Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 16:49:14 (3)

2003-05-26 16:49:14# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[16:49]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Til kasta kjörbréfanefndar kom að úrskurða um vafaatkvæði sem merkt voru bókstafnum V. Í erindi sem dómsmrn. barst að afloknum alþingiskosningum annars vegar frá yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi og hins vegar í Norðausturkjördæmi, er sérstaklega að þessu vikið.

Frá yfirkjörstjórn í Suðvesturkjördæmi segir m.a., með leyfi forseta:

,,Eins og bókun í gjörðabók ber með sér kom upp ágreiningur um sjö utankjörfundaratkvæði sem merkt voru bókstafi V. Yfirkjörstjórn úrskurðaði þau ógild, en umboðsmenn U-listans, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sættu sig ekki við niðurstöðu yfirkjörstjórnar og vísuðu málinu, lögum samkvæmt, til dómsmálaráðuneytis, sem leggur málið fyrir Alþingi.

Enn fremur ljósrit af bréfi Atla Gíslasonar hrl. sem vísað er til í úrskurði yfirkjörstjórnar.``

Og í erindi frá yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis til dóms- og kirkjumrn. segir, með leyfi forseta:

,,Við talningu atkvæða við kosningar til Alþingis í Norðausturkjördæmi þann 10. maí 2003 tók yfirkjörstjórn fyrir að úrskurða um framkomna utankjörfundaratkvæðaseðla handskrifaða og stimplaða með bókstafnum V með vísan til bréfs Atla Gíslasonar hrl. Meiri hluti yfirkjörstjórnar úrskurðaði þau ógild. Umboðsmaður U-listans gerði ágreining um þá ákvörðun yfirkjörstjórnar. Umrædd atkvæði eru hér með send dómsmálaráðuneytinu með vísan til 104. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 20/2000. Ákvörðun sína byggir yfirkjörstjórn á lögum og reglum um birtingu stjórnvaldserinda.

Bréfi þessu fylgir afrit af bréfi Atla Gíslasonar hrl. og tölvupósti frá sýslumanninum í Ólafsfirði.``

Undir þetta ritar Jón Kr. Sólnes, formaður yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis.

Í báðum þessum erindum er vísað í bréf frá Atla Gíslasyni til dómsmrn., en það er ritað 30. apríl sl. Ég ætla að leyfa mér að lesa þetta bréf, með leyfi forseta:

,,Við alþingiskosningar árið 1999 komu þær röngu upplýsingar fram á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins að listabókstafur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs (VG) væri V en ekki U. Þá tókst á síðustu stundu að frumkvæði Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. að koma í veg fyrir að framboðslisti VG væri auglýstur í blöðum undir listabókstafnum V. Í aðdraganda komandi alþingiskosninga, sem fram fara 10. maí nk., hefur sami misskilningur enn komið upp. Í kosningaupplýsingum SÍNE vegna atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, sem birtar eru að sögn SÍNE með góðfúslegu leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, er listabókstafur VG tilgreindur V. Þessar röngu upplýsingar voru sendar öllum félagsmönnum SÍNE og birtar á heimasíðu þess. Sami misskilningur kom fram á vefsíðunni Plúsinn. Þá hafa borist staðfestar upplýsingar um að starfsmaður hjá sýslumanninum í Reykjavík hafi gefið upp V sem listabókstaf VG og kvartað hefur verið undan því að hjá sýslumanninum á Ólafsfirði hafi nýlega legið frammi stimpill með bókstafnum V fyrir VG. Ljóst má vera að þessi alvarlegi misskilningur, sem virðist mega rekja allt til ársins 1999, hafi leitt til þess að atkvæði greidd VG utan kjörfundar fyrir komandi alþingiskosningar kunni að vera ranglega rituð eða stimpluð með bókstafnum V en ekki U á kjörseðla. VG gerir kröfu til þess að slík atkvæði verði metin sem gild atkvæði greidd flokknum og munu umboðsmenn hans fylgja því eftir við væntanlega talningu utankjörfundaratkvæða. Sérstaklega er óskað eftir því að yfirkjörstjórnir upplýsi kjörstjórnir um málið þannig að atkvæði merkt V komi til úrskurðar viðkomandi yfirkjörstjórnar.

Virðingarfyllst,

f.h. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs,

Atli Gíslason hrl.``

Hverjar urðu síðan lyktir þessa máls? Í fjórum kjördæmum af sex var listabókstafurinn V tileinkaður Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði í samræmi við það sem hér kemur fram og í samræmi við það sem heilbrigð skynsemi mælir til um og sanngirni manna. Í tveimur kjördæmum var þetta hins vegar ekki gert, í Suðvesturkjördæmi annars vegar og í Norðausturkjördæmi hins vegar. Þess vegna voru þau erindi sem ég las upp áðan eða vitnaði til, send dómsmrn. og þau bárust síðan inn í þingið og það kom til kasta kjörnefndar nú fyrir stundu að úrskurða um þessi atkvæði.

Það kom fljótlega í ljós við umræðuna að stjórnarmeirihlutinn eða fulltrúar stjórnarmeirihlutans voru á sama máli og yfirkjörstjórnir í Suðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi og þá óskaði ég eftir efnislegri umræðu um málið. Eru menn þá ósammála niðurstöðu yfirkjörstjórna í hinum kjördæmunum fjórum? Ég vildi fá efnislega umræðu um málið því okkur er gert, alþingismönnum og fulltrúum í kjörbréfanefnd, að taka slíka efnislega umræðu um þetta mál. Því var hafnað. Stjórnarmeirihlutinn í kjörbréfanefnd hafnaði því að taka efnislega umræðu um málið og án slíkrar efnislegrar umræðu var gengið til atkvæða og málið afgreitt út úr nefndinni.

Ég vil einnig vekja athygli á því að málið snerist ekki einvörðungu um hvort viðurkenna ætti bókstafinn V fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð, heldur voru einnig uppi álitamál um hvaða stafur hefði yfirleitt verið skrifaður, því a.m.k. í tveimur tilvikum er það mitt mat að um bókstafinn U hafi verið að ræða en ekki bókstafinn V.

Þetta eru staðreyndir málsins. Og mér finnst það grafalvarlegt mál ef fulltrúar stjórnarmeirihlutans í kjörbréfanefnd rísa ekki betur undir ábyrgð sem þeim er falin en sem hér kemur fram. Mér finnst það mjög alvarlegur hlutur og það er reyndar mjög margt alvarlegt í þessari málsmeðferð allri.

Gera menn sér grein fyrir því að umboðsmönnum Frjálslynda flokksins í Reykjavík norður var beinlínis meinað að koma að talningunni í samræmi við landslög? Þetta eru staðreyndir. Ég hefði talið það lágmarkskröfu að vafaatkvæði í því kjördæmi yrðu endurtalin þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna hefðu aðkomu. Mér finnst það vera lágmarkskrafa.

Ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að sú tillaga sem við setjum hér fram er sanngirniskrafa. Hún er tillaga til málamiðlunar. Og ég tek undir það sem hann sagði að við erum að fjalla hér um grafalvarlegt mál. Niðurstöður í alþingiskosningum eiga að vera hafnar yfir allan vafa. Við erum að óska eftir því að farið verði fram á rannsókn. Við gefum okkur tilskilinn tíma, sjö daga, komum þá saman að nýju og tökum ákvarðanir í samræmi við þau gögn sem liggja fyrir.

Finnst mönnum þetta ekki sanngjarnt? Er þetta ekki eðlilegt? Þetta er í samræmi við landslög og stjórnarskrá vegna þess að við förum hér að stjórnarskrá landsins. Þar segir að Alþingi beri endanlegt vald í þessum efnum í samræmi við landslög og menn hafa verið að fara í gegnum þau lög, bæði þingskapalög og lög um kosningar til Alþingis. Niðurstaðan varð sú að bjóða upp á þessa leið til málamiðlunar, að við óskuðum eftir skýrslu frá öllum yfirkjörstjórnum og að farið yrði í saumana á þeim alvarlegu álitamálum sem eru uppi. Og þegar þau gögn lægju fyrir kæmum við hér saman að nýju.

Síðan er það náttúrlega annar handleggur hvernig að þessu hefur verið staðið af hálfu stjórnvalda, dómsmrn., utanríkisþjónustunnar. Ég spyr: Eru menn þar bara sofandi? Eru starfsmenn sendiráða Íslands sofandi? Í Kaupmannahöfn er verið að bjóða upp á lista með bókstafnum Z vegna þess að það mun hafa verið bókstafur anarkista, held ég, í síðustu kosningum. Lifum við ekki á tölvuöld? Er ekki hægt að koma upplýsingum á hraðvirkan hátt til skila? Þetta eru lög sem eru smíðuð þegar landpóstarnir fóru yfir. En við lifum á tölvuöld og það er lágmarkskrafa að utanríkisþjónustan og dómsmálayfirvöld bregðist við með öðrum hætti.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa lengra mál að sinni um þessa tillögu sem við stöndum sameiginlega að úr stjórnarandstöðunni.