Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 19:36:46 (14)

2003-05-26 19:36:46# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[19:36]

Frsm. meiri hluta kjörbn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt aftur að vekja athygli á þessu einkennilega orðfæri hv. þingmanns. Hann talar um að einhvers staðar ,,kunni að liggja skýrslur`` þegar það er auðvitað augljóst mál, og það vita menn og það er hluti af löggjöfinni, að yfirkjörstjórnir senda einfaldlega frá sér skýrslur um framkvæmd kosninganna. Það er ekki þannig að einhvers staðar ,,kunni`` þessar skýrslur að liggja fyrir ,,einhvers staðar úti í bæ``, eins og hv. þm. orðaði það og var þá að tala um landskjörstjórnina í landinu. Það er ekki þannig, virðulegi forseti.

Þessar upplýsingar eru allar til reiðu fyrir okkur þingmenn og það er ekkert vandamál fyrir okkur að nálgast þær ef það er það sem málið snýst um. En það sem liggur fyrir og hefur aldrei verið vandamál er að við höfum alltaf gengið út frá því og vitað að þessar upplýsingar eru réttar, að að þeim er eðlilega staðið og þær liggja hjá landskjörstjórninni. Þannig er þetta bara einfaldlega.