Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 18:28:31 (7)

2003-05-26 18:28:31# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, MÁ
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[18:28]

Mörður Árnason:

Virðulegur forseti. Á kynningarfundi fyrir nýja þingmenn í gær sagði skrifstofustjóri Alþingis m.a. að sér skildist á þeim sem það höfðu reynt að þingsetningardagur hinn fyrsti væri mikill atburður í lífi hvers þess sem nýkjörinn hefði verið á þing. Ég minnist þess að ég horfði svolítið á skrifstofustjórann og íhugaði þetta mál, taldi nú að hún væri kannski orðum aukin þessi speki og þetta væri eins og hver önnur rútína sem menn fara í og láta sig litlu varða, allt fyrir fram ákveðið og samþykkt og ekki pláss fyrir frumkvæði eða einhverjar sérstakar umþenkingar. Nú hef ég komist að því að ég hafði rangt fyrir mér og skrifstofustjórinn rétt. Þetta er atburður. Það er hátíðisdagur fyrir nýkjörinn þingmann að vera við þingsetningu og fara í gegnum þær hefðir, taka þátt í þeim hefðum sem hafa myndast í kringum þann dag. Það er auðvitað vegna þess að nýkjörnum þingmanni þykir merkilegt að hann skuli allt í einu vera orðinn hluti af þeirri löngu sögu sem hér stendur að baki, hvort sem við rekjum hana aftur til 1845 eða 930 eða enn aftar í lýðræðissögu mannkyns og stjórnarsögu þess og ættsamfélaga þeirra og stofnana ýmissa sem það hefur komið sér upp.

[18:30]

En þegar þeirri örlítið hégómlegu umþenkingu lýkur þá eru það auðvitað fyrst og fremst kjósendurnir, þjóðin sem maður hugsar til vegna þess að hefðirnar og umbúnaðurinn á hinu hv. þingi miðast beinlínis við það að hér séu ekki einungis 63 persónur, ekki einungis þeir einstaklingar í gangi í samskiptum sem um er að ræða, heldur eru þeir ævinlega fulltrúar einhvers. Þeir eru ævinlega hluti af öðru en sjálfum sér. Það er þess vegna sem við nýkjörnir þingmenn þurfum að læra ákveðnar reglur sem eru aðrar en þær sem beitt er úti á götu, á heimilum eða í vinahópi. Það er vegna þess t.d. að við eigum að bera virðingu hvert fyrir öðru jafnvel þó við höfum hana ekki persónulega, bera virðingu fyrir fulltrúunum, bera virðingu fyrir kjósendum þingmanns þótt eitthvað kunni að skorta á virðingu fyrir persónunni eða einstaklingunum.

Það sem hér er til umræðu er einmitt þetta, eru kjósendurnir, er þjóðin. Það er auðvitað þannig að frumskylda þings er að virða grunnreglur lýðræðisins. Frumskylda þings er að horfa á vilja kjósendanna og sjá til þess að hann komi mjög skýrt fram og núna erum við að fjalla um vilja kjósendanna. Vel getur verið að einhvers konar endurtalning, hversu oft sem talið er, ráði ekki úrslitum um kosningarnar í þeirri skilgreiningu úrslita sem miðast við þingmannatölu, við stjórn eða stjórnarandstöðu. En kosningar eru meira. Kosningar eru það að hver maður, hver kjósandi kemur á framfæri sínum vilja um sitt atkvæði og það er vanvirðing við þann vilja að búa ekki svo um hnúta að hann komi örugglega fram og vanvirðing við einn kjósanda jafngildir vanvirðingu við þá alla, jafngildir vanvirðingu við lýðræðisskipunina sjálfa. Það er þess vegna sem það er mikilvægt að við náum hér niðurstöðu, náum þeirri málamiðlun sem stjórnarandstöðuþingmennirnir í kjörbréfanefnd hafa orðið sammála um.

Ég ætla ekki að gerast svo djarfur að ræða um kosningalög eða þau lagaákvæði og hugleiðingar sem kunna að vera að baki þeim aðferðum sem menn hér stunda. Áðan var sagt að ekki væru til nein ákvæði í sjálfu sér um endurtalningu. Hún væri hins vegar ekki bönnuð, Alþingi gæti tekið slíka ákvörðun. Ég er vanur því í félagsstarfi þegar ekki liggja fyrir sérstök ákvæði í fundarsköpum eða öðrum reglum sem tiltekin stofnun eða hópur hefur sett sér, að þá sé farið að almennum reglum. Hinar almennu reglur í þessu dæmi hér eru þær að í lýðræðisstarfi er tekið tillit til óska, teljist þær vera sanngjarnar og eðlilegar, um hvers konar endurtalningu, uppkosningu og tryggingu fyrir því að það afl atkvæða sem ræður standist þann veruleika sem fyrir liggur í stofnuninni eða á fundinum. Ég held að allir hljóti að vera sammála um að það er skýr regla ef eitthvað fer á milli mála um slíka talningu, um atkvæðagreiðslu í félögum, í stofnunum sem ekki hafa um það sérstakar reglur, að þá er þetta gert. Kjósendur hljóta að spyrja þegar fram eru komnar mjög skýrar óskir, eðlilegar og sanngjarnar, af hverju menn séu á móti því að það sé gert.

Nú er það reyndar svo að sú tillaga sem menn eru að ræða hér frá minni hluta kjörbréfanefndar, er ekki ósk um endurtalningu, uppkosningu eða neitt af því tagi heldur ákvörðun um það að tekin verði saman skýrsla, að fram fari tiltekin rannsókn til þess að menn geti á grundvelli hennar tekið afstöðu til þessa máls efnislega. Það er ákveðin ábyrgð sem hvílir á hv. þingmönnum hér að greiða atkvæði gegn tillögu um þessa málsmeðferð og ég vona a.m.k. að það komi fram hvers vegna menn ætla sér að gera það því ég sé engar þær ástæður í samfélaginu eða í störfum ríkisstjórnarinnar, í gangi þjóðarsamfélagsins sem hvetji til þess að þetta sé afgreitt í því hasti sem menn vilja afgreiða það hér, og ég spyr: Hvað er á móti því að fá þessa skýrslu? Svör við því hafa ekki fengist, fengust ekki hjá þeim eina stjórnarliða sem hér hefur talað, hv. 9. þm. Norðvesturkjördæmis sem talaði áðan.

Auðvitað má spyrja að því t.d. hvers vegna hv. 5. þm. Reykv. s., fyrrv. dómsmrh., leggur ekki hér orð í belg því efnisleg atriði þessa máls varða störf í því ráðuneyti. Það má auðvitað líka spyrja að því hvernig stendur á því að hæstv. utanrrh. nú og þá leggur ekki hér orð í belg því að efnisatriði málsins snerta vinnu starfsmanna í utanrrn. Svarið, held ég, við þessu er það að þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa ekki þau gögn í höndunum sem þeir þurfa á að halda til að koma fram fyrir þingið og þjóðina og skýra út hvað hefur gerst í dómsmrn. og utanrrn. En tillaga minni hlutans í kjörbréfanefnd er einmitt sú að þeir fái þau gögn í hendurnar, og þingið, allt sem leyfir þeim að ræða málið efnislega frjálst og glatt.

(Aldursforseti (HÁs): Ég tel rétt að upplýsa hv. þm. um það að utanrrh. er bundinn í forsetastól og er ekki heimilt að taka þátt í umræðum hér og þingsköp gera ekki ráð fyrir því að nokkur leysi hann af.)

Nei, það er hin ástæðan, en ég verð að segja að ég vorkenni auðvitað hæstv. utanrrh. annars vegar að vera í þeirri stöðu að geta ekki talað sem þingmaður og ráðherra og hins vegar auðvitað að hafa ekki þau gögn í höndunum sem til þyrfti til þess að hann gæti skýrt okkur frá gangi mála og gert okkur grein fyrir störfum í utanrrn. sem hér eru til umfjöllunar.

Ég vil svo segja það líka að mér kemur svolítið á óvart að ekki skuli taka til máls ýmsir hv. þingmenn einkum Sjálfstfl. sem áður hafa talað í kosningabaráttunni, m.a. um lýðræðismál og réttilega. Má m.a. minnast á þann atburð sem varð í Reykjavík þegar framboðslistar voru lagðir fram og farið var yfir tölur stuðningsmanna á bak við hvern lista en þá voru þau mistök gerð hjá yfirkjörstjórnum --- ég skal ekki segja hvar þau mistök voru en a.m.k. er það yfirkjörstjórn sem gerir þetta --- að vantaldir voru stuðningsmenn á listum og varð sú háðung fyrir einn flokkanna og reyndar fleiri að þeir voru ekki taldir hafa skilað nægilega mörgum stuðningsmönnum. Mönnum þótti þetta í þeim flokki sem oft hefur verið stærstur í Reykjavík, eða þar til nú hefur yfirleitt verið stærstur í Reykjavík og er enn stærstur á þinginu, mönnum þótti þetta þeim mun verra sem þeir hafa lagt sig fram í þeim flokki um að skipuleggja sig mjög vel við hina formlegu afgreiðslu á svona hlutum. Mig minnir að þá hafi af þessu tilefni, þegar þetta reyndust vera mistök starfsmanna hjá Reykjavíkurborg eða yfirkjörstjórnar, verið skrifuð bréf, að framkvæmdastjóri flokksins hafi skrifað harðort bréf og krafist skýringa á málinu. Og ég man ekki betur en að núv. hæstv. dómsmrh. og 6. þm. Reykv. n., Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi tjáð sig í fjölmiðlum mjög harkalega en réttilega um þetta mál. Hvar eru þeir nú og hverjar eru skoðanir þeirra á því máli sem hér er til umræðu? Og hvar eru hinir ungu og efnilegu lögfræðingar sem nú hafa sest á þing og voru með mér á kynningarfundinum í gær þar sem okkur var sagt að þingsetningardagurinn væri hátíðisdagur fulltrúa fólksins á Íslandi, sérstaklega þeirra sem nýkjörnir væru?