Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 666. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1286  —  666. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 13/2003, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Jóhannsdóttur og Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 13/2003 frá 31. janúar 2003, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/59/EB frá 27. júní 2002, um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis bandalagsins fyrir umferð á sjó og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/75/EBE.
    Meginefni tilskipunarinnar fjallar um stofnun eftirlits- og upplýsingakerfis Evrópusambandsins fyrir umferð á sjó, jafnframt því sem felld er úr gildi tilskipun 93/75/EBE um lágmarkskröfur fyrir skip sem flytja hættulegar eða mengandi vörur til eða frá höfnum innan bandalagsins. Gert er ráð fyrir að yfirvöld hvers aðildarríkis haldi utan um upplýsingar um skip sem flytja hættulegan eða mengandi varning. Markmið slíks eftirlits- og upplýsingakerfis með umferð skipa er að draga úr hættu á mengunarslysum og -óhöppum og draga jafnframt úr áhrifum slíkra slysa eða óhappa á umhverfi sjávar og á heilsu manna. Þá er kveðið á um auðkenningarkerfi skipa, ferðaskráningarkerfi, ráðstafanir til að draga úr hættu á óhöppum, aðstoð við skip í nauðum og samstarf milli ríkja.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og lagði samgönguráðherra fram lagafrumvarp þess efnis í nóvember á síðasta ári (392. mál, þskj. 453) og var málið afgreitt sem lög frá Alþingi 10. mars sl.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Lára Margrét Ragnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. mars 2003.



Sigríður A. Þórðardóttir,


form., frsm.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Magnús Stefánsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Björn Bjarnason.


Steingrímur J. Sigfússon.



Einar K. Guðfinnsson.


Jónína Bjartmarz.