Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 16:34:50 (1)

2003-05-26 16:34:50# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, Frsm. meiri hluta EKG
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[16:34]

Frsm. meiri hluta kjörbn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti og tillögum meiri hluta kjörbréfanefndar sem dreift hefur verið á borð þingmanna.

Kjörbréfanefnd hefur haft til athugunar kjörbréf þau sem landskjörstjórn gaf út 16. maí 2003 í samræmi við úrslit alþingiskosninga sem fram fóru 10. maí sl. Þá hefur nefndinni borist bréf frá dómsmrn., dags. 23. maí 2003. Bréfinu fylgdu í innsigluðum umslögum ágreiningsseðlar úr Suðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi ásamt endurritun úr gerðabókum yfirkjörstjórna sömu kjördæma.

Í Suðvesturkjördæmi kom upp ágreiningur um 7 utankjörfundaratkvæði sem merkt voru bókstafnum V. Meiri hluti yfirkjörstjórnar kjördæmisins var sammála um að atkvæðin væru ógild með vísan til b-liðar 100. gr. laga nr. 24/2000 þar sem kveðið er á um að meta skuli atkvæði ógilt ef það sem stendur á utankjörfundarseðli geti ekki með vissu átt við nokkurn af þeim listum sem í kjöri eru.

Í Norðausturkjördæmi kom upp ágreiningur um tvö utankjörfundaratkvæði sem merkt voru bókstafnum V. Meiri hluti yfirkjörstjórnar í kjördæminu var sammála um að atkvæðin væru ógild. Meiri hluti nefndarinnar telur að staðfesta eigi úrskurði yfirkjörstjórna í Suðvestur- og Norðausturkjördæmum.

Í Suðurkjördæmi kom upp ágreiningur um tvö atkvæði. Yfirkjörstjórn úrskurðaði annað atkvæði D-lista en meiri hluti yfirkjörstjórnar úrskurðaði hitt atkvæðið ógilt. Meiri hluti nefndarinnar telur að staðfesta beri úrskurði yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi. Aðrir ágreiningsseðlar bárust ekki.

Enn fremur hefur nefndinni borist bréf frá dómsmrn., dags. 23. maí 2003. Með því var send kosningakæra frá umboðsmanni kjördæmisfélaga Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum norður og suður, Björgvin Agli Vídalín Arngrímssyni. Í kærunni er gerð krafa um endurtalningu atkvæða í nýafstöðnum alþingiskosningum. Meiri hlutinn telur ekki ástæðu til að draga lögmæti kosninganna í efa og álítur ekki forsendur til endurtalningar, að taka upp kosningar eða aðhafast frekar.

Meiri hlutinn leggur til í samræmi við 46. gr. stjórnarskrár og 2. mgr. 1. gr., sbr. 5. gr. þingskapa, að kjörbréf aðalmanna og varamanna verði samþykkt eins og þeir eru hér fyrrgreindir í áliti og tillögum meiri hluta kjörbréfanefndar og dreift hefur verið á borð þingmanna.

Undir þetta álit rita hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, formaður og frsm., Hjálmar Árnason, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Sigríður A. Þórðardóttir og Magnús Stefánsson.