Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 19:42:00 (18)

2003-05-26 19:42:00# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[19:42]

Frsm. meiri hluta kjörbn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum verið að fjalla um þetta mál hér í dag. Eitt af því sem minni hluti kjörbréfanefndar hefur gagnrýnt er að ekki liggi nægilegar upplýsingar fyrir, við getum ekki tekið afstöðu til einstakra mála vegna þess að upplýsingarnar sem við höfum í höndunum gefa okkur ekki nægilegar upplýsingar til þess að það sé hægt með almennilegum hætti.

Hér er annars vegar um það að ræða að við höfum upplýsingar, við höfum kjörseðla úr þessum þremur kjördæmum, og við gátum að sjálfsögðu tekið efnislega afstöðu til þeirra. En síðan kemur hv. þm. --- sem í öðru orðinu var að kvarta undan því að við værum að taka hér afstöðu til mála án þess að hafa efnislegar forsendur til þess og án þess að hafa þær upplýsingar sem þyrftu að vera --- og fer að reyna að hlýða mér hér yfir um úrskurði í kjörstjórnum þar sem lágu auðvitað fyrir upplýsingar sem ekki voru sendar okkur til úrskurðar. (ÖJ: Á hvað forsendum ...?)

Virðulegi forseti. Þetta er alveg furðulegur málflutningur, annars vegar að gagnrýna það að ekki séu nægar upplýsingar til staðar og síðan að segja að það eigi að taka afstöðu til mála sem ekki hafa verið fyrir okkur lögð og engin gögn lögð fyrir okkur um. (ÞBack: ... í þinginu?) Það gengur auðvitað ekki að gera það með þessum hætti.