Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 18:01:57 (6)

2003-05-26 18:01:57# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, SJS
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[18:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það fer ekki hjá því að ýmislegt sem vaknað hefur upp við þessa umræðu um framkvæmd kosninganna, af því tilefni sem er hér til umræðu og mönnum er kunnugt, veki mann til mikillar umhugsunar um hvernig staðið er að málum. Það er ærið tilefni til að taka framkvæmd kosninga, kosningalög og meðferð ýmiss konar álitamála í því sambandi til umræðu. Tilefnið hefði gjarnan mátt vera annað en það sem nú er uppi, að svo mjótt er á munum í alþingiskosningum og að meðferð ýmissa álitamála er bersýnilega svo mismunandi eftir kjördæmum að það vekur verulegar áhyggjur af því að ekki sé víst að við höfum réttar niðurstöður í höndum, að vilji kjósenda hafi sannanlega og rétt komið fram.

Ég held að það hafi verið mjög vel rökstutt og þarf ekki að endurtaka það sem sagt hefur verið af fyrri ræðumönnum, framsögumönnum nefndarálits minni hluta kjörbréfanefndar og öðrum, að það er efni til að Alþingi taki málið mjög alvarlega. Þegar málið er sett í samhengi við ákvæði laga, stjórnarskrár, kosningalaga og laga um þingsköp Alþingis, er auðvitað ljóst að það er vandséð hvenær tilefni er til að virkja þau lagaákvæði ef ekki við aðstæður þær sem hér hafa skapast, að afar mjótt er á munum þegar úthlutað er endanlegum þingsætum, síðustu þingsætum. Breyttar niðurstöður, svo nemur aðeins fáeinum atkvæðum eða í mesta lagi fáeinum tugum atkvæða vegna breytts úrskurðar á vafaatkvæðum eða leiðréttingar á talningum, gætu fært til þingsæti milli flokka, frá nýmynduðum meiri hluta til minni hluta o.s.frv.

Ég tel að tillaga fulltrúa minni hlutans í kjörbréfanefnd sé mjög eðlileg, vel rökstudd og fullt efni til að verða við henni. Ég held að talsmenn meiri hlutans, sem hafa ekki margir tekið þátt í þessari umræðu enn þá --- fyrir utan stuttaralega framsögu formanns kjörbréfanefndar hef ég ekki heyrt í neinum þeirra --- hljóti að skulda okkur að koma upp og rökstyðja hvaða meinbugir væru á að verða við þessum tilmælum, þessari sáttatillögu til að eyða vafa um lögmæti þess Alþingis sem er nú að hefja störf og á eftir að starfa í rétt fjögur ár? Það hlýtur að vera nokkuð á sig leggjandi til þess. Ég verð að segja að mér finnst meiri hlutinn nokkuð kaldrifjaður ef hann fæst a.m.k. ekki til efnislegra umræðna um það hvort efni sé til slíkra aðgerða.

Það verður ekki séð að okkur væri neinn vandi á höndum þótt hlé yrði gert á störfum þingsins í nokkra daga og þessum þingsetningarfundi frestað. Þeir hafa áður staðið lengi, í sex daga er sagt árið 1956. Menn gætu gengið um í góða veðrinu á meðan kjörbréfanefnd kallaði eftir þessum gögnum, færi yfir málin og skilaði hingað skýrslu.

Það er ljóst að íslenska stjórnarskráin og lög sem á henni byggja gera ráð fyrir því að Alþingi hafi þetta hlutverk með höndum. Það er út af fyrir sig fróðleg umræða hvort það á endilega að vera svo, að það sé í höndum Alþingis sjálfs að staðfesta lögmæti sitt og gildi kosninganna. En þannig er því fyrir komið og fyrir því eru líka ýmis rök. Það er vandasamt að koma því þannig fyrir að hafa það vald annars staðar en hjá Alþingi sjálfu. Ég hygg t.d. að menn gætu lent í ýmiss konar árekstrum ef menn vildu færa það hlutverk yfir til dómstóla. Hér er engum málskotsrétti til æðra stjórnvalds til að dreifa eins og getur gilt þegar kosningar til sveitarstjórna eiga í hlut.

