Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 668. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1284  —  668. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2003, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur og Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Ástu Valdimarsdóttur og Elínu Jónsdóttur frá Einkaleyfastofu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 20/2003 frá 31. janúar 2003, um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/44/EB frá 6. júlí 1998, um lögvernd uppfinninga í líftækni.
    Meginmarkmið tilskipunarinnar er að samræma ákvæði um einkaleyfishæfi uppfinninga á sviði líftækni en með líftækni er átt við starfsemi þar sem notaðar eru örverur, dýra- eða plöntufrumur eða frumuhlutar til að framleiða afurðir eða umbreyta þeim, kynbæta plöntur eða dýr eða breyta örverum í hagnýtum tilgangi. Í tilskipuninni eru jafnframt skýr ákvæði um að ekki megi veita einkaleyfi á aðferðum við að klóna menn eða breyta erfðaeiginleikum kynfrumna manna. Einnig er kveðið á um bann við veitingu einkaleyfis á notkun fósturvísa í hagnaðarskyni eða á öðrum uppfinningum sem stríða gegn allsherjarreglu eða siðgæði.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og þurfa nauðsynlegar lagabreytingar að hafa tekið gildi eigi síðar en 31. júlí 2003.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. mars 2003.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Magnús Stefánsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Björn Bjarnason.


Steingrímur J. Sigfússon.



Einar K. Guðfinnsson.


Jónína Bjartmarz.