Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 517. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1186  —  517. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um reynslulausn.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helga I. Jónsson frá Dómarafélagi Íslands, Guðjón Magnússon frá lögreglustjóranum í Reykjavík og Þorstein A. Jónsson frá Fangelsismálastofnun ríkisins.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela dómsmálaráðherra að skipa nefnd til að kanna og gera úttekt á veitingu reynslulausnar skv. 40.–42. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Kannað verði m.a. hversu algengt er að beita því úrræði, hvernig háttað er eftirliti með því að skilyrði reynslulausnar séu haldin og hversu mörg brot eru framin af einstaklingum á reynslulausn. Jafnframt verði sérstaklega kannað hvort ástæða sé til þess að breyta framkvæmd reynslulausnar á þann veg að það verði hlutverk dómara að ákveða hvort fangi skuli látinn laus til reynslu í stað Fangelsismálastofnunar ríkisins, sbr. 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga.
    Nefndin telur nauðsynlegt að þessi könnun fari fram jafnframt því sem kannaður verði munur á veitingu reynslulausnar þegar fangi hefur afplánað 2/ 3 hluta refsitímans skv. 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga og þegar liðinn er helmingur refsitímans skv. 2. mgr. 40. gr. laganna.
    Þá ræddi nefndin í þessu sambandi þær reglur sem gilda um fullnustu refsingar með samfélagsþjónustu skv. IV. kafla laga um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988. Skv. 24. gr. laga um fangelsi og fangavist er það Fangelsismálastofnun sem ákveður hvort fangelsisdómur verði fullnustaður með samfélagsþjónustu og hvaða samfélagsþjónustu dómþoli sinni í hverju tilviki. Sama gildi um á hve löngum tíma samfélagsþjónusta skuli innt af hendi en tekið er fram að sá tími skuli þó aldrei vera skemmri en tveir mánuðir. Það er mat nefndarinnar að eðlilegt sé að sú nefnd sem skipuð verði samkvæmt tillögunni kanni einnig framkvæmd á veitingu samfélagsþjónustu þar sem það úrræði er í eðli sínu refsing. Jafnframt verði m.a. tekið til skoðunar hvort ákvörðun um fullnustu refsingar með samfélagsþjónustu eigi að vera hlutverk Fangelsismálastofnunar eða dómstóla með þeim röksemdum sem fram koma í greinargerð með tillögunni.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.     Jónína Bjartmarz og Lúðvík Bergvinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Kolbrún Halldórsdóttir áheyrnarfulltrúi er samþykk afgreiðslu þess.

Alþingi, 7. mars 2003.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Katrín Fjeldsted.



Ásta Möller.


Guðjón A. Kristjánsson.


Kjartan Ólafsson.



Ólafur Örn Haraldsson.