Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 19:45:33 (20)

2003-05-26 19:45:33# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[19:45]

Frsm. meiri hluta kjörbn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. sagði. Meiri hluti kjörbréfanefndar ákvað að hafna ósk Frjálslynda flokksins um að krefjast endurtalningar. En það vill þannig til, virðulegi forseti, að það voru fleiri en meiri hlutinn sem höfnuðu þessu. Það gerði minni hlutinn líka. Minni hlutinn leggur nefnilega til allt aðra málsmeðferð. Hann vill ekki heldur fara í að endurtelja. Hann vill ekki fara að hugmyndum Frjálslynda flokksins. (Gripið fram í.) Hann vill hins vegar fara í það að óska eftir skýrslum, virðulegi forseti. (LB: Þú ert að snúa út úr, Einar ...)

(Aldursforseti (HÁs): Þögn í salnum.)

Hv. þingmenn þola illa að ég greini efnislega frá þeirra eigin tillögum. Þeirra eigin tillögur ganga út á að kalla eftir skýrslu. Þeir taka ekki efnislega afstöðu til þessarar beiðni Frjálslynda flokksins. Það er mjög athyglisvert og í raun treysta þeir sér ekki til að fara fram á, á grundvelli þessara upplýsinga, þessarar kæru Frjálslynda flokksins, að fram fari endurtalning. Fyrir því eru auðvitað ástæður sem ég út af fyrir sig ætla ekki að gera að umræðuefni.