Það er líka ljóst að um ákvæðin í lögum um þingsköp Alþingis er greinilega ekki búið með jafnítarlegum hætti og raun ber vitni nema vegna þess að menn gera ráð fyrir því að á þetta geti reynt. Eðlilega. Það væri skrýtið ef menn hefðu fundið upp svo skothelt kerfi að ekki gæti komið til þess að fara þyrfti yfir niðurstöður kosninga og sannreyna úrslit og jafnvel úrskurða um vafaatriði, þess vegna endurtaka kosningu ef svo bæri undir.

Það er alveg ljóst og þarf ekki að stúdera þessi ákvæði lengi til að sjá að menn hafa viljað búa mjög rækilega um hlutina og Alþingi hefur í sínum höndum vald til að gera það sem það telur til þurfa. Það getur gert allt frá því að fallast á úrslitin án athugasemda, fresta afgreiðslu kjörbréfanna, kalla eftir gögnum, framkvæma sjálfstæða rannsókn á framkvæmd kosninganna, látið endurtelja að hluta eða öllu leyti og yfir í hitt að ógilda kosninguna. Það er tekið fram með pósitífum hætti í 5. gr. laga nr. 55/1991 að Alþingi geti úrskurðað kosningu ógilda jafnvel án þess að nein kæra hafi borist. Ég tel því algjörlega ljóst að allt þar á milli hlýtur að vera í valdi Alþingis enda er ekki hægt að túlka hin einföldu og skýru ákvæðu 46. gr. stjórnarskrárinnar öðruvísi en að þetta vald liggi hjá Alþingi.

Það er upplýst hér, herra forseti, af fyrri ræðumönnum að það eru fordæmi fyrir endurtalningu. Þar er t.d. hægt að vitna til Danmerkur. Það er svo að margt í okkar stjórnskipun og lögum sækjum við þangað. Það skyldi nú ekki vera að þessi ákvæði, bæði 46. gr. stjórnarskrárinnar sem allir vita nú hvaðan er ættuð og svo lög um þingsköp Alþingis og fleira sem þessu tengist, séu meira og minna sniðin að danskri löggjöf og hún hafi verið fyrirmyndin þegar þetta var sett. Það er mjög nærtækt að álykta svo án þess að ræðumaður hafi kannað það sérstaklega í þessu tilviki.

Það eru fjölmörg fordæmi frá kosningum til sveitarstjórna hér á landi fyrir því að endurtalið hafi verið og frægast auðvitað þegar íhaldsmeirihlutinn féll í Reykjavík vorið 1978. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig kjörstjórn hefur verið samansett í því tilviki og meiri hluti hennar, reyndar held ég kjörstjórnin öll, var sammála um að láta endurtelja vegna þess að svo mjótt hafði verið á munum.

Þess vegna held ég, herra forseti, að það þurfi ekki að fara í neinar grafgötur um að lagaumgjörðin er til staðar, valdið liggur hjá Alþingi og ekkert að vanbúnaði að samþykkja tillögu stjórnarandstöðunnar af þeim ástæðum.

Hér hefur einnig verið rækilega farið yfir það hversu misvísandi framkvæmdin hefur verið. Það er auðvitað umhugsunarefni, herra forseti. Satt best að segja liggur við að maður skammist sín fyrir að reka sig á að framkvæmdin er miklu brotakenndari og meðferð álitamál meira geðþóttakennd eftir einstökum kjördæmum en hvarflað hafði að manni. Sérstaklega er ljóst að utankjörfundaratkvæðagreiðslan, meðferð þeirra atkvæða og úrskurðir sem henni tengjast, er mjög tilviljanakennd, bæði framkvæmdin af hálfu þeirra sem hana eiga að annst og svo úrskurðir þegar þar að kemur.

Þetta er alveg ljóst varðandi það sem komið hefur fram í gegnum meðferð V-atkvæðanna svonefndu þar sem fyrir lá að búast mætti við ruglingi. Okkur var orðið ljóst, því miður, að mjög misvísandi upplýsingar hefðu af hálfu opinberra aðila og ýmissa annarra, fjölmiðla þar á meðal, verið gefnar vikur og mánuði fyrir kosningar. Ruglingur kom upp hvað varðaði listabókstaf Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við gerðum allt sem í okkar valdi stóð til að vekja fyrir fram athygli þeirra sem með kosningarnar fara á að þetta vandamál mundi skjóta upp kollinum, sem og sannaðist. Við vildum láta á það reyna hvort landskjörstjórn treysti sér til að senda frá sér leiðbeiningar um málið. Það taldi hún sig ekki geta gert, ekki hafa heimildir til þess.

