundum kynnir Íslandsdeildin helstu þætti EFTA/EES. Sérstök áhersla er lögð á stöðu Íslands og þær skuldbindingar sem ESB hefur gagnvart EFTA/EES-ríkjunum, auk þess sem rætt er um helstu áhersluatriði viðkomandi ríkis í væntanlegri forsætistíð. Á fyrri hluta árs hélt Íslandsdeild fund með fulltrúum Evrópunefndar danska þingsins og á síðari hluta árs hélt deildin fund með fulltrúum Evrópunefndar gríska þingsins, en Grikkir tóku við forsæti í ráðherraráði ESB í ársbyrjun 2003.

IV. Nokkur málefni í EFTA- og EES-samstarfi sem Íslandsdeildin vekur athygli á.
    ESB hefur tekið miklum breytingum síðan EES-samningurinn var undirritaður og í hverjum mánuði bætast við nýjar ákvarðanir sem hafa bein áhrif á EES-löndin. Ör þróun hefur orðið á Rómarsamningnum (stofnsáttmála ESB) með ríkjaráðstefnunni í Maastricht og Amsterdam og nú síðast í Nice. Margar þessara breytinga verða ekki hluti af EES-samningnum en hafa þrátt fyrir það mikil áhrif á framkvæmd hans. Þetta getur leitt til ósamræmis í túlkun reglna innan ESB annars vegar og EFTA/EES hins vegar.

a.     Stækkun ESB og krafan um aukin fjárframlög EFTA/EES-ríkjanna.
    Stækkun ESB kallar á gífurlegar breytingar í evrópsku samstarfi. Tíu umsóknarríki hafa formlega lokið samningum um aðild og ef áætlanir ganga eftir verður sérhvert nýtt ESB-ríki einnig aðili að EES-samningnum. Ljóst þykir að möguleikar EFTA-ríkjanna til þátttöku í ákvarðanaferlinu og stefnumótun á EES-svæðinu minnka enn við stækkun ESB. Kerfið verður þyngra í vöfum en áður og tilkall EFTA-ríkjanna til sérstöðu minnkar í samræmi við það. Embættismenn EFTA segja að innan ESB sé sífellt minni áhersla lögð á samskipti við EFTA/EES-ríkin og að svo virðist sem þekking á EES-samningnum og grundvallarforsendum hans fari þverrandi.
    Í tengslum við stækkun ESB og EES hefur ESB nú krafist stóraukinna framlaga EFTA/ EES-ríkjanna í þróunarsjóði sambandsins, en krafan er talin hljóða upp á tuttugu- til þrjátíuföldun núverandi framlaga. Að mati EFTA/EES-ríkjanna hefur ESB stillt þeim upp við vegg og krafist greiðslna á svipuðum grundvelli og ef ríkin væru aðildarríki. Þessum kröfum hafa EFTA/EES-ríkin vísað á bug. Deilan stendur m.a. um það við hvaða styrktarsjóði hafi verið miðað þegar samið var um EES á sínum tíma, en þá lýstu EFTA-ríkin sig tímabundið reiðubúin að styrkja fátæku ríkin (Írland, Spán, Portúgal og Grikkland). Tekist er á um þessa deilu í yfirstandandi samningaviðræðum ESB og EFTA/EES-ríkjanna.
    Í þessu samhengi er ekki úr vegi að minna á þau áhrif sem stækkun ESB hefur á fríverslun EFTA við önnur ríki. Tvíhliða fríverslunarsamningar EFTA við hin nýju aðildarríki falla úr gildi um leið og ríkin ganga formlega í ESB, nema takist að semja um annað. Við munu taka samningsskilyrði sem kalla á tolla fyrir sjávarafurðir frá EFTA vegna viðskipta við nýju aðildarríkin. Fulltrúar Íslandsdeildar hafa bent á að EFTA eigi að fara fram á bætur fyrir þetta. Auk þess hefur verið bent á að slíkar bætur ætti að reikna með hliðsjón af mikilvægi þeirra markaða og viðskipta sem EFTA verður af í framtíðinni með niðurfellingu núgildandi samninga, en þessir markaðir búa yfir miklum vaxtarmöguleikum til framtíðar. Þessu hefur ESB hafnað algjörlega og sett það skilyrði að Íslendingar verði að heimila erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi vilji þeir fá fríverslun með sjávarafurðir.

b.     Þátttaka EFTA/EES-ríkja í ákvarðanatöku og nefndavinnu.
    Ísland lögleiðir nú um 80% af gerðum ESB um innri markaðinn. Vald Evrópuþingsins hefur aukist mjög síðan skrifað var undir EES-samninginn og fara framkvæmdastjórn ESB og Evrópuþingið nú með sameiginlegt löggjafarvald í flestum málum. Þar eð EFTA/EES- ríkin hafa samkvæmt samningnum engan formlegan aðgang að Evrópuþinginu hefur áhrifavald EFTA við mótun ákvarðana minnkað enn frekar. Á fundum þingmannanefnda EFTA og EES hefur verið bent á mikilvægi þess að lagagerðir og ákvæði sem eru í deiglunni innan ESB fái pólitíska umræðu í EFTA-ríkjunum áður en ákvarðanir eru endanlega teknar. Einnig hefur verið bent á mikilvægi þess að sérfræðingar EFTA fái meiri aðgang að nefndum og geti aflað sér upplýsinga um þau mál sem eru í deiglunni, ekki síst svo að hægt sé að verja hagsmuni EFTA/EES-ríkjanna í málum sem eru enn í mótun. Þá hefur líka verið bent á að EFTA/EES-ríkin virðist ekki nýta sér til fulls þau tækifæri til nefndasetu sem gefast samkvæmt EES-samningnum og á það sér í lagi við um Ísland. Á fundum þingmannanefnda EFTA og EES hefur einnig verið rætt að hvetja eigi þegna EFTA/EES-landanna til að draga þingmenn til ábyrgðar fyrir þau margþættu áhrif sem þróun EES-samningsins hefur á þjóðlíf og lýðræði heima fyrir.

c.     Endurskoðun EES-samningsins.
    Miklar umræður spunnust á fundum þingmannanefndanna um hugsanlega endurskoðun og uppfærslu EES-samningsins og möguleika EFTA-ríkjanna til að tryggja betur hlut sinn í ákvarðanaferli innan ESB. Mikið var rætt um hversu langt slík endurskoðun ætti að ganga og fulltrúar þingmannanefndar EFTA báðu um svör við því hjá ráðherraráði EFTA hvenær skýr skilgreining á slíku ferli gæti legið fyrir. Á fundi þingmannanefndar EES í maí sl. var samþykkt að skora á ríkisstjórnir landanna að móta sameiginlega afstöðu til endurskoðunar EES-samningsins og leggja inn formlega beiðni til ESB um uppfærslu samningsins samhliða stækkun. Fulltrúar þingmannanefndarinnar lögðu áherslu á mikilvægi þess að EFTA/EES- ríkin væru samstiga í kröfum sínum og viðræðum við ESB varðandi endurskoðun samningsins þar eð ESB gæti nýtt sér til hins ýtrasta hvers kyns misræmi í afstöðu ríkjanna. Svo fór að sameiginleg beiðni EFTA-ríkjanna um uppfærslu á samningnum var aldrei lögð fyrir þar sem talið var ljóst að ESB mundi ekki taka slíka beiðni til greina.
    Innan þingmannanefndarinnar hefur nokkuð borið á áhyggjum af því að EES-samningurinn sé að veikjast þar eð ESB haldi ekki lengur í heiðri sumar af grundvallarforsendum hans. Á miðju ári var í þessu samhengi mikið rætt um nýtilkomna tolla á innflutning stáls til ESB-ríkja, en EFTA/EES-ríkin voru ekki undanskilin þessum aðgerðum af hálfu ESB þrátt fyrir að vera fullgildir meðlimir innri markaðarins. Nokkrir fulltrúar þingmannanefndarinnar sögðu að með þessu væri ESB að vega að EES-samningnum á dýpri og alvarlegri hátt en áður hefði sést. Farið væri með EFTA/EES-ríkin eins og hver önnur þriðju ríki og litið fram hjá því að EFTA/EES-ríkin væru fullgildir meðlimir og þátttakendur í innri markaði ESB.

d.     Þriðju ríki – þróun fríverslunarsamninga.
    Samskipti við þriðju ríki eru ekki hluti af EES-samningnum. Hins vegar hefur stefna EFTA verið sú að gera fríverslunarsamninga við sömu ríki og ESB hefur samið við og koma þannig í veg fyrir mismunun af hálfu þessara ríkja gagnvart fyrirtækjum í EFTA-ríkjunum. Í byrjun gerði EFTA fjölda samninga við Mið- og Austur-Evrópuríki og Miðjarðarhafsríki. Á síðustu árum hefur EFTA verið að færa út kvíarnar til annarra heimsálfa og lauk m.a. samningi við Mexíkó árið 2000. Árið 2001 lauk EFTA svo viðræðum um samning við Singapúr og var hann undirritaður á ráðherrafundi EFTA á Egilsstöðum í júní sl. Þetta er fyrsti fríverslunarsamningur sem EFTA gerir við ríki í Austur-Asíu og víðtækasti samningur EFTA til þessa. Viðræður standa yfir við Chile og fleiri ríki, en fyrirhugaður fríverslunarsamningur við Kanada strandar enn á deilum Kanadamanna og Norðmanna um skipasmíðar. Íslandsdeild hefur hvatt til lausnar á deilunni við Kanadamenn, enda sé þar sérlega mikilvægur samningur í húfi. Íslandsdeildin hefur einnig bent á nauðsyn þess að uppfæra og tryggja viðhald fríverslunarsamninga sem þegar eru í gildi, enda sé slíkt nánast jafnmikilvægt og að gera nýja samninga.

V.     Frásagnir af fundum þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu.
    Hér verður gerð stutt grein fyrir helstu málum sem komu til umræðu á fundum þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu.

65./33. fundur þingmannanefndar EFTA og 36. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA í Brussel 19. mars 2002.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA voru framtíð EES-samningsins, stjórnarskrárþing ESB og formennskuáætlun Dana í ESB á síðari árshelmingi 2002 einkum til umræðu. William Rossier, framkvæmdastjóri EFTA, fór yfir stöðu mála varðandi uppfærslu EES-samningsins og lagði áherslu á að einungis hefðu verið reifaðar takmarkaðar tæknilegar breytingar á samningnum. Tæknileg uppfærsla ætti að tryggja lagalegt samræmi innan EES með því að aðlaga EES-samninginn þeim breytingum sem átt hafa sér stað á ESB með Maastricht- og Amsterdam-sáttmálunum. Formleg beiðni um viðræður um uppfærslu EES-samningsins hefði ekki verið lögð fram af EFTA-ríkjunum en ESB hefði lýst yfir vilja til að ganga til slíkra viðræðna eftir að lokið væri við aðildarsamninga umsóknarlandanna. Í umræðum sem fylgdu í kjölfarið lýsti Vilhjálmur Egilsson m.a. efasemdum um áhuga og vilja ESB til að ganga skjótt til samninga þar eð þeir sæju sér engan sérstakan hag í að tryggja stöðu EES-samningsins. Vilhjálmur sagði jafnframt að uppfærsla á EES-samningnum væri EFTA- ríkjunum nauðsynleg en þeim mundi reynast erfitt að sannfæra ESB um slíkt. Össur Skarphéðinsson benti á að ráðherraráð EFTA hefði enn ekki náð að móta sameiginlega afstöðu til þess hversu víðtæka uppfærslu ætti að fara fram á og ítrekaði ósk sína um að ráðherrar tækju af skarið í þessum efnum. Hann sagði EFTA-ríkin sárvanta heilsteypta áætlun gagnvart ESB í þessu máli og það veikti stöðu EFTA og EES með hverjum degi sem liði. Össur lýsti eftir pólitískri forustu og framtíðarsýn ráðherraráðs EFTA og harmaði að enn væri ekki komin fram formleg tillaga til ESB um uppfærslu og endurskoðun EES-samningsins. Ögmundur Jónasson minnti á að öll þessi umræða um EES-samninginn og endurskoðun hans væri í eðli sínu ekki einungis „tæknileg“ heldur í raun hápólitísk. Það væri pólitísk ákvörðun að tryggja enn frekara lagalegt samræmi og einsleitni á EES-svæðinu og á tíðum væru EFTA-ríkin ekki nógu dugleg við að sporna gegn slíkri einsleitni sem kæmi beint frá Brussel. Hann sagði þá sem væru fylgjandi aðild að ESB reyna að draga úr gildi EES-samningsins og velti upp þeirri spurningu hvort það væri ESB í hag að veikja samninginn. Rossier benti á að ef EFTA-ríkin gætu mótað sameiginlega afstöðu til uppfærslunnar væri æskilegt að slík afstaða kæmi fram sem fyrst þar sem stefnt væri að því að stækkun ESB kæmi til framkvæmda 1. janúar 2004. Breytingu á EES-samningnum yrði að samþykkja í þjóðþingum allra aðildarlanda samningsins og því væri það hagsmunamál EFTA-ríkjanna að ljúka uppfærslu samningsins áður en stækkun ESB gengur formlega í gildi.
    Timothy Kirkhope, þingmaður á Evrópuþinginu, greindi frá starfi stjórnarskrárþings ESB sem kom saman í fyrsta skipti í febrúar 2002. Stjórnarskrárþingið er samansett af framkvæmdastjórn ESB, fulltrúum Evrópuþingsins, fulltrúum þjóðþinga aðildarríkja og umsóknarríkja ESB, auk áheyrnarfulltrúa aðila vinnumarkaðarins og fleiri hagsmunaaðila. Kirkhope kynnti verksvið þingsins sem er að móta framtíðarsýn ESB. Í því starfi felst m.a. að fjalla um markmið ESB í framtíðinni, stöðu ESB í alþjóðasamfélaginu, hvernig auka megi lýðræðislegt lögmæti ESB, stjórnun ESB í framtíðinni, verkaskiptingu á milli stofnana ESB og loks hvernig auka megi tengsl ESB og almennra borgara. Ögmundur Jónasson spurði hvernig Kirkhope sæi fyrir sér valdahlutföll mismunandi stofnana innan ESB í framtíðinni. Í því samhengi sagðist Ögmundur telja afar mikilvægt að lýðræðisöfl innan ESB væru styrkt og hlutur þjóðþinga aukinn. Ef velja þyrfti á milli aukinna áhrifa lýðræðislega kjörinna fulltrúa annars vegar og sjálfskipaðra valdhafa hins vegar hlyti að liggja í augum uppi hvora leiðina ætti að fara. Hlutur Evrópuþingsins hlyti því að eiga að styrkjast á kostnað framkvæmdastjórnar ESB. Ögmundur sagði að einungis með því að styrkja hið lýðræðislega vald væri hægt að virkja almenning og ungt fólk í Evrópu til meiri afskipta og áhuga á mikilvægum málum. Lýðræðishalli innan ESB væri því alvarlegt vandamál. Vilhjálmur Egilsson spurði í framhaldinu hvaða gildi möguleg stjórnarskrá ESB hefði í samanburði við ríkjandi sáttmála ESB. Kirkhope áleit ólíklegt að tillaga um stjórnarskrá ESB yrði lögð fram, fremur yrði um sameiginlega yfirlýsingu frá stjórnarskrárþinginu að ræða. Enn fremur lagði Kirkhope áherslu á að stjórnarskrárþinginu fylgdi nýtt og gott vinnulag. Mun breiðari hópur stofnana, þjóðþinga og frjálsra félagasamtaka kæmi að vinnu þingsins en venja væri til þegar unnið er að gerð hefðbundinna sáttmála ESB. Þetta væri mikilvægt lýðræðislegt skref í vinnuferlinu.
    Niels Junker Jacobsen, frá sendinefnd Danmerkur við ESB, greindi frá formennskuáætlun Dana í ESB á síðari árshelmingi 2002. Auk þess að ljúka samningum um stækkun sambandsins væru helstu áherslumál m.a. þróun hinnar norðlægu víddar og undirbúningur ESB fyrir næstu samningahrinu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Össur Skarphéðinsson spurði af hverju uppfærsla EES-samningsins væri ekki á meðal forgangsmála Dana. Össur spurði jafnframt út í niðurgreiðslur ríkisins í umsóknarlöndunum og endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar. Össur hvatti til gagngerra breytinga í sjávarútvegsstefnu ESB og sagði slíkt mundu gera Íslendingum mun auðveldara fyrir að ákveða að sækja um aðild að sambandinu. Hann innti eftir svörum varðandi áherslur Dana í þessum efnum. Jacobsen sagði erfitt að ræða uppfærslu eða endurskoðun EES-samningsins án þess að formlegt erindi þess efnis hefði borist frá EFTA-löndunum. Þangað til mundi ESB ekki hreyfa við málinu. Hann sagði auk þess ljóst að nokkur áherslumunur væri í málinu á milli EFTA-landanna sem gerði aðilum erfiðara fyrir með að ákvarða hvers konar endurskoðun ætti að eiga sér stað. Jacobsen sagði Dani leggja ríka áherslu á endurmat á sjávarútvegsstefnu ESB og gagngerra breytinga væri að vænta í þeim málaflokki. Þorgerður K. Gunnarsdóttir vakti athygli á viðsjárverðu ástandi í Mið-Austurlöndum og spurði hvernig Danir sæju fyrir sér að leiða utanríkisstefnu ESB í þeim málum. Hún spurði hvernig ESB hygðist taka á margþættum vandamálum nýrra aðildarríkja, svo sem mannréttindabrotum, mansali, kynlífsþrælkun o.fl.. Jacobsen sagði þetta afar mikilvæg mál og mikil vinna færi nú fram í þessum málaflokkum innan ESB til að reyna að bæta ástandið.

29. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES og 18. fundur þingmannanefndar EES í Reykjavík dagana 26.–27. maí 2002.
    Á fundi þingmannanefndar EES snerust helstu umræður um mögulega uppfærslu og endurskoðun EES-samningsins, sem og tolladeilu Bandaríkjanna og ESB um stálútflutning. Að venju voru lagðar fyrir fundinn tvær skýrslur og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra. Annars vegar var tekin til umfjöllunar ársskýrsla um framkvæmd EES-samningsins á árinu 2001, en framsögumenn hennar voru Össur Skarphéðinsson og Markus Ferber. Hins vegar var rætt um skýrslu Marjo Matikainen-Kallström og Vidar Björnstad um frjálsræði og einkavæðingu á orkumarkaði EES-svæðisins. Þá var enn fremur rætt um vinnuskýrslur EFTA um afleiðingar Myntbandalags Evrópu fyrir EFTA/EES-ríkin annars vegar og ríkisstyrki á Evrópska efnahagssvæðinu hins vegar.
    Í upphafi lýsti Eduardo Garrigues, fulltrúi formanns ráðherranefndarinnar, almennri ánægju með samstarf ESB og EFTA/EES-ríkjanna á grundvelli EES-samningsins. Percy Westerlund tók í sama streng og sagði árangurinn af EES-samstarfinu góðan þótt óþarfa tafir væru á stundum á innleiðingu gerða og samhæfingu tilskipana. Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra benti á að samkvæmt nýjasta frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA væru ásakanir um tafir á innleiðingu gerða ekki á rökum reistar. Noregur, Ísland og Liechtenstein hefðu bætt frammistöðu sína til muna og væru nú í efstu sætum EES-landa hvað varðaði upptöku gerða. Gunnar Snorri gerði einnig deilurnar um tolla á stáli að umræðuefni og sagði ESB sniðganga EES-samninginn með því að setja tolla á innflutning stáls frá EFTA/EES- ríkjunum. Slíkt brot á samningnum gæfi hættulegt fordæmi. Þá vék Gunnar Snorri að tæknilegri uppfærslu EES-samningsins og sagði takmarkaðan áhuga ESB á málinu gera EFTA/EES-ríkjunum erfitt fyrir.
    Í almennum umræðum benti Morten Höglund á að tafir á uppfærslu EES gætu skapað ýmis vandamál fyrir EFTA/EES-ríkin. Hann tók undir þá skoðun Gunnars Snorra að ESB hefði komið fram við EFTA/EES-ríkin á ólögmætan hátt í stáldeilunni, farið væri með EFTA/EES-ríkin sem hver önnur þriðju ríki en ekki fullgilda aðila að innri markaðnum og slíkt væri ólíðandi. Percy Westerlund svaraði því til að menn yrðu að gera skýran greinarmun á tæknilegri uppfærslu á EES-samningnum og frekari útvíkkun og endurskoðun samningsins þar sem hið síðarnefnda krefðist mun meiri vinnu og lengri tíma. Hann sagði framkvæmdastjórnina telja EES-samstarfið farsælt og að hugað yrði að uppfærslunni þegar samningaviðræðum um stækkun ESB væri lokið og staðfestingarferlið væri hafið. Gunnar Snorri Gunnarsson vék aftur að stálmálinu og sagði að túlkun framkvæmdastjórnar ESB á 19 gr. GATT-samningsins um tolla væri ekki í samræmi við túlkun EFTA-ríkjanna og að samanburðurinn við aðildarumsóknarríkin væri efnislega rangur þar eð þau væru ekki hluti af EES-samningnum. Össur Skarphéðinsson vék að því hvenær unnt væri að huga að uppfærslu og endurskoðun EES-samningsins og sagðist vera ósáttur við þær upplýsingar sem þingmönnum væri látnar í té í þessu sambandi. Grunnspurningin væri hvenær menn væru reiðubúnir til að setjast að samningaborðinu og slíkt þyrfti að gerast sem fyrst. Diana Wallis tók undir orð Össurar og sagði nóg svigrúm innan ESB til að sinna uppfærslu EES-samningsins en áhugi á slíku þyrfti augljóslega að vera fyrir hendi. Vilhjálmur Egilsson lagði í máli sínu áherslu á að umræður um uppfærslu EES-samningsins yrðu að taka mið af grunnforsendum hans og markmiðum. EFTA/EES-ríkin yrðu að gera sér grein fyrir því að ef ESB sæi sér engan hag í að uppfæra EES-samninginn væri slíkt borin von. Einungis áhugi og hagur beggja aðila gæti tryggt áframhaldandi virkni og styrk samningsins. Hann sagðist auk þess telja að þeir tollar sem ESB hefði lagt á stál innan EFTA/EES-svæðisins væri alvarlegasta aðför að EES-samningnum til þessa.
    Í kynningu sinni á greinargerð um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins sagðist Össur Skarphéðinsson telja EES-samninginn verða æ veikburðari. Össur sagði að í ljósi hinna gríðarlegu breytinga sem átt hefðu sér stað á þeim tíu árum frá því að samningurinn var undirritaður væru sumar forsendur hans einfaldlega brostnar. EES-samningurinn hefði í upphafi átt að tryggja jafnræði á milli samningsaðilanna og það hefði verið grundvallarforsenda hans af hálfu EFTA-ríkjanna að þau hefðu aðkomu að ákvarðanaferlinu innan ESB. Raunin væri hins vegar sú að EFTA-ríkin þyrftu oft að horfa upp á ákvarðanir sem hefðu gífurleg áhrif á daglegt líf sinna eigin þegna. Þar eð EES-samningurinn endurspeglaði ekki þær margþættu breytingar sem átt hefðu sér stað með Maastricht- og Amsterdam-sáttmálunum væri alvarlegur lýðræðishalli nokkuð sem EFTA/EES-ríkin yrðu að lifa við. Hann benti einnig á að upp á síðkastið hefði ESB dregið úrskurði ESA í vafa og græfi þar með undan tveggja stoða kerfi EES. Hann hvatti til þess að EFTA/EES-ríkin neyttu allra leiða til að komast betur að ákvarðanaferli innan ESB og tækju virkari þátt í starfinu öllu. Ef slíkt væri ekki hægt takmarkaði það ekki einungis lýðræðislegan hlut EFTA/EES-ríkjanna heldur gæti það hugsanlega haft í för með sér alvarlegar fjárhagslegar afleiðingar, t.d. fyrir sveitarfélög. Því næst var skýrsla um frjálsræði og einkavæðingu á orkumarkaði EES-svæðisins tekin til umfjöllunar. Ögmundur Jónasson taldi Evrópuríki vera á hættulegri braut með svo róttækum breytingum til einkavæðingar, lagalegrar einsleitni og aukinnar miðstýringar á orkumörkuðum. Hann sagði skiptar skoðanir vera um þessi mál á Íslandi og margir mundu vilja sjá undanþágu frá þessum nýju reglum, enda gætu þau komið harkalega niður á neytendum. Ögmundur sagði það auk þess skjóta skökku við að með þessum nýju áformum á orkumarkaði gengi Evrópa jafnvel enn lengra í einkavæðingu og miðstýringu en Bandaríkin því að þar gætu einstök ríki a.m.k. eitthvað haft um eigin lög og reglugerðir í þessum málum að segja. Ögmundur gerði auk þess GATS-samninga um markaðsvæðingu þjónustustarfsemi að umtalsefni. Hann sagði það forkastanlegt hversu ólýðræðisleg vinnubrögð einkenndu bæði Alþjóðaviðskiptastofnunina og framkvæmdastjórn ESB. Stofnanirnar ynnu meira og minna fyrir luktum dyrum og sendu út álit og ákvarðanir án þess að nokkurt þjóðþing eða önnur lýðræðisleg öfl kæmu þar að. Hann beindi þeirri spurningu til Evrópusambandsins hvort þeim þætti þetta samræmast lýðræðislegum vinnubrögðum. Fátt varð um svör á meðal fundarmanna við þessari fyrirspurn.

37. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, 2. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðgjafarnefnd EFTA, 26. fundur þingmannanefndar EFTA og 66./34. fundur þingmannanefndar EFTA, á Egilsstöðum, dagana 26.–27. júní 2002.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA og ráðgjafarnefndar var mikið rætt um nýtilkomna tolla á innflutning stáls til ESB-ríkja, en EFTA/EES-ríkin eru ekki undanskilin þessum aðgerðum af hálfu ESB þrátt fyrir að vera fullgildir meðlimir innri markaðarins. Vilhjálmur Egilsson sagði að með þessu væri ESB að vega alvarlegar að EES-samningnum en áður hefði sést. Hann minnti á að gildi EES-samningsins væri undir því komið að báðir aðilar legðu sitt af mörkum til að halda leikreglur hans í heiðri. Vilhjálmur hvatti til þess að menn legðu áherslu á þetta mál bæði á fundum með EFTA-ráðherrum og fulltrúum ESB. Formaður ráðgjafarnefndarinnar, Pierre Weiss, tók í sama streng og Vilhjálmur og sagði stáliðnaðarmálið sýna hversu veikur EES-samningurinn væri í raun orðinn. Það væri óviðunandi að ESB bæri fyrir sig reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) til að geta klekkt á EFTA/EES-ríkjunum og sagði slíkt draga úr trú viðskiptaaðila á gildi samningsins. Hann minnti um leið á að eftir því sem samningaviðræður við væntanleg ný aðildarríki ESB drægjust því minni tíma og áhuga hefði ESB á EFTA. Um leið og nýju ríkin fengju aðild minnkaði takmarkaður áhugi ESB á EFTA enn. Veikleikar EES-samningsins væru því viðvarandi og vart hægt að búast við því að ástandið mundi batna í nánustu framtíð.
    Katarina Sætersdal hélt erindi um Lissabon-ferlið og hvatti til meiri þátttöku EFTA-ríkjanna og aukinnar pólitískrar umræðu. Hún sagði það varasamt ef EFTA-ríkin drægjust aftur úr á þessu sviði og leggja þyrfti fram yfirgripsmikla áætlun í efnahags- og viðskiptamálum í samræmi við Lissabon-ferlið. Vilhjálmur Egilsson benti á að þetta væri mál sem þingmannanefndin hefði oft rætt og brýnt væri að EFTA/EES-ríkin tækju sjálf frumkvæði að því að innleiða Lissabon-ferlið. EFTA-ríkin gætu auðveldlega komið í veg fyrir að þeim væri ýtt til hliðar í þessu máli og að þau þyrftu ekki á ESB að halda til að innleiða helstu þætti Lissabon-ferlisins. Til þess að svo mætti verða þyrftu EFTA-ríkin hins vegar að taka á sig auknar skuldbindingar og sýna málinu meiri skilning. Össur Skarphéðinsson benti á að með stækkun Evrópusambandsins minnkaði sú tilhneiging að gera ESB að pólitísku sambandsríki og sú þróun gæti á ýmsan veg verið góð fyrir EFTA-ríkin. Slíkt bæri þeim að færa sér í nyt.
Fundur þingmannanefndar með ráðherrum snerist í meginatriðum um hugsanlega uppfærslu á EES-samningnum, viðbrögð EFTA við stáliðnaðarmálinu og áhrif stækkunar ESB á fríverslun með fisk. Formaður þingmannanefndarinnar, Morten Höglund, lofaði frammistöðu EFTA-ríkjanna hvað varðaði innleiðingu ESB-gerða og sagði þróunina góða. Hann minnti um leið á að þingmannanefndin hefði fyrir nokkrum vikum skorað á EFTA-ríkin að leggja fram tillögur og óskir um uppfærslu samningsins og innti eftir þróun málsins hjá ráðherrum. Hann hvatti ráðherra enn fremur til að bregðast hart við framkomu ESB í stálmálinu og sagði brýnt að gera það að alvarlegu pólitísku máli. Halldór Ásgrímsson, formaður ráðherraráðs EFTA, sagði að EFTA-ríkin hefðu við fjölmörg tækifæri rætt um hugsanlega uppfærslu EES-samningsins. ESB hefði hins vegar ítrekað gefið til kynna að það væri enginn áhugi á að ræða slíkt fyrr en stækkun sambandsins væri um garð gengin. Hann sagði því ljóst að EFTA-ríkin gætu ekki veitt þessu máli frekara brautargengi að svo stöddu. Ráðherra sagði um leið að stækkunarferlið ætti í raun ekki að hafa í för með sér nein sérstök vandamál fyrir EFTA-ríkin, nema hvað varðaði fríverslun með fisk. Þetta væri mikilvægt mál sem fengi forgang af hálfu EFTA. Að öðru leyti sagði hann að stækkunarferli ESB og EES-svæðisins ætti að ganga nokkuð snurðulaust og vera samhliða ferli. Össur Skarphéðinsson lýsti yfir vonbrigðum sínum með að EFTA/EES-ríkjunum hefði mistekist að standa saman að uppfærslu EES-samningsins. Hann sagði að þrátt fyrir að ESB hefði sýnt neikvæð viðbrögð hefði það verið skylda EFTA-ríkjanna að ná saman í þessu máli og leggja fram tillögur sínar til framkvæmdastjórnar ESB. Slíkt hefði ekki verið gert og nú væri tækifærið gengið mönnum úr greipum. Össur sagði þessar málalyktir sýna hversu mikið EFTA hefði veikst og að brýnt væri að ráðherrar svöruðu þeirri spurningu hvort EFTA ætti sér raunverulega framtíð. Hann kallaði jafnframt á kraftmeiri aðgerðir af hálfu EFTA til að tryggja áframhaldandi fríverslun með fisk við væntanleg aðildarríki ESB. Vilhjálmur Egilsson lýsti áhyggjum sínum varðandi stáliðnaðarmálið og sagði greinilegt að ESB liti ekki á EFTA/EES-ríkin sem fullgilda þátttakendur í innri markaðnum. Hann lagði áherslu á að veikleikar EES-samningsins yrðu grandskoðaðir og metnir svo að komast mætti hjá svipuðum árekstrum síðar. Hann benti og á að mjög líklega yrðu EFTA-ríkin beðin um að greiða áfram gjöld til þróunarsjóða ESB og án efa mundu þessi gjöld hækka talsvert. Hann knúði á um svör um hvað mundi gerast þegar slíkar kröfur kæmu fram af hálfu ESB og hvatti til að EFTA ræddi þessi mál ítarlega fyrir fram svo að viðbrögð yrðu skýr þegar að þessum tímapunkti kæmi.
    Að lokum var rætt um stöðu fríverslunarsamninga EFTA við þriðju ríki. Halldór Ásgrímsson kynnti stöðu mála og lýsti velgengni EFTA á þessu sviði. Hann sagði EFTA-ríkin í sumum tilfellum búa við betri kjör í fríverslunarsamningum sínum en ESB og fagnaði sérstaklega nýjum fríverslunarsamningi við Singapúr sem undirritaður var á ráðherrafundinum á Egilsstöðum. Þetta væri víðtækasti samningur EFTA til þessa og sá fyrsti á milli Evrópuríkja og ríkja í Austur-Asíu. Ráðherrann sagði að í nánustu framtíð mundu viðræður við Chile hafa forgang, sem og Túnis, Egyptaland og líklega Suður-Afríku. Vilhjálmur Egilsson vakti í þessu sambandi athygli á upprunareglum fríverslunarsamninga og sagði þær ekki tryggja frjálst vöruflæði í núverandi mynd. Hann sagði reglurnar í ýmsum tilfellum vera þannig að tollar væru eingöngu felldir niður ef vörur væru fluttar beint á milli aðila fríverslunarsamnings, en ef þriðja ríki kæmi að flutningi vörunnar væru tollar hins vegar lagðir á hana. Þetta kæmi illa niður á öllum viðskiptaaðilum, og þá sérstaklega fátækari þróunarríkjum. Össur Skarphéðinsson innti í framhaldinu eftir svörum varðandi fríverslunarsamning við Kanada, en stefnt hafði verið að því að undirrita slíkan samning fyrir nokkru. Halldór Ásgrímsson sagðist telja spurningar varðandi upprunareglur af fremur tæknilegum toga en málið yrði kannski tekið upp aftur á næsta sameiginlega fundi. Hann sagði jafnframt að óljóst væri enn um fríverslunarsamning við Kanada, Kanadamenn hefðu á sínum tíma orðið fyrri til að óska eftir fríverslunarviðræðum við EFTA en málið væri enn í vinnslu og óljóst um niðurstöðu sem stendur.

38. fundur framkvæmdastjórnar EFTA og 67./35. fundur þingmannanefndar EFTA í Brussel, 15.–16. október 2002.
    Líkt og venja er á haustfundi þingmannanefndar EFTA héldu sérfræðingar EFTA-skrifstofunnar í Brussel erindi um ýmis mál er varða EES.
    Per Mannes lagði í inngangserindi sínu áherslu á áhrif stækkunar ESB á samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins. EFTA-ríkin mundu enn sem fyrr vera næststærsti viðskiptaaðili ESB og sem slík viðhalda áhrifum sínum. Hins vegar væri ljóst að af hálfu ráðherraráðsins kæmu stórauknar kröfur um fjárframlög EFTA-ríkjanna í tengslum við stækkun ESB. Mannes taldi mikilvægt að vekja athygli ráðherraráðsins á bótum fyrir skertan markaðsaðgang með fiskafurðir og rýmri heimildum til innflutnings unninna landbúnaðarvara. Þá vék Mannes að Lissabon-áætluninni sem hann sagði vera beintengda innri markaðnum og þar af leiðandi Evrópska efnahagssvæðinu. Mannes taldi mikilvægt að EFTA-ríkin legðu sig fram við að fylgja áætluninni eftir og þótti miður að svo virtist sem skortur væri á viðeigandi stofnanaskipulagi innan EFTA-ríkjanna til jafns við það sem væri hjá ESB-ríkjunum. Þegar fram í sækti gæti þetta haft alvarlegar afleiðingar fyrir EFTA/EES-ríkin. Össur Skarphéðinsson spurði hvort undirbúningurinn fyrir aðild nýrra ríkja að ESB gæfi færi á tæknilegri endurskoðun EES-samningsins. Þá spurði hann hvort EFTA/EES-ríkin hefðu sameiginleg stefnumið og hvort þau hygðust fara fram á bætur frá ESB fyrir minna markaðsaðgengi fyrir fiskafurðir eftir stækkun ESB. Mannes sagði að engar tilraunir til róttækrar endurskoðunar eða aðlögunar á EES-samningnum með hliðsjón af Maastricht- og Amsterdam-sáttmálunum mundi fara fram. Einungis yrði um að ræða minni háttar tæknilega aðlögun samningstextanna til samræmis við nýju aðildarríkin.
    Þá hélt Þórunn Hafstein erindi um þróun fjármálaþjónustu innan EES. Hún greindi frá helstu þáttum nýrrar fjármálaáætlunar (FSAP), nýrra Evrópustofnana og sjöttu rammaáætlunar um rannsóknar- og þróunarstarf. Hún sagði vonir standa til að FSAP yki til muna samkeppni í álfunni. Þá vakti Þórunn athygli á endurskoðaðri tilskipun ESB um peningaþvætti og sagði ESB þrýsta mjög á EFTA/EES-ríkin að taka tilskipunina til greina. Ögmundur Jónasson innti Þórunni nánar eftir því hvers konar þrýstingi ESB beitti í þessu máli og nákvæmlega hvað fælist í þessari nýju tilskipun. Þórunn svaraði því til að skilgreina þyrfti betur hvað fælist í peningaþvætti en að tilskipunin gæfi lögreglu og yfirvöldum meira svigrúm til aðgerða og aukinn aðgang að upplýsingum. Sonja Hurlimann sagði fundarmönnum frá þróun tilskipana á sviði fjarskiptamála og auknu frjálsræði í þeim efnum sem koma ættu til framkvæmda í júlí árið 2003. Ögmundur Jónasson sagði mikilvægt að standa vörð um hag almennings í þessum málum og að reynslan sýndi að aukin einkavæðing hefði oftar en ekki í för með sér mun verri þjónustu fyrir landsmenn. Það væri því mikilvægt að verja rétt þjóðríkja til að ákvarða þjónustustig við landsmenn. Þá kynnti Katrín Sverrisdóttir fundarmönnum nýja tilskipun um rétt ESB-borgara til breytinga á búsetu innan aðildarríkjanna og taldi að tilskipunin yki mjög möguleika fólks í þessum efnum.
    Geir Bekkevold hélt því næst erindi um stöðu mála í vöruviðskiptadeild. Í umræðum sem á eftir fylgdu benti Össur Skarphéðinsson á nokkur óafgreidd mál hvað varðaði bókun 9 í tengslum við fisk og aðrar sjávarafurðir og spurðist fyrir um hvort vöruviðskiptadeild hefði tekið til umfjöllunar nýjustu hugmyndir um breytta sjávarútvegsstefnu ESB. Að lokum hélt Jenny Hansen erindi um markmið og verkefni Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) sem komið hefur verið á fót sem sjálfstæðri stofnun utan valdsviðs ráðherraráðsins. Hún sagði meginmarkmið stofnunarinnar vera að efla heilbrigðisöryggi neytenda og EFTA/EES-ríkin hygðust taka virkan þátt í störfum hennar og eiga sæti í vísindaráðum og nefndum henni tengdri.

30. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES og 19. fundur þingmannanefndar EES, í Brussel, dagana 25.–26. nóvember 2002 og fundur með Evrópunefnd gríska þingsins, 27. nóvember í Aþenu.
    Fundinn ávörpuðu Kjartan Jóhannsson sendiherra, forseti hinnar sameiginlegu EES-nefndar og fulltrúi formanns ráðherraráðs EES, Sten Lilholt sendiherra, fulltrúi formanns ESB í ráðherraráði EES, Percy Westerlund, fulltrúi ESB í hinni sameiginlegu EES-nefnd, og Einar Bull, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Stækkunaráform ESB og áhrif þeirra á EES voru fyrirferðarmesta umræðuefnið á fundinum. Kjartan lagði áherslu á að stækkun ESB og EES yrði að fara saman. Hann sagði að koma þyrfti í veg fyrir að stækkun leiddi til nýrra viðskiptahindrana og vísaði þar til fríverslunar með fisk. Kjartan sagði núverandi samning um fjárframlög EFTA/EES-ríkja til fátækra svæða ESB renna út í lok 2003. Engin lagaleg skylda hvíldi á EFTA/EES-ríkjum til að halda greiðslum áfram, en þau væru hugsanlega reiðubúin til umræðu um málið á sanngjörnum nótum. Fulltrúar ESB lögðu áherslu á að fríverslun með fisk væri ekki hluti af EES-samningnum. Þeir sögðu að slíkt yrði að afgreiða á grundvelli bókunar 9 við EES-samninginn og heimila yrði fjárfestingar í sjávarútvegi EFTA/EES- ríkjanna ef hreyfa ætti við þessum málum. Þeir töldu að samkvæmt reglum WTO væri ESB ekki skylt að bæta EFTA/EES-ríkjum þann markaðsmissi sem hlytist af stækkun ESB. Varðandi fjárframlög til að minnka efnahagslegan og félagslegan mun milli aðildarríkja vildi Westerlund orða það þannig að EFTA/EES-ríkjum væri boðið að „bæta“ framlög sín. Efnahagsleg og félagsleg samþætting væri hluti af innri markaðnum og þar sem EFTA/ EES-ríkin væru fullir þátttakendir í innri markaðnum ættu þau að taka óskoraðan þátt í fjármögnun þessa kerfis. Össur Skarphéðinsson taldi nálgun ESB að stækkun EES með ólíkindum og ekki greiða fyrir farsælli lausn málsins. Alltaf hefði legið ljóst fyrir að Ísland gæti ekki samþykkt erlendar fjárfestingar í höfuðatvinnuvegi landsins. Fríverslunarsamningar EFTA við umsóknarríkin væru í gildi og næðu til fríverslunar með fisk. Ekki væri nema eðlilegt að taka tillit til núverandi aðstæðna, það væri mikil afturför ef stækkun ESB leiddi til nýrra viðskiptahindrana. Þá reyndi ESB að nýta sér stækkunina til að fá tuttugu til þrjátíu sinnum hærra fjárframlag frá EFTA/EES-ríkjum. Þessi ríki greiddu nú þegar umtalsverðar fjárhæðir til ESB, beint og óbeint, en nú ætti að þvinga þau til að greiða meira en ESB-ríkin greiða sjálf. EFTA/EES-ríkin væru jafnvel krafin greiðslna í uppbyggingarsjóði ESB, sem hefðu ekkert með EES að gera. Össur sagði þetta ósvífni og að tal um að „bjóða“ EFTA/ EES-ríkjum að „bæta“ framlög sín væri móðgandi. Per Mannes, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, benti á að samkvæmt útreikningum EFTA væru EFTA/EES-ríkin þá að greiða þrisvar sinnum hærra framlag í sjóði sambandsins en ESB-ríkin sjálf. Westerlund ítrekaði að sjávarafurðir væru utan EES-samningsins að beiðni EFTA/EES-ríkjanna og ef ræða ætti fríverslun með fisk í tengslum við stækkun EES yrði jafnframt að ræða samsvarandi heimild til fjárfestinga í sjávarútvegi. Hann taldi EFTA/EES-ríkin vera í forréttindastöðu hvað varðar greiðslur til að minnka efnahagslegan og félagslegan mun í Evrópu og sagði augljóst samband á milli innri markaðarins og félagslegrar samþættingar. Nákvæmlega hvernig greiðslurnar yrðu inntar af hendi og hve háar þær yrðu væri samningsatriði.
    Tvær skýrslur voru teknar til umfjöllunar og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra. Í fyrsta lagi var tekin til umræðu skýrsla um fjármálaþjónustu þar sem meðal annars er fjallað um aðgerðaáætlun ESB á sviði fjármálaþjónustu og farið yfir stöðu EFTA/EES-ríkja á sviði lagasetningar í þessum málaflokki. Í ályktun um málið sem samþykkt var samhljóða er m.a. lögð áhersla á mikilvægi aðgerðaáætlunarinnar fyrir samþættingu evrópska fjármálamarkaðarins og hvatt til þess að lausn verði fundin á innleiðingu lagasetningar ESB um peningaþvætti í EES-samninginn.
    Í öðru lagi var tekin fyrir skýrsla um mótun ákvarðana innan EES. Fjallað var um þau vandkvæði sem EFTA/EES-ríkin standa frammi fyrir á þessu sviði og hvernig megi auka áhrif ríkjanna. Ályktun var samþykkt samhljóða, en í henni eru EFTA/EES-ríkin m.a. hvött til að tryggja þátttöku í nefndastarfi ESB, góða þjálfun þeirra fulltrúa sem sitja í nefndum og betri samhæfingu á sjónarmiðum innan ráðuneyta og á milli þeirra.
    Að lokum voru kynntar tvær vinnuskýrslur sem höfðu verið unnar á vegum nefndarinnar. Annars vegar var um að ræða skýrslu um þróunarsjóð EFTA/EES- ríkjanna sem formaður norsku sendinefndarinnar hafði unnið og var kynnt sem innlegg í umræðuna um framtíðargreiðslur til ESB. Hins vegar var tekin til umfjöllunar skýrsla um framtíð Evrópu sem varaformaður sendinefndar Evrópuþingsins hafði skrifað. Ákveðið var í framhaldi af umræðunum að undirbúa fyrir næsta fund þingmannanefndar EES skýrslur um framtíð Evrópu og áhrif á EES, stækkun EES og ársskýrslu sameiginlegu EES-nefndarinnar. Jafnframt var ákveðið að skrifa vinnuskýrslu um Lissabon-áætlunina.
    Grikkland tekur um áramót við forustu í ESB til sex mánaða og því fór Íslandsdeildin til fundar við Evrópunefnd gríska þingsins sem tók vel á móti íslenskum kollegum sínum. Kristinn H. Gunnarsson fór í upphafi fundar yfir þau málefni sem Íslandsdeildin hafði hug á að ræða, sérstaklega stækkun EES, og í því sambandi stöðu fríverslunarsamninga EFTA/ EES-ríkja gagnvart umsóknarríkjunum og fjárframlög EFTA/EES-ríkja. Össur Skarphéðinsson útskýrði nánar sín sjónarmið í þessum málum og spurði jafnframt um væntanlegar áherslur í formennskutíð Grikkja. Grísku þingmennirnir voru nokkuð kunnugir EES-samningnum og höfðu augljóslega kynnt sér málin fyrir fundinn. Málefni Kýpur voru auk þess ofarlega á baugi. Nefndarmenn lögðu áherslu á að lausn þeirra mála væri forsenda fyrir stækkun ESB. Einn þingmaður jafnaðarmanna hvatti Íslendinga til að ganga í ESB, en þingmaður úr röðum kommúnista taldi ásælni ESB í íslenskan sjávarútveg dæmi um það hvernig valdaöflin í Evrópu reyndu að komast yfir öll verðmæti aðildarríkjanna til að auka eigin völd. Fulltrúi hægri manna tók fram að hans flokkur væri sammála jafnaðarmönnum í málefnum ESB og að 90% kjósenda í síðustu þingkosningum í Grikklandi hefðu kosið flokka sem væru hlynntir ESB-aðild. Össur Skarphéðinsson sagði Íslendinga vissulega vel setta fjárhagslega og að þeir væru til viðræðna um sanngjarnar greiðslur til að minnka efnahagslegan og félagslegan mun innan Evrópu. Hann bað um aðstoð grískra kollega sinna til að berjast gegn kröfu ESB um fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi. Ögmundur Jónasson greindi nánar frá stöðu Evrópumála á Íslandi og sagði meiri hluta íslensks almennings ekki vera fylgjandi inngöngu í ESB. Hvar sem menn stæðu í flokki væru hins vegar allir sammála um að ekki væri hægt að leyfa erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi. Kristinn H. Gunnarsson minnti á að Ísland hefði lotið erlendum konungum í nær 700 ár. Íslendingar hefðu verið mjög fátækir framan af, en hefðu náð að rífa sig upp á síðustu 50 árum og því væri sterk tenging á milli hagsældar og sjálfstæðis í hugum landsmanna. Vrettos sagði Grikki meðvitaða um nauðsyn þess að stækka EES um leið og ESB og að málið yrði skoðað. Þingmenn hefðu fengið upplýsingar frá utanríkisráðuneytinu um þau vandamál sem þyrfti að leysa, þ.e. varðandi fiskveiðar og fjármögnun stækkunar. Hann sagðist sannfærður um að gríska utanríkisráðuneytið mundi sýna vilja í verki til að fá viðunandi niðurstöðu í málinu. Hlutverk gríska þingsins væri einungis ráðgefandi, en mikilvægt væri að þingin héldu sambandi og skiptust á upplýsingum á meðan málið væri í vinnslu. Kristinn tók undir orð formanns Evrópunefndarinnar og lýsti ánægju sinni með hversu vel upplýstir grískir kollegar væru um þessi mál.

40. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, 68./36. fundur þingmannanefndar EFTA og 27. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherrum í Interlaken 12. desember 2002.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var farið yfir fjárhagsáætlun ESA og fyrirhugaða fjárveitingu. Einar Bull, forseti ESA, kynnti fjárhagsáætlun stofnunarinnar og Kjartan Jóhannsson kynnti sjónarmið EFTA-ríkjanna og fyrirhugaðar fjárveitingar. Að loknum umræðum samþykkti framkvæmdastjórn þingmannanefndar ályktun um málið sem send var til ESA-nefndarinnar.
    Þingmannanefnd EFTA fékk á fundi sínum yfirlit yfir reynslu Sviss af tvíhliða samningum sínum við ESB. Þá komu Pétur Thorsteinsson, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, og Jon Vea, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í Noregi, á fundinn til að ræða við þingmenn um möguleika EFTA-ríkjanna á frekari þróun viðskiptasambands við Rússland og hugsanlegan fríverslunarsamning.
    Tvö meginmálefni voru til umfjöllunar á fundi þingmannanefndar EFTA með ráðherraráðinu. Fyrst var rætt um samskipti við þriðju ríki. Vonast er til að fríverslunarsamningum við Chile ljúki á fyrri helmingi ársins 2003 og jafnframt að hægt verði að koma viðræðum við Kanada aftur í gang á árinu. Vilhjálmur Egilsson ræddi um upprunareglur og nauðsyn þess að rýmka þær til að auka gildi fríverslunarsamninga. Össur Skarphéðinsson lýsti ánægju sinni með starf EFTA hvað varðaði fríverslunarsamninga og lagði að ráðherrunum að skoða möguleikana á samningi við Rússland. Þá gerði hann samninga við Kanada að umtalsefni. Hann velti upp þeirri spurningu hvort ekki mætti sleppa því að nefna skipasmíðar þar eð þær væru eina málið sem kæmi í veg fyrir að hægt væri að ljúka fríverslunarsamningi. Norski ráðherrann Ansgar Gabrielsen svaraði því til að EFTA-ríkin yrðu að standa saman þegar svo mikilvægir hagsmunir eins ríkis væru í húfi og því væri ekki til að tala um að taka skipasmíðar út úr samningnum. Þegar stækkun ESB og EES var tekin til umræðu fór Gunnar Snorri Gunnarsson ráðuneytisstjóri yfir síðustu atburði, en hann sat fundinn í fjarveru utanríkisráðherra. Hann sagði kröfur um tuttugu- til þrjátíuföldun fjárframlags EFTA-ríkjanna algjörlega óviðunandi. Þá væri mjög sanngjarnri beiðni EFTA/EES- ríkjanna um að tekið yrði tillit til fríverslunarsamninga þeirra við umsóknarríkin svarað með óaðgengilegri kröfu um erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi. Hann sagði mjög erfiðar samningaviðræður fram undan en taldi þó að hægt yrði að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Beita yrði öllum ráðum til að hafa áhrif á aðildarríki ESB, sem sum hver skildu sjónarmið EFTA. Ef ekki tækist að ljúka samningum í tæka tíð skapaðist mikið lagalegt óvissuástand sem ekki stæðist til lengri tíma. Össur Skarphéðinsson rifjaði þá upp orð Gabrielsens um að EFTA-ríkin ættu að standa saman eins og fjölskylda þegar mikilvægir hagsmunir eins aðildarríkis væru í húfi og taldi að um mikilvæga pólitíska yfirlýsingu væri að ræða. Hann sagði EFTA-ríkin skorta sameiginlega stefnu gagnvart ESB í stækkunarmálinu og sá skortur hefði nýst ESB til að veikja EFTA og EES. Kröfur ESB væru óaðgengilegar, en þó mun óaðgengilegri fyrir Ísland en Noreg. Lítið færi fyrir fjölskylduhug norsku ríkisstjórnarinnar og samheldni með Íslandi í þessu máli, en fjölmiðlar í Noregi hefðu t.d. upplýst að Norðmenn væru tilbúnir að auka greiðslur sínar til muna.

VI.    Helstu verkefni þingmannanefndar EFTA á árinu 2003.
    Þingmannanefndin mun fylgjast vel með áframhaldandi þróun ESB, sérstaklega stækkunarferlinu, þróun EES-samningsins og samningaviðræðum við ESB. Nefndin mun einnig fylgjast grannt með framkvæmd Lissabon-áætlunar ESB og aðgerðum EFTA/EES-ríkjanna til að tengjast henni. Þá mun nefndin einnig knýja á um að EES-samningurinn verði sem best kynntur fyrir fulltrúum hinna nýju aðildarríkja ESB.

Alþingi, 24. febr. 2003.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form.


Kristinn H. Gunnarsson,


varaform.


Össur Skarphéðinsson.



Gunnar Birgisson.


Ögmundur Jónasson.