Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 550. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 1386  —  550. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Sæmundsson, Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur og Gylfa Kristinsson frá félagsmálaráðuneyti, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Helgu Birnu Ingimundardóttur frá Bandalagi háskólamanna, Sigurð Á. Friðjónsson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Jóhann Elí Guðjónsson frá Félagi ungra lækna, Eyjólf Sæmundsson frá Vinnueftirlitinu, Magnús Pétursson, Aðalstein Pálsson og Jóhannes M. Gunnarsson frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Læknafélagi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, Samiðn – sambandi iðnfélaga, Vélstjórafélagi Íslands, Félagi ungra lækna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Vinnueftirlitinu, Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum iðnaðarins, Umhverfisstofnun, ráðgjafarnefnd um opinbert eftirlit, Ökukennarafélagi Íslands, starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og Tryggingastofnun ríkisins.
    Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að lögfestar verði meginreglur tilskipunar ráðs Evrópusambandsins 93/104/EB, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Gert er ráð fyrir að teknar verði upp meginreglur tilskipunarinnar um daglegan hvíldartíma, hlé á vinnu, vikulegan frítíma, hámarksvinnutíma á viku, vinnutíma næturvinnustarfsmanna og rétt þeirra til heilsufarsskoðunar. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að lögleiddar verði ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum með hliðsjón af tilskipun ráðsins 89/391/EBE. Í ákvæðum tilskipunarinnar felst m.a. skylda atvinnurekenda til að meta áhættu í vinnuumhverfi fyrir öryggi og heilsu starfsmanna. Þá eru lagðar til breytingar á skipulagi Vinnueftirlits ríkisins að því er varðar verkaskiptingu forstjóra og stjórnar í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á skipulagi stjórnsýslunnar hér á landi frá gildistöku laganna.
    Bent hefur verið sérstaklega á að efni 22.–26. gr. frumvarpsins um áhættumat, heilsuvernd og heilsufarsskoðanir muni að miklu leyti ráðast af þeim fyrirmælum sem félagsmálaráðherra er ætlað að setja að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins. Eigi það ekki síst við um þau skilyrði sem starfsmönnum fyrirtækja verður gert að uppfylla til að geta annast mat á áhættu og heilsuvernd á vinnustað. Skilyrði af því tagi sem hér um ræðir geta skipt miklu um hvernig til tekst og hvaða aukakostnað framkvæmdin kann að hafa í för með sér fyrir fyrirtæki og stofnanir. Jafnframt sé mikilvægt að þau nýju hugtök sem þarna eru notuð séu skýrð í lagatextanum sjálfum til að auka gagnsæi reglnanna, skýrleika og jafnframt til þess að veita þeim lagagildi.
    Það er skilningur nefndarinnar að atvinnurekandi sem ber, skv. 22. gr. frumvarpsins, ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, eigi sjálfur að geta annast gerð þess áhættumats og heilsuverndaráætlunar sem í henni felst nema aðstæður séu þannig á viðkomandi vinnustað að þörf sé sérstakrar færni sem hann eða starfsmenn hans hafa ekki yfir að ráða. Framkvæmdin eigi að geta verið tiltölulega einföld nema aðstæður séu þannig að vitað sé um eða grunur leiki á að ákveðnir þættir í vinnuumhverfi starfsmanna hafi áhrif á öryggi þeirra og heilbrigði sem atvinnurekandi geti ekki metið. Þær hæfniskröfur sem gerðar verða til starfsmanna atvinnurekanda sem sinna öryggi og heilbrigði á vinnustað hljóta að taka mið af því auk almennra reglna um meðalhóf.
    Nefndin telur rétt að benda á að með áætlun um heilsuvernd er átt við forvarnir sem beinast að því að koma í veg fyrir eða draga úr áhættuþáttum í vinnuumhverfi starfsmanna sem haft geta áhrif á öryggi og heilsu þeirra. Hér er því ekki um að ræða heilsufarsskoðun sem felst í sérhæfðri læknisskoðun sem starfsmenn eiga kost á starfi þeir við slík starfsskilyrði að ætla megi að heilsutjón geti hlotist af og ástæða til þess að ætla að á þann hátt megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma. Þá hefur verið bent á að heilsufarsskoðun nái svo aftur ekki til almennrar heilsugæslu starfsmanna vegna tilfallandi sjúkdóma eða óþæginda. Nefndin telur rétt að frekar verði unnið að því að skilgreina ýmis hugtök laganna, t.d. þau sem eiga við um hættuleg efni og vörur og jafnframt hugtök varðandi heilsuvernd.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Helstu efnisbreytingar eru eftirfarandi:
     1.      Lögð er til breyting á efnismálslið b-liðar 9. gr. þar sem lagt er til að tekin verði upp í 38. gr. laganna heimild fyrir ráðherra til að setja reglur til að koma í veg fyrir og uppræta einelti á vinnustöðum og tekið er fram í ákvæðinu að starfsmenn eigi ekki að þurfa að þola áreitni eða aðra ótilhlýðilega háttsemi á vinnustað, þar með talda kynferðislega áreitni eða annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi. Það er mat nefndarinnar að hér sé um mjög flókið mál að ræða og því vandasamt að orða reglu af þessu tagi í lagatexta. Jafnframt verði að líta til þess að vinnuveitanda verður ekki gert að bera alla ábyrgð hér á. Því leggur nefndin til að málsliðurinn orðist svo: um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum. Nefndin telur nauðsynlegt að haft verði samráð við aðila vinnumarkaðarins við setningu slíkra reglna.
     2.      Lögð er til breyting á 2. málsl. 5. efnismgr. 16. gr. þar sem orðalagið þykir ekki nógu skýrt og getur valdið misskilningi. Þannig má nefna að orðalagið „að koma úrgangi fyrir“ má skilja sem förgun úrgangs. Slíkt er ekki um að ræða hér og auk þess ekki innan gildissviðs frumvarpsins. Í stað þess að hættulegum efnaúrgangi og spilliefnum skuli komið fyrir með öruggum hætti á vinnustað leggur nefndin til að hættulegur efnaúrgangur og spilliefni skuli geymd með öruggum hætti á vinnustað.
     3.      Lagðar eru til breytingar á 17. gr. Lagt er til að áréttað verði í 1. mgr. að reglusetning félagsmálaráðherra verði tilgreind varðandi viðeigandi þætti á vinnustöðum. Þá er lögð til orðalagsbreyting á 3. efnismgr.
     4.      Þá er lögð til breyting á 2. tölul. b-liðar 19. gr. (52. gr. a.), þannig að við bætist í upptalningu á greinum 53. gr. a. Í ákvæði b-liðar 52. gr. a. laganna eru taldir upp þeir aðilar sem ákvæði kaflans um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma gilda ekki um. Þannig kemur fram í 2. tölul. greinarinnar að ákvæði kaflans gildi ekki um lækna í starfsnámi, sbr. 53., 54., 57. og 58. gr. Með þessari neikvæðu framsetningu er því með öðrum orðum sagt að ákvæði þeirra greina sem hér hafa verið taldar upp gildi um lækna. Með gagnályktun yrði því skýrt að ákvæði 53. gr. a., 55. gr. og 56. gr. ættu hins vegar ekki við um þá. Komið hefur í ljós að ætlunin var að ákvæði 53. gr. a. ættu einnig að gilda um lækna í starfsnámi og því leggur nefndin til breytingu þess efnis.
     5.      Nefndin leggur til breytingu á 3. efnismgr. 25. gr. 1. efnismgr. greinarinnar fjallar um skyldu atvinnurekanda til þess að leita sér aðstoðar þjónustuaðila þegar gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal mat á áhættu og áætlun um heilsuvernd, krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsmenn hans hafa ekki yfir að ráða. Í 3. efnismgr. eru gerð skilyrði um ákveðnar menntunarkröfur þjónustuaðila. Nefndin leggur til breytingu þess efnis að í stað þess að þjónustuaðili skuli vera fær um að veita heildstæða þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum og að hann eða starfsmenn hans skuli hafa nánar tilgreinda menntun, þá verði miðað við að þjónustuaðili sem veitir heildstæða þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum skuli hafa aðgang að sérfræðingum sem Vinnueftirlit ríkisins hefur viðurkennt að hafi fullnægjandi nánar tilgreinda menntun. Þannig verði við það miðað að þjónustuaðili eða þeir sérfræðingar sem hann hefur aðgang að hafi fullnægjandi þekkingu á viðkomandi sviðum að mati Vinnueftirlitsins.
     6.      Lögð er til breyting á 38. gr. um tilkynningarskyldu atvinnurekanda ef slys ber að höndum og skuli hann tilkynna um slíkt án ástæðulauss dráttar. Lagt er til að tilkynning skuli berast eigi síðar en innan sólarhrings frá atvikinu. Breytingin er til þess fallin að leggja enn frekari áherslu á nauðsyn þess að tilkynning um slys berist viðeigandi aðilum eins fljótt og unnt er.

         Kristján Pálsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. mars 2003.



Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Guðrún Ögmundsdóttir.


Pétur H. Blöndal.



Magnús Stefánsson.


Ásta R. Jóhannesdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.



Drífa Hjartardóttir.


Jónína Bjartmarz.