Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 661. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1236  —  661. mál.




Nefndarálit



um frv. til hafnalaga.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson og Sigurberg Björnsson frá samgönguráðuneytinu, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Árna Þór Sigurðsson frá Hafnasambandi sveitarfélaga.
    Frumvarpið er endurflutt frá síðasta þingi með nokkrum breytingum. Þá var það sent til umsagnar og bárust umsagnir frá eftirtöldum: Akraneskaupstað, Póst- og fjarskiptastofnun, Borgarfjarðarhreppi, Vegagerðinni, Almannavörnum ríkisins, Grindavíkurkaupstað, Slysavarnaskóla sjómanna, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, sveitarfélaginu Árborg, Siglingastofnun, Byggðastofnun, Samtökum iðnaðarins, Reykjavíkurhöfn, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Vestmannaeyjahöfn, Hafnarfjarðarhöfn, Hafnasamlagi Norðurlands, Landhelgisgæslu Íslands, Þórshafnarhreppi, Samtökum ferðaþjónustunnar, Vopnafjarðarhreppi, Eimskipafélagi Íslands, Olíudreifingu ehf., Grundartangahöfn, Húsavíkurkaupstað, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Hafnasambandi sveitarfélaga, Akraneshöfn, Siglufjarðarkaupstað, Landssambandi smábátaeigenda, Náttúruvernd ríkisins, Reykjavíkurborg, Stykkishólmsbæ, Vélstjórafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sveitarfélaginu Ölfusi, Eyþingi, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sandgerðisbæ, Þjóðhagsstofnun og Íslenska járnblendifélaginu og Norðuráli.
    Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um hafnir sem fela í sér grundvallarbreytingar á starfsemi hafna í landinu. Þær helstu eru að samræmd gjaldskrá hafna verði aflögð og ákvæði samkeppnislaga gildi um gjaldtöku þeirra. Höfnum verði gefinn kostur á að velja sér rekstrarform, þ.m.t. hlutafélagaform, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og dregið verði úr ríkisafskiptum og ríkisstyrkjum. Ein meginforsenda frumvarpsins er að rekstur hafna verði virðisaukaskattsskyldur en því er ætlað að vega upp á móti minni ríkisstyrkjum, ásamt því að gjaldtaka verður gefin frjáls. Fyrir þinginu liggur frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á virðisaukaskattslögum sem tryggir þetta.
    Frumvarpið er að stofni til afrakstur sérstakrar hafnalaganefndar sem samgönguráðherra skipaði 9. desember 1999. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar hafna í landinu og fulltrúi notenda hafna, auk þess sem með henni störfuðu bæði fulltrúar samgönguráðuneytisins og Siglingastofnunar. Ítarlega var fjallað um málið í samgöngunefnd á síðasta þingi og margar breytingar lagðar fram sem nú hafa skilað sér inn í frumvarpið. Í sumar var svo skipaður sérstakur vinnuhópur til að fara yfir frumvarpið og sætta sjónarmið. Fullyrða má að það hafi nú tekist enda mælir Hafnasamband sveitarfélaga með samþykkt frumvarpsins.
    Ljóst er að frumvarpið snertir veigamikla hagsmuni margra byggðarlaga í landinu og því mikilvægt að vel takist til við lagasmíðina. Það er álit meiri hlutans að frumvarpið sé nú sem best verði á kosið og ljóst að ekki verður búið við óbreytt lög áfram.
    Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn afar brýnt að frumvarpið verði að lögum á þessu þingi og leggur til að það verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Helstu breytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til breyting á 14. gr. Fellt er brott orðið „smærri“ í 5. málsl. þar sem vísun í 24. gr. er nægjanleg. Allar hafnir sem eiga rétt á styrk skv. 24. gr. halda þeim réttindum sínum í fimm ár frá gildistöku laganna þrátt fyrir að þær flytjist í flokk þar sem styrkhæfni er takmarkaðri. Þá er áréttað að sama gildi um styrkhæfni hvort sem þessar hafnir sameinist öðrum höfnum við myndun hafnasamlags eða við sameiningu sveitarfélaga.
     2.      Lagt er til að 2. málsl. 2. mgr. 17. gr. falli brott. Almennar reglur um gjaldtöku opinberra fyrirtækja eru mjög skýrar og tryggja réttindi og hagsmuni notenda þjónustunnar.
     3.      Nefndin hefur farið yfir tölulegar forsendur styrkja til hafna skv. 24. gr. frumvarpsins. Það er mat meiri hlutans að nauðsynlegt sé að breyta viðmiðunum b- og c-liðar 24. gr. í því skyni að ná fram meira jafnvægi í styrktarflokkum hafna. Meiri hlutinn telur að hækkun þessara marka séu nauðsynleg til þess að markmið frumvarpsins um að styrkja stöðu minni hafna nái fram að ganga. Samkvæmt upplýsingum samgönguráðuneytisins verður kostnaður ríkissjóðs af þessu innan þeirra marka sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
     4.      Þá leggur meiri hlutinn til að nokkur atriði verði tiltekin sérstaklega sem endurskoðunarnefndinni samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV sé gert að kanna. Verði frumvarpið samþykkt má búast við nokkrum breytingum á starfsumhverfi hafna þar sem andstæður munu skerpast og samkeppni aukast. Augljóst er öllum að það er aðeins hluti hafna sem tekur þátt í einhverri samkeppni að ráði. Mat meiri hlutans er að allar líkur séu á því að nýtt jafnvægi skapist öllum til hagsbóta. Mikilvægt er að stjórnendur allra hafna afli sér nýrrar þekkingar sem gerir þeim kleift að takast á við nýjar áskoranir. Hugsanlega kann þó að vera skynsamlegt að marka sumum höfnum annan ramma sökum mismunandi rekstrarskilyrða. Heildarhagsmunir þjóðarinnar krefjast þess að skoðuð sé staða svokallaðra samgönguhafna, sem eru fyrst og fremst mikilvægar í samfélagslegu tilliti. Mikilvægt er að slíkir hlekkir í samgöngukerfinu bresti ekki og vandi getur verið fólginn í því að greina hlutverk hafna í samfélagi annars vegar sem hluta af samfélagsþjónustu, sem ríkisvaldið kemur að, og hins vegar atvinnurekstur sem starfar eftir almennum markaðslögmálum. Mjög mikilvægt er að endurskoðunarnefndin hafi þetta í huga þegar hún fer yfir hvernig til hefur tekist. Skuldastaða tiltekinna hafna, sbr. fylgiskjal I með frumvarpinu, er greinilega mjög erfið. Ástæður þessa geta verið margvíslegar en nefna má að þrátt fyrir ýmis hagstæð áhrif, sem fylgja sameiningu hafna í hafnasamlag og hafna í sameinuðum sveitarfélögum, hefur úrelding hluta hafnarmannvirkjanna í vissum tilvikum haft mikinn kostnað í för með sér sem viðkomandi hafnir hafa átt erfitt með að standa undir. Álit meiri hlutans er að slíkar hafnir nái að rétta úr kútnum og vissulega er margt sem bendir til þess. Staða þeirra er samt mjög viðkvæm og því telur meiri hlutinn að endurskoðunarnefndin verði að skoða stöðu þeirra sérstaklega að þremur árum liðnum.
    Magnús Stefánsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. mars 2003.



Guðmundur Hallvarðsson,


form., frsm.


Hjálmar Árnason.


Arnbjörg Sveinsdóttir.



Sigríður Ingvarsdóttir.


Árni R. Árnason.