Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 18:50:28 (9)

2003-05-26 18:50:28# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[18:50]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við höfum verið að ræða framkvæmd kosninganna sem eru nýafstaðnar. Mig langaði að nefna nokkur atriði sem hafa komið upp í huga minn undir þessari umræðu.

Hér hefur komið fram að opinberar stofnanir og jafnvel sendiráð hafi gefið kjósendum misvísandi og rangar upplýsingar um kosningarnar alveg fram á kjördag. Framboð sem hafði listabókstafinn U var á ýmsum stöðum kynnt með listabókstafinn V. Eftir að það var kært eða farið hafði verið fram á að atkvæði merkt V teldust til flokksins við talningu var ekki orðið við því á öllum stöðum heldur voru þau sums staðar dæmd ógild og annars staðar talin til þessa flokks.

Umboðsmanni eins flokksins, Frjálslynda flokksins, var meinað að koma að talningu, a.m.k. á einum talningarstað. Bókstafir sem ritaðir voru á bakhlið á kjörseðli voru í einu kjördæminu dæmdir ógildir og annars staðar gildir, þó að vilji kjósandans hafi komið skýrt fram í því sem skrifað var á kjörseðilinn. Ég sat eitt sinn í yfirkjörstjórn hér í Reykjavík og minnist þess ekki að ekki hafi verið talin gild atkvæði ef bókstafurinn kom fram einhvers staðar á kjörseðlinum, þó að það væri á bakhliðinni.

Stimplar á utankjörfundaratkvæðum, sem búið var að upplýsa a.m.k. á einhverjum stöðum að væru óþarfir, voru sums staðar taldir nauðsynlegir til þess að seðill væri dæmdur gildur. Annars staðar voru þeir ekki dæmdir ógildir.

Ég verð að segja, herra forseti, að bara þessi upptalning --- ég gæti talið upp fleira --- minnti mig á kosningar í ungu, vanþróuðu lýðræðisríki þar sem ég var, sem þingmaður frá sögufrægu lýðræðisríki, við kosningaeftirlit. Ég var þar að fylgjast með því að kosningar færu lýðræðislega og eðlilega fram. Þar var allnokkur misbrestur á því hvernig atkvæði voru meðhöndluð og hvernig kosningarnar fóru fram. Fram komu kærur og athugasemdir og kröfur um rannsókn á framkvæmd kosninganna. Eftirlitsmenn, þingmenn frá ýmsum ríkjum, komust að þeirri niðurstöðu að eðlilegt væri að fram færi rannsókn og gerðar yrðu athugasemdir á þeim atriðum sem ekki voru talin eðlileg eða gerðar voru athugasemdir við. Farið var yfir kjörgögn og sums staðar var endurtalið. Reyndar komu fram slíkir gallar að endurtaka þurfti kosningarnar á ákveðnum stöðum í ákveðnum kjördæmum. Ég hefði ekki að óreyndu trúað því að eiga eftir að standa í þessum sporum hér á Íslandi.

Við erum ekki að fara fram á endurtekningu kosninganna og við erum ekki að fara fram á að öll atkvæðin verði endurtalin. Við förum fram á þá sanngjörnu leið að menn taki sér nokkra daga og rannsaki framkvæmd kosninganna. Við erum að bjóða upp á ákveðna málamiðlun vegna stöðu mála og óskum eftir því að skýrslur um það verði lagðar fyrir þingið, sem er fullkomlega eðlilegt og heimilt samkvæmt lögum.

Ég teldi mjög óeðlilegt að Alþingi hafnaði beiðni um að slíkar skýrslur kæmu fram í þinginu. Það er í raun vanvirðing við lýðræðið. Ég trúi ekki að meiri hluti Alþingis ætli að synja því að þessi leið verði farin. Ég trúi ekki að það verði ekki orðið við þessari tillögu. Hér er trúverðugleiki lýðræðisins í veði, eins og segir í greinargerð frá minni hluta kjörbréfanefndar.