Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 538. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1118  —  538. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Stefán Hreiðarsson frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins ásamt Þorgerði Benediktsdóttur og Þór G. Þórarinssyni frá félagsmálaráðuneytinu. Þá bárust nefndinni umsagnir frá umboðsmanni barna, stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa, Öryrkjabandalagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Tryggingastofnun ríkisins, Skólaskrifstofu Suðurlands, Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Þroskaþjálfafélagi Íslands, fræðslu- og menningarsviði Mosfellsbæjar, Félagi framkvæmdastjóra svæðisskrifstofu fatlaðra, Svæðisskrifstofu Reykjaness, Barnageðlæknafélagi Íslands, Félagi íslenskra barnalækna, Landspítala – háskólasjúkrahúsi og landlæknisembættinu.
    Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hóf starfsemi 1. janúar 1986 skv. 16. gr. laga um málefni fatlaðra, nr. 41/1983. Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérlög um Greiningar- og ráðgjafarstöðina. Markmið frumvarpsins er að tryggja að börn með alvarlegar þroskaraskanir sem geta leitt til fötlunar fái greiningu, ráðgjöf og önnur úrræði sem miða að því að draga úr afleiðingum röskunarinnar. Jafnframt er það markmið frumvarpsins að tryggja öflun, viðhald og miðlun fræðilegrar þekkingar á þessu sviði. Í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins kemur fram að stofnunin þjóni fyrst og fremst þeim sem eru á aldrinum 0–18 ára, sbr. 1. gr. þess. Þetta er staðfesting á núverandi starfsháttum og á þeirri hugmyndafræði að sérhæfing starfseminnar sé byggð á því að beita markvissri meðferð á þroskaárum einstaklingsins þegar mestar líkur eru á því að hægt sé að hafa áhrif á taugaþroska til að draga úr áhrifum röskunarinnar. Lögð er áhersla á skyldur stofnunarinnar til að sinna börnum sem búa við alvarleg frávik í þroska og færni, bæði þeim sem eru ótvírætt fötluð og þeim sem má með markvissri þjálfun og meðferð koma til sjálfstæðis á fullorðinsárum. Þá er lögð áhersla á nána samvinnu við aðra þá aðila sem annast þjónustu við börn með alvarlegar þroskaraskanir og reynt að tryggja að þjónusta við hvert barn sé sem mest í nánasta umhverfi þess.
    Starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar hefur þróast mikið og vaxið að umfangi frá því að starfssvið hennar var fyrst skilgreint í lögum um málefni fatlaðra árið 1983. Þá hefur alþjóðleg þekking á undanförnum árum sýnt fram á að með réttum aðferðum megi hafa veruleg áhrif á framtíðarhorfur þeirra barna sem hér um ræðir. Tilgangur frumvarpsins er að tryggja að börn sem búa á Íslandi og eru með alvarlegar þroskaraskanir njóti þessarar þekkingar.
    Nefndin ræddi sérstaklega stjórnskipulega stöðu Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar og telur nauðsynlegt að skýrar komi fram tenging hennar við félagsmálaráðuneytið og leggur því til að við 5. gr. frumvarpsins bætist að félagsmálaráðherra setji forstöðumanni erindisbréf í samræmi við 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá ræddi nefndin jafnframt þá breytingu á almennum hæfiskröfum forstöðumanns sem lögð er til í 5. gr. frumvarpsins. Það er mat nefndarinnar að óeðlilegt sé að þrengja hæfisskilyrðin með þeim hætti sem hér er lagt til. Þannig þykir ekki við hæfi að löggjafinn þrengi svo mjög að mati framkvæmdarvaldsins við ráðningar í einstakar stöður í stjórnsýslunni. Því leggur nefndin til að í lögunum verði kveðið á um að forstöðumaður skuli hafa háskólapróf og sérþekkingu á sviði fatlana- og þroskaraskana. Ekki verði kveðið á um í lögum að forstöðumaður skuli auk þessa hafa reynslu af stjórnun, kennslu og rannsóknum en síðargreind atriði munu vafalítið m.a. ráða ákvörðun um hæfi umsækjenda í stöðu forstöðumanns. Þá er einnig lögð til orðalagsbreyting á greininni. Nefndin telur að reglugerðarheimild ráðherra skv. 9. gr. frumvarpsins sé of opin og er því lagt til að reglugerðarheimildin sé sérstaklega bundin við þær aðstæður sem fram koma í 3. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 6. gr., þ.e. þegar Greiningar- og ráðgjafarstöðin þarf að semja við aðila um ákveðna sérfræðiþjónustu.
    Að lokum leggur nefndin áherslu á nauðsyn þess að tryggt sé nægilegt fjármagn til Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar þannig að stöðin geti mætt aukinni eftirspurn og stytt biðlista eftir þjónustu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 5. gr. Í stað 2. og 3. málsl. komi fimm nýir málsliðir, svohljóðandi: Forstöðumaður skal hafa háskólapróf og sérþekkingu á sviði fatlana og þroskaraskana. Forstöðumaður fer með stjórn stofnunarinnar, mótar stefnu í störfum hennar og er í fyrirsvari fyrir hana út á við. Hann ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Jafnframt annast forstöðumaður ráðningu annarra starfsmanna. Félagsmálaráðherra setur forstöðumanni erindisbréf.
     2.      Við 9. gr. Greinin orðist svo:
                  Félagsmálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara, einkum um samstarf Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar við aðra aðila, sbr. 3. mgr. 4. gr., og varðandi sérstaka samninga við sveitarfélög, sbr. 4. mgr. 6. gr.

         Kristján Pálsson og Jónína Bjartmarz voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. mars 2003.



Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Magnús Stefánsson.



Ásta R. Jóhannesdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.


Drífa Hjartardóttir.



Kjartan Ólafsson.