Öllum yfirkjörstjórnum var vel ljóst hvað í vændum var og í því tilviki, herra forseti, var sérstakt að a.m.k. ein yfirkjörstjórn hafði gengið frá forsúrskurði um að utankjörstaðaratkvæðaseðlar merktir V skyldu teljast gildir, teljast til atkvæða Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Þetta vissu yfirkjörstjórnir. Engu að síður dugði það ekki til að framkvæmdin yrði samræmd. Er mönnum þetta ekki umhugsunarefni, herra forseti? Finnst mönnum þetta í lagi? Er einhver hér í salnum sem skrifar upp á að þetta sé góð framkvæmd, nema þá e.t.v. hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, sem er það karlmenni að mæla með því að menn láti sig hafa þetta engu að síður?

Er eitthvað að vanbúnaði að Alþingi leiðrétti niðurstöðu kosninganna að þessu leyti? Nei, auðvitað ekki. Það er ljóst að það vald liggur hjá Alþingi að ákveða að taka þessi atkvæði gild og bæta þeim við gild atkvæði Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, sem að vísu mundi sennilega ekki duga eitt og sér til að breyta úrslitum kosninganna. Þó er það einnig svo í okkar tilviki að sárgrætilega fá atkvæði vantaði upp á að við fengjum viðbótarþingmann.

Ég hef einnig orðið áþreifanlega var við miklar brota\-lamir á meðferð og framkvæmd utankjörstaðaratkvæðagreiðslu hjá stjórnvöldum, yfirvöldum sjálfum, bæði hjá sýslumannsembættunum og utanríkisþjónustunni. Ljóst er að fjöldi utankjörstaðaratkvæða hefur verið dæmdur ógildur af því að þau voru ekki stimpluð eða innsigluð með lögmætum hætti. Það liggur fyrir að víða við framkvæmd kosninganna var því haldið fram, af þeim sem hana önnuðust, að þess þyrfti ekki. Ég veit dæmi þess, herra forseti, að kjósendur sjálfir þurftu að hafa mikið fyrir því að fá atkvæði sínu lokað með þeim hætti. Þegar að því kemur að telja slík atkvæði tekur ekki betra við. Sums staðar var það talið ástæða til ógildingar, sem mun vera rétt, að ekki væri með réttum hætti stimplað aftan á umslögin en annars staðar ekki. Sem sagt: Algerlega handahófskennd framkvæmd. Þarna er ekki við kjósendurna sjálfa að sakast heldur þá sem eiga að annast framkvæmd kosninganna.

Ég leyfi mér að spyrja, eins og fyrri ræðumaður hefur gert í dag: Eru menn sofandi við þessa framkvæmd? Sofa menn ekki bara 8--10 tíma í sendiráðum landsins erlendis heldur 24 tíma á sólarhring, árið um kring? Það mætti ætla það miðað við þessa framkvæmd.

Ég kem kannski að því síðar, herra forseti, hvernig kosningarnar snúa að Íslendingum búsettum erlendis. Í raun og veru er framkvæmdin gjörsamlega neðan við allar hellur, meira og minna eins og hún leggur sig.

[18:15]

Hjá sýslumannsembættum í landinu hefur það sannanlega gerst að þar eru að þvælast við kosningarnar stimplar framboða sem alls ekki bjóða fram. Það er sannanlegt að V-stimplar voru á utankjörstaðaratkvæðagreiðslustöðum fyrir þessar alþingiskosningar. Það bauð enginn fram sem hefur listabókstafinn V. Þetta kom fram þegar lesin var upp orðsending yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis úr þessum ræðustóli áðan, því þá var talað um V-atkvæði handskrifuð eða stimpluð. Með öðrum orðum, það liggur sannað að V-stimplar voru í gangi á utankjörstaðaratkvæðagreiðslustöðum, enda hafði það þegar komið fram og yfir því kvartað að það hafi gerst t.d. hjá sýslumanninum í Ólafsfirði. Er þetta í lagi, herra forseti? Er þetta framkvæmd sem við getum unað við? Nei, ég trúi ekki að nokkur maður, ekki einu sinni hv. formaður kjörbréfanefndar mæli þessu bót. Kannski fáum við að heyra það hér í seinni ræðum að hann telji þetta líka í lagi.

