Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 56. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1243  —  56. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um skipan nefndar til að meta kosti og galla færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

Frá sjávarútvegsnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá Hafrannsóknastofnuninni, Félagi áhugamanna um auðlindir í almannaþágu, Vélstjórafélagi Íslands, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Hagstofu Íslands.
    Tillagan felur í sér skipan nefndar til að gera úttekt á kostum og göllum færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins. Margir hafa bent á að taka ætti upp hið færeyska kerfi hérlendis. Engin úttekt hefur hins vegar verið gerð á því í samanburði við núverandi fyrirkomulag fiskveiða á Íslandi. Nefndin telur að gera þurfi slíka úttekt þannig að hægt verði að bera saman kerfin tvö með hliðsjón af sem flestum þáttum, svo sem þjóðhagslegri hagkvæmni, áhrifum á byggðir, fiskgengd, tengslum vinnslu og útgerðar, brottkasti, veiðarfærum, stærð fiskiskipa o.s.frv.
    Nefndin telur því að efni tillögunnar falli vel að áformum sjávarútvegsráðherra, sem hann hefur kynnt, um frekari athuganir og útfærslu á stjórn fiskveiða og leggur því til að tillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Árni Steinar Jóhannsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.
    Jóhann Ársælsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. mars 2003.



Árni R. Árnason,


form., frsm.


Kristinn H. Gunnarsson.


Einar K. Guðfinnsson.



Svanfríður Jónasdóttir.


Guðmundur Hallvarðsson.


Guðjón A. Kristjánsson.



Adolf H. Berndsen.


Hjálmar Árnason.








Prentað upp.