Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 488. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1318  —  488. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77 23. maí 2000, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur frá dómsmálaráðuneyti, Pál Hreinsson frá Persónuvernd og Friðrik Skúlason tölvufræðing. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Landspítala – háskólasjúkrahúsi, Persónuvernd, Íslenskri erfðagreiningu, Jóhannesi Björnssyni frá Rannsóknastofu Háskólans, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Samtökum atvinnulífsins, vísindasiðanefnd, landlæknisembættinu, Alþýðusambandi Íslands, Hagstofu Íslands og Lögmannafélagi Íslands.
    Megintilgangur frumvarpsins er í fyrsta lagi að kveða skýrar á um rafræna vöktun upplýsinga en gert er í núgildandi lögum þar sem fram hefur komið að núgildandi ákvæði séu villandi og óljós. Þannig er lagt til í 1. gr. frumvarpsins að hugtakið rafræn vöktun taki í fyrsta lagi til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga. Jafnframt er greininni ætlað að skýra betur en núverandi ákvæði gera að undir hugtakið „rafræn vöktun“ falli svonefnd sjónvarpsvöktun þótt hún hvorki leiði né geti leitt til vinnslu persónuupplýsinga. Slík vöktun skuli lúta sömu skilyrðum og önnur rafræn vöktun eftir því sem við á.
    Í öðru lagi miðar frumvarpið að því að skapa lagastoð fyrir hefðbundna söfnun og vinnslu ættfræðiupplýsinga hér á landi. Fram hefur komið að með setningu laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hafi ekki verið ætlunin að koma í veg fyrir ættfræðigrúsk almennings og því sé með frumvarpinu lögð til breyting hvað það varðar.
    Fram kom við meðferð málsins í nefndinni að sá hluti frumvarpsins sem lýtur að hefðbundinni söfnun og vinnslu ættfræðiupplýsinga þarfnist frekari skoðunar. Frumvarpið taki t.d. ekki nægilega á því að ættfræðiupplýsingar varða tengsl milli aðila. Þannig koma iðulega fleiri en einn aðili að upplýsingum og aðilar eru oft ekki sammála um að leyfa aðgang að þeim. Þá þurfi að taka tillit til þess að upplýsingar úreldast auk þess sem ættfræðiupplýsingar þurfa ekki að vera viðkvæmar ef langt er um liðið frá tilteknum atburði og tekur frumvarpið ekki á þessum atriðum. Loks þyrfti m.a. að kanna hvort öll form ættfræðiupplýsinga eigi að vera jafngild. Nefndin telur almennan ættfræðiáhuga landsmanna ánægjulegan en nauðsynlegt sé að fara betur yfir þessi mál svo að tekið verði á öllum þeim vafaatriðum sem liggja fyrir í málinu. Það er því mat nefndarinnar að fara verði betur yfir þessi mál og leggur því til að 3. og 4. gr. frumvarpsins verði felldar brott.
    Nefndin bendir á að ákvæði 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er nú að finna í 2. mgr. 8. gr. gildandi laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Með þessari tilfærslu ákvæða er ekki um efnisbreytingu að ræða heldur er einungis lagt til að öllum ákvæðum um rafræna vöktun sé skipað saman í eina grein. Nefndin leggur því til að 2. mgr. 8. gr. laganna verði felld brott. Þá leggur nefndin til breytingu á 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins þar sem fram hefur komið að láðst hefur að geta tilvísana í nokkrar greinar laganna svo sem gert er í núgildandi lögum. Þær greinar sem hér um ræðir gilda um sjónvarpsvöktun og þykir rétt að halda því óbreyttu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      3. efnismgr. 2. gr. orðist svo:
                  Um sjónvarpsvöktun fer, auk ákvæðis 1. mgr., samkvæmt ákvæðum 7., 24., 40. og 41. gr. laganna, svo og eftir því sem við á, ákvæðum 31., 32. og 38. gr. laganna.
     2.      Í stað 3. og 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                  2. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

    Guðrún Ögmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. mars 2003.



Þorgerður K. Gunnarsdóttir,


form., frsm.


Katrín Fjeldsted.


Jónína Bjartmarz.



Lúðvík Bergvinsson.


Ásta Möller.


Guðjón A. Kristjánsson.



Kjartan Ólafsson.


Ólafur Örn Haraldsson.