Sömuleiðis að hjá sendiráðum Íslands erlendis liggi frammi fjögurra ára gömul gögn sem gefa kjósendum jafnvel ástæðu til að ætla að við þessar kosningar hafi verið í framboði einhver flokkur sem hafi listabókstafinn Z. En það mun sannað að í sendiráðinu í Kaupmannahöfn og jafnvel á einum stað öðrum hafi slík gögn verið uppi á borðum, jafnvel eftir að framboðsfrestur var útrunninn og auglýsing landskjörstjórnar hafði komið í fjölmiðlum um hverjir hefðu boðið fram og náð að skila inn fullgildum framboðum áður en framboðsfrestur rann út. Er þetta í lagi, herra forseti? Nei, auðvitað er þetta ekki í lagi.

Ég veit mörg fleiri dæmi um verulegan misbrest í framkvæmd kosninganna t.d. gagnvart Íslendingum búsettum erlendis. Að morgni dags nokkru eftir að framboðsfrestur var útrunninn kom ungur maður að kjósa í sendiráði Íslands í Ósló og bað þar um upplýsingar um listabókstafi framboðanna sem væru að bjóða fram. Honum var tjáð að sendiráðið veitti ekki slíkar upplýsingar og það væri ekki þess hlutverk. Og sami maður mátti hringja heim til Íslands til að fá það sannreynt að það framboð sem hann ætlaði að kjósa hefði tiltekinn listabókstaf. Er þetta framkvæmd í lagi? Nei, auðvitað ekki. Það eru ítarleg ákvæði um það í lögum um kosningar til Alþingis hvaða hlutverk sendiráð og ræðismenn skuli hafa með höndum í þessum efnum.

Framkvæmdin, herra forseti, er í raun og veru meira og minna öll þannig að ekki verður annað af henni ráðið en að menn hafi minna en engan áhuga á því að Íslendingar búsettir erlendis njóti kosningarréttar síns. Og í reynd hefur verið lagður steinn í götu þeirra og það torveldað með ýmsum hætti og þar á meðal ber Alþingi ábyrgð á því, svo dapurlegt sem nú er að horfast í augu við það. En sú regla sem sett hefur verið um veru íslenskra ríkisborgara búsetta erlendis á kjörskrá er þannig að hún hindrar að þeir njóti kosningarréttar síns í stórum stíl. Það er algerlega ljóst. Sú aðferð að taka þá út af kjörskrá og skikka þá til að skrá sig til kosningarinnar meira en hálfu ári áður en hún fer fram og taka af þeim réttinn til að kæra sig inn á kjörskrá veldur því að þeir missa af þessum rétti í stórum stíl. Sérstaklega vegna þess að það er ekkert, segi og skrifa, ekkert gert til þess að upplýsa viðkomandi aðila um þær reglur. Það hef ég sannreynt. Ég fór á fundi með Íslendingum búsettum erlendis á a.m.k. einum þremur stöðum í aðdraganda þessara kosninga, í Árósum, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Í öllum tilvikum kom það þorra fundarmanna mjög á óvart hvernig þessar reglur væru og þeir könnuðust ekki við að hafa nokkurn tímann séð neinar upplýsingar hjá íslenskum sendiráðum, hjá Íslendingafélögum, námsmannafélögum eða annars staðar þar sem eðlilegt væri að koma á framfæri upplýsingum um þessa hluti. Auðvitað er þetta neðan við allar hellur. Það á að vera okkur metnaðarmál að auðvelda þeim löndum okkar sem tímabundið eða til lengri tíma eru búsettir erlendis að halda þessum tengslum við landið og kjósa svo lengi sem þeir velja að vera íslenskir ríkisborgarar, þá eiga þeir að hafa þennan rétt og eiga að njóta hans.

Þessi átta ára regla um kjörskrána sem komin er inn í lög um kosningar til Alþingis, 1. gr., er að mínu mati, herra forseti, meingölluð og þarf að endurskoðast. Það kemur reyndar inn á annað mál sem er mjög undarlegt að Hagstofa Íslands neitar með öllu að skrá íslenska ríkisborgara búsetta erlendis jafnvel þó þeir óski sjálfir eftir því að upplýsingar um þá liggi fyrir í þjóðskrá.

Mér finnst, herra forseti, þetta einmitt vera til marks um að löggjöfin er sniðin að öðrum tímum og annarri tækni en viðráðanleg er í dag. Enginn vafi er á því, herra forseti, að þarna er hægt að standa mun betur að málum en við höfum gert.

Ég hef orðið víða var við það erlendis og ég geri ráð fyrir að það gildi um fleiri að íslenskum ríkisborgurum búsettum þar er mjög annt um þennan rétt sinn og tengsl sín við landið, m.a. út á það að halda ríkisborgararétti til að geta kosið hér og haft áhrif á stjórnmálin í landinu. Það finnst mér vera eðlilegur og sjálfsagður réttur ríkisborgara í hverju landi, þótt þeir dvelji fjarri landinu um skeið.

Herra forseti. Það er ýmislegt af þessu tagi sem mér finnst eðlilegt og í raun og veru óhjákvæmilegt að taka inn í umræðuna úr því að hér er upphafin slík á annað borð um margt sem betur megi fara í þessum kosningum og við eigum að láta okkur verða að umhugsunarefni í tengslum við yfirferð á þessu. Þetta ásamt auðvitað mörgu fleiru mundi væntanlega koma til umfjöllunar í framhaldi af því að kjörbréfanefnd hlutaðist til um rannsókn af því tagi sem tillaga minni hlutans gerir ráð fyrir. Þar er beinlínis talað um að öll álitamál af þessu tagi kæmu þá til skoðunar.

Og ég vil segja það, herra forseti, að hvernig sem lyktir þessa máls nú verða, þá finnst mér algerlega óhjákvæmilegt að málinu ljúki ekki þar með, heldur verði tíminn notaður með góðum fyrirvara fyrir næstu kosningar sem geta auðvitað dottið upp á hvenær sem er og vonandi sem allra fyrst auðvitað, ég veit að starfandi forseti er mér sammála um að mjög æskilegt væri að kjósa sem fyrst aftur og kannski yrðu þá úrslitin betri, að farið verði yfir þessi mál og allt gert sem mögulegt er til að bæta framkvæmd kosninganna, e.t.v. og mjög sennilega að endurskoða lögin um kosningar til Alþingis. Ég held að óhjákvæmilegt sé að gera þar breytingar á. Það sem manni kemur umsvifalaust í hug er auðvitað þessi skrýtna staða landskjörstjórnar að vera algerlega valdalaus gagnvart framkvæmd kosninganna í einstökum kjördæmum, sem aftur þýðir að meðhöndlun vafaatriða getur verið algerlega tilviljanakennd og gagnstæð milli kjördæma, eins og fleiri en eitt dæmi sannanlega eru nú um frá nýafstöðnum kosningum. Það hlýtur að koma til álita að breyta þessu þannig að landskjörstjórn fái a.m.k. vald til að gefa út einhvers konar leiðbeinandi forúrskurði ef fyrir liggur í aðdraganda kosninga að ástæða er til að ætla að upp komi tiltekin skýr vafaatriði eins og meðferð V-merktu utankjörstaðaratkvæðaseðlana núna. Það lá algerlega fyrir að slíkt mundi gerast, sem og kom á daginn.

Hefði þá ekki verið betra að í lögunum væri heimild til handa landskjörstjórn að gefa út einhvers konar leiðbeinandi forúrskurð? Hann þyrfti ekki endilega að vera endanlegur. Hann gæti fyrst og fremst verið leiðbeinandi ef menn vildu ekki færa valdmörkin til að þessu leyti og vildu halda hinu algera sjálfstæði yfirkjörstjórna hvers kjördæmis sem reyndar orkar tvímælis þegar haft er í huga að í vissum skilningi er landið allt eitt kjördæmi, þ.e. þegar kemur að því að telja saman atkvæði flokkanna í heild á landsvísu og úthluta jöfnunarsætum.

Annað atriði er augljóslega meingallað. Það er að einstakar yfirkjörstjórnir ljúka störfum og skrifa undir fundargerðir og fara heim að sofa áður en aðrar hafa lokið talningu og endanlegar niðurstöður liggja fyrir. Það þýðir að menn eru í óvissu um það þegar málinu lýkur í einstökum kjördæmum hver heildarúrslitin verða og hversu mjótt kann að verða á mununum. Þetta hlýtur að leiða til þess að annaðhvort eins og hér var sagt áðan fari menn að gera það til öryggis að setja fyrirvara og neita að staðfesta niðurstöðurnar þangað til heildarúrslitin liggja fyrir eða hitt að menn breyti framkvæmdinni, það þarf ekki endilega að vera lagabreyting, þannig að kjörstjórnirnar sendi frá sér lokatölur en bíði átekta og gangi ekki frá endanlegu áliti með undirritun fundargerða fyrr en t.d. klukkustund eftir að heildarúrslit liggja fyrir. Þá vita allir í hvaða stöðu þeir eru gagnvart heildarúrslitum og hversu mjótt er á mununum.

Það eru ýmsir hlutir, herra forseti, af þessu tagi sem ég held að við hljótum að þurfa að skoða og snúa ýmist að framkvæmdinni sjálfri eða lögunum.

Af því að forseti lýðveldisins sem setti hér þingið í dag ræddi um nýja tækni, nýja tíma og nýja kynslóð og var nú pínulítið kannski að skensa okkur hin sem höfum ekki áttað okkur á því að það eru komnar tölvur og slíkt, eins og hann gerir stundum, forsetinn, hann er fræðari mikill og heldur mönnum við efnið, þá er nú best að taka því fagnandi og spyrja: Hvers vegna taka menn ekki tæknina í þjónustu sína? Af hverju er t.d. ekki opnaður rafrænn utankjörstaðaratkvæðastaður í Kaupmannahöfn, þannig að Íslendingar búsettir þar geti komið á kjörstað á kjördag og kosið rafrænt samkvæmt pottþéttu kerfi sem búið væri að ganga frá og verið þátttakendur í kosningunni þannig? Ég sé ekki annað en það sé lafhægt og tæknin bjóði upp á það. Þetta er þegar gert í þó nokkrum mæli og voru umræður um að taka inn í lögin, þegar þau voru hér síðast til meðferðar, heimild til að fara að gera tilraunir með rafrænar kosningar eða rafræna kjörstaði. Einn augljós staður eða staðir þar sem slíkt væri afar praktískt væru stærstu Íslendingabyggðirnar erlendis þar sem nokkur þúsund landar okkar búa og hafa eða ættu a.m.k. að hafa ef allt er með felldu fullan kosningarrétt. Ég sé ekki að það sé minni ástæða til þess að kjósa á kjördag í Kaupmannahöfn en t.d. í Grímsey, með ákaflega mikilli virðingu þó fyrir kjördeildinni þar, þaðan sem ég veit að koma mjög góð úrslit. En það er nú önnur saga. Þar eru 70 manns á kjörskrá en í Kaupmannahöfn um þrjú, fjögur þúsund eða hvað það nú gæti verið ef allir íslenskir ríkisborgarar sem þar eru búsettir og á nálægu svæði veldu að nýta kosningarrétt sinn og kysu þar. Ég held að það gæti orðið líflegt og spennandi og mundi færa þá landa okkar nær kosningabaráttunni heldur en þeir eru núna.

Það er ýmislegt af þessu tagi, herra forseti, sem ég held að við þurfum og ættum að fara yfir og nota tækifærið, í tengslum við afgreiðslu þessa máls og framhaldið, til að gera. En það sem snýr að okkur núna og fyrst er að afgreiða þau álitamál sem uppi eru hér fyrir þessum fundi og ég hvet eindregið til þess að meiri hlutinn íhugi það nú vandlega að fallast á tillögu minni hlutans. Hún er sanngjörn. Hún er tilraun til að lenda þessu máli á efnislegan og uppbyggilegan hátt og útkljá það með farsælum hætti, þannig að við getum síðan skilið það eftir á bak við okkur þegar við höldum inn á nýtt fjögurra ára kjörtímabil. Það verður ákaflega leiðinlegt að hafa eitthvert óbragð í munninum yfir því að menn hafi ekki einu sinni gefið sér tíma til að fara ofan í saumana á svona álitamálum. Ég spái því að sæmd meiri hlutans verði lítil ef hann knýr það hér í gegn að fella tillögu minni hlutans og hlusta ekkert á þau vel rökstuddu sjónarmið sem fram hafa komið um að taka þetta mál til skoðunar.

Þá sýnist mér eins og ég sagði áðan, herra forseti, enda vandséð hvenær menn gætu yfir höfuð látið á það reyna, að ástæða væri til að fara í slíkar rannsóknir eins og stjórnarskrá og lög gera ráð fyrir.