Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 552. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1152  —  552. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgönguráðuneytinu, Inga Tryggvason og Jón A. Ingólfsson frá rannsóknarnefnd sjóslysa, Grétar Jónasson frá Landssambandi lögreglumanna, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Guðjón Á. Einarsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Kristbjörn Guðmundsson og Jón Gunnarsson frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
    Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Olíudreifingu ehf., Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landssambandi björgunarsveita, Landssambandi lögreglumanna, Vélstjórafélagi Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Félagi íslenskra skipstjórnarmanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Eimskipafélagi Íslands hf., rannsóknarnefnd sjóslysa, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Siglingastofnun Íslands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Ólafi J. Briem, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Sjómannasambandi Íslands, Almannavörnum ríkisins, dómsmálaráðuneytinu, Vélskóla Íslands og ríkissaksóknara.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar og lagfæringar á lögunum. Veigamesta breytingin felst í því að ráðherra eru veittar heimildir til að fela rannsóknarnefndinni að taka upp mál þar sem rannsókn er þegar lokið ef aðstæður krefjast þess.
    Nefndin leggur til eina efnisbreytingu á frumvarpinu. Lagt er til að 6. gr. um skyldu rannsóknarnefndarinnar til að skila skýrslu innan þriggja mánaða falli brott. Með hliðsjón af því að umfang rannsókna og skýrslugerðar er mjög mismunandi þykir nefndinni rétt að miða áfram við þá meginreglu að skila beri skýrslu svo fljótt sem verða má í hverju tilviki fyrir sig. Jafnframt er lagt til að 2. efnismgr. 1. gr. um aðsetur nefndarinnar falli brott. Breytingin er ekki efnisleg þar sem ákvörðunarvald um aðsetur nefndarinnar verður eftir sem áður hjá ráðherra.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Hjálmar Árnason og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. mars 2003.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


Magnús Stefánsson.



Arnbjörg Sveinsdóttir.


Sigríður Ingvarsdóttir.


Jón Bjarnason.



Kristján L. Möller.



Prentað upp.