Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 415. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1054  —  415. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 6/2002, um tóbaksvarnir.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sólveigu Guðmundsdóttur og Guðrúnu W. Jensdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og Ásgeir Johansen frá Rolf Johansen & Company ehf. Málið var sent til umsagnar og bárust svör frá Krabbameinsfélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, tóbaksvarnanefnd, Krabbameinsfélagi Reykjavíkur, landlæknisembættinu, Rolf Johansen & Company ehf. og Landssamtökum hjartasjúklinga.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tóbaksvarnir til samræmis við reglur tilskipunar 2001/37/EB um framleiðslu, kynningu og sölu tóbaksvarnings. Meðal nýmæla í frumvarpinu er að merkja skuli hvern sígarettupakka með upplýsingum um hve mikinn kolsýring hver sígaretta gefur frá sér til viðbótar við slíkar upplýsingar um tjöru og nikótín. Einnig er lagt til að bannað verði að merkja tóbak þannig að gefið sé til kynna að það sé hættuminna en annað tóbak. Þá eru lagðar ýmsar skyldur á tóbaksframleiðendur og tóbaksinnflytjendur, t.d. að leggja fram sýnishorn af vörunni ef leitað er eftir því, veita heilbrigðisyfirvöldum upplýsingar um efnainnihald tóbaks, gera ákveðnar rannsóknir ef krafa er gerð um það og standa straum af kostnaði við slíka upplýsingagjöf og rannsóknir á því.
    Við umfjöllun málsins voru lögð fram drög að reglugerð um viðvörunarmerkingar á tóbaki sem setja á með stoð í lögunum í samræmi við þær reglur sem koma fram í áðurnefndri tilskipun.
    Að mati nefndarinnar er sjálfsagt að skaðsemi reykinga sé komið skýrt á framfæri við neytendur tóbaks og er hún samþykk þeirri neytendavernd sem kemur fram í þeirri viðleitni. Minnir nefndin þó á að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins sé jafnan gætt á öllum sviðum, þar á meðal um þær skyldur sem lagðar eru á innflytjendur tóbaks í frumvarpinu. Nefndin leggur til að í stað þess að heilbrigðisyfirvöld geti krafist þess að framleiðendur eða innflytjendur tóbaks geri rannsóknir á vörunni verði yfirvöldum heimilað að láta þá gera prófanir. Að mati nefndarinnar er of íþyngjandi að leggja rannsóknarskyldu á þessa aðila. Nægilegt er að hægt sé að krefja þá um prófanir.
    Nefndin mælir með samþykkt frumvarpsins með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 3. gr. Í stað orðsins „rannsóknir“ í 2. efnismgr. a-liðar og í b-lið komi: prófanir.

    Einar Oddur Kristjánsson, Katrín Fjeldsted og Þuríður Backman voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 27. febr. 2003.



Jónína Bjartmarz,


form., frsm.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Ásta R. Jóhannesdóttir.



Ásta Möller.


Ólafur Örn Haraldsson.


Björgvin G. Sigurðsson.