Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 132. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1137  —  132. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um skipun nefndar til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks.

Frá allsherjarnefnd.



         Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorvald Kristinsson frá Samtökunum 78, Baldur Þórhallsson frá Mannréttindaskrifstofu Íslands og Halldór Reynisson og Ragnheiði Sverrisdóttur frá Biskupsstofu. Þá bárust umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandi Íslands, Samtökunum 78, Jafnréttisstofu, Félagi sam- og tvíkynhneigðra stúdenta við Háskóla Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands.
    Í umsögnum kemur m.a. fram mikilvægi þess að gera heildarúttekt á þessum málum og bæta réttarstöðu þessa hóps til jafns á við aðra í samfélaginu. Með skipun nefndarinnar er stigið mikilvægt skref í því að fá heildarsýn hvað stöðu þessa hóps varðar, en eins og kemur fram í greinargerð með tillögunni sést afar skýrt hversu réttarstaða samkynhneigðra er slæm þegar hún er borin saman við réttarstöðu sambúðarfólks og þeirra sem eru í hjónabandi.
    Til grundvallar tillögunni liggur skýrsla frá mars 2001 sem unnin var í dómsmálaráðuneytinu um réttarstöðu fólks í sambúð og hjónabandi. Samkynhneigðir eiga ekki þann valkost að geta skráð sig í sambúð eins og aðrir heldur einungis að fara í staðfesta samvist. Stefnumið síðustu ára hafa ótvírætt verið í þá átt að leggja sambúð án vígslu í auknum mæli til jafns við hjúskap í einstökum lagasamböndum og er í skýrslunni gerð grein fyrir lagaákvæðum á fjölmörgum réttarsviðum sem sett hafa verið um réttarstöðu einstaklinga í óvígðri sambúð. Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að ekki hafi verið gerð úttekt á því hvort og þá hvernig rétt væri að setja einstök lagaákvæði um réttarstöðu samkynhneigðra í óstaðfestri samvist. Nú er því mikil réttaróvissa um hvort og á hvaða réttarsviðum unnt er að leggja að jöfnu sambúð gagnkynhneigðra og sambúð samkynhneigðra og rétt er að leggja áherslu á að þetta snertir bæði réttindi og skyldur samkynhneigðra í sambúð.
    Mikil þróun og umræða hefur átt sér stað á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu um þessi mál, og margar breytingar hafa verið gerðar á lögum til þess að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu. Mikilvægt er að skoða þessi mál heildstætt, bæði stöðuna hér heima og í öðrum löndum og verður það m.a. hlutverk þeirrar nefndar sem hér er gerð tillaga um.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.     Jónína Bjartmarz og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Kolbrún Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi er samþykk afgreiðslu þess.

Alþingi, 7. mars 2003.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Katrín Fjeldsted.



Ásta Möller.


Guðjón A. Kristjánsson.


Kjartan Ólafsson.



Ólafur Örn Haraldsson.