Rannsókn kjörbréfa

Mánudaginn 26. maí 2003, kl. 20:49:43 (39)

2003-05-26 20:49:43# 129. lþ. 0.94 fundur 1#B rannsókn kjörbréfa#, GAK
[prenta uppsett í dálka] 0. fundur, 129. lþ.

[20:49]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Í máli mínu í dag beindi ég þeirri spurningu til hæstv. forseta sem þá var einn í salnum en núna er hæstv. dómsmrh. hér einnig og spurningin átti m.a. við hæstv. ráðherra, hvort hægt væri að tryggja það að kjörgögnum yrði ekki eytt til þess að hægt væri að fá að skoða þau. Það er m.a. vegna þess að svo kann að vera að einstaklingar í landinu vilji láta reyna á öll þau réttarúrræði sem þeir telja að þeim séu fær til þess að fá að skoða m.a. kjörgögn og ég minni á að það eru upplýsingalögin. Það er alveg spurning hvort menn eigi ekki rétt á því í gegnum upplýsingalögin að krefjast þess að fá að sjá opinber gögn. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh. hvort ekki sé alveg öruggt að hann muni sjá til þess að gögnum verði ekki eytt þannig að ef einhver vildi nota sér upplýsingalögin og krefjast þess að fá að skoða þessi gögn, þetta eru jú opinber gögn, þá lægi það alla vega fyrir að gögnin væru til staðar og eins það að einstaklingar í landinu gætu notað réttarúrræði sín til fulls. Þetta er spurningin og ég óska eftir því að hæstv. dómsmrh. svari